Afmælisbarn dagsins er Huginn Heiðar.
18.11.2008 | 00:11
Afmælisbarn dagsins er litli stóri Engillinn minn Huginn Heiðar Guðmundsson. Huginn fæddist þann 18 nóvember 2004 og hefði því orðið 4 ára í dag ef hann hefði lifað. En Huginn Heiðar lést 24. mars síðastliðinn eftir mikla baráttu við veikindi.
Huginn Heiðar gaf okkur svo mikið á meðan hann lifði, hann kenndi okkur og öllum þeim sem kynntust honum svo margt. Hann kenndu okkur að skilja hvað lífið er dýrmætt og að við eigum ekki að vera að kvarta yfir smáhlutum sem skipta litlu máli.
Huginn Heiðar, til hamingju með afmælið. Þú varst flottastur strákurinn í heiminum og núna ertu örugglega flottasti Engillinn á himninum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Góður þessi.
13.11.2008 | 17:27
Guðjón segist eiga góðar minningar frá Stoke, Barnsley og Notts County, en það skondna er að Stoke, Barnsley og Notts County eiga ekki góðar minningar af Guðjóni. Hann kom reyndar Stoke upp um deild, en hann var líka rekinn frá Stoke og hann var rekinn frá Barnsley og Notts County. Í millitíðinni tók Guðjón að sér að stýra norska liðinu Start og var rekinn þaðan fljótlega.
Guðjón átti frábær ár sem þjálfari hjá KA, ÍA, KR og síðan íslenska landsliðinu. Síðan hann hætti þar hefur leið hans legið niður á við og hann hefur helst unnið sér til frægðar að vera rekinn hjá nánast öllum liðum sem hann hefur komið nálægt og hann hefur líka verið þekktur fyrir allskonar vafasamar uppákomur aðallega utanvallar.
Guðjón hyggst sækja um störf á Englandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Skrítin kreppa hjá Val.
13.11.2008 | 17:14
Ég skil ekki alveg kreppuna sem er hjá Valsmönnum þessa dagana. Í byrjun október tilkynntu þeir að þeir ætluðu að losa sig við alla erlendu leikmennina hjá félaginu, bæði karla og kvennaliðinu. Valsmenn voru með 5 erlenda leikmenn í sínum röðum, þá Barry Smith, Henrik Eggerts Hansen, Rassmus Hansen, Rene Carlsen og Dennis Bo Mortensen. En síðastnefndi spilaði ekkert með Val í sumar þar sem hann meiddist illa í deildarbikarnum í vor.
Þessir leikmenn voru losaðir undan samning, þó að nokkrir þeirra séu frábærir knattspyrnumenn og til að koma í veg fyrir enn frekari fjárhagsútlát þá voru leikmönnum tilkynnt að laun þeirra yrðu lækkuð um 30%. Þetta hef ég eftir áreiðanlegum heimildum.
Síðan þetta gerist hafa Valsmenn aftur á móti verið duglegastir allra liða að kaupa leikmenn og núna í dag keyptu þeir tvö leikmenn til viðbótar. Þeir byrjuðu á því að fá Ian Jeffs frá Fylki, þrátt fyrir að hafa losað alla erlendu leikmennina undan samning og ætluðu að spila útelndinga lausir næsta tímabil, en það tók valsmenn bara örfáa daga að standa við það. Síðan fengu þeir Harald Björnsson frá Hearts og þá Reyni Leósson frá Fram og heimildir mínar segja að þar hafi umtalsverð upphæð skipt um hendur. Í dag fengu Valsmenn síðan Ólaf Pál og Pétur Georg Markan til liðs við félagið og er ég nokkuð viss um að þeir komi ekki til að spila frítt.
Ég er nokkuð viss um að knattspyrnudeild Vals stendur vel, þeir seldu tvo af bestu leikmönnum sínum í sumar og hafa eflasut fengið 30-50 milljónir fyrir þá og hafa þess vegna eflaust efni á að kaupa þessa 5 leikmenn. En það sem ég skil ekki af hverju voru þeir að losa sig við þá erlendu leikmenn sem voru að standa sig vel og af hverju eru þeir að lækka laun leikmannanna sinna. Fyrir mér sýnist mér Valsmenn vera að nota kreppuástandið til að lækka launin til að geta keypt aðra leikmenn, ef þetta sé rétt þá finnst mér það óheiðarleg vinnubrögð.
Ólafur Páll Snorrason til liðs við Val | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frétt sem kemur ekki á óvart.
9.11.2008 | 09:26
Svona fréttir frá Tyrklandi koma ekki á óvart. Nánast einu fréttirnar sem berast frá þessu landi eru um mannréttindabrot, spillingu, heiðursmorð, þjóðernishreinsanir og háa stýrisvexti sem eru samt lægri en stýrisvextirnir á Íslandi. Síðan vill þetta land teljast til Evrópu þó bara 3% landsins liggja landfræðilega í Evrópu.
Ég vil minna á orð Nicolas Sarkozy forseta Frakklands, en hann sagði á meðan hann ræður einhverju þá mun Tyrkland aldrei komast í Evrópusambandið, en Tyrkir hafa lagt hart að því að komast í Evrópusambandið.
Hneykslismál í Tyrklandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Smá launablogg.
9.11.2008 | 09:12
Mikið hefur verið talað um laun bankastjóra nýju bankanna eða réttara sagt gjaldþrotabankanna og ég ætla að bætast í þann hóp. Mér finnst eðlilegt að borga góð laun fyrir gott fólk í ábyrgðarmikil störf. Ofurlaunin í gömlu bönkunum sína að það fer ekki saman, þar fengu ábyrgðarlausir og vanhæfir menn ofurlaun og þurfa ekki að bera neina ábyrgð. Ef skoðaðir eru nýju bankastjórarnir þá má sjá að þeirr taka á sig töluverða launalækkun. Birna Einarsdóttir bankastjóri Glitnis tekur á sig minnstu launaskerðinguna, hún hefur núna 21.000.000 í árslaun en hafði samkvæmt Tekjublaði Frjálsra Verslunar 29.808.000 í árslaun á síðasta ári, þetta er tekjulækkun upp á tæplega 9 milljónir. Finnur Sveinbjörnsson nýr bankastjóri Kaupþings hefur sömu árslaun og Birna eftir að hann óskað eftir launalækkun. Árslaun hans eru 21.000.000, en hann hafði í laun sem bankastjóri Icebank 51.144.000, það gerir launalækkun upp á rúmlega 30.000.000. Mestu launalækkunina tekur á sig Elín Sigfúsdóttir bankastjóri Landsbankans, hún er samt launahæsti bankastjórinn með 23.400.000 í árslaun, en hún hafði í laun á síðasta ári 122.220.000 og lækkar þar með í launum um tæplega 99 milljónir á ári
Það er líka forvitnilegt að skoða við hvað bankastjórarnir störfuðu áður en þeir tóku við bankastjóra stöðunum. Birna Einarsdóttir var framkvæmdastjóri þróunarsviðs Glitnis, en sem framkvæmdastjóri hjá Glitni, ætti hún ekki þurfa að bera einhverja ábyrgð gjaldþroti Glitnis? Hún gerir það með því að taka á sig launalækkun.
Finnur Sveinbjörnsson var bankastjóri Icebank og kemur því ekki beint að falli Kaupþings, en hann kemur beint að falli Icebank, þó Icebank sé ekki enn fallinn þá er það frekar spurning hvenær en hvort það gerist og þegar Icebank fellur þá er spurning hvort hann taki ekki einhverja sparisjóði með sér. Finnur mun örugglega ekki þurfa að sæta ábyrgð þegar það gerist.
Elín Sigfúsdóttir var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans áður en hann varð gjaldþrota og ber þar af leiðandi enga ábyrgð á gjaldþrotinu. Enda var framkvæmdastjórastaðan ábyrgðarlaus staða enda hafði hún bara rúmar 122 milljónir í laun á síðasta ári.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðbólgan orðin 150%.
6.11.2008 | 23:52
Í dag hækkaði IKEA verð á öllum vörum sínum um að meðaltali 25%. IKEA hefur verið þekkt fyrir að festa verðið hjá sér í heilt ár í einu og hefur verið nokkuð raunhæft að skoða verðhækkanirnar sem verða í IKEA á haustin til sjá verðbólguna í landinu. Um mánaðarmótin ágúst/september kynnti IKEA nýjan sölubækling og nýja verðskrá sem átti að duga í heilt ár, en núna tveim mánuðum síðar þá neyðast þeir að hækka vörurnar hjá sér um heil 25%. 25% á tveim mánuðum gerir 150% á ársgrundvelli og það er hin raunverulega verðbólga í dag samkvæmt IKEA-vísitöluna. Ég ætla ekki alveg að mála skrattann á vegginn og segja að við eigum von á 150% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, en við eigum von á mikilli verðbólgu á næstunni, mun meiri en seðlabankastjóri sagði í dag.
Í dag eru Íslendingar að hætta að spara. Fyrir nokkrum árum þá var mikill áróður fyrir því að spara örursvo fólk gæti eignast varasjóð til að hafa að hlaupa upp á í ellinni eða þegar harðnar á dalnum. Núna þegar harðnað hefur á dalnum þá hefur fólk misst sinn sparnað vegna sukks í bankakerfinu. Fólk er búið að sjá að það borgar sig ekki að spara í dag og það er best að eyða peningnum sem maður þénar sem fyrst svo hann rýrnar ekki. Í dag er það þannig að ef fólk hefur hugsað sér að kaupa nýtt sjónvarp, ísskáp, myndavél eða heitan pott, þá er best að gera það strax. Þessar vörur eiga eftir að hækka mikið á næstu vikum.
Mitt ráð er, ef þið eigið pening, notið hann áður en hann fuðrar upp í verðbólgunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hroki og út úr snúningur.
5.11.2008 | 21:26
Það er stéttarfélagi eins og VR til vansa að hafa slíkan formann eins og Gunnar Páll Pálsson er. Að verkalýðsleiðtogi verji það sem Kaupþing gerði þegar þeir gáfu nokkrum valin kunnum starfsmönnum bankans 50 þúsund milljónir rétt fyrir gjaldþrot bankans og núna lætur verkalýðsformaðurinn verkalýðinn borga þessar 50.000.000.000 krónur úr eigin vasa og hann kann greinilega ekki að skammast sín þar sem hann ver gjörðir sínir, en hann var stjórnarmaður í Kaupþing og samþykkti að veita fjárglæframönnunum hjá Kaupþing sakauppgjöf. Ég segi bara við VR-menn, losið ykkur við þennan mann áður en hann skaðar VR meira.
Mér fannst Gunnar sína almenningi mikla vanvirðingu í Kastljósi í kvöld þegar hann sagði að hann bæri ekki ábyrgð á ástandinu í heiminum í dag. Það er nefnilega alveg rétt, en hann er einn af þeim sem ber ábyrgð á ástandinu á Íslandi í dag og það er grjótalvarlegt. Það að fjárglæframenn Íslands séu alltaf að kenna ástandinu í heiminum um kreppuna á Íslandi er út úr snúningur og hroki og þeir eru með því að benda alltaf á ástandið annarsstaðar að reyna að hvítþvo sig af gjörðum sínum. Þetta var ekki spurning um hvort heldur hvenær þessir menn myndu rústa efnahagnum á Íslandi og sem betur fer fyrir þá gerist það á sama tíma og slæmt ástand er í heiminum. Það má ekki heldur gleyma að margir telja að slæmt ástand í Evrópu sé að mörgu leyti íslensku fjárglæframönnunum að kenna.
Að lokum legg ég til við Geir Haarde að hann gerir afgreiðslumanninn sem tók við 10.000 króna seðlinum og gaf til baka að seðlabankastjóra. Þessi afgreiðslumaður er sennilega eini Íslendingurinn sem hefur minna vit á peningum en Davíð Oddsson og fyrir það ætti hann að taka við stjórn Seðlabankans.
Ekki hægt að taka aðra ákvörðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Núna er kominn tími á að blása aðeins!
3.11.2008 | 22:22
Ég hef verið helv... latur við að blogga að undanförnu og tel ég það aðallega verið ástandinu í þjóðfélaginu að kenna. Ég hef ekki nennt að blogga eða lesa fréttir eða lesa bloggin hjá mínum traustu bloggvinum. En núna held ég að það sé kominn tími til að springa út. Ástæðan er sú að þessar nýju fréttir af kóngunum hjá Kaupþingi að þeir skulu fá klapp á bakið frá þjóðinni og verðlaunaðir með 50.000.000.000 króna (lesist 50 þúsund milljónir) starfsloka samning. Meira að segja þurfa margir þeirra ekki einu sinni að hætta að vinna til að fá þennan starfslokasamning.
Geir Haarde hefur verið duglegur að reyna að sannfæra þjóðina um að núna þarf þjóðin að standa saman og komast út úr þeim vandræðum sem hún er komin í og ekki sé tími til að leita að sökudólgum núna, heldur þarf að einbeita sér að því að vinna sig út úr vandanum. Þetta er að mörgu leyti rétt hjá honum, en samt spyr maður sig ætlar Geir sjálfur og Davíð meistari hans sjálfir að rannsaka hvað fór úrskeiðis og þeir hafa ekki tíma til þess núna? Ég vona svo sannarlega ekki vegna þess að þá finnast ekki sökudólgarnir. Það á fá menn erlendis frá til að koma hingað og rannsaka málið, ekki ólíkt því þegar nefnd frá Sameinuðu Þjóðunum fer til spilltra landa til að sjá til þess að kosningasvik séu ekki framin í kosningum. Ísland er gjörspillt land og virðist sem að örfáir menn telja sig eiga landið, það er Davíð Oddsson og þeir sem honum líkar við og þeir vilja auðvitað ekki að það komi fram hverjir það voru sem frömdu þann glæp að gera landið nánast gjaldþrota.
Ég veit ekki hvernig Davíð og co ætla að réttlæta þessa gjörðir Kaupþings að gefa gullkálfunum sínum 50 milljarða, en þeir munu reyna að réttlæta það. Það skal minna á að æðstustrumparnir hjá Kaupþing, þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurjónsson höfðu yfir 70 milljónir í laun hjá Kaupþing á mánuði, ég endurtek 70 milljónir á mánuði. Þegar þeir voru spurðir hvort launin væru ekki alltof há þá sögðu þeir ekki svo vera, þeir bæru svo mikla ábyrgð. Núna hefur það sést hversu mikla ábyrgð þeir bera, nákvæmlega enga, þeir hegðuðu sér líka eins og ábyrgðarlausir vitleysingar.
Hverjir bera skellinn á þessu fjármálafyllerí gullkálfanna, það er almenningur sem hefur ekkert gert af sér, almenningur sem hefur mætt í vinnuna sína fyrir smánarlaun ef miðað er við laun gullkálfanna. Almenningur sem hefur reynt að vera ábyrgt í fjármálum og lifað eftir efnahag sínum. Auðvitað hafa einhverjir misst sig aðeins, en vel flestir hafa lifað ábyrgu lífi og í mesta lagi keypt bíl á erlendu láni. Núna eru gullkálfarnir duglegir að kenna þessum almenna Íslending um að allt hafi farið á versta veg. Þeir hafa sagt að þar sem almenningur hafi farið með offorsi í kaupum á bílum, fellihýsum og flatskjáum þá er landið stórskuldugt og komið á vonarvöl vegna bruðlsins, en þeir nefna ekki einkaþoturnar, snekkjurnar eða stórhýsin um allan heim sem gullkálfarnir hafa verið að kaupa, eða afmælin og veislurnar sem þeir hafa haldið og fengið velþekkta skemmtikrafta til að skemmta sér. Það er hægt að nefna Elton John, 50 sent, Tom Jones svo einhverjir séu nefndir. Nei, það er almenningi að kenna að landið sé á hausnum.
Ég krefst þess að menn beri ábyrgð á gjörðum sínum og þeir menn sem hafa sökkt Íslandi í þetta fjármálavíti eiga að sæta ábyrgð, menn eins og bankastjórar gömlu bankanna, Bjarni Ármannsson, Hannes Smárason, Magnús Þorsteinsson. Þá eiga Geir Haarde og Davíð Oddsson líka að sæta ábyrgð. Davíð fyrir að bandvitlausa peningastefnu og Geir fyrir að leyfa Davíð að gera krónuna einskins virði. Þá þarf Geir að bera ábyrgð á því að leyfa bönkunum að vaxa svona mikið án þess að þeir geta það í raunveruleiknum.
Ég veit það að þegar þeirra tími verður liðinn þá verða Davíðs og Geirs minnst sem mannanna sem steyptu íslensku þjóðinni í glötun. Það er það eina sem kætir mig í dag.
Það eru ekki bara stjórnmálamenn og fjárglæframenn sem bera ábyrgðina, heldur líka fjölmiðlamenn og eftirlitsmenn sem eiga að hafa eftirlit með því að ekki sé hægt að steypa heila þjóð í glötun. Ég heyrði viðtal um daginn við einn blaðamann og hann sagðist að kreppan myndi hafa þær afleiðingar helstar fyrir hann að núna myndu kokteilboðunum og boðsferðunum fækka. Ég held að gullkálfunum hafi tekist að kaupa fjölmiðlamiðlana með feitum boðsferðum og kokteilpartýum. Þegar einhverjir fjölmiðlar hafa þorað að standa upp og reynt að upplýsa almenning um í hvað stefndi þá hafi gullkálfarnir bara hótað fjölmiðlunum þannig að þeir myndu hætta að auglýsa hjá þeim og þar með rífa stoðunum undan miðlinum og þar með tókst gullkálfunum að stjórna nánast allri umræðu um sig í fjölmiðlum, enda eiga þeir líka flesta fjölmiðlana.
Ein pæling að lokum, hvernig haldið þið að Orkuveita Reykjavíkur myndi standa í dag ef Hannesi Smárasyni og Bjarna Ármannsyni hefði tekist að stela Orkuveitunni frá Reykvíkingum? En þeir voru svo nálægt því.
Bloggar | Breytt 4.11.2008 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Er komið 1975 aftur?
22.10.2008 | 18:32
Það er eins og að árið 1975 sé runnið upp aftur, það er ansi margt líkt með ástandinu á Íslandi í dag og því sem var á árinu 1975. Hér er 5 atriði sem eru eins.
1. Forsætisráðherrann heitir Geir og er Sjálfstæðismaður.
2. Ísland og Bretar eiga í stríði.
3. Það ríkir óðaverðbólga á Íslandi.
4. Það eru gjaldeyrishöft á Íslandi.
5. ABBA og Vilhjálmur Vilhjálmsson eru í efsta sæti vinsældarlistans á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þetta sýnir að Keflavík voru bestir í sumar!
19.10.2008 | 12:03
Ekki amalegt fyrir Keflvíkinga að eiga besta leikmanninn, besta þjálfarann og bestu stuðningsmennina. Þetta sýnir bara að Keflvíkingar voru bestir í sumar. Það eina sem kom í veg fyrir að Keflvíkingar urðu ekki Íslandsmeistarar var Jóhannes Valgeirsson sem þorði ekki að dæma víti í lokaleik Keflavíkinga, ef hann hefði dæmt vítið þá væru við í Keflavík enn að fagna titlinum. Ég er samt ekkert sár yfir því að mínir menn skyldu lenda í öðru sæti, en þeir voru bara svo nálægt því að enda í því fyrsta. Það er líka gaman að segja frá því að Jóhannes var valinn besti dómarinn.
Ég horfði á Landsbankamörkin í sumar á Stöð2 sport og fannst þátturinn frábær, en ég var ekki sáttur við lokaþáttinn þar sem Tommi og Maggi höfðu sitt lokahóf. Þeir völdu Heimi Guðjónss besta þjálfarann og ástæðan FH urðu Íslandsmeistarar, þeir völdu Davíð Þór Viðarsson besta leikmanninn og af hverju, jú FH urðu Íslandsmeistarar og þeim fannst Davíð vera bestur FH-inganna, þeir sögðu meira að segja að ef Keflvíkingar hefðu orðið Íslandsmeistarar þá hefðu þeir valið Guðmund Steinarsson! Síðan þegar þeir áttu að velja besta dómarann, þá gátu þeir það ekki og völdu alla dómarana sem bestu dómarana. Mikið svakalega fóru mennirnir niður að mínu mati við þetta, það var eins og þeir gátu ekki tekið sjálfstæða ákvörðun.
Dóra María og Guðmundur best í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)