Stutt myndband fyrir helgina.
10.5.2008 | 00:19
Ég set inn hérna lítið brot úr einni af mínum uppáhaldsmyndum, My Cousin Vinny. Þessi mynd er algjör snilld og sópaði að sér verðlaun á sínum tíma. Til dæmis fékk Marisa Tomei Óskarsverðlaun fyrir leik í þessari mynd.
Þetta atriði sem ég setti inn er eitt af betri atriðum myndarinnar. Þar segir frá þegar Vinny kemur til að hitta aðalsögupersónurnar en það er búið að handtaka þá fyrir morð. Þarna er lögfræðingurinn sem sagt að hitta skjólstæðing sinn í fyrsta sinn. Einhver misskilningur er á kreiki og heldur skjólstæðingurinn að hann sé að fá heimsókn frá öðrum fanga sem er kominn til að nauðga honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Afmælisbarn dagsins: -Kevin Peter Hall.
8.5.2008 | 23:30
Þá er aftur komið að hinum geysivinsæla lið mínum um afmælisbarn dagsins. Afmælisbarn dagsins er Kevin Peter Hall, en hann fæddist í Pittsburgh í Pennsylvaniu þann 9. maí 1955 og hefði því orðið 53 ára ef hann hefði lifað.
Kevin ólst upp í Pittsburgh og vakti fyrst verulega athygli þegar hann fór að spila körfubolta með Penn Hills High School og á lokaári sínu í high school var hann orðinn 210 sentimetrar og skoraði 18 stig að meðaltali í leik og tók 10 fráköst. Eftir skólaskylduna gat hann valið á milli háskóla og valdi George Washington háskólann í Washington og lék hann með körfuboltaliði skólans á meðan hann kláraði námið.
Kevin stundaði leiklist í háskólanum líka og kynntist þar Jay Fenichel og stunduðu þeir báðir leiklistina af fullum krafti og eftir að þeir luku námi flutti Jay til Los Angeles til að reyna að koma sér áfram í leiklistinni, en Kevin flutti til Venesúla þar sem hann gerðist atvinnumaður í körfubolta, en þá var hann orðinn 220 sentimetrar á hæð. Kevin entist ekki lengi í atvinnumennskuna og eftir eitt ár ákvað að hann leggja leiklistina fyrir sig og flutti til Jay í Los Angeles.
Kevin fékk nokkur lítil hlutverk í sjónvarpsþáttum og bíómyndum, en hann sló í gegn í kvikmyndinni Predator árið 1987, en þar fór hann með hlutverk Predator. Í kjölfarið fékk Kevin fleiri hlutverk og þegar hann lék gestahlutverk í sápuóperunni 227 kynntist hann einni aðalleikkonunni, Alaina Reed sem er sennilega þekktust fyrir að leika Olivia í Sesame Street á árunum 1969-1988 eða í 19 ár. Kevin og Alaina giftu sig í desember 1988.
Árið 1990 lenti Kevin í mjög alvarlegu bílslysi og þurfti að gangast undir skurðaðgerðir, í einni þeirra gerðist annað slys þegar Kevin var gefið blóð sem var sýkt af HIV-veirunni. Þann 10. apríl 1991 lést Kevin af völdum lungnabólgu sem má rekja til HIV-smitsins, tæplega 36 ára gamall. Lét hann eftir sig eiginkonu og tvö ung börn.
Þrátt fyrir að hafa leikið í þó nokkrum bíómyndum, þá sást sjalda andlitið á Kevin. Það sem flest hlutverkin sem hann fékk voru hlutverk skrímslis eða ómannlegrar veru. Þó sást hann til dæmis í lokaatriði Predator þar sem hann fer með hlutverk þyrluflugmanns.
