Færsluflokkur: Bloggar

Verðbólgan orðin 150%.

Í dag hækkaði IKEA verð á öllum vörum sínum um að meðaltali 25%. IKEA hefur verið þekkt fyrir að festa verðið hjá sér í heilt ár í einu og hefur verið nokkuð raunhæft að skoða verðhækkanirnar sem verða í IKEA á haustin til sjá verðbólguna í landinu. Um mánaðarmótin ágúst/september kynnti IKEA nýjan sölubækling og nýja verðskrá sem átti að duga í heilt ár, en núna tveim mánuðum síðar þá neyðast þeir að hækka vörurnar hjá sér um heil 25%. 25% á tveim mánuðum gerir 150% á ársgrundvelli og það er hin raunverulega verðbólga í dag samkvæmt IKEA-vísitöluna. Ég ætla ekki alveg að mála skrattann á vegginn og segja að við eigum von á 150% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, en við eigum von á mikilli verðbólgu á næstunni, mun meiri en seðlabankastjóri sagði í dag.

Í dag eru Íslendingar að hætta að spara. Fyrir nokkrum árum þá var mikill áróður fyrir því að spara örursvo fólk gæti eignast varasjóð til að hafa að hlaupa upp á í ellinni eða þegar harðnar á dalnum. Núna þegar harðnað hefur á dalnum þá hefur fólk misst sinn sparnað vegna sukks í bankakerfinu. Fólk er búið að sjá að það borgar sig ekki að spara í dag og það er best að eyða peningnum sem maður þénar sem fyrst svo hann rýrnar ekki. Í dag er það þannig að ef fólk hefur hugsað sér að kaupa nýtt sjónvarp, ísskáp, myndavél eða heitan pott, þá er best að gera það strax. Þessar vörur eiga eftir að hækka mikið á næstu vikum.

Mitt ráð er, ef þið eigið pening, notið hann áður en hann fuðrar upp í verðbólgunni.


Hroki og út úr snúningur.

Það er stéttarfélagi eins og VR til vansa að hafa slíkan formann eins og Gunnar Páll Pálsson er. Að verkalýðsleiðtogi verji það sem Kaupþing gerði þegar þeir gáfu nokkrum valin kunnum starfsmönnum bankans 50 þúsund milljónir rétt fyrir gjaldþrot bankans og núna lætur verkalýðsformaðurinn verkalýðinn borga þessar 50.000.000.000 krónur úr eigin vasa og hann kann greinilega ekki að skammast sín þar sem hann ver gjörðir sínir, en hann var stjórnarmaður í Kaupþing og samþykkti að veita fjárglæframönnunum hjá Kaupþing sakauppgjöf. Ég segi bara við VR-menn, losið ykkur við þennan mann áður en hann skaðar VR meira.

Mér fannst Gunnar sína almenningi mikla vanvirðingu í Kastljósi í kvöld þegar hann sagði að hann bæri ekki ábyrgð á ástandinu í heiminum í dag. Það er nefnilega alveg rétt, en hann er einn af þeim sem ber ábyrgð á ástandinu á Íslandi í dag og það er grjótalvarlegt. Það að fjárglæframenn Íslands séu alltaf að kenna ástandinu í heiminum um kreppuna á Íslandi er út úr snúningur og hroki og þeir eru með því að benda alltaf á ástandið annarsstaðar að reyna að hvítþvo sig af gjörðum sínum. Þetta var ekki spurning um hvort heldur hvenær þessir menn myndu rústa efnahagnum á Íslandi og sem betur fer fyrir þá gerist það á sama tíma og slæmt ástand er í heiminum. Það má ekki heldur gleyma að margir telja að slæmt ástand í Evrópu sé að mörgu leyti íslensku fjárglæframönnunum að kenna. 

Að lokum legg ég til við Geir Haarde að hann gerir afgreiðslumanninn sem tók við 10.000 króna seðlinum og gaf til baka að seðlabankastjóra. Þessi afgreiðslumaður er sennilega eini Íslendingurinn sem hefur minna vit á peningum en Davíð Oddsson og fyrir það ætti hann að taka við stjórn Seðlabankans.


mbl.is Ekki hægt að taka aðra ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna er kominn tími á að blása aðeins!

Ég hef verið helv... latur við að blogga að undanförnu og tel ég það aðallega verið ástandinu í þjóðfélaginu að kenna. Ég hef ekki nennt að blogga eða lesa fréttir eða lesa bloggin hjá mínum traustu bloggvinum. En núna held ég að það sé kominn tími til að springa út. Ástæðan er sú að þessar nýju fréttir af kóngunum hjá Kaupþingi að þeir skulu fá klapp á bakið frá þjóðinni og verðlaunaðir með 50.000.000.000 króna (lesist 50 þúsund milljónir) starfsloka samning. Meira að segja þurfa margir þeirra ekki einu sinni að hætta að vinna til að fá þennan starfslokasamning.

Geir Haarde hefur verið duglegur að reyna að sannfæra þjóðina um að núna þarf þjóðin að standa saman og komast út úr þeim vandræðum sem hún er komin í og ekki sé tími til að leita að sökudólgum núna, heldur þarf að einbeita sér að því að vinna sig út úr vandanum. Þetta er að mörgu leyti rétt hjá honum, en samt spyr maður sig ætlar Geir sjálfur og Davíð meistari hans sjálfir að rannsaka hvað fór úrskeiðis og þeir hafa ekki tíma til þess núna? Ég vona svo sannarlega ekki vegna þess að þá finnast ekki sökudólgarnir. Það á fá menn erlendis frá til að koma hingað og rannsaka málið, ekki ólíkt því þegar nefnd frá Sameinuðu Þjóðunum fer til spilltra landa til að sjá til þess að kosningasvik séu ekki framin í kosningum. Ísland er gjörspillt land og virðist sem að örfáir menn telja sig eiga landið, það er Davíð Oddsson og þeir sem honum líkar við og þeir vilja auðvitað ekki að það komi fram hverjir það voru sem frömdu þann glæp að gera landið nánast gjaldþrota.

Ég veit ekki hvernig Davíð og co ætla að réttlæta þessa gjörðir Kaupþings að gefa gullkálfunum sínum 50 milljarða, en þeir munu reyna að réttlæta það. Það skal minna á að æðstustrumparnir hjá Kaupþing, þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurjónsson höfðu yfir 70 milljónir í laun hjá Kaupþing á mánuði, ég endurtek 70 milljónir á mánuði. Þegar þeir voru spurðir hvort launin væru ekki alltof há þá sögðu þeir ekki svo vera, þeir bæru svo mikla ábyrgð. Núna hefur það sést hversu mikla ábyrgð þeir bera, nákvæmlega enga, þeir hegðuðu sér líka eins og ábyrgðarlausir vitleysingar.

Hverjir bera skellinn á þessu fjármálafyllerí gullkálfanna, það er almenningur sem hefur ekkert gert af sér, almenningur sem hefur mætt í vinnuna sína fyrir smánarlaun ef miðað er við laun gullkálfanna. Almenningur sem hefur reynt að vera ábyrgt í fjármálum og lifað eftir efnahag sínum. Auðvitað hafa einhverjir misst sig aðeins, en vel flestir hafa lifað ábyrgu lífi og í mesta lagi keypt bíl á erlendu láni. Núna eru gullkálfarnir duglegir að kenna þessum almenna Íslending um að allt hafi farið á versta veg. Þeir hafa sagt að þar sem almenningur hafi farið með offorsi í kaupum á bílum, fellihýsum og flatskjáum þá er landið stórskuldugt og komið á vonarvöl vegna bruðlsins, en þeir nefna ekki einkaþoturnar, snekkjurnar eða stórhýsin um allan heim sem gullkálfarnir hafa verið að kaupa, eða afmælin og veislurnar sem þeir hafa haldið og fengið velþekkta skemmtikrafta til að skemmta sér. Það er hægt að nefna Elton John, 50 sent, Tom Jones svo einhverjir séu nefndir. Nei, það er almenningi að kenna að landið sé á hausnum.

Ég krefst þess að menn beri ábyrgð á gjörðum sínum og þeir menn sem hafa sökkt Íslandi í þetta fjármálavíti eiga að sæta ábyrgð, menn eins og bankastjórar gömlu bankanna, Bjarni Ármannsson, Hannes Smárason, Magnús Þorsteinsson. Þá eiga Geir Haarde og Davíð Oddsson líka að sæta ábyrgð. Davíð fyrir að bandvitlausa peningastefnu og Geir fyrir að leyfa Davíð að gera krónuna einskins virði. Þá þarf Geir að bera ábyrgð á því að leyfa bönkunum að vaxa svona mikið án þess að þeir geta það í raunveruleiknum.

Ég veit það að þegar þeirra tími verður liðinn þá verða Davíðs og Geirs minnst sem mannanna sem steyptu íslensku þjóðinni í glötun. Það er það eina sem kætir mig í dag.

Það eru ekki bara stjórnmálamenn og fjárglæframenn sem bera ábyrgðina, heldur líka fjölmiðlamenn og eftirlitsmenn sem eiga að hafa eftirlit með því að ekki sé hægt að steypa heila þjóð í glötun. Ég heyrði viðtal um daginn við einn blaðamann og hann sagðist að kreppan myndi hafa þær afleiðingar helstar fyrir hann að núna myndu kokteilboðunum og boðsferðunum fækka. Ég held að gullkálfunum hafi tekist að kaupa fjölmiðlamiðlana með feitum boðsferðum og kokteilpartýum. Þegar einhverjir fjölmiðlar hafa þorað að standa upp og reynt að upplýsa almenning um í hvað stefndi þá hafi gullkálfarnir bara hótað fjölmiðlunum þannig að þeir myndu hætta að auglýsa hjá þeim og þar með rífa stoðunum undan miðlinum og þar með tókst gullkálfunum að stjórna nánast allri umræðu um sig í fjölmiðlum, enda eiga þeir líka flesta fjölmiðlana.

Ein pæling að lokum, hvernig haldið þið að Orkuveita Reykjavíkur myndi standa í dag ef Hannesi Smárasyni og Bjarna Ármannsyni hefði tekist að stela Orkuveitunni frá Reykvíkingum? En þeir voru svo nálægt því.


Er komið 1975 aftur?

Það er eins og að árið 1975 sé runnið upp aftur, það er ansi margt líkt með ástandinu á Íslandi í dag og því sem var á árinu 1975. Hér er 5 atriði sem eru eins.

1. Forsætisráðherrann heitir Geir og er Sjálfstæðismaður.

2. Ísland og Bretar eiga í stríði.

3. Það ríkir óðaverðbólga á Íslandi.

4. Það eru gjaldeyrishöft á Íslandi.

5. ABBA og Vilhjálmur Vilhjálmsson eru í efsta sæti vinsældarlistans á Íslandi.


Í dag eru 6 mánuðir síðan Huginn dó.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að í dag eru 6 mánuðir síðan Huginn Heiðar dó, það er bæði svo stutt og langt síðan við vorum á Gjörgæsludeildinni að fylgjast með læknunum reyna að bjarga lífi hans, ekki í fyrsta skiptið en því miður í það síðasta.

Á síðustu 6 mánuðum höfum við þurft að byrja að fóta okkur í lífinu aftur og gengur það þokkalega. Ég tel að við höfum tekið rétta ákvörðun í lífinu eftir að Huginn dó. Í stað þess að falla í sorg og ásökun, þá höfum við hugsað um það sem við áttum og hvað við vorum heppinn að eignast svona yndislegan strák sem gaf okkur svo mikið. Hugins vegna og vegna allra þeirra vísbendinga sem við höfum fengið frá honum, þá getum við ekki annað en hugsað til hans með hlýju og þakklæti.

Regnbogi

Mynd sem ég tók af regnboganum í sumar. 

Síðan Huginn Heiðar dó þá eru nokkur lög sem mér finnst bara vera Hugins-lög. Til dæmis lagið "Má ég pússa regnbogann?" með Brimkló. Í allt sumar hefur regnbogi verið mjög áberandi og ótrúlega oft sem ég hef séð hann og hann hefur líka verið óvenju skýr á allt sumar, tel ég það sé vegna þess að það sé lítill engill þarna uppi sem sér um að pússa regnbogann. Í dag þegar ég var á leið heim úr vinnu sá ég ótrúlega sjón. Ég sá regnbogann sem er ekki í frásögu færandi, heldur sá ég upptök hans og enda, regnboginn náði frá heimilinu okkar og að kirkjugarðinum og hann var svo skýr og flottur og alveg heill. Maður getur ekki annað en sannfærst um að sá sem sér um að pússa regnbogann vandar sig við og leggur metnað sinn í að ég sjái hann.

Hægt er að hlusta á lagið, "Má ég pússa regnbogann?" hér til hliðar í tónlistarspilaranum.


Ég var klukkaður.

Ég hef að undanförnu þjáðst af krónískri bloggleti og er enn að berjast við það, til að tryggir lesendur bloggsins viti að ég er í fantaformi þá ætla ég svara klukkinu, en ég var klukkaður af af minnsta kosti tveim aðilum.

4 störf sem ég hef unnið:

Smíðar, sundlaugavörður, leigubílstjóri og skrifstofumaður.

4 bíómyndir sem ég held upp á:

My Cousin Vinny, Braindead, Casablanca og Serendipity.

4 staðir sem ég hef búið á:

Smáratún 31, Heiðarholt 28, Greniteigur 49 og 529 East Waterfront Drive Apt 3201 Pittsburgh.

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríi:

Pompei, Liechtenstein, London og Portúgal.

4 sjónvarpsþættir sem ég hef mætur á:

Apprentice, Simpsons, Áramótaskaupið og Landsbankamörkin.

4 vefsíður sem ég sæki oft:

fjolan.blog.is, mbl.is, barnaland.is/barn/23007 og keflvikingar.com

4 réttir í uppáhaldi:

Kjúklingur a la Fjóla, Grillmatur a la Fjóla, Kjúklingasalat a la Fjóla og Hamborgari frá Fuel & Fuddish í Pittsburgh.

4 staðir sem ég vildi vera á núna: 

Á sólarströnd, í Pittsburgh, á skemmtiferðaskipi í karabískahafinu, á leik með Keflavík í Meistaradeildinni!

4 bækur sem ég les oft:

Fótboltafélagið Falur, Handbók KSÍ, Íslensk Knattspyrna og dagbókina hennar Fjólu.

4 bloggarar sem ég klukka:

Magga Ö, Dellina, Fríða Kristbjörg og Ásdís Rán.


Ég blogga líka um Ramses.

Það hefur verið í tísku að undanförnu að blogga um hinn Keníska Paul Ramses, en ég hef ekkert verið að blogga um þetta mál þar sem ég veit að ég verð skotinn á kaf þar sem skoðanir mínar fara ekki alveg saman við bloggheiminn. Auk þess er ég hræddur um að skrifa um svona viðkvæmt mál þar sem það er fullt af fólki er tilbúið að misskilja orðin mín og túlka þau á þann hátt sem ég vil ekki.

Þess vegna ætla ég að blogga um Ramses faraó sem fjallað er um í tímaritinu Skakka Turninum. Það er mikið gert úr því að hann hafi átt 400 konur og 150 börn og það er látið hljóma einhvern veginn sem eitthvað afrek eða stórvirki. Mér þætti Ramses merkilegri ef hann hefði átt 150 konur og 400 börn. Þegar ég heyri þessa auglýsingu þá dettur mér maður í hug sem safnar bílum og geymir þá í vöruskemmu. Til hvers að eiga marga bíla ef maður getur ekki keyrt þá og notið þeirra? Miðað við að Ramses hafi einungis náð að eignast 150 börn með konunum 400 sýnir að hann var að safna konum frekar en að njóta þess að eiga líf með þeim og það gerir manninn í raun nauðaómerkilegan.


Af kurteisum börnum og öðrum börnum.

Í síðustu viku var ég á leið að Lúllinu hans Hugins, en það er rétt fyrir utan Keflavík á leiðinni út í Garð. Þegar ég keyrði út úr Keflavíkinni voru þar unglingar á puttanum, þar sem ég var hvorki á leið til Sandgerðis eða Garðs ók ég framhjá þeim og sá síðan í speglinum þar sem þeir senda mér ljóta puttann. Ég vissi ekki hvað ég átti að halda, sem betur fer eru þessir krakkar ekki lýsandi dæmi um ungu kynslóðina í dag. En ég held að þessum börnum veitti ekki af smá námskeiði í kurteisi.

Nokkrum dögum áður varð ég fyrir annari reynslu í sambandi við unga fólkið. Þannig var að ég sat í stofunni heima hjá mér og hafði það gott, þetta var í hádegishléinu hjá mér. Þá heyrðist mikill hávaði eins og eitthvað hafði lent í glugganum. Ég fór út og þar lá golfkúla á blettinum við gluggann. Fyrir aftan húsið er bara mói og klettar og þar voru engir kylfingar. Skömmu seinna er bankað á dyrnar hjá mér og þar standa tveir skömmustulegir piltar og biðjast afsökunar á að hafa skotið golfkúlunni í húsið og lýstu þeir fyrir mér hvað hafði gerst sem varð þess valdandi að kúlunni fór í ranga átt og í húsið. Að lokum spurðu þessir ungu menn mig hvort þeir mættu fá kúluna aftur og ég gat ekki neitað þeim um það, þar sem kurteisin og iðrunin var svo einlæg.


Verslunarmannahelgar-blogg.

Þá er maður kominn heim eftir smá verslunarmannahelgarferð. Við skötuhjúin skelltum okkur á Þingvöll og treystum vort heit. Við vorum ekki tvö ein þar, heldur voru ansi margir þar og meðal annars tveir bræður mínir og hluti af fjölskyldum þeirra. Við höfðum það gott þar, skelltum okkur í sund á Borg og rúntuðum um þjóðgarðinn, bæði á bíl og tveim jafnfljótum.

Á laugardagskvöldið var ég sendur til að kveikja upp í grillinu og þegar ég kom ekki til baka fór fólk að undrast um mig og fundu mig síðan í hörku umræðum við ókunnugan mann. Fólk varð heldur betur hissa þegar það kom í ljós að maðurinn sem ég var að tala við harður stuðningsmaður Skagamanna í fótboltanum og fyrrverandi leikmaður liðsins og fór vel á með okkur. Þar sannaðist það að óbeit mín á knattspyrnuliði Akraness snerist um Guðjón Þórðarson og syni hans sem hann kallaði kjúklingaskít. Ég held jafnvel að hörðustu Skagamenn viti um hvað ég hef verið að tala núna, þegar þeir eru loksins lausir við Guðjón og heyra hvernig hann talar um fyrrverandi leikmenn sína og félaga.


Ekki góð tímasetning!

tyrklandÞað má segja að þessar fréttir koma ekki alveg á góðum tíma, þar sem krónprinsinn er á leið til Tyrklands á morgun ásamt tengdadóttirinni. Ég hef aldrei talið Tyrkland gott land til að ferðast til, þar sem í landinu eru mannréttindi fótum troðin, trúarofstækismenn hafa ótrúleg völd og ótrúleg spilling viðgengst í landinu.

Þar sem sonur minn og tengdadóttir eru skynsöm og góð, þá efast ég ekki um að þau muni skemmta sér án afskipta tyrkneskra yfirvalda. Svo verða þau á ferðamannastað og þar ríkir víst önnur lög en annars staðar í landinu, þar sem Tyrkirnir græða svo mikið á ferðamönnunum og þess vegna vilja þeir að ekkert slæmt henti þá. En skítt með aðra landsmenn.


mbl.is Sprengjuárásir í Tyrklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband