Besti spámaðurinn er..... ÉG.
19.10.2008 | 00:33
Í kvöld fékk ég skilaboð um að ég væri lélegur bloggari, umræddur aðili sagðist vera farin að lesa dánartilkynningarnar til að athuga hvort hún fengi einhverjar fréttir af mér. En ég get sagt að ég er ekki slappasti bloggari landsins þar sem einn bloggvinur minn hefur ekki bloggað síðan í febrúar! ...og ég hef fulla vissu fyrir að hann sé í fullu fjöri enn þá.
ólíkt öllum öðrum þá ætla ég ekki að blogga um efnahagsmál að þessu sinni, en það blogg mun koma. Og þetta er ekki hótun! Ég ætla að koma með smá fótboltablogg svona í lok fótboltasumarsins og ég ætla að monta mig á getspeki minni. Þannig er að í upphafi sumars þá er vinsælt að spá um lokastöðu deildarinnar og þar voru margir spekingar sem spáðu og eftir að hafa skoðað spá flestra spekinganna þá hef éf komist að þeirri niðurstöðu að ég er mesti fótboltaspekingur sumarsins. Spá mín var þannig, fyrst kemur lokastaðan og síðan mín spá.
1 | FH | 2 |
2 | Keflavik | 4 |
3 | Fram | 5 |
4 | KR | 6 |
5 | Valur | 1 |
6 | Fjölnir | 11 |
7 | Grindavík | 7 |
8 | Breiðablik | 3 |
9 | Fylkir | 9 |
10 | Þróttur | 10 |
11 | HK | 8 |
12 | ÍA | 12 |
Ef gerð er einföld formúla til að finna þann sem spái best, þannig að sá sem spáir ákveðnu liði 10 sæti og liðið lendir í 4 sæti þá munar það 6 sætum og umræddur spámaður fær 6 refsistig og því fleiri stig sem spámaður fær, því lélegri spámaður er hann. Ef tekið er spá leikamanna fyrir tímabilið þá fá þeir 42 stig, Morgunblaðið og Fótbolti.net fá líka 42 stig. Njáll félagi minn sem þykir mikill fótboltagúru spáði líka um lokatöðuna og fékk hann bara 34 stig sem þykir gott. Að lokum má geta þess að ég er sennilega besti spámaðurinn þar sem ég fékk einungis 24 stig. Ég veit ekki hvort það sé vegna þess að ég er svona góður spámaður eða hvort ég hafi svona mikið vit á fótbolta, ég held að það sé hvort tveggja!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag eru 6 mánuðir síðan Huginn dó.
24.9.2008 | 21:45
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að í dag eru 6 mánuðir síðan Huginn Heiðar dó, það er bæði svo stutt og langt síðan við vorum á Gjörgæsludeildinni að fylgjast með læknunum reyna að bjarga lífi hans, ekki í fyrsta skiptið en því miður í það síðasta.
Á síðustu 6 mánuðum höfum við þurft að byrja að fóta okkur í lífinu aftur og gengur það þokkalega. Ég tel að við höfum tekið rétta ákvörðun í lífinu eftir að Huginn dó. Í stað þess að falla í sorg og ásökun, þá höfum við hugsað um það sem við áttum og hvað við vorum heppinn að eignast svona yndislegan strák sem gaf okkur svo mikið. Hugins vegna og vegna allra þeirra vísbendinga sem við höfum fengið frá honum, þá getum við ekki annað en hugsað til hans með hlýju og þakklæti.
Mynd sem ég tók af regnboganum í sumar.
Síðan Huginn Heiðar dó þá eru nokkur lög sem mér finnst bara vera Hugins-lög. Til dæmis lagið "Má ég pússa regnbogann?" með Brimkló. Í allt sumar hefur regnbogi verið mjög áberandi og ótrúlega oft sem ég hef séð hann og hann hefur líka verið óvenju skýr á allt sumar, tel ég það sé vegna þess að það sé lítill engill þarna uppi sem sér um að pússa regnbogann. Í dag þegar ég var á leið heim úr vinnu sá ég ótrúlega sjón. Ég sá regnbogann sem er ekki í frásögu færandi, heldur sá ég upptök hans og enda, regnboginn náði frá heimilinu okkar og að kirkjugarðinum og hann var svo skýr og flottur og alveg heill. Maður getur ekki annað en sannfærst um að sá sem sér um að pússa regnbogann vandar sig við og leggur metnað sinn í að ég sjái hann.
Hægt er að hlusta á lagið, "Má ég pússa regnbogann?" hér til hliðar í tónlistarspilaranum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Enn klúðrar Aganefndin málunum.
23.9.2008 | 18:03
Ég veit ekki hvort að það séu FH-ingar sem ráða ríkjum í Aganefndinni, en það lítur út fyrir það þar sem enn og aftur virðist Aganefndin klúðra málunum þegar FH er annars vegar.
Þannig er að þegar þjálfari, aðstoðarþjálfari, liðsstjóri eða annað starfsfólk félaga fær brottvísun í leik þá er félagið undantekningalaust dæmt til peningasektar, nema FH. Jörundur Áki Sveinsson aðstoðarþjálfari FH fékk brottvísun í leik Fram-FH og fyrir það var hann úrskurðaður í eins leiks bann í dag af Aganefndinni, en samt fær FH ekki peningasekt! Þetta mál virðist ætla að falla undir FH greinina hjá KSÍ þar sem þeir fá að komast upp með allt!
Dennis Siim í tveggja leikja bann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Afmælisbarn dagsins: -Paolo Rossi.
23.9.2008 | 15:53
Þá er komið aftur að hinum geysivinsæla lið á þessari síðu, afmælisbarn dagsins og afmælisbarn dagsins í dag er ítalska knattspyrnugoðsögnin Paolo Rossi sem sló svo rækilega í gegn á HM1982. Rossi fæddist í Santa Lucia í Toscana á Ítalíu þann 23 september 1956 og er hann því 52 ára gamall í dag.
Paolo Rossi lék sinn fyrsta deildarleik árið 1976 þegar hann var orðinn 20 ára gamall, en hann var lánaður þangað frá Juventus til öðlast reynslu, en Rossi hafði þá þegar þurft að gangast undir 3 aðgerðir á hné. Eftir stutt stopp hjá Como, keypti smáliðið Vicenza helmingshlut í Rossi en slík viðskipti viðgangast enn þann dag í dag á Ítalíu. Rossi sló í gegn með Vicenza og á næstu þrem árum spilaði hann 94 deildarleiki með liðinu og skoraði 60 mörk. Juventus fór þá fram á að annað félagið keypti hinn hlutann af samningnum hjá Rossi og er það gert þannig að hvort lið gerir lokað kauptilboð í hinn hlutann og það félag sem býður betur fær leikmanninn. Juventus bauð lága upphæð í Rossi vegna þess að þeir vissu að Vicenza hefðu ekki efni á að borga hátt verð fyrir hann. En öllum á óvart bauð Vicenza 2,6 milljónir líra í Rossi sem gerði hann að dýrasta knattspyrnumanni Ítala.
Árið 1979 féll Vicenza í B-deildina og lánaði þá félagið Rossi til Perugia þar sem hann lék 28 leiki og skoraði 13 mörk. Á meðan Rossi var hjá Perugia kom upp eitt þekktasta hneykslismál ítalskra knattspyrnu þegar í ljós kom að margir leikmenn voru sakaðir um að hagræða úrslitum gegn peningagreiðslum. Paolo Rossi var þekktasti knattspyrnumaðurinn sem kom við í sögu hneykslismálinu og var hann sakfelldur fyrir aðild sína að málinu og dæmdur í 3 ára keppnisbann. Rossi hélt ávallt fram sakleysi sínu og hafa margir tekið upp hanskann fyrir hann í gegnum tíðina, meðal annars menn sem komu að rannsókn málsins og segja þeir að Rossi hafi verið saklaus.
Árið 1982 var ákveðið að stytta leikbann Rossi um eitt ár, margir segja að það hafi verið gert svo hægt væri að nota hann í Heimsmeistarakeppninni þá um sumarið. Rossi byrjaði keppnina rólega og tókst Ítölum með naumindum að komast upp úr riðlinum, en þeir fengu 3 stig úr 3 leikjum og komust áfram á hagstæðari markatölu, en markatalan var 2-2. í milliriðlum lentu Ítalarnir á móti Brasilíu og Argentínu og eftir nauman sigur á Argentínu var ljóst að þeir þyrftu að vinna Brasilíu til að komast í undanúrslit. Þá var komið að Paolo Rossi, hann skoraði öll mörk Ítalanna sem unnu óvæntan 3-2 sigur.
Í undanúrslitum mættu Ítalir Pólverjum og sigruðu Ítalir 2-0 og skoraði Rossi bæði mörkin. Í úrslitaleiknum mættu Ítalirnir Vestur-Þjóðverjum og unnu öruggan sigur 3-1 og skoraði Rossi fyrsta mark leiksins. Urðu þetta ein óvæntustu úrslit í sögu HM. Eftir keppnina varð Paolo Rossi þjóðhetja á Ítalíu og vildu margir gera hann að páfa.
Eftir HM hóf Rossi að spila fyrir Juventus og átti ágætan feril þar, hann gekk síðan til liðs við AC Milan og lauk síðan ferlinum hjá Verona. Paolo Rossi lék 251 deildarleik á Ítalíu og skoraði 103 mörk, hann lék 48 landsleiki fyrir Ítalíu og skoraði í þeim 20 mörk. En Paolo Rossi verður ætíð minnst sem maður sem tryggði Ítölum heimsmeistaratitilinn 1982.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skammarleg vinnubrögð hjá KSÍ.
22.9.2008 | 14:42
Stundum finnst manni eins og starfsfólk KSÍ sé ekki hæft til að vinna þau störf sem þau eiga að sjá um. Það ætti ekki að vera flókið mál að skoða leikskýrslur og setja þær rétt inn, en slík vinna virðist vera of flókin fyrir þau hjá KSÍ. Þetta eru ekki fyrstu afdrifaríku mistökin hjá KSÍ, hver man ekki eftir klúðrinu sem varð þegar KSÍ veitti leikmanni leikheimild þrátt fyrir að mega það ekki og þeir leystu klúðrið með því að fjölga liðum í deildinni svo hægt væri að ljúka málinu.
Það sorglega fyrir KSÍ í þessu máli er það þeir eru þekktir fyrir að refsa mönnum með leikbönnum og peningasektum ef þeir gera eitthvað sem er KSÍ ekki þóknanlegt. Hvaða refsing ætli starfsmaðurinn hjá KSÍ fái sem klúðraði málunum svona?
Siim væntanlega í banni í lokaumferðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég var klukkaður.
16.9.2008 | 20:27
Ég hef að undanförnu þjáðst af krónískri bloggleti og er enn að berjast við það, til að tryggir lesendur bloggsins viti að ég er í fantaformi þá ætla ég svara klukkinu, en ég var klukkaður af af minnsta kosti tveim aðilum.
4 störf sem ég hef unnið:
Smíðar, sundlaugavörður, leigubílstjóri og skrifstofumaður.
4 bíómyndir sem ég held upp á:
My Cousin Vinny, Braindead, Casablanca og Serendipity.
4 staðir sem ég hef búið á:
Smáratún 31, Heiðarholt 28, Greniteigur 49 og 529 East Waterfront Drive Apt 3201 Pittsburgh.
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríi:
Pompei, Liechtenstein, London og Portúgal.
4 sjónvarpsþættir sem ég hef mætur á:
Apprentice, Simpsons, Áramótaskaupið og Landsbankamörkin.
4 vefsíður sem ég sæki oft:
fjolan.blog.is, mbl.is, barnaland.is/barn/23007 og keflvikingar.com
4 réttir í uppáhaldi:
Kjúklingur a la Fjóla, Grillmatur a la Fjóla, Kjúklingasalat a la Fjóla og Hamborgari frá Fuel & Fuddish í Pittsburgh.
4 staðir sem ég vildi vera á núna:
Á sólarströnd, í Pittsburgh, á skemmtiferðaskipi í karabískahafinu, á leik með Keflavík í Meistaradeildinni!
4 bækur sem ég les oft:
Fótboltafélagið Falur, Handbók KSÍ, Íslensk Knattspyrna og dagbókina hennar Fjólu.
4 bloggarar sem ég klukka:
Magga Ö, Dellina, Fríða Kristbjörg og Ásdís Rán.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég blogga líka um Ramses.
28.8.2008 | 23:00
Það hefur verið í tísku að undanförnu að blogga um hinn Keníska Paul Ramses, en ég hef ekkert verið að blogga um þetta mál þar sem ég veit að ég verð skotinn á kaf þar sem skoðanir mínar fara ekki alveg saman við bloggheiminn. Auk þess er ég hræddur um að skrifa um svona viðkvæmt mál þar sem það er fullt af fólki er tilbúið að misskilja orðin mín og túlka þau á þann hátt sem ég vil ekki.
Þess vegna ætla ég að blogga um Ramses faraó sem fjallað er um í tímaritinu Skakka Turninum. Það er mikið gert úr því að hann hafi átt 400 konur og 150 börn og það er látið hljóma einhvern veginn sem eitthvað afrek eða stórvirki. Mér þætti Ramses merkilegri ef hann hefði átt 150 konur og 400 börn. Þegar ég heyri þessa auglýsingu þá dettur mér maður í hug sem safnar bílum og geymir þá í vöruskemmu. Til hvers að eiga marga bíla ef maður getur ekki keyrt þá og notið þeirra? Miðað við að Ramses hafi einungis náð að eignast 150 börn með konunum 400 sýnir að hann var að safna konum frekar en að njóta þess að eiga líf með þeim og það gerir manninn í raun nauðaómerkilegan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Handboltabloggið.
24.8.2008 | 21:14
Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að koma með handboltablogg, sérstaklega þegar Keflavík trónir á toppnum í fótboltanum og Íslandsmeistaratