Ekki fótboltablogg.

Já, þetta er ekki fótboltablogg. Eftir tvö fótboltablogg í röð er komið að fótboltalausubloggi. Gerið ég það áður en ég fæ kvartanir frá diggum lesendum. Æji, núna er þetta orðið að fótboltabloggi!

Í gær fór ég og mín heitt elskaða á fund á Gjörgæsludeildinni og var fundað um nóttina sem Huginn Heiðar dó, var þetta mjög góður fundur og vona ég að starfsfólkið þar geri sér grein fyrir hversu ánægð við erum með störf þess í gegnum tíðina og sérstaklega nóttina sem Huginn dó. Ég bloggaði um gærdaginn á heimasíðu Hugins.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég mætti í vinnu nokkrum dögum eftir útförina, taldi best að henda mér út í djúpu laugina og takast á við lífið. Mér líður reyndar vel í vinnunni, en ég vinn hjá Fríhöfninni í Keflavík. Mér líkar vel við vinnuna, hef góða vinnufélaga sem eru stundum kannski full stríðnir, en ég get nú líka verið það. Síðan get ég komið með heila færslu um vinnuveitanda minn. Ég hef þurft að ganga í gegnum ýmislegt síðan Huginn fæddist og alltaf stóðu þeir vel á bak við mig í veikindum Hugins. Þegar ég fór til Bandaríkjanna með Hugin, þá fékk ég rausnarlegan styrk frá þeim. Síðan beið vinnan eftir mér þegar að ég kom heim. Ég var frá vinnu í eitt og hálft ár og mætti síðan eins og ekkert hafði í skorist.

Núna er um tvö ár síðan ég byrjaði að vinna aftur og eins og allir vita þá hefur hinn vinnandi maður ekki mikinn veikindarétt þegar kemur að veikindum barns, ég get lofað ykkur því að ég tók töluvert fleiri veikindadaga en ég átti rétt á og fékk þá greidda án nokkurs vandamáls. Það sama gerðist þegar Huginn dó, ég fékk frí þegjandi og hljóðalaust með þeim orðum að ég ætti að mæta í vinnu þegar ég yrði tilbúinn til þess. Ekki nóg með það, heldur fékk ég rausnarlega útfararstyrk frá vinnuveitandanum.

Það er oft talað um þegar maður vinnur hjá stóru fyrirtæki, að þá hættir fyrirtækið að hugsa um mannlegu hliðina, því hef ég ekki kynnst hjá mínum vinnuveitendum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rannveig Lena Gísladóttir

Mikið rosalega er gaman að lesa um svona jákvæða og almennilega vinnuveitendur.  Því það er jú eins og þú segir miklu algengara að þegar að fyrirtækið er orðið svona stórt þá vill "mannlega hliðin" gleymast of mikið. 

Bestu kveðjur á Suðurnesin

Lena - Blönduósi

Rannveig Lena Gísladóttir, 8.5.2008 kl. 09:42

2 identicon

Sæll Mummi.

Ég er diggur lesandi, og kvarta ekkert þó þú sért að blogga um fótbolta á síðunni.  Í rauninni langar mig að rukka þig um eitt fótblotablogg, til að sjá pælingar hjá þér og jafnvel spá fyrir Íslandsmótið í fótbolta, þú er nokkuð spádómslega vaxinn. Ég ætla henda minni spá hérna inn.  1. VALUR  2. FH  3. KR  4.ia                   5. KEFLAVÍK  6. BREIÐABLIK  7. FYLKUR  8. FJÖLNIR  9.  FRAM  10.  ÞRÓTTUR  11. HK  12. GRINDAVÍK

Kannski finnst sumum ég setja Keflavík of ofalega miðað við flestar spár, en maður verður að hafa trú á sínum mönnum.

Mummi þú ert velkominn aðalfund hjá stuðningsmannaklúbbi      Leeds United  sem verður haldinn í Ölveri 12 maí nk. kl. 18          en sama kvöld verður einnig fyrsti leikur Leeds í playoffs.

Bið að heilsa í bili.

Njáll (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 20:16

3 Smámynd: Mummi Guð

Njáll. Ég skal koma með mína spá fyrir Íslandsmótið. 1. KR 2.FH 3.Valur 4. Breiðablik 5. Keflavík 6. Fram 7. HK 8. Fjölnir 9. Fylkir 10. Þróttur 11. Grindavík 12. Akranes.

Ef þú vilt að ég rökstyðji aðeins valið, þá held ég að KR sé einfaldlega með stærsta og besta hópinn. Ég held að FH séu bara betri en Valur í dag, þó þeim hafi ekki gengið sem best í viðureignum þeirra í vor. Ég tel að Breiðablik og HK séu betri lið og með betri þjálfara en flestir telja og sit þau þess vegna í þessi sæt. Ég sit Fylki svona neðarlega vegna þess að þeir keyptu falldraug Íslands í vetur, Jóhann Þórhallsson, sá maður er fæddur til að vera í fallbaráttu.

Ég held síðan að liðin sem komu upp, Þróttur og Grindavík séu ekki nógu góð fyrir deildina og ég set Akranes í neðsta sætið vegna þess að ég vona að þeir lendi þar.

Mummi Guð, 8.5.2008 kl. 21:38

4 Smámynd: Mummi Guð

Í sambandi við hvort ég ætti að mæta á aðalfund hjá stuðningsmannaklúbbi Leeds, þá held ég ekki. Ég er ekki vanur að fylgjast með neðri deildarliðum  En annars væri gaman að horfa á einn leik með þeim og þér. Ég vil minna þig á að leikmaður apríl mánaðar í annari deildinni var Leeds maðurinn Dougie Freedman, sem er lánsmaður frá stórliði Crystal Palace. Gaman að sjá að Leeds getur notað mennina sem eru ekki nógu góðir til að spila með Palace.

Mummi Guð, 8.5.2008 kl. 21:43

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það er alltaf frábært að lesa færslurnar þínar, ekki síst fótboltabloggin. Mikið er notalegt að vita til þess að þú eigir svona frábæran vinnuveitanda. Það er mikils virði að vera í góðri vinnu hjá góðu fólki.

Guðríður Haraldsdóttir, 9.5.2008 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband