Færsluflokkur: Bloggar

Er Ástþór versti kosturinn sem næsti forseti?

Það er allt að verða vitlaust í þjóðfélaginu vegna þess að Ástþór Magnússon er búinn ákveða að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins. Er það samdóma álit allra að Ástþór eigi ekkert erindi í forsetakosningar, þó ótrúlegt megi telja þá er Ástþór með óflekkað mannorð og er ekki á sakaskrá. Ástæðan er sú að oftast þegar hann hefur verið fyrir rétti þá er hann að lögsækja aðra. Hvernig stendur á því að sami jólasveinninn getur boðið sig fram til embættisins í kosningu eftir kosningu án þess að fá eitthvað fylgi svo hægt er að tala um.

Ég er á því samt að Ástþór Magnússon sé ekki versti kosturinn í forsetaembættið og er ég búinn að gera topp 5 lista yfir verstu hugsanlegu forseta lýðveldisins.

5. Georg Bjarnfreðarson

4. Bobby Fischer.

3. Ástþór Magnússon

2. Árni Johnsen

1. Geir Ólafs


Afmælisbarn dagsins: -Mummi Guð.

nullAfmælisbarn dagsins að þessu sinni er Mummi Guð eða öðru nafni Guðmundur Bjarni Guðbergsson. Hann eða öllu heldur ég fæddist þann 3. janúar 1968 og er því 40 ára í dag. Á næstu dögum, vikum og mánuðum þarf ég að sanna að allt er fertugum fært svo það er vissara fyrir ykkur gott fólk að vera ekki á vegi mínum.

 

 

Aðrir merkilegir menn sem fæddust þennan dag eru:

J.R.R. Tolkien, breskur rithöfundur (1892)

Victor Borge, danskur skemmtikraftur (1909)

Victoria Principal, bandarísk leikkona (1950)

Mel Gibson, ástralskur leikari (1956)

Michael Schumacher, þýskur kappakstursmaður (1969)

Sigmar Vilhjálmsson, Simmi og Jói (1977) 

Lee Bowyer, enskur fótboltamaður (1977)


Af hverju eiga björgunarsveitirnar að hafa einokun á sölu flugelda?

Eitt heitasta bloggmálið um þessi áramót var um flugeldasölu og hverjir eiga að fá að selja flugelda. Það eru flestir sammála um að björgunarsveitirnar ættu að fá að sitja að flugeldasölunni einir og þegar fólk kaupir flugelda af björgunarsveitunum þá eru þeim peningum vel varið. Það er staðreynd, en á það að gefa björgunarsveitunum rétt á einokunarsölu á flugeldum?

Mitt mat er að það eigi að hafa flugeldasölu frjálsa, eins og hún er í dag. Ég hef nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun. Í fyrsta lagi finnst mér óþarfa boð og bönn röng. Síðan snýst þetta líka um peninga og verðlagningu á flugeldum. Ég veit um dæmi um að manneskja verslaði við einkaaðila vegna þess að það var mun ódýrara. Þó flestum munar ekki um að borga þúsund krónum meira fyrir fjölskyldupakkann, þá munar það fyrir suma og hann getur munað því hvort að fólk geti keypt eitthvað fyrir börnin sín eða að þau þurfi að eyða gamlárskvöldinu í að sjá aðra skjóta upp.

Það er sífellt tönglast á því að þetta sé nánast eina tekjulind björgunarsveitanna og það er rétt, mér finnst að það ætti að breyta því. Á gamlársdag (eða daginn áður) var viðtal við einhvern háttsettann mann hjá VÍS í sjónvarpinu þar sem hann talaði um það tjón sem VÍS þyrfti að bera vegna óveðursins og talaði um það í hundruðum milljóna, af hverju talaði hann ekki um hversu mikið björgunarsveitirnar spöruðu VÍS og af hverju greiða tryggingafélögin ekki björgunarsveitunum fyrir svona verk, þar sem verið er að spara tryggingafélögunum stórfé.

Á milli jóla og Nýárs fór björgunarsveit í mjög erfiðan leiðangur upp á Langjökul til að bjarga fólki sem var í vandræðum þar. Þrátt fyrir brjálaða veðurspá þá fór þetta fólk í þessa ferð, svona aðeins til að skemmta sér! Af hverju er þetta fólk eða tryggingar þeirra ekki látin greiða fyrir kostnað af björguninni, þó ekki sé nema fyrir brot af því svo þetta fólk fái smá nasaþef af þeim kostnaði sem svona björgun er.

Af hverju á maður eins og ég að styrkja björgunarsveitirnar? Ég er ekki jeppakarl eða veiðikarl, fer ekki á sjó og þegar það kemur vont veður þá vil ég vera heima undir sæng. Á þeim rúmlega þrjátíu árum (*hóst hóst*) sem ég lifað þá hef ég aldrei þurft á aðstoð björgunarveitar að halda (7-9-13). Hvers vegna ætti ég að styrkja einhver samtök eða félög sem ég nota ekki ?

Til að koma í veg fyrir misskilning þá ber ég mikla virðingu fyrir bjögunarveitum landsins og þeim störfum sem þau vinna og þrátt fyrir þessi orð mín þá hef engan áhuga á að versla flugelda af einkaaðilum. Það sem ég er að segja að ég skil ekki þennan hugsunarhátt að það megi ekki senda reikning til þeirra sem ana upp á fjöll í brjáluðu veðri og illa búnir og þurfa síðan að láta björgunarsveitirnar bjarga sér. Fólk fær sendan reikning ef það þarf að flytja það á sjúkrahús með sjúkrabíl, er þetta eitthvað öðruvísi?

Varðandi flugeldasöluna, þá væri frekar ráð að koma með nýjar tillögur til að styrkja björgunarsveitirnar á þeim markaði, til dæmis með því að leggja niður innflutningsgjöld og virðisaukaskatt af flugeldum til björgunarsveitanna. Þá stæðu björgunarsveitirnar mun betur í samkeppni við einkaaðilann og gæti haft hærri álagningu til að styrkja reksturinn betur. Jafnframt gæti þá einkaaðilinn verið á markaðinum og veitt björgunarsveitunum smá aðhald.


Árið 2007 gert upp.

Ég vil óska öllum gleðilegs nýs árs og vona að næsta ár verður öllum gott. Farið varlega yfir áramótin og njótið þeirra í botn. Ég þakka öllum fyrir árið sem var að líða.

Að lokum ætla ég að setja inn smá uppgjör, þar sem árið 2007 er gert upp.

Hetja ársins: Engin spurning, það er Huginn Heiðar Guðmundsson og systkini hans.

Skip ársins: Grímseyjarferjan.

Súlustaður ársins: Viðey. 

Útihátíð ársins: "Ein með öllu" á Akureyri sem var bönnuð yngri en 23 ára.

Íslandsvinir ársins: Þeir sem ætluðu að mæta á klámráðstefnuna.

Mark ársins: Markið sem Marcus Allback gerði gegn Íslandi með dyggri aðstoð Ívars Ingimarssonar.

Sannleikur ársins: Þegar Breiðuvíkurmálið kom upp. 

Misnotkun ársins: Þegar femínistar misnotuðu jólasveininn til að koma vafasömum boðskap á framfæri. 

Innkaupaferð ársins: Þegar Erla Ósk Arnardóttir Lillendahl  skellti sér í innkaupaferð til New York.

Framkvæmdir ársins: Sólpallurinn hjá okkur.

Bruni ársins: Þegar bílafloti Ragnars Óskar Magnússonar brann í Vogum. 

Einvígi ársins: Barátta Paris Hilton og Britney Spears um fjölmiðlaathygli. Paris hafði mikla yfirburði til að byrja með, en Britney brustaði hana síðan með miklu yfirburðum seinni hluta ársins. 

Klámhundur ársins: Guðmundur í Byrginu. 

Heitasti ferðastaður ársins: Kenía, eftir að farið var að bjóða upp á kynlífsferðir fyrir konur þangað.

Þráhyggja ársins: Geir Ólafs að reyna að fá Nancy Sinatra til Íslands. 

Sjónvarpsþáttur ársins: Næturvaktin.

Minnisstæðasti dagur ársins: 6. janúar. Dagurinn sem Huginn dó og var lífgaður við. 

Einelti ársins: Þjóðhátíðarnefndin lagði Árna Johnsen í einelti og leyfði honum ekki að vera kynnir.

Viðskipti ársins: Þegar ég keypti Dodge-inn.

Lygi ársins: Þegar feðgarnir Bjarni og Guðjón Þórðarson reyndu að telja þjóðinni trú um að markið hjá Bjarna hafið verið óhapp.  

Brandari ársins: Saving Iceland. 

Klúður ársins: Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík (klámráðstefnan, bjórkælirinn, spilakassamálið, REI og Orkuveitan og það má lengi halda áfram upptalningunni).

Stofnun ársins: Tryggingastofnun fyrir að senda okkur svona marga pakka. 

Smekkleysa ársins: Jólakort femínistafélagsins. 

Ekki stofnun ársins: Sjúkrahúsið í Keflavík fyrir ömulega þjónustu gagnvart Hugin Heiðari.

Andlát ársins: Hundurinn Lúkas.

Stjórnmálamaður ársins: Jóhanna Sigurðardóttir vegna baráttu hennar fyrir bættum kjörum langveikra barna.

Ráðning ársins: Þegar Peter Taylor var rekinn frá Crystal Palace og Neil Warnock ráðinn í hans stað. 

Skyndibiti ársins: 26 árið í röð, einn sveittur hjá Villa með öllu.  

Björgun ársins: Þegar Rósu hans Ómars var bjargað úr Hálslóni.

Pabbastrákur ársins: Þorsteinn Davíðsson þegar hann var ráðinn í Héraðsdóm Norðurlands Eystra. 

Heimasíða ársins: Heimasíðan hans Hugins Heiðars. 

Sigling ársins: Þegar Pólstjarnan kom til landsins. 

Kynþáttahatari ársins: Tinni. En bækurnar um Tinna voru bannaðar í nokkrum löndum þar sem hann var sakaður um kynþáttafordóma.

Sekt ársins: Þegar ég fékk umferðarsekt senda til mín eftir að ég hafði verið stoppaður 11 mánuðum áður fyrir meintan ólöglegan hraða. 

Viðgerð ársins: Þegar Benzinn minn fór í viðgerð vegna bilaðs startara og ég fékk hann til baka nýsprautaðann.

Lífsreynsla ársins: Þegar sjónvarpsfjarstýringin bilaði.

Barnsfaðernismál ársins: Mandy sú þýska fór í mál við 8 menn til að fá úr því skorið hver þeirra væri faðir barns hennar, hún svaf hjá þeim öllum sama kvöldið. 

Sveitarfélag ársins: Reykjanesbær, fyrir að vera svona fjölskylduvænn. 

Högg ársins: Þegar danska fótboltabullann sló dómarann.

Nefnd ársins: Barnaverndarnefnd fyrir að senda mér bréf um að ég sé hæfur faðir, eftir að ég hafði fengið ómaklega kæru fyrir vanrækslu frá hefndarfullum manni. 

Knattspyrnumaður ársins: Gunnar Gestur Geirmundsson fyrir ótrúlega knatttækni. 

Múgæsing ársins: Þegar ungur maður var sakaður um að myrða hundinn Lúkas. 

Blogg ársins: Þú ert að lesa það. 

Fall ársins: Kalli Bjarni.

Íslendingur ársins: Lucia Celeste Molina Sierra, tengdadóttir Jónínu Bjartmarz.

Starfsmaður ársins: Starfsfólk Barnaspítala Hringsins, eins og það leggur sig.

Maður ársins: Fjólan mín.


Íþróttamaður ársins 2007. -Mín spá.

Í kvöld verður tilkynnt hver hefur verið valinn íþróttamaður ársins 2007. Eins og svo oft áður þá er mikil spenna um hver verður fyrir valinu, ég ætla að koma með mína spá um hvernig kosningin hefur farið:

1. sæti. Margrét Lára Viðarsdóttir. Hún verður valin af því að svo margir vorkenna henni eftir að hún var ekki valin best á Íslandsmótinu í haust og það uppistand sem varð í kringum það val er ástæða þess að hún fær titillinn í kvöld.

2. sæti. Guðjón Valur Sigurðsson. Það er alltaf handboltamaður á meðal tveggja efstu og ég held að Guðjón Valur sé líklegur til að fá flest atkvæði handboltamannanna.

3. sæti. Birgir Leifur Hafþórsson. Hann endar í þriðja sæti vegna þess að hann hefur verið duglegur að auglýsa sig og sinn "góða" árangur, þó flestar fréttirnar hafa verið um að hann hafi næstum því komist á aðalkeppnina þá tryggir öflugur fréttaflutningur honum 3ja sætið.

4. sæti. Ragna Ingólfsdóttir. Það verður allt brjálað ef bara ein kona verður á topp 5 listanum. Ragna er líklegust til að verða hin konan.

5. sæti. Eiður Smári Guðjohnsen. Hann fær 5 sætið vegna þess að hann er hjá Barcelona og æfir fótbolta með svo góðum mönnum. Það skiptir litlu þó hann sé varamaður.


Ég er búinn að hafa það fínt. Takk fyrir....

Núna eru jólafrídagarnir búnir og kominn tími á að koma sér í daglega lífið, að minnsta kosti fram á helgi og þá byrjar áramóta fríið. Ég er búinn að hafa það stórfínt um jólin og hef verið duglegur að borða og nota sumar af jólagjöfunum sem ég fékk, sérstaklega þeim sem heita DVD. Ég er hæstánægður með jólagjafirnar sem ég fékk og núna hefst upptalning á jólagjöfum sem ég fékk eins og tíðkast á bloggsíðum hjá unglingum. Enda er ég ennþá unglingur rétt rúmlega þrítugur eða nákvæmlega 39 ára og 358 daga gamall. Ég fékk Steffi dúkku í jólagjöf og fylgdi kafarabúningur henni, ekki spyrja um hvernig stendur á þeirri jólagjöf! Þá rættist gamall draumur þegar ég fékk hinn stór góða geisladisk Thriller með Michael Jackson í jólagjöf.

Aðfangadagur er líka góður dagur fyrir þær sakir að þá kemst maður oft að því hvað er að í sambandinu sínu og ég komst að því að Fjólan er orðin leið á að horfa á Laugardagslögin á RÚV með mér, en ég hef varla mátt missa af þætti hingað til og það er ekki vegna þess að mér finnst Laugardagslögin svona góður þáttur, heldur vegna þess að ég vil fyrir engan mun missa af Hrútnum Hreini sem er á milli Laugardagslaganna. En Fjóla gaf mér Hrútinn Hrein á DVD.

Ég skellti mér í jólaboð á jóladag í Hornbjarg og fór Huginn Heiðar líka, en hann hefur ekki komist í veislu síðan fyrir stóru aðgerðina í maí 2004. Var það frábært að geta loksins mætt á meðal fólks með alla fjölskylduna. Í gær kom síðan smá umfjöllun um stóru hetjuna mína á vísi.is og hvet ég alla til að sjá Gullrassinn á mynd og hægt er að sjá hana hér.

Í dag fórum við með Hugin í Rjóðrið og verður hann þar til laugardags, við notuðum aðeins tímann til að fara í smá búðarrölt í Reykjavíkinni, án þess að ná að versla eitthvað. En við nutum dagsins og það skiptir öllu máli og það að við keyptum áramótasteikina, þó við séum ekki búnir að fá hana. Núna ætla ég ekki að blogga meira í kvöld, ætla að fá mér kók og MacKintosh's og horfa á Hrútinn Hrein.


Afmælisbarn dagsins: -Andrea Absolonová

Andrea AbsolonováAndrea Absolonová fæddist í gömlu Tékkóslóvakíu þann 26. desember 1976. Andrea vakti fljótlega mikla athygli fyrir afrek sin í dýfingum, en ferill hennar skaðaðist mikið þegar hún varð fyrir alvarlegu slysi þegar hún var að undirbúa sig fyrir Olympíuleikana í Atlanta 1996. Andrea sýndi undraverðan kraft þegar hún náði að hefja keppni aftur í dýfingum og reyndi hún að komast á Olympíuleikana í Sydney árið 2000, en náði ekki því ekki og kjölfarið hætti hún að æfa og keppa í dýfingum.

Andrea vakti mikla athygli fyrir útlit sitt og hóf hún að sitja fyrir eftir að stuttum íþróttaferli lauk. Hún náði ekki að höndla hefðbundin fyrirsætustörf og hóf að sitja fyrir nakin og síðar hóf hún leik í klámmyndum, fyrst i Bandaríkjunum og síðar í heimalandi sínu Tékklandi. Andrea tók upp nafnið Lea De Mae á meðan hún starfaði í klámiðnaðinum og náði hún töluverðum frama þar og var meðal annars tilnefnd til AVN-verðlaunanna 2004 sem besti erlendi kvenleikarinn.

Ferill Andreu í klámiðnaðinum varð ekki heldur langur, því í júlí 2004 greindist hún með krabbamein í heila og þann 9. desember sama ár lést Andrea eftir hetjulega baráttu við krabbameinið, 17 dögum fyrir 28 afmælisdaginn sinn.

Líf Andreu Absolonová fór töluvert öðruvísi en það leit út fyrir að verða. Andrea var frábær íþróttamaður og átti bjarta framtíð þegar hún slasast, við þetta slys breytist allt líf hennar og hin glæsta framtíð verður að martröð.


Jólakveðja.

Ég vil óska öllum bloggvinum mínum og öllum þeim sem hafa villst inn á bloggið mitt á árinu gleðilegra Jóla og takk fyrir samskiptin og vináttuna á árinu.

Ég vil setja inn eitt myndband hér inn, en það er eiginlega skylda að horfa á þetta myndband fyrir jólin svo hægt sé að komast í jólaskap.


Dálítið fyrir þá sem vilja komast í jólaskap.

Ég ákvað að setja inn hina einu sönnu Kók jólaauglýsingu, þar sem svo margir segjast ekki komast í jólaskap fyrr en þeir séu búnir að heyra og sjá auglýsinguna.

 


Afmælisbarn dagsins: -Fjólan.

Ég vil óska afmælisbarni dagsins innilega til hamingju með daginn. En það er Fjólan mín sem á afmæli í dag. Fjóla tekur á móti afmæliskveðjum á heimasíðu sinni.

Til hamingju með daginn ástin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband