Útförin.
8.4.2008 | 23:33
Á morgun er vika síðan útför Hugins Heiðars var gerð. Það er ótrúlegt hvað maður þarf að standa í þegar ættingi deyr. Ég hef verið svo gæfusamur að hafa ekki misst mjög náinn ættingja áður og kunni því ekkert til verka, sem betur fer. Þannig var þegar Huginn dó þá ákváðum við að hafa jarðaförina eins og við vildum hafa hana og ekki fara eftir því hvernig aðrir hafa haft jarðafarir eða töldu hvernig við áttum að hafa hana, þó við hlustuðum á öll ráð. Við byrjuðum á að tala við prestinn okkar hann sr. Vigfús Bjarna sjúkrahúsprest á Barnaspítalanum og báðum hann að sjá um athöfnina og var það ekkert mál. Næsta mál var að ráða úrfaraþjónustu og völdum við Útfararþjónustuna ehf. og sáum við ekki eftir því.
Við ákváðum strax að hafa erfidrykkju og þó að margir hefðu sagt okkur að það væri óþarfi og bruðl. En við vorum ákveðin í því að hafa erfidrykkju og töldum okkur hafa þörf fyrir hana, við vildum hitta fólkið sem gaf sér tíma til að kveðja Hugin og við töldum að við þyrftum á öllum stuðningi á að halda þennan dag og ég þakka fyrir að við skyldum halda því til streitu þar sem erfidrykkjan hjálpaði mér mikið. Við vildum líka eiga myndir frá athöfninni og við vildum ekki biðja neinn um að taka myndir fyrir okkur og höfðum við því samband við atvinnuljósmyndara sem kom og tók myndir í kirkjunni og í kirkjugarðinum á eftir.
Við vildum líka hafa fallegan tónlistarflutning og töluðum við því frændurnar hennar Fjóla, Álftagerðisbræður og komu þeir og sungu fallega fyrir Hugin og okkur. Við völdum lögin gaumgæfulega. Sum lögin höfðum við ákveðið fyrir löngu síðan önnur ákváðum við eftir að Huginn dó. Lögin sem voru sungin í kirkjunni voru, Í bljúgri bæn, Snert hörpu mína, Þú styrkir mig (You raise me up), Dvel ég í draumahöll (úr Dýrunum í Hálsaskógi), Kveðja (Sól að morgni eftir Bubba) og sofðu unga ástin mín. Tókst þeim bræðrum frábærlega upp eins og þeim er von og vísa.
Við óskuðum eftir þvi að bara þeir allra nánustu myndi fylgja okkur í kirkjugarðinn og ástæðan var sú að við vildum hafa stutta athöfn þar og hitta síðan alla í erfidrykkjunni. Í kirkjugarðinn komu bara allra nánustu skyldmenni, starfsfólk af Barnaspítalanum enda voru þau öll mjög náin Hugin og síðan örfáir aðilar sem hafa unnið mikið með Hugin eða haft óvenjumikil samskipti við hann.
Við gerðum annað í erfidrykkjunni sem ég hef ekki heyrt að hafi verið gert áður, við settum myndir af Hugin á langflest borðin. Við gerðum það til að fólk sem hafði aldrei séð Hugin eða langt síðan það hafi séð hann gæti séð hversu konar sjarmör hann var. Þessar myndir vöktu mikla athygli og voru margir sem sögðu okkur hvað þetta hefði verið sniðug hugmynd og gaman að sjá hann svona flottann.
Eftir á hyggju þá held ég að við höfum gert allt rétt, við fengum frábæran prest, prest sem hefur þekkt Hugin frá því í október 2005 þegar við komum heim frá Bandaríkjunum og hefur hjálpað okkur mikið í gegnum tíðina. Ákvörðun okkar um að hafa erfidrykkju, fá ljósmyndara og Álftagerðisbræður, takmarka fjöldann í kirkjugarðinn, lagavalið og bara allt var hárrétt hjá okkur. Við munum minnast útfarinnar sem yndislegs dags og mun örugglega hjálpa okkur að minnast Hugins með sól í hjarta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég sakna Hugins.
6.4.2008 | 08:40
Síðustu dagar hafa verið erfiðir og skrýtnir. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera. Stundum hef ég samviskubit yfir því hvað ég er sáttur við andlát Hugins. Þá er ég að meina það hvernig Huginn kvaddi okkur og sína nánustu og allar þær tilviljanir í kringum andlátið, að andlátið á þessum tíma getur ekki verið tilviljun. Ég trúi að Huginn hafi ákveðið að kveðja okkur þennan dag og fyrir það er ég sáttur, ég veit líka að hann fór sáttur og það gerir líf mitt bærilegra. Síðan þess á milli verkjar mér í hjartað yfir söknuðu, að hafa ekki Huginn lengur hjá mér. Að finna ekki lyktina hans, fá ekki að hjálpa honum með að gera magaæfingarnar, ég sakna jafnvel bitsáranna þegar hann náði að bíta mann í öxlina.
Við erum ekki búin að ganga frá dótinu hans Hugins og erum ekkert að fara að gera það strax. Samt saknar maður að hafa ekki vélarnir í gangi hérna, maður saknar að heyra ekki í súrefnisvélunum, B-PAP vélinni eða í monitorinum, þetta voru hljóðin sem maður tengdi við Hugin. Aftur á móti erum við með kveikt á kertum allan daginn hjá okkur og það má segja að það sé mótsögn í því þar sem við gátum ekki verið með kerti þegar Huginn var heima. Þar sem hann var tengdur við súrefnisvélar þá gat myndast eldhætta ef eldurinn kæmist í snertingu við súrefnið. Þess vegna var aldrei kveikt á kertum hérna á meðan Huginn var heima.
Síðasta fimmtudag fórum við á Barnaspítalann til að ganga frá nokkrum málum, það var bæði gott og erfitt. Við hittum meðal annars lækna sem spurðu hvernig okkur gengi að sofa hvort þeir ættu að útvega okkur eitthvað til hjálpa okkur með svefninn. Við sögðum eins og er að svefninn gæti verið betri en við afþökkuðum öll lyf þar sem við viljum frekar að koma hlutunum á rétta braut án lyfja ef það sé mögulegt, en við sögðum lækninum að við ætluðum að kaupa rauðvín og drekka það á laugardagskvöldinu í rólegheitunum. Lækninum fannst það frábært ráð, svo í gærkvöldi sátum við og drukkum rauðvín samkvæmt læknisráði!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Dagurinn í dag.
2.4.2008 | 23:06
Í dag var útför Hugins Heiðars gerð frá Keflavíkurkirkju. Athöfnin var mjög falleg og erum við mjög sátt við hana. Að athöfninni lokinni fórum við og ásamt nánustu vinum og vandamönnum í kirkjugarðinn þar sem við kvöddum Hugin í hinsta sinn. Að því loknu fórum við í erfisdrykkju og var mjög gaman að hitta svona marga þar og finna fyrir stuðningnum.
Í kvöld fór ég og Fjóla aftur í kirkjugarðinn og áttum við smástund þar í ró og friði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Erfiðasti dagur lífsins.
31.3.2008 | 22:50
Í dag upplifði ég erfiðasta dag ævi minnar. Í dag var kistulagningin hjá Hugin Heiðari, athöfnin var stutt og falleg og bara nánustu ættingjar voru með okkur og var ég mjög sáttur við það. Huginn var fallegt barn og núna er hann fallegur engill. Eftir athöfnina komu gestirnir heim til okkar og var fengið sér smá kaffi og kræsingarnar voru ekki af verri endanum. Gestirnir voru svo elskulegir að hver kom með smá meðlæti svo úr varð heljar kaffihlaðborð. Við áttum síðan ágætan dag með fjölskyldunni.
Ég er búinn að upplifa marga erfiða daga að undanförnu, en dagurinn í dag var sá erfiðasti. Bæði það að núna var ég að kveðja Hugin í síðasta sinn og í dag þurfti ég ekki að vera sterki maðurinn. Hingað til hef ég reynt að halda mér öguðum og vera sá sterki fyrir Fjóluna og hin börnin okkar, en í dag voru svo margir góðir hjá okkur að ég þurfti ekki að vera sá sterki og gat aðeins sleppt tilfinningunum mínum. Ég óttast að miðvikudagurinn eigi eftir að verða enn erfiðari, þar sem þá verður útför Hugins og væntanlega mun fleiri gestir heldur en var í dag. Ég held samt að sá dagur verði betri, en auðvitað veit ég það ekki og ætti ekki að vera að tala um það hérna. En ég bæði kvíð fyrir og hlakka til dagsins, þó ótrúlegt megi virðast.
Það hefur gengið ágætlega að skipuleggja útförina, en það er töluvert meira mál en ég bjóst við, reyndar hafði ég ekki hugsað út í það hversu mikil vinna þetta er. Sem betur fer standa margir með okkur í þessu og margir hafa lagt okkur hjálparhönd. Ég er þakklátur þeim öllum sem hafa aðstoðað okkur og öllum þeim sem hafa sent okkur kort, skeyti, blóm eða annað sem okkur hefur borist. Takk fyrir okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Smá hugleiðing.
27.3.2008 | 14:22
Í morgun blogguðum við á heimasíðu Hugins Heiðars um allar þær tilviljanir sem okkur finnst vera í kringum andlát Hugins, tilviljanirnar eru svo margar að ég trúi því að Huginn hafi valið daginn til að kveðja okkur og er ég þakklátur fyrir það. Kannski er þetta vitleysa í mér, en ég vil trúa því að Huginn hafi valið þennan dag. Hann er búinn að eiga erfitt líf og þurft að berjast fyrir því svo mikið alla tíð og núna var hann orðinn fullsaddur á því og ákvað að kveðja okkur og gerði það svo fallega. Ég hafði svo oft hugsað um það að kannski ætti ég eftir að þurfa að taka ákvörðun um hvort hann ætti að lifa eða deyja. Það er að segja hvort það ætti að tengja hann við öndunarvél eða að slökkva á vél sem héldi honum á lífi, Huginn lét okkur ekki þurfa að taka þá ákvörðun. Hann dó á Gjörgæsludeildinni og vildi ekki koma aftur þrátt fyrir tilraunir bestu lækna á Íslandi.
Mér og Fjólu hefur verið ljóst lengi að Huginn yrði sennilega aldrei fullorðinn, fyrir tveim árum var okkur sagt að baráttann myndi standa frekar í vikur en mánuði, en hún varði í 2 ár eftir þetta. Þegar maður fær svona fréttir að barnið manns eigi eftir að deyja, þá er ansi auðvelt að finna einhvern sökudólg og kenna honum um það sem miður fer og ég get sagt það að það er auðvelt að finna sökudólg. Í stað þess að blóta sjúkdómnum, Guði og öllu því sem miður fer, þá ákváðum við að njóta lífsins með Hugin og njóta hvers dags sem við myndum eiga með honum. Í stað þess að lifa í reiði þá áttum við yndislegan tíma með Hugin og fengum örugglega að hafa Hugin svona lengi hjá okkur vegna þess hversu vel við nutum tímann saman.
Ég vil þakka ykkur öllum hlý orð og annað sem okkur Fjólu hefur borist frá ykkur. Ég vil líka biðjast afsökunar á því að hafa ekki skrifað neinar athugasemdir hjá mínum bloggvinum, ég hef reynt það en ekki tekist. Mér þykir vænt um ykkur öll.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Huginn Heiðar látinn.
24.3.2008 | 16:52
Litli drengurinn minn, Huginn Heiðar Guðmundsson lést í nótt á Gjörgæsludeild Landspítalans. Huginn veiktist í gær og fórum við með hann á Barnaspítalann í gærkvöldi. Hann var fluttur á Gjörgæsludeildina skömmu síðar þar sem hann lést í nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (52)
Gleðilega páska.
23.3.2008 | 10:14
Ég óska öllum gleðilegra páska.
Eða ætti ég að segja eins og barnið sagði gleðilegt páskaegg!
Þess má geta að málshátturinn sem ég fékk úr páskaegginu var svohljóðandi:
"Flest er svöngum sætt"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
One Hit Wonder. -2.sætið.
22.3.2008 | 21:44
Í öðru sæti yfir stærstu One Hit Wonder lög allra tíma er lagið "Sugar Sugar" með The Archies frá árinu 1969. Hljómsveitin starfaði í 10 ár frá árinu 1968-1978 og var lagið Sugar Sugar eina þeirra sem náði einhverjum vinsældum. The Archies tókst þó að koma þrem öðrum lögum á topp 40 listann í Bandaríkjunum, en þau lög eru flestum gleymd.
Sugar Sugar komst í efsta sæti bandaríska vinsældalistans í september 1969 og sat þar í 4 vikur, lagið gerði enn betur í Bretlandi en þar sat lagið í efsta sæti vinsældalistans í 8 vikur. Ári síðar kom Wilson Pickett þessu sama lagi í topp 40 á bandaríska listanum og snemma á níunda áratuginum sló lagið aftur í gegn og komst á vinsældalista viðsvegar um Evrópu þegar hollenska hljómsveitin Stars on 45 gaf lagið út í nokkurskonar remix-útgáfu. Aðrir sem hafa gefið lagið út eru meðal annars, Ike og Tina Turner, Tom Jones og Bob Marley.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað er í höfðinu á sumu fólki?
21.3.2008 | 18:28
Stundum efast maður um að sumt fólk sé alveg með fulla heilastarfsemi. Að faðir láti 15 ára son sinn keyra sig þegar hann er á fylleríi er ótrúlegt. Þeir feðgar hafa líklega verið á leið út í sjoppu að kaupa bland þegar slysið varð.
Ég vorkenni syninum að hafa lent í þessu, þó ég viti ekki annað um málavöxtu en það sem stendur í fréttinni. En að pabbinn skuli gera þetta sýnir algjört ábyrgðarleysi af honum og hann er í raun að hvetja son sinn til afbrota með því að láta hann keyra.
Hvernig ætli þetta mál fari fyrir dómstólum? Sonurinn fær væntanlega einhverja refsingu fyrir aksturs án ökuréttinda, en ætli pabbinn fái einhverja refsingu. Ég er ekkert viss um það.
15 ára ökumaður ók útaf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eitthvað verður að gera.
20.3.2008 | 10:25
Það er alveg ljóst að eitthvað verður að gera til að trassarnir fara með bílana sína í skoðun. það er nefnilega þannig að þeir sem fara ekki með bílana sína í skoðun eru oftast nær með lélegar druslur í óökuhæfu ástandi. Þess vegna fara þeir ekki með bílana í skoðun og akkúrat þess vegna þarf að gera eitthvað róttækt til að koma ónýtum bílum úr umferð.
Reyndar hef ég aldrei skilið af hverju lögreglan gerir ekkert í að stöðva þessa bíla og klippa númerin af þeim. Ég keyri ekki mikið, en alltaf þegar ég fer í umferðina þá sé nokkra bíla sem eru óskoðaðir og ég er ekki að tala um bíla sem eru komnir nokkra mánuði fram yfir skoðunardag. Ekki alls fyrir löngu þá þurfti ég eða vinnan mín að fá bíl lánaðan hjá bílaumboði í nokkra daga. Síðan þegar ég fer að skoða bílinn aðeins þá tek ég eftir því að bíllinn átti að fara síðast í skoðun í apríl 2006. Við höfðum samband við bílaumboðið og spurðum hvort þetta væri sniðugt að lána óskoðaðann bíl, bíl sem hafði ekki farið í lögbundna skoðun í 3 ár. Þeir kváðu yfir þessu og skyldu ekkert í því hvernig þetta fór framhjá þeim, bíllinn var nýkominn úr söluskoðun og þeir tóku eftir þessu. Enda kannski ekki von þar sem enginn þarf hvort eð er að fara með bílana sína í skoðun eins og málin standa í dag.
Ég ætla að koma með gamla sögu af bílaskoðunarmálum hjá mér. Fyrir nokkrum árum síðan lenti ég í tveim hörðum árekstrum með 6 daga millibili. Fyrst var svínað illilega fyrir mig svo ég keyrði í hliðina á bil og skemmdi bílinn minn mikið á hægra framhorninu. 6 dögum síðar var keyrt harkalega aftan á mig svo bíllinn stórskemmdist að aftan. Ég samdi við tryggingarnar að fá tjónið greitt út, en ég þurfti að semja við tvö tryggingafélög. Eftir sat ég með góða peningaupphæð og mikið skemmdan bíl. Ég fór að leita mér að bíl og var ekkert að flýta mér með að finna hann. Gamli bíllinn minn var í góðu standi nema hann var mikið klesstur. Ég var búinn að keyra bílinn í 1-2 mánuði og kominn var tími á að fara með bílinn í skoðun. Vinnufélagar mínir hlógu mikið af mér og sögðu að ég myndi aldrei fá skoðun á bíldrusluna mína, en ég hélt nú annað sagði að ég myndi fá grænan miða sem myndi þýða að ég gæti verið á bílnum í mánuð í viðbót.
Síðan fer ég með bílinn í skoðun og skoðunarmaðurinn labbar í kringum bílinn og skoðar hann vel, horfir á mig og bílinn til skiptis, svo mér leist ekkert á þetta. Síðan fer hann að spyrja furðulegra spurninga sem skoðunarmaður á ekki að spyrja um, hvernig fer hann í ganga á morgnana, hvernig er skiptingin og ertu með viðhaldsbók o.sv.frv. Síðan spyr hann mig hvað ég sé að hugsa í sambandi við bílinn, ætla ég að gera við hann eða hvað. Ég segist eins og er að ég er að leita mér að öðrum bíl og þegar ég er búinn að finna hann þá ætla ég að selja þennan. Þá snýr skoðunarmaðurinn að mér segist vilja bjóða mér 50.000 kall fyrir bílinn. Ég samþykki það með því skilyrði að ég kaupin fari í gegn eftir að ég hef fengið nýjan bíl og hann samþykkir það. Við tökumst í hendur þarna í skoðunarstöðinni og ég fæ grænan miða á bílinn.
Vinnufélagarnir voru spenntir þegar ég kom til baka úr skoðuninni og spurðu mig hvað sagði skoðunarmaðurinn sagði þegar hann sá bílinn? Hló hann ekki að þér? Og svarið var náttúrulega að hann þótti bíllinn svo flottur að hann keypti hann!
Eigendur óskoðaðra bíla þurfi að borga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)