Færsluflokkur: Bloggar

Sumarfríið búið!

Þá er sumarfríið mitt búið og ég er kominn í helgarfrí. Á reyndar að mæta í vinnu á mánudag eftir rúmlega mánaðar fjarveru. Ég á samt nokkra daga eftir af sumarfríinu sem ég ætla að geyma til betri tíma.

Ég kom heim í dag eftir vikudvöl í sumarbústað, hafði það stórfínt í bústaðinum. Ég fór líka í fyrra í þennan bústað og þá var Huginn Heiðar með okkur, honum þótti svo gaman að vera í heita pottinum og njóta afslöppunarinnar með okkur. Núna hugsuðum við til hans á meðan við vorum í bústaðinum og rifjuðum tímann í fyrra, en í gær voru 4 mánuðir síðan Huginn dó.

Það er erfitt að vera að ferðast mikið þegar maður á loðdýr (annað orð yfir kisur) og skilur dýrin eftir heima. Kisunum hundleiddist að vera einar heima (geta kisum hundleiðst?) og í dag áður en við komum heim þá tókst þeim að verða sér úti um smá félagsskap. Þannig er að við erum þjófavarnarkerfi heima hjá okkur sem er stillt þannig að kisur eiga ekki að geta komið því í gang, en kisunum tókst það samt í dag. Ég er nokkuð viss um að kisurnar hafa hoppað fyrir framan skynjarana og baðað út öllum loppum til að kveikja á kerfinu og þegar það tókst og öryggisvörður mætti á staðinn þá tóku kisurnar svo vel á móti honum og örugglega blikkað hann og strokið sig upp að honum, vegna þess að hann hringdi í okkur og spurði hvort hann mætti hleypa kisunum út, þeim langaði svo mikið út. Ég gat ekki annað en samþykkt það, sérstaklega þar sem ég var rétt ókominn heim og kisurnar höfðu ekkert fengið að fara út í 4 daga.


Lögreglan á að gera ökutækið/morðtækið upptækt.

Í vikunni féll dómur í Héraðsdómi Suðurlands yfir ökuníðing þar sem hann reyndi að stinga lögregluna af á bifhjólinu sínu eftir að hafa verið mældur á yfir 200 km hraða, en honum tókst ekki þar sem ofsaaksturinn lauk með hræðilegu slysi. Lögreglan á Selfossi gerði hjólið ökuníðingsins upptækt og féllst héraðsdómur á það. Þar sem komið er fordæmi því að gera ökutæki upptækt, þá á lögreglan í þessu tilfelli að gera slíkt það sama.

Þessi ökumaður sem var tekinn í dag hefur greinilega ekki þroska til að vera í umferðinni, hvað þá á slíku morðtæki. Þess vegna á lögreglan að gera ökutækið upptækt til að verndar öðrum í umferðinni.


mbl.is Mældur á 212 km hraða; reyndi að stinga af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá sumarfrísblogg.

Vá hvað það getur verið erfitt að blogga þegar það er sól og sumar úti, svo maður tali ekki um á meðan maður er í sumarfríi. Annars gerðum við nokkuð merkilegt í gær, við fórum í okkar fyrstu útilegu á fellihýsinu okkar. Þannig er að ég hef alltaf verið mikið fyrir útilegur og á undanförnum árum hef ég því miður ekki átt kost á að fara í margar útilegur, en núna þegar ég hef tök á því að fara í útilegu þá gat ég einhvern veginn ekki hugsað mér að fara í tjaldútilegur og af vel athuguðu máli þá fjárfesti ég og Fjólan í fellihýsi og í gær var farið í fyrstu útileguna.

Af vel athuguðu máli þá var ákveðið að fara í Krókamýri en þangað fór ég oft í útilegur á unglingsárum mínum, í svokallaðar Halloween helgi (lesist Halló-Vín-helgi). Á þeim tíma var lítið mál að brenna þangað, en það er víst aðeins erfiðara núna með fellihýsi í eftirdragi og eftir töluverðan spotta var ákveðið að breyta um áfangastað enda ljóst að við myndum aldrei komast á áfangastað með fellihýsið. Vegurinn var svo laus í sér að bíllinn spólaði sig bara niður í einni brekkunni svo ég þurfti að bakka eina 2 kílómetra áður en ég gat snúið við, en fyrir vikið er ég orðinn útskrifaður í bakstri. Ég lærði líka eina mikilvæga lexíu, það er að fara aldrei út af þjóðveginum með fellihýsið.

Annars gekk ferðin ágætlega eftir þetta, nýji áfangastaðurinn var okkar helgasti staður, Þingvellir. Þar tjölduðum við meðal útlendinga á fínu tjaldstæði. Meira að segja klósettið var svo hreint og snyrtilegt að María Mey gæti pissað þar.

Úr því að þessi ferð gekk svo vel, þá ætlum við ekki að stoppa lengi heima heldur ætlum við að skella okkur á Írska daga á Akranesi um helgina og athuga hvort það sé eitthvað fjör þar.


Það er að koma sumarfrí!

Mikið svakalega hef ég verið latur að undanförnu að blogga, mér finnst ég líka hafa ágætar ástæður fyrir því. Æðislegt veður, EM í fótbolta, síðan hef ég verið að fylgjast með Fjólunni að saga, negla og bora, svo er það vinnan mín. Ég hef að undanförnu verið að telja niður dagana í sumarfríið mitt sem hefst á morgun og ég get sagt ykkur að ég þrái þetta frí sem ég er að fara í svo mikið. Þetta er dálítið skrýtin tilfinning þar sem ég hef aldrei beðið með svona mikilli tilhlökkun að fara í sumarfrí, þar sem mér finnst gaman í vinnunni og ég hef einstaklega skemmtilega vinnufélaga. En ég held bara að ég þrái þetta frí vegna mikillar uppsafnaðra þreytu undanfarinna ára og loksins á morgun skellur fríið á, hvað ég ætla að gera í fríinu veit ég ekki alveg, en það verður eitthvað skemmtilegt.

Það stóð til að það yrði fjölskylduhátíð í ættinni minni um helgina, en núna hefur því verið slegið af og ég er þvílíkt hneykslaður yfir því. Það er svona þegar margir ætla að skipuleggja dagskránna og allir vinna gegn hvorum öðrum. En svona er þetta bara, það er merkilegt að hugsa til þess að þó einhver geti ekki komist á svona fjölskylduhátíð að sá aðili þurfi að berjast fyrir því að aðrir mæti ekki, en svona eru bara sumir og ég er hundfúll þar sem ég ætlaði að byrja sumarfríið með ættinni minni. En fall er fararheill.


Hæ-hó-jibbí-jei. Til hamingju með Þjóðhátíðardaginn.

17.júní.Hæ-hó-jibbí-jei það er kominn 17. júní. Ég vil óska öllum Íslendingum gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að allir muni eiga yndislegan dag, hvort sem þeir eru menn eða ísbirnir.

Til að koma sem flestum í þjóðhátíðarstuð, þá hef ég sett inn hér til hliðar tónlistarspilara, þar sem hægt er að hlusta á lagið 17. júní með Dúmbó og Steina.


Afmælisbarn dagsins: -Natan Freyr.

Natan FreyrAfmælisbarn dagsins er stóri strákurinn minn hann Natan Freyr. Natan Freyr fæddist 13. júní 1989 er því 19 ára í dag, föstudaginn 13. júní. Það eru margir sem finnst 13 vera óhappatala, en 13 júní er ekki óhappadagurinn minn það er víst.

Fyrir þá ofurhjátrúafullu þá má segja frá því að kvikmyndin föstudagurinn þrettándi sem var gerð árið 1980 og er ein af ástæðunum fyrir hinni lífseigu sögu að föstudagurinn þrettándi sé einhver ógæfudagur, að kvikmyndin á að gerast á föstudeginum 13. júní.

Til hamingju með daginn Natan!


Afmælisbarn dagsins. -Mathias Rust.

Rust 1987Afmælisbarn dagsins að þessu sinni er þýski flugmaðurinn eða hvað sem á að kalla hann, Mathias Rust. Mathias fæddist í Vestur-Þýskalandi 6 júní 1968 og er því 40 ára í dag.

Mathias varð heimsfrægur þann 28. maí 1987 þegar hann lenti flugvél sinni á Rauða Torginu í Moskvu, á þeim tíma var kaldastríðið í hámarki og þótti ótrúlegt að Mathias skyldi geta flogið alla leið til Moskvu og lent eins og ekkert væri einfaldara á Rauða Torginu, einum helgasta stað kommúnista í Sovétríkjunum.

Flugvél RustFerðalag Mathiasar hófst í Uetersen í Þýskalandi þar sem hann tók flugvélina á leigu, að morgni 28. maí lagði Mathias af stað í flugið fræga frá Helsinki-Malmi flugvellinum í Finnlandi eftir að hafa fyllt vélina af eldsneyti. Hann tilkynnti flugumferðarstjórn að hann ætlaði að fljúga til Stokkhólms, en fljótlega eftir flugtak breytti hann um stefnu og flaug til austurs yfir Eystrasaltið í átt til Eistlands, fljótlega eftir það rofnaði samband við flugvélina og var talið að hún hefði farið í sjóinn og var gerð umfangsmikil leit að vélinni, en á sama tíma hélt Mathias fluginu áfram og lenti hann síðan á Vasilevsky Spusk við St. Basil kirkjuna, eftir lendinguna keyrði hann vélinni í átt að sjálfu Rauða Torginu og stöðvaði í um 100 metra fjarlægð frá því og þar var hann handtekinn.

Mathias Rust var dæmdur í 4 ára fangelsi og sat hann inni í Lefortovo fangelsinu í Moskvu í 432 daga, þá var hann leystur úr haldið og sendur til Þýskalands.

Matthias Rust komst aftur í heimsfréttirnar árið 1991, þegar hann réðist á samstarfskonu sína sem vildi ekki taka upp ástarsamband við hann. Mathias stakk hana með hnífi og sat hann inni fyrir þá árás í tvö og hálft ár.

Rust 2007Af Mathias er það að frétta að hann býr núna í Berlin með seinni eiginkonu sinni Athenu. Litlar fréttir hafa annars borist af Mathias, en hans verður alltaf minnst sem unglingsins sem niðurlægði sovéska herinn og gerði lítið úr loftvörnum Sovétríkjanna.


Pólverjar og ölvunarakstur.

Enn einu sinni verða ölvaðir pólskir ökumenn valdir að umferðaróhöppum á Suðurnesjum. Þessir umræddir aðilar sem hafa keyrt út af á Vatnsleysuströndinni í gærkvöldi viðurkenna auðvitað ekki að hafa keyrt bílnum, þar sem þeir vita að það dugar að neita öllu til að sleppa við dóm. Sem betur fer urðu þeir ekki valdir að neinu stórslysi eða dauða saklausra vegfarenda eins og gerst hefur áður.

Í gærdag ók ölvaður Pólverji aftan á bíl á Hafnargötunni í Keflavík og eins og þeim er einum lagið hljóp hann af vettvangi, en sem betur fer náðist hann nokkrum klukkustundum síðar og mun væntanlega neita öllu og sleppa við dóm. Það er annað umhugsunarvert sem gerðist í því óhappi. Hinn drukkni Pólverji ók bíl merktum vinnumiðluninni Voot, en það fyrirtæki hefur verið ansi öflugt á að útvega íslenskum fyrirtækjum erlenda starfsmenn.

Ætli fyrirtæki eins og Voot leggi enga áherslu á að kanna bakgrunn starfsmanna sinna eða að uppfræða þá um íslensk lög, heldur leyfi þeim að rúnta á fyrirtækjabílunum sínum um þjóðvegi landsins undir áhrifum áfengis.

Voot.isÉg læt hérna inn mynd af bílnum lenti í árekstrinum á Hafnargötunni í gær. Stækkið myndina og takið sérstaklega eftir hvað stendur á stuðaranum á bílnum og hvað stendur á girðingunni þar sem bíllinn var lagður við. Dálítið kaldhæðið.


mbl.is Ölvaðir úti að aka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu mikla þolinmæði hefur flokkurinn gagnvart Vilhjálmi?

Þessar tölur koma mér og örugglega engum öðrum, nema kannski Vilhjálmi á óvart. Ég bloggaði einhvern tíma í vetur að eina ráðið fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að bjarga andlitinu í Reykjavík, væri að semja við Samfylkinguna um samstarf í Reykjavík og ég lagði meira að segja til að Geir og Ingibjörg myndi sjálf sjá um meirihlutaviðræðurnar og Dagur yrði borgarstjórinn. Það er nefnilegur hagur Sjálfstæðisflokksins eins og það hljómar asnalega að Dagur verði borgarstjóri og ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur engan hæfan mann til að taka við borginni eins og staðan er í dag. Vissulega eru örugglega einhverjir sem myndi nefna Hönnu, Gísla eða Júlíus, en ef einhver af þeim yrði valin núna til að taka við borgarstjórastólnum þá myndi það leiða til óánægju hjá hinum sem myndi jafnvel leiða til leiðinda og verra umtals, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gott af. Svo maður tali ekki um það að fólk er orðið þreytt á eilífum borgarstjóraskiptum. Ég held að enginn vilji að Vilhjálmur taki við borgarstjórastólnum aftur. Hvorki sjálfstæðismenn né aðrir, hann hefur hreinlega ekki kollinn í lagi til að höndla þessa stöðu.


mbl.is Fylgi D-lista aldrei minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg niðurstaða hjá dómstólnum.

Mér finnst þetta fullkomlega eðlileg niðurstaða hjá dómnum. Þau giftu sig eftir að hún hafði fullvissað karlinn um að hún væri hrein mey, en hún laug og þess vegna finnst mér eðlilegt að hjónabandið hafi verið ógilt. Það er nefnilega ekki gott að hefja samband á lygum eins og þessi kona virðist hafa gert.

Auðvitað finnst mér þetta fáránleg ástæða til að krefjast ógildingu á hjónabandi og einhvern veginn set ég spurningamerki við hvernig honum tókst að sanna fyrir dómstólnum að hún væri ekki hrein mey. En aðalatriðið er að hún laug að tilvonandi eiginmanni og plataði hann í hjónaband á fölskum forsendum og þess vegna er átti að ógilda hjónabandið.


mbl.is Hjónaband ógilt í Frakklandi vegna ósannsögli um meydóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband