Færsluflokkur: Íþróttir
Heimskasti fótboltamaður heims?
6.2.2008 | 12:32
Það er oft talað um að margir knattspyrnumenn stíga ekki beint í vitið, þessi frétt er enn eitt dæmið um hversu vel gefnir sumir fótboltamenn eru.
Maðurinn var að fara að ganga til liðs við eitt stærsta lið Englands með einum besta þjálfara heims, hann var að fara að skrifa undir stærsta samning lífs síns og það var lokadagur félagsskiptanna og allir eru í spreng að ljúka málinu, enda félagsskiptin að falla á tíma. Hvað gerir hinn bráðskarpi Benjani, hann sofnar á flugvellinum og sefur af sér tvær flugferðir og þegar hann loks vaknar þá hefur hann sofið af sér nýja samninginn og þær hundruð milljóna sem hann hefði átt að fá.
Sem betur fer fyrir Benjani þá eru skarpir menn hjá félögunum tveim, Manchester City og Portsmouth og þeim virðist hafa náð að bjarga málunum fyrir liðin og Benjani. En þvílíkur hálfviti er maðurinn að klúðra málunum svona og hann fær heiðurinn heimskasti fótboltamaður heims hjá mér.
Benjani fékk sér blund á flugvellinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Handboltinn er byrjaður. Púfff.
17.1.2008 | 21:22
Mikið er ég feginn núna að vera ekki "handboltafíkill", það er bara þannig að ég get ekki fundið spennuna yfir því að horfa á handbolta. Ég fylgist með flestum íþróttum, hef mjög gaman af fótbolta, er fótbolti íþróttin sem ég hef mestar mætur á. Auk þess fylgist ég ágætlega með körfuboltanum og líka með ameríska fótboltanum, en áhugi minn á þeirri íþrótt tengist nær eingöngu mínum mönnum í Pittsburgh Steelers.
Ég horfði samt á landsleikinn í sjónvarpinu í kvöld, aðallega vegna þess að ég er í minnihluta á heimilinu hvað varðar handboltaáhugann. Eins og svo oft áður þá varð ég ekkert spenntur yfir leiknum en hafði þeim mun meira gaman af lýsendunum og fannst þeir ekki vera mjög hlutlausir. Það var ótrúlegt að hlusta stundum á þá. Stundum mátti ekki koma við þá íslensku án þess að þeir fóru að kvarta yfir lélegri dómgæslu og í næstu sókn var brotið illa á Svíunum án þess að dómarinn dæmdi, en það þótti þeim ekkert athugavert. En svona eru íþróttirnar og eflaust eiga lýsendurnir að vera hlutdrægir þar sem þetta er nú íslenska landsliðið.
Svíar sigruðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Crystal Palace eru á fleygiferð upp í úrvalsdeild.
29.12.2007 | 20:49
Mínir menn í Crystal Palace er núna á fullri ferð upp í úrvalsdeildina eftir frekar slaka byrjun. Gengið hjá Palace var slæmt þar til að Peter Taylor var rekinn í byrjun október, en þá hafði Palace náð í 10 stig í 10 leikjum. Undir stjórn Neil Warnock sem var ráðinn í stað Taylors, hefur Palace spilað 15 leiki og náð í 27 stig og Þar af 23 stig í síðustu 9 leikjum, sem gerir 2,6 stig að meðaltali í leik. Síðan Warnock tók við liðinu hefur það farið úr fallsæti upp í 7. sæti deildarinnar.
Ekki nóg með að Palace spili mun betri fótbolta og eru á fullri ferð upp stigatöfluna, þá hefur Warnock verið duglegur að gefa ungu strákunum tækifæri og halda menn í Englandi varla vatni yfir unglingunum í Palace og sagt er að Palace hafi hafnað 8 milljón punda (992 milljónum íslenskra króna) tilboði frá Chelsea í hinn 15 ára John Bostock. Þá hafa mörg lið sýnt áhuga á að kaupa Victor Moses og Sean Scannell sem báðir eru 17 ára gamlir.
Ég skellti mér í morgun á Ölver, en þar mættu stuðningsmenn Crystal Palace til að horfa á þá sýna snilli sína gegn Sheffield United og auðvitað unnu Crystal Palace verðskuldaðan sigur 0-1. Það var mikil stemning á Ölver og var nokkuð góð mæting. Ég held að ekkert enskt lið hafi eins trygga stuðningsmenn á Íslandi og Crystal Palace, vegna þess að þegar Palace-leikur er sýndur á Ölver þá er yfirleitt um 70-90% mæting hjá stuðningsmönnum liðsins. Mér þætt gaman að sjá svona hátt hlutfall stuðningsmanna Liverpool mæta á pöbbinn til sjá leiki með þeim.
Að lokum vil ég óska Neil Warnock til hamingju með að vera valinn framkvæmdastjóri mánaðarins í desember. Þó að valið hafi ekki verið tilkynnt enn þá, þá kemur bara einn framkvæmdastjóri til greina.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég var nokkuð sannspár.
28.12.2007 | 20:27
Ég var að sýna enn einu sinni hversu sannspár ég er, en ég spáði Margréti Láru titillinn. Ég spáði að handboltamaður myndi lenda í öðru sæti, en hafði ekki réttan handboltamann. Ég sagði að Birgir Leifur myndi hafna í þriðja sæti en hann endaði í fimmta sæti. Ragna sem ég spáði í fjórða sæti hafnaði í þriðja sæti.
Það eina sem ég klikkaði á var að ég spáði Eiði Smára á topp 5 listann, en það var Jón Arnór sem var fimmti maðurinn á listanum, en hann endaði í fjórða sæti.
Spá mín og rökstuðingur minn fyrir valinu:
1. sæti. Margrét Lára Viðarsdóttir. Hún verður valin af því að svo margir vorkenna henni eftir að hún var ekki valin best á Íslandsmótinu í haust og það uppistand sem varð í kringum það val er ástæða þess að hún fær titillinn í kvöld.
2. sæti. Guðjón Valur Sigurðsson. Það er alltaf handboltamaður á meðal tveggja efstu og ég held að Guðjón Valur sé líklegur til að fá flest atkvæði handboltamannanna.
3. sæti. Birgir Leifur Hafþórsson. Hann endar í þriðja sæti vegna þess að hann hefur verið duglegur að auglýsa sig og sinn "góða" árangur, þó flestar fréttirnar hafa verið um að hann hafi næstum því komist á aðalkeppnina þá tryggir öflugur fréttaflutningur honum 3ja sætið.
4. sæti. Ragna Ingólfsdóttir. Það verður allt brjálað ef bara ein kona verður á topp 5 listanum. Ragna er líklegust til að verða hin konan.
5. sæti. Eiður Smári Guðjohnsen. Hann fær 5 sætið vegna þess að hann er hjá Barcelona og æfir fótbolta með svo góðum mönnum. Það skiptir litlu þó hann sé varamaður.
Margrét Lára íþróttamaður ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Almunia á ekkert erindi í enska landsliðið.
25.12.2007 | 23:20
Ég skil ekki þennan orðróm um að það ætti að velja Almunia í landsliðið á næsta ári þegar hann gæti orðið gjaldgengur með enska landsliðinu. Það er ekki að ástæðulausu að Spánverjar hafa aldrei séð ástæðu til að velja hann í spænska landsliðið. Hann er einfaldlega ekki í neinum landsliðsklassa.
Það er rétt sem Wenger segir að Almunia hafi ekki verið með neina ferilskrá þegar hann kom til Arsenal, en hann er bara að spila vegna þess að hann er skásti markmaðurinn hjá félaginu. Jens Lehman hefur haldið Almunia út úr hópnum á undanförnum árum, en eftir skelfileg mistök hvað eftir annað í haust neyddist Wenger að setja Almunia í liðið. Arsenal hefur verið að spila frábærlega að undanförnu og eru efstir í deildinni, en það segir ekki að markmaðurinn þeirra sé besti markmaðurinn í deildinni. Þetta er dálítið sem hefur einkennt íslenskan hugsunarhátt að velja alltaf markmanninn í besta íslenska liðinu í landsliðið. Tveir síðustu varamarkmenn Íslands hafa verið Kristján Finnbogason sem var í landsliðinu þegar KR var upp á sitt besta og síðan FH hafa verið í toppbaráttunni var Daði Lárusson valinn, en ég tel Daða vera einn slakasta markmanninn í Landsbankadeildinni.
England hefur verið í markmannskrísu undanfarin ár og hefur mér fundist fáránlegt tryggð og trú McLaren á Paul Robinson, þrátt fyrir fáránleg mistök hvað eftir annað, þá var hann með áskrift að landsliðssætinu. Að mínu mati eru bestu ensku markmennirnir David James og Robert Green og þeir eiga að fá tækifæri með Englandi, mun frekar en Almunia.
Almunia til í að spila fyrir England | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frábær leikur hjá Englendingum.
13.12.2007 | 20:58
Það lítur út fyrir að Enska knattspyrnusambandið sé að ráða fremsta knattspyrnuþjálfara í heimi til að stjórna enska landsliðinu. Capello á frábæran þjálfaraferil að baki með Milan, Juventus, Roma og Real Madrid og hefur gert öll þau lið sem hann hefur þjálfað að meisturum. Hann varð Ítalíumeistari sem þjálfari 1992, 1993, 1995, 1996 og 2001. Hann varð ítalskur bikarmeistari 1992, 1993, 1994 og 2001. Hann varð Spánarmeistari 1997 og 2007. Hann vann meistaradeildina 1994 með Milan þegar þeir unnu Barcelona í einum besta knattspyrnuleik sögunnar. Milan varð síðar það ár meistari meistaranna í Evrópu.
Capello á líka frábæran knattspyrnuferil að baki en hann spilaði á ferli sínum með SPAL, Roma, Juventus og Milan. Sem leikmaður varð hann Ítalíumeistari 1972, 1973, 1975 og 1979 og varð ítalskur bikarmeistari 1969 og 1977. Þá lék Capello 32 landsleiki fyrir Ítalíu.
Það eru margir sem segja að Englendingar eigi að ráða enskan þjálfara. Það eru rök sem ég skil að úr því að leikmennirnir þurfi vera að Englendingar, af hverju þarf þjálfarinn ekki að vera það? En ef Englendingar vilja ná árangri þá er viturlegast að ráða erlendan þjálfara. Það hefur sýnt sig að enskir þjálfarar hafa ekki náð góðum árangri hvorki með landslið né félagslið á undanförnum áratugum. Núna eru komin 15 ár síðan enskur þjálfari vann enska meistaratitillinn, en það gerðist síðast 1992 þegar Howard Wilkinson gerði Leeds að enskum meisturum. Sven Göran Erikson er sá þjálfari sem hefur náð bestum árangri með enska landsliðið í langan tíma og hann er líka fyrsti og eini landsliðsþjálfari Englands sem ekki er enskur, þangað til núna.
Englendingar er góð knattspyrnuþjóð með marga frábæra leikmenn, helsti galli Englendinga er að þeir halda að þeir séu bestir í fótbolta, en það er ekki rétt. Þess vegna held ég að það sé sterkur leikur að ráða útlending og ekki er verra að það sé Fabio Capello. Capello er nefnilega rétti maðurinn til að koma Englendingum í skilning um að ef þeir vilja vera bestir þá þurfa þeir að vinna fyrir því.
Ráðning Capellos staðfest með fyrirvara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Pittsburgh Steelers í beinni í kvöld.
9.12.2007 | 15:58
Loksins, loksins er sýndur leikur með Pittsburgh Steelers í sjónvarpinu í kvöld. Ég er búinn að bíða lengi eftir að fá sjá leiki með þeim í vetur og loksins í kvöld gerist það. Steelers hefur spilað vel í vetur og eru búnir að vinna 9 leiki af 12 og síðustu 6 leikir þeirra hafa endað með sigri. En andstæðingarnir í kvöld eru ekki af verri endanum, New England Patriot sem hafa unnið alla 12 leiki tímabilsins og velflestir sem fylgjast með NFL-deildinni telja að New England sé algjört yfirburðarlið í deildinni og fátt mun koma í veg fyrir að þeir vinni Ofurskálina í vetur.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afmælisbarn dagsins: Eddie "The Eagle"
5.12.2007 | 12:03
Í dag á afmæli Eddie "The Eagle" Edwards, hann er fæddur 5. desember 1963 og er því 43 ára gamall. Eddie er þekktastur fyrir skíðastökk sín en hann keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Calgary í Kanada 1988. Eddie varð ekki frægur fyrir hæfileika sína í skíðastökki, heldur frekar vegna takmarkaðra hæfileika í íþróttinni. Hann var mun þyngri en aðrir keppendur á Ólympíuleikunum, þó hann hafi líka verið meðal þeirra lágvöxnustu. Síðan var hann mjög nærsýnn sem háði honum mikið. Hann hafði heldur engan þjálfara, heldur sá hann alveg um að þjálfa sig sjálfur þó hann hafði enga kunnáttu í þeim efnum. Ekki varð það til að bæta árangurs hans að hann var mjög lofthræddur.
Áður en Eddie lagði skíðastökkið fyrir sig starfaði hann sem múrari, hann tók þátt í sínu fyrsta stórmóti 1987, heimsmeistaramótinu í skíðastökki og hafnaði í síðasta sæti og eftir það var hann settur á heimslistanum og þar sem hann var eini breski keppandinn, þá dugði það til að hann kæmist á Olympíuleikana 1988. Þar hafnaði hann í síðasta sæti bæði af 70 og 90 metra palli, en þrátt fyrir það þá varð hann gríðarlega vinsæll og var sennilega vinsælasti keppandinn á þeim leikum. Í ræðu á lokaathöfn leikanna sagði forseti leikanna; "At this Games some competitors have won gold, some have broken records and one has even flown like an eagle." Við þessi orð brutust út gríðarleg fagnaðarlæti meðal um 100.000 áhorfanda sem fylgdust með lokaathöfninni og kölluðu nafn hans "Eddie!, Eddie!..." Var þetta í fyrsta sinn í sögu Olympíuleikanna sem einstakur keppandi er nefndur í lokaræðu Olympíuleikanna. Þrátt fyrir að vera seint talinn til betri skíðastökkvara í heimi er hann besti skíðastökkvari sem Bretar hafa átt og á Eddie fjölmörg bresk met í skíðastökki. Ólíkt flestum öðrum íþróttamönnum, þá varð Eddie vinsælli og vinsælli eftir því sem hann stóð sig verr.
Árið 1990 breytti Alþjóða Olympíunefndin reglunum um keppni í skíðastökki, sem gerðu mönnum erfiðara með að vinna rétt til að keppa á leikunum, þessar reglur hafa síðan verið kallaðar "Eddie The Eagle Rule". Í kjölfarið tókst Eddie ekki að vinna sér sæti á Olympíuleikunum 1992, 1994 og 1998.
Eddie gaf út nokkur lög og það þekktasta var "Fly Eddie Fly" sem komst á top 50 lá breska vinsældarlistanum. Þá söng hann líka nokkur lög á finnsku, þrátt fyrir að kunna ekki orð í málinu. Þá gaf Eddie bæði út bók og myndband.
Væntanleg er bíómynd um ævi Eddie, sem heitir "Eddie The Eagle". Með hlutverk Eddie fer Steve Coogan, Eddie var ekki alveg sáttur við að Coogan ætti að leika hann, hann taldi betra að Tom Cruise eða Brad Pitt færi með hlutverkið.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tvöfaldur misskilningur.
17.11.2007 | 09:26
Ekki nóg með það að Kári hafi misskilið það að hann væri kominn í landsliðið þegar KSÍ faxaði til AGF að hann þyrfti að vera viðbúinn því að vera valinn í landsliðið. Heldur er líka misskilningur hjá honum að halda að hann sé besti varnartengiliður Íslands. Það er allt í lagi og gott að vera með mikið sjálfstraust, en menn verða að vita hvenær þeir eiga að þegja og hugsa í hljóði. Kári þú ert ekki besti varnartengiliður Íslands.
Misskilningur hjá Kára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fáránlegar reglur.
10.11.2007 | 06:43
Það er ágætt að svona mál koma upp af og til, sem sýna hvað margt er óeðlilegt boltanum. Í þessu tilfelli er Burnley í mjög slæmri stöðu þar sem þeir mega ekki gera atvinnusamning við Cofie, þar sem hann er barn og má ekki samningsbinda sig fyrr en hann er orðinn 17 ára. Aftur á móti þá má hann hafa umboðsmann og þeir eru ansi duglegir að rugla í leikmönnum og foreldrum þeirra þegar barn á í hlut.
Simon Jordan eigandi Crystal Palace hefur verið duglegur að gagnrýna þetta fáránlega fyrirkomulag, þar sem barn má hafa umboðsmann en ekki gera atvinnusamning. Gott dæmi er John Bostock leikmaður Crystal Palace, hann er fæddur 1992 og er þegar búinn að vinna sig inn í byrjunarlið liðsins. Hann má ekki gera atvinnusamning fyrr en hann er orðinn 17 ára eða eftir tvö ár. Samt er hann búinn að vera með umboðsmann í nokkur ár, hann komst í fréttirnar í fyrra þegar Arsenal, Chelsea og Barcelona fóru að rífast um hann, en liðin gleymdu að hann er Palace maður og þar sem Palace telst lítið félag þá eru stóru liðin farin að eigna sér hann. Bostock er uppalin hjá Palace og hefur verið hjá þeim síðan hann var 7 ára.
Eins og staðan er núna og til dæmis Chelsea vill fá Bostock þá getur Palace ekkert gert til að koma í veg fyrir það. Chelsea gæti samið við umboðsmanninn í dag og Bostock væri farinn til þeirra á morgun, Palace ætti rétt á einhverjum uppeldisbótum sem yrðu sennilega um 500.000 pund. Það eina sem Palace gæti gert ef Bostock myndi semja við Chelsea er að reyna að fara samningaleiðina til að fá sem mest fyrir hann, það er það sem Burnley hefur sennilega gert í sambandi við Cofie. Ekki gagnrýna Burnely fyrir að selja hann, gagnrýnið þessar fáránlegu reglur um að ungir leikmenn mega hafa umboðsmenn, en ekki gera atvinnusamning.
Update. Á heimasíðu Burnley segir frá því að Cofie hafi neitað að mæta á æfingu hjá Burnley í vikunni og sagt þeim að hann myndi ekki mæta aftur á æfingu hjá þeim. Þess vegna hafi Burnley neyðst til að selja Cofie. Spurningin er, hvernig stendur á því að 14 ára barn sýni svona hörku í viðskiptum. Ég held að það sé vegna þess að umboðsmaður hans hafi séð meiri peninga hjá Manchester United. Umboðsmaður er ekki endilega að hugsa um velferð leikmannsins, hann er meira að hugsa um hvað hann hefur út úr honum.
Man.Utd. kaupir 14 ára strák frá Burnley | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)