Þegar ég bjó í Pittsburgh kynntist ég aðeins sögu Kevins, hann var dæmi um fátækans strák sem hefur körfuboltahæfileika og notar þá til að koma sér áfram í lífinu. Hann lifði alltaf heilbrigðu lífi og var fyrirmynd í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum varð það lokahlutverk hans í lífinu að fá alnæmi og deyja af völdum þess aðeins nokkrum mánuðum síðar. Það þótti lýsa Kevin vel að strax eftir að greindist með HIV tilkynnti hann það opinberlega og fór aldrei í felur með sjúkdóminn eins og margir gera, fyrir það er hans minnst sem mikils baráttumanns í að uppfræða almenning um HIV og alnæmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki fótboltablogg.
7.5.2008 | 23:05
Já, þetta er ekki fótboltablogg. Eftir tvö fótboltablogg í röð er komið að fótboltalausubloggi. Gerið ég það áður en ég fæ kvartanir frá diggum lesendum. Æji, núna er þetta orðið að fótboltabloggi!
Í gær fór ég og mín heitt elskaða á fund á Gjörgæsludeildinni og var fundað um nóttina sem Huginn Heiðar dó, var þetta mjög góður fundur og vona ég að starfsfólkið þar geri sér grein fyrir hversu ánægð við erum með störf þess í gegnum tíðina og sérstaklega nóttina sem Huginn dó. Ég bloggaði um gærdaginn á heimasíðu Hugins.
Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég mætti í vinnu nokkrum dögum eftir útförina, taldi best að henda mér út í djúpu laugina og takast á við lífið. Mér líður reyndar vel í vinnunni, en ég vinn hjá Fríhöfninni í Keflavík. Mér líkar vel við vinnuna, hef góða vinnufélaga sem eru stundum kannski full stríðnir, en ég get nú líka verið það. Síðan get ég komið með heila færslu um vinnuveitanda minn. Ég hef þurft að ganga í gegnum ýmislegt síðan Huginn fæddist og alltaf stóðu þeir vel á bak við mig í veikindum Hugins. Þegar ég fór til Bandaríkjanna með Hugin, þá fékk ég rausnarlegan styrk frá þeim. Síðan beið vinnan eftir mér þegar að ég kom heim. Ég var frá vinnu í eitt og hálft ár og mætti síðan eins og ekkert hafði í skorist.
Núna er um tvö ár síðan ég byrjaði að vinna aftur og eins og allir vita þá hefur hinn vinnandi maður ekki mikinn veikindarétt þegar kemur að veikindum barns, ég get lofað ykkur því að ég tók töluvert fleiri veikindadaga en ég átti rétt á og fékk þá greidda án nokkurs vandamáls. Það sama gerðist þegar Huginn dó, ég fékk frí þegjandi og hljóðalaust með þeim orðum að ég ætti að mæta í vinnu þegar ég yrði tilbúinn til þess. Ekki nóg með það, heldur fékk ég rausnarlega útfararstyrk frá vinnuveitandanum.
Það er oft talað um þegar maður vinnur hjá stóru fyrirtæki, að þá hættir fyrirtækið að hugsa um mannlegu hliðina, því hef ég ekki kynnst hjá mínum vinnuveitendum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Stoke er djók.
4.5.2008 | 15:47
Ég er sáttur við mína menn, þeir burstuðu villimennina í Burnley 5-0 og gulltryggðu sæti sitt í umspilinu og þar mun Palace mæta Bristol City.
West Brom var algjört yfirburðalið í fyrstu deildinni og komst verðskuldað upp í úrvalsdeildina. Því miður get ég ekki sagt það sama um Stoke, þeir hafa ekki sýnt neitt í þeim leikjum sem ég hef séð með þeim í vetur og þeir eru nokkrir. Leikkerfi Stoke byggist upp á hinum gamla og sígilda leikkerfi Kick&Run. Þar sem þeir eru með öfluga varnarmenn sem geta sparkað fast og langt og eru síðan með sterka sóknarmenn sem geta hlaupið hratt. Þetta kerfi gekk upp hjá þeim í vetur (því miður). En Guð minn góður ef Stoke mun ekki styrkja sig verulega, þá munu þeir fara aftur niður með stæl næsta vor. Ég er að segja Stoke liðið er mun slakara lið en Derby var í fyrra.
Þessir sóknarmenn Stoke munu ekki eiga neitt erindi í Úrvalsdeildina og þetta Kick&Run kerfi mun aldrei ganga upp gegn sterkum liðum. Ég óska stuðningsmönnum Stoke til hamingju með úrvalsdeildarsætið, en Tony Pulis þarf að vera duglegur að kaupa leikmenn í sumar ef hann ætlar ekki að enda næsta tímabil með 11 stig eða minna. Eins og liðið er í dag, þá er Stoke djók.
WBA og Stoke City í úrvalsdeildina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stóri leikurinn er á morgun.
3.5.2008 | 20:12
Á morgun klukkan eitt hefst leikur Crystal Palace og Burnley, er þetta stærsti leikur Palace á þessu tímabili þar sem ef Palace vinnur leikinn munu þeir tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni um laust sæti í úrvalsdeildinni.
Í byrjun tímabilsins gekk ekkert upp hjá Palace og í byrjun október sátu þeir í fallsæti í deildinni, þá ákvað hinn litskrúðugi eigandi Palace Simon Jordan að reka framkvæmdastjórann Peter Taylor og voru margir ósáttir við brottreksturinn þar sem Taylor var Palace-goðsögn og lék í mörg ár með Palace og var valinn leikmaður ársins 1974 og 1976. Árið 1974 lék Taylor 4 landsleiki fyrir England og skoraði í 2 mörk. Á þeim tíma lék Taylor með Palace í ensku 3ju deildinni, sem gerir þetta að ótrúlegum árangri.
Ef menn voru ósáttir við brottrekstur Taylors, þá byrjaði óánægjan fyrst þegar klikkhausinn Neil Warnock var ráðinn í staðinn. Warnock hefur náð ágætis árangri sem framkvæmdastjóri, en hann er betur þekktur fyrir miklar yfirlýsingar og óþolandi framkomu. Fljótlega fyrirgáfu stuðningsmenn Palace Jordan fyrir að reka Taylor og ráða Warnock, því liðið gjörbreyttist. Liðið spilaði síðan í 3 mánuði án þess að tapa leik og voru skyndilega komnir í toppbaráttuna. Crystal Palace hefur síðan aðeins gefið eftir í toppbaráttunni og eru núna í umspilsæti og sigur á morgun gulltryggir þeim sætið í umspilinu.
Það sem gerir þetta tímabil að spennandi tíma fyrir Palace er hinn mikli fjöldi af ungum leikmönnum sem er að koma upp. Á meðan Taylor lagði allt traust sitt á gömlu leikmennina, þá fór Warnock í unglingaliðið hjá Palace og fann hvern unglinginn af fætum öðrum til tefla fram í liðinu. Til dæmis í einum leiknum voru 5 leikmenn 17 ára eða yngri í byrjunarliðinu, sá yngsti John Bostock var aðeins 15 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik fyrir Palace og þeir sem fylgjast aðeins með fótbolta ættu að leggja nafnið hans á minnið, hann á eftir að verða einn af þeim stóru.
Fyrir þá sem ætla að hafa samband við mig á morgun, þá verð ég utan þjónususvæðis á milli klukkan 1 og 3.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við hvað er Ólafur ósáttur?
3.5.2008 | 20:01
Mér finnst fréttir af þessu máli furðulegar, það kemur ekkert fram um það af hverju Ólafur er ósáttur við verðlaunatillögurnar eða veit hann kannski ekki sjálfur af hverju hann er ósáttur við hana. Mér finnst þetta dálítið barnalegt eða aumkunarvert hvernig þetta kemur fram í fréttum. Er hann ósáttur við að það sé byggt í Vatnsmýrinni eða er hann ósáttur við að byggðin eigi að vera svona þétt eða vill hann hafa hana þéttari, vill hana hafa húsin lægri eða hærri?
Mér finnst furðulegt að maður í þessu embætti getur leyft sér að segja að hann sé ósáttur við svona stórt mál, án þess að útskýra það nánar.
Borgarstjóri gagnrýnir vinningstillöguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kemur ekkert á óvart.
3.5.2008 | 08:20
Þessar tölu koma mér ekkert á óvart. Eina ástæðan fyrir því að handbolti er enn stundaður á Íslandi af einhverri alvöru, er sú að Ísland hefur náð ágætum árangri á heimsvísu miðað við aðrar íþróttir sem eru í samkeppni við handboltann. Það er kannski ekki furða að Ísland hefur náð ágætum árangri þar sem það eru ekki mörg lönd sem handbolti er vinsæll í. Ég sá lista yfir vinsælustu íþróttir í heiminum fyrir nokkrum árum og þar komst handboltinn ekki á topp 100 listann. Á meðan voru aðrar bolta íþróttir mjög ofarlega, eins og fótbolti (sem var númer 1 á listanum), körfubolti og blak.
Ég tel að það séu tvær stórar ástæður fyrir því af hverju vinsældir handboltans hafa dvínað svona. Í fyrsta lagi er það óstjórnin hjá HSÍ. Maður veit aldrei hvernig deildarkeppnin er, það virðist vera mottó hjá þeim að breyta mótafyrirkomulaginu á hverju ári til að rugla almenna áhorfendur. Núna virðist þeim hafa tekist að finna út ágætt fyrirkomulag sem er mjög óspennandi, en ég er nokkuð viss um að því verði breytt fyrir næsta tímabil.
Á sama tíma þá hefur KKÍ komið niður á sitt mótafyrirkomulag og hefur það verið nánast óbreytt í einhver 20 ár, með smávægilegum breytingum. Sumar breytingar sem KKÍ hefur gert á sínu mótafyrirkomulagi hafa ekki gengið upp og þá hafa þeir breytt því til fyrrivegar. En þeir hafa ekki farið niður á sama plan og HSÍ og reynt að koma með nýtt mótafyrirkomulag á hverju ári.
Hin ástæðan fyrir því af hverju ég held fyrir dvínandi áhuga á handbolta, er sú að íþróttin er þannig að erfitt er að stunda hana á fámennari stöðum og erfitt er að stunda hana utan íþróttahúsa. Ég hef aldrei á minni ævi séð krakka vera að leika sér úti í handbolta, á sama tíma sér maður nánast daglega einhverja krakka vera að leika sér í körfu. Það er ekki hægt að leika sér í handbolta nema að vera 10-15 saman, á sama tíma geta 2 keppt í körfu og 3 í fótbolta. Ef að lið ætlar að halda úti unglingastarfi í handbolta, þá þurfa helst 20 manns að æfa íþróttina. Sem getur verið erfitt á fámennum stöðum, þess vegna velja minni íþróttafélögin frekar að halda úti körfubolta frekar en handbolta. Þess vegna er handboltinn orðin að Reykjavíkuríþrótt.
Handboltinn gefur eftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
One Hit Wonder. -1. sætið.
28.4.2008 | 22:46
Það er langt síðan ég hóf niðurtalið að stærstu One Hit Wonder lögum allra tíma og núna loksins er komið að laginu í fyrsta sæti. Það er lagið 500 Miles með tvíburabræðrunum í The Proclaimers, þeim Charlie og Craig Reid.
Charlie og Craig fæddust í Skotlandi 5. mars 1962 og störfuðu þeir í nokkrum hljómsveitum áður en þeir stofnuðu The Proclaimers árið 1983. Höfðu þeir aðallega spilað pönk rokk og var þeirra þekktasta hljómsveit Eight-Eyes. The Proclaimers vakti fljótlega mikla athygli í Skotlandi og nutu töluverðra vinsælda þar. En fyrsta lag þeirra og það eina sem hefur náð heimsathygli er lagið 500 Miles sem kom út árið 1988.
Lagið er eitt helsta stuðningsmannalag skoska knattspyrnuliðsins Hibernian, en þeir bræður eru miklir stuðningsmenn liðsins. Þá er 500 Miles líka stuðningsmannalag skoska landsliðsins og er alltaf spilað þegar skoska landsliðið skorar á sínum heimavelli og er lagið sungið stöðugt af stuðningsmönnum þess á meðan leik stendur. Það er líka oft talað um að 500 Miles eigi eftir að verða þjóðsöngur Skotlands, en Skotar eiga engan þjóðsöng. Craig og Charlie eru ekki bara þekktir sem knattspyrnuáhugamenn, heldur líka fyrir pólitískan áhuga sinn. En þeir eru báðir virkir innan Skoska Þjóðarflokksins, en þeirra helsta baráttumál er fullt sjálfstæði frá Bretlandi.
500 Miles með The Proclaimers.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dagur í kirkjugarðinum.
27.4.2008 | 23:00
Í dag fórum við fjölskyldan saman í kirkjugarðinn að gera leiðið hans Hugins fallegt. Við höfum farið nánast daglega í kirkjugarðinn að skoða leiðið og tala aðeins við Hugin. Þrátt fyrir að mánuður sé síðan Huginn var jarðaður þá hafa blómin og kransarnir haldist ótrúlega vel. Á föstudaginn síðasta ákváðum við að nota daginn í dag til að hreinsa til á leiðinu hans Hugins og fegra það.
Vinnumennirnir: Natan, Ásdís, Guðjón og Sóley.
Við höfum hugsað mikið um hvernig við viljum hafa leiðið í framtíðinni en höfum ekki komist að neinni niðurstöðu, við höfum víst nægan tíma til að ákveða okkur. Við vorum samt búin að kaupa engla og kerti til að setja á leiðið og gerðum það í dag. Þetta var fínn dagur hjá fjölskyldunni, við áttum góðar stundir í kirkjugarðinum hjá Hugin Heiðari.
Ótrúlega leiðinlegt lag.
25.4.2008 | 23:52
Ég verð að segja að ég hef sjaldan heyrt eins leiðinlega útgáfu af nokkru lagi, eins og útgáfu Bubba Morthens og Björns Jörundar á laginu Ég er kominn heim. Lagið kom fyrst út á plötu með íslenskum texta Jóns Sigurðssonar árið 1960 í flutningi Ómars Valdimarssonar og hafa margir tónlistarmenn tekið lagið að sér og oft með ágætum árangri.
Þegar ég heyrði lagið fyrst hjá Bubba og Birni, þá rifjaðist það upp fyrir mér þegar ég fór í réttir á Vatnsleysuströnd á áttunda áratug síðustu aldar. Nema það að mér fannst gaman í réttunum. En lagið minnti mig á réttirnar vegna þess að ég hef aldrei heyrt nokkrn mann jarma eins mikið í einu lagi og Bubbi og Björn gera í útgáfunni sinni.
Ég hef oft sagt það á blogginu að ég hef mikið álit á Bubba sem tónlistarmanni og ég hef það líka á Birni Jörundi, ég hef meira að segja töluvert álit á Birni sem persónu og finnst bráðskemmtilegt að hlusta á hann. En ég skil ekki hvað þessir tveir ágætu menn eru að pæla með því að gefa út þetta lag í þessari útgáfu, þeir eru hreinlega að nauðga gamalli perlu með þessu jarmi sínu.
Einn ólyginn maður sagði mér að Bubbi hafi kvartað yfir því við forsvarsmenn Rásar2 hvað lagið fengi litla spilun þar. Miðað við hvernig lagið er, þá finnst mér lagið alltof mikið spilað.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)