Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Jólakveðjur.

Ég óska öllum bloggvinum mínum og öðrum lesendum bloggsins gleðilegra jóla. Ég vona að þið eigið yndisleg jóla og náið að njóta jólahátíðarinnar. Ég ætla að gera það þrátt fyrir að hafa ekki litla Gullmolann hjá mér. En ég ætla að njóta minninganna um hann og njóta jólanna fyrir hann.

Ég ætla að skella inn myndbandi af lífshlaupi Hugins sem ég gerði fyrir nokkrum vikum og leyfa ykkur að njóta Gullmolans.


Afmælisbarn dagsins: Fjólan mín.

Afmælisbarn dagsins er bloggvinur minn Fjóla Æ. Fjólan er ekki bara bloggvinur minn, heldur er hún allt sem ég á.

Til hamingju með daginn Fjóla mín.


Jólagjafalistinn minn.

Það styttist heldur betur í jólin og þar sem ég veit að margir eru í vandræðum með að velja handa mér jólagjöf, því ætla ég að gera jólagjafalista. Eða réttara sagt ekki-jólagjafa-óskir. Ég gerði svona lista í fyrra og kom hann sér greinilega í góðar þarfir þar sem ég fékk engar gjafir sem voru á listanum. Listinn er stuttur að þessu sinni, bara tvær gjafir sem ég afþakka.

1. Bókin Váfugl eftir Hall Hallsson. Ég hef heyrt aðeins í Halli að kynna bókina og í hvert sinn sem hann opnar munninn þá minnkar áhugi minn.

2. Algjör Sveppi. Sveppi er ástæðan fyrir því að mig langar til að sofa út um helgar. Í hvert sinn sem ég sé eitthvað af þættinum hans þá fæ ég kjánahroll. Sennilega versta og minnst uppbyggjandi barnaefni sem framleitt hefur verið á Íslandi og hefur margt slæmt verið framleitt.


Rúnar Júlíusson 1945-2008

Rúnni JúllÍ dag var Töffarinn og Keflvíkurinn Rúnar Júlíusson jarðsettur. Það er til orðatiltæki sem segir að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi, ef það sé rétt þá er Rúnar undantekningin sem sannar regluna. Rúnar var alla tíð dýrkaður og dáður af Keflvíkingum og á hann var litið sem nokkurskonar Hr. Keflavík. Enda hafði hann upp á allt að bjóða sem einkennir snilling. Frábær íþróttamaður, einstakur tónlistarmaður, frábær karakter og frábær og traustur félagi. Þrátt fyrir frægð og frama, þá steig það aldrei Rúnari til höfuðs. Hann var alltaf sami höfðinginn og laus við alla hroka og stæla.

Það er hægt að minnast margs í lífi Rúnars Júlíussonar. Ég hef búið í Keflavík nánast alla mína ævi og hef í raun alist upp vitandi af Rúnari í nágrenninu og ég hef alla tíð litið upp til hans. Það var fastur liður í barnæsku minni að sjá Rúnar Júll og hljómsveit hans spila á sautjánda júni og öðrum skemmtunum í bænum. Hann var fastur gestur á leikjum Keflavíkur og öðrum uppákomum og var alltaf viljugur að koma fram við ólíklegustu tækifæri.

Rúnar JúlíussonÞað hefur oft verið sagt að það sé margt líkt með Rúnari Júll og Effelturninum. Líkt og Effelturninn í Paris, þá gnæfði Rúnar yfir öllum í Keflavík. Það vissu allir af honum og hann var það stærsta og merkilegasta. En núna er Rúnar fallinn, en hann mun samt standa og lifa áfram. Hans verður minnst sem eins stærsta snillings Íslandssöguna. Í tónlistarsögu Íslands ætti að vera sér bindi um Rúnar.

Núna hvílir Rúnar í kirkjugarðinum hér í Keflavík, einungis örfáa metra frá litla Gullrassinum mínum og er hann örugglega að spila fyrir hann núna. Ég hef fulla trú á að Rúnar haldi áfram að gera það sem hann gerði best í lifandi lífi að skemmta og gleðja aðra. Guð blessi minningu Rúnars Júlíussonar.


Smá tuð í lok helgar.

Að undanförnu hefur mikið verið auglýst að það sé Íslendingur sem leikstýrir mörgum þáttum í CSI:Miami seríunni. Ég hef oft pælt í því hvort það sé eitthvað merkilegt þar sem mér finnst CSI:Miami einn lélegasti þáttur sem sést í sjónvarpi, þar sem David Caruso fer á litlum kostum í hlutverki Horatio Caine. Ég hafði þó nokkuð álit á Caruso hér áður. Ég tók fyrst eftir honum í þáttunum N.Y.P.D Blue, hann hefur líka leikið í mörgum ágætum bíómyndum. En því miður þá held ég að hann eigi ekki eftir að fá uppreisn æru eftir frammistöðu sína í þessum þáttum.

Í kvöld var annar "merkilegur" þáttur á dagskrá í sjónvarpinu, það er þátturinn Numbers. Þegar ég sá fyrstu þættina í fyrra þá þótti mér þættirnir ágætir, en smá saman rann sú ánægja út í sandinn og fljótlega þótti mér þættirnir ansi fátæklegir og fullir af ótrúverðugleika. Það sem mér þótti verst við þættina var hlutverk Charlie Eppes sem David Krumholtz leikur. Þrátt fyrir að vera aðalkarlinn í þáttunum hefur hlutverk verið snarminnkað og er hann eiginlega kominn í aukahlutverk. En við það hefur þátturinn snarskánað. Það er vonandi að aðalpersónan verði klippt alveg út úr þættinum svo hann muni lagast mun betur.

Núna sit ég fyrir framan kassann og horfi á ameríska fótboltann. Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi ameríska fótboltans, aftur á móti er ég mikill aðdáandi Pittsburgh Steelers. Eftir að hafa verið í Pittsburgh í 6 mánuði þá lærði ég meta þetta félag. Núna var leiknum að ljúka með glæsilegum sigri Pittsburgh Steelers 20-13 eftir að hafa verið 6-13 undir þegar tvær mínútur voru eftir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband