Færsluflokkur: Bloggar

Ég er að pæla....

Hvernig stendur á því að lögreglan Í Slóveníu er að handtaka menn í Bratislava í Slóvakíu? Er slóvenska lögreglan með einhverja samninga við slóvakísku lögregluna eða landafræðikunnátta blaðamanna svona léleg?


mbl.is Með kíló af heróíni innvortis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisbarn dagsins.

Afmælisbarn dagsins að þessu sinni er hann ég. Ég fæddist þann 3.janúar 1968 og er því orðinn 41 árs! púff! Nei nei. Það er bara gaman að eiga afmæli, eins og einn ágætur félagi minn sagði við mig í fyrra þegar ég var að halda upp á fertugs afmælið og ég þóttist vera eitthvað leiður yfir aldrinum. "Mundu það Mummi, það er betra að verða 40 ára heldur en að verða það ekki". Þetta eru ágæt spakmæli sem eiga vel við og gott er að hafa í huga.


Áramótabloggið.

Ég vil byrja á að óska öllum gleðilegs ár og takk fyrir það gamla. Að vanda kem ég með smá upprifjun á árinu sem var að líða, en það hefur verið mjög viðburðarríkt. En það var eitt atvik sem stendur upp úr á árinu, en það var andlát sonar míns hans Hugins Heiðars sem lést í mars síðastliðnum. Ég hef ákveðið í áramótaupprifjuninni að minnast ekkert á Hugin, aðallega vegna þess að þá væri sennilega ekki minnst á neitt annað, enda var hann slík hetja.

Heimsókn ársins: Ísbirnirnir.

Ofsjónir ársins: Allir hinir ísbirnirnir. 

Tölvunörd ársins: Bjarni Harðarson.

Hringlavitleysa ársins: Borgarstjórnarmálin í Reykjavík.

Flóttamaður ársins: Paul Ramses.

Múgæsing ársins: Árásin á lögreglustöðina.

Kveðja ársins: Guðjón Þórðarson þegar hann sagði um syni sína og aðra leikmenn ÍA, "Maður gerir ekki kjúklingasalat úr kjúklingaskít".

Viðskiptamenn ársins: Allir nema útrásarvíkingarnir.

Silfur ársins: Ólympíusilfrið.

Dómari ársins: Þorsteinn Davíðsson Oddssonar.

Handtaka ársins: Þegar Ágúst Fylkisson vörubílstjóramótmælandi var handtekinn fyrir að berja löggu í beinni.

Uppreisn Æra ársins: Vilhjálmur Bjarnason, hann var alltaf leiðinlegi gaurinn sem spurði utrásarvíkingana leiðinlegu spurninganna. Síðan kom í ljós að fólk hefði átt að hlusta á hann.

Frumkvöðull ársins: Hörður Torfason.

Bóla ársins: Sturla Jónsson.

Heppnasti maður ársins: Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri. Fyrir að selja hlutbréf sín í bönkunum rétt fyrir fallið á þeim þrátt fyrir að vita ekkert um raunverulegt ástand hjá bönkunum, þó hann hefði setið fundi um vandræði bankanna.

Heppnasta kona ársins: Birna Einarsdóttir bankastjóri Glitnis fyrir að fatta ekki að gleymst hefði að taka 190 milljónir út af debetkortinu hennar til að kaupa í Glitni.

Ummæli ársins: Halldór J. Kristjánsson, "Ég er stoltur af Icesave" og þetta sagði hann eftir að Icesave, hugfóstur hans gerði Ísland nánast gjaldþrota.

Snillingur ársins: Verslunarmaðurinn sem tók á móti 10.000 króna seðlinum og gaf til baka.

Framkvæmd ársins: Heiti potturinn sem við settum upp við húsið okkar.

Landráðamenn ársins: Of margir til að nefna þá alla hér.

Hryðjuverkamenn ársins: Íslenska þjóðin.

Leikur ársins: Crystal Palace vs Scounthorpe.

Hefnd ársins: Þegar Íslendingar sendu Guðjón Þórðarson aftur til Englands.

Kaup ársins: Þegar við keyptum fellihýsið okkar.

Dóni ársins: Helgi Seljan.

Fasteignakaup ársins: Þegar Reykjavíkurborg keypti ónýta kofa á Laugaveginum fyrir 600 millur.

Fasteignasala ársins: Þegar einhverjir gaurar náðu að selja Reykjavíkurborg ónýta kofa fyrir 600 millur.

Vonbrigði ársins: Þegar Keflavík missti af Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu.

Tískuorð ársins: Drekasvæðið.

Dagur ársins: 3. janúar 2008, dagurinn sem ég var 40 ára.

Viðtal ársins: Öll viðtölin við Ólaf Stefánsson.

Djammari ársins: Ólafur F. Magnússon.

Hvunndagshetja ársins: Karen Helga Steinsdóttir, heimasætan á Hrauni sem sá fyrst allra seinni ísbjörninn.

Móttaka ársins: Þegar handboltagaurarnir komu heim. Slík móttaka hefur ekki sést síðan Keikó kom heim um árið.

Klúður ársins: Þegar Árni Mathiesen tímdi ekki að borga 200 millur til að koma Icesave undir breska lögsögu og það kostaði íslensku þjóðina orðsporið og einhverja hundruði milljarða. Takk fyrir það Árni.

Námsmaður ársins: Tindur Jónsson, fanginn sem dúxaði í efnafræði.

Dýrasti saumaklúbbur ársins: Fjármálaeftirlitið.

Della ársins: Ljósmyndadellan mín.

Skyndibiti ársins: Einn sveittur hjá Villa.

Maður ársins: Vilhjálmur Bjarnason. Gaurinn sem var lagður í einelti af útrásarvíkingunum vegna þess að hann vissi um ruglið.


Jólakveðjur.

Ég óska öllum bloggvinum mínum og öðrum lesendum bloggsins gleðilegra jóla. Ég vona að þið eigið yndisleg jóla og náið að njóta jólahátíðarinnar. Ég ætla að gera það þrátt fyrir að hafa ekki litla Gullmolann hjá mér. En ég ætla að njóta minninganna um hann og njóta jólanna fyrir hann.

Ég ætla að skella inn myndbandi af lífshlaupi Hugins sem ég gerði fyrir nokkrum vikum og leyfa ykkur að njóta Gullmolans.


Afmælisbarn dagsins: Fjólan mín.

Afmælisbarn dagsins er bloggvinur minn Fjóla Æ. Fjólan er ekki bara bloggvinur minn, heldur er hún allt sem ég á.

Til hamingju með daginn Fjóla mín.


Jólagjafalistinn minn.

Það styttist heldur betur í jólin og þar sem ég veit að margir eru í vandræðum með að velja handa mér jólagjöf, því ætla ég að gera jólagjafalista. Eða réttara sagt ekki-jólagjafa-óskir. Ég gerði svona lista í fyrra og kom hann sér greinilega í góðar þarfir þar sem ég fékk engar gjafir sem voru á listanum. Listinn er stuttur að þessu sinni, bara tvær gjafir sem ég afþakka.

1. Bókin Váfugl eftir Hall Hallsson. Ég hef heyrt aðeins í Halli að kynna bókina og í hvert sinn sem hann opnar munninn þá minnkar áhugi minn.

2. Algjör Sveppi. Sveppi er ástæðan fyrir því að mig langar til að sofa út um helgar. Í hvert sinn sem ég sé eitthvað af þættinum hans þá fæ ég kjánahroll. Sennilega versta og minnst uppbyggjandi barnaefni sem framleitt hefur verið á Íslandi og hefur margt slæmt verið framleitt.


Rúnar Júlíusson 1945-2008

Rúnni JúllÍ dag var Töffarinn og Keflvíkurinn Rúnar Júlíusson jarðsettur. Það er til orðatiltæki sem segir að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi, ef það sé rétt þá er Rúnar undantekningin sem sannar regluna. Rúnar var alla tíð dýrkaður og dáður af Keflvíkingum og á hann var litið sem nokkurskonar Hr. Keflavík. Enda hafði hann upp á allt að bjóða sem einkennir snilling. Frábær íþróttamaður, einstakur tónlistarmaður, frábær karakter og frábær og traustur félagi. Þrátt fyrir frægð og frama, þá steig það aldrei Rúnari til höfuðs. Hann var alltaf sami höfðinginn og laus við alla hroka og stæla.

Það er hægt að minnast margs í lífi Rúnars Júlíussonar. Ég hef búið í Keflavík nánast alla mína ævi og hef í raun alist upp vitandi af Rúnari í nágrenninu og ég hef alla tíð litið upp til hans. Það var fastur liður í barnæsku minni að sjá Rúnar Júll og hljómsveit hans spila á sautjánda júni og öðrum skemmtunum í bænum. Hann var fastur gestur á leikjum Keflavíkur og öðrum uppákomum og var alltaf viljugur að koma fram við ólíklegustu tækifæri.

Rúnar JúlíussonÞað hefur oft verið sagt að það sé margt líkt með Rúnari Júll og Effelturninum. Líkt og Effelturninn í Paris, þá gnæfði Rúnar yfir öllum í Keflavík. Það vissu allir af honum og hann var það stærsta og merkilegasta. En núna er Rúnar fallinn, en hann mun samt standa og lifa áfram. Hans verður minnst sem eins stærsta snillings Íslandssöguna. Í tónlistarsögu Íslands ætti að vera sér bindi um Rúnar.

Núna hvílir Rúnar í kirkjugarðinum hér í Keflavík, einungis örfáa metra frá litla Gullrassinum mínum og er hann örugglega að spila fyrir hann núna. Ég hef fulla trú á að Rúnar haldi áfram að gera það sem hann gerði best í lifandi lífi að skemmta og gleðja aðra. Guð blessi minningu Rúnars Júlíussonar.


Afmælisbarn dagsins er Huginn Heiðar.

Huginn HetjaAfmælisbarn dagsins er litli stóri Engillinn minn Huginn Heiðar Guðmundsson. Huginn fæddist þann 18 nóvember 2004 og hefði því orðið 4 ára í dag ef hann hefði lifað. En Huginn Heiðar lést 24. mars síðastliðinn eftir mikla baráttu við veikindi.

Huginn Heiðar gaf okkur svo mikið á meðan hann lifði, hann kenndi okkur og öllum þeim sem kynntust honum svo margt. Hann kenndu okkur að skilja hvað lífið er dýrmætt og að við eigum ekki að vera að kvarta yfir smáhlutum sem skipta litlu máli.

Huginn Heiðar, til hamingju með afmælið. Þú varst flottastur strákurinn í heiminum og núna ertu örugglega flottasti Engillinn á himninum.

Heimasíða Hugins Heiðars.


Frétt sem kemur ekki á óvart.

tyrklandSvona fréttir frá Tyrklandi koma ekki á óvart. Nánast einu fréttirnar sem berast frá þessu landi eru um mannréttindabrot, spillingu, heiðursmorð, þjóðernishreinsanir og háa stýrisvexti sem eru samt lægri en stýrisvextirnir á Íslandi. Síðan vill þetta land teljast til Evrópu þó bara 3% landsins liggja landfræðilega í Evrópu.

Ég vil minna á orð Nicolas Sarkozy forseta Frakklands, en hann sagði á meðan hann ræður einhverju þá mun Tyrkland aldrei komast í Evrópusambandið, en Tyrkir hafa lagt hart að því að komast í Evrópusambandið.


mbl.is Hneykslismál í Tyrklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá launablogg.

Mikið hefur verið talað um laun bankastjóra nýju bankanna eða réttara sagt gjaldþrotabankanna og ég ætla að bætast í þann hóp. Mér finnst eðlilegt að borga góð laun fyrir gott fólk í ábyrgðarmikil störf. Ofurlaunin í gömlu bönkunum sína að það fer ekki saman, þar fengu ábyrgðarlausir og vanhæfir menn ofurlaun og þurfa ekki að bera neina ábyrgð. Ef skoðaðir eru nýju bankastjórarnir þá má sjá að þeirr taka á sig töluverða launalækkun. Birna Einarsdóttir bankastjóri Glitnis tekur á sig minnstu launaskerðinguna, hún hefur núna 21.000.000 í árslaun en hafði samkvæmt Tekjublaði Frjálsra Verslunar 29.808.000 í árslaun á síðasta ári, þetta er tekjulækkun upp á tæplega 9 milljónir. Finnur Sveinbjörnsson nýr bankastjóri Kaupþings hefur sömu árslaun og Birna eftir að hann óskað eftir launalækkun. Árslaun hans eru 21.000.000, en hann hafði í laun sem bankastjóri Icebank 51.144.000, það gerir launalækkun upp á rúmlega 30.000.000. Mestu launalækkunina tekur á sig Elín Sigfúsdóttir bankastjóri Landsbankans, hún er samt launahæsti bankastjórinn með 23.400.000 í árslaun, en hún hafði í laun á síðasta ári 122.220.000 og lækkar þar með í launum um tæplega 99 milljónir á ári

Það er líka forvitnilegt að skoða við hvað bankastjórarnir störfuðu áður en þeir tóku við bankastjóra stöðunum. Birna Einarsdóttir var framkvæmdastjóri þróunarsviðs Glitnis, en sem framkvæmdastjóri hjá Glitni, ætti hún ekki þurfa að bera einhverja ábyrgð gjaldþroti Glitnis? Hún gerir það með því að taka á sig launalækkun.

Finnur Sveinbjörnsson var bankastjóri Icebank og kemur því ekki beint að falli Kaupþings, en hann kemur beint að falli Icebank, þó Icebank sé ekki enn fallinn þá er það frekar spurning hvenær en hvort það gerist og þegar Icebank fellur þá er spurning hvort hann taki ekki einhverja sparisjóði með sér. Finnur mun örugglega ekki þurfa að sæta ábyrgð þegar það gerist.

Elín Sigfúsdóttir var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans áður en hann varð gjaldþrota og ber þar af leiðandi enga ábyrgð á gjaldþrotinu. Enda var framkvæmdastjórastaðan ábyrgðarlaus staða enda hafði hún bara rúmar 122 milljónir í laun á síðasta ári.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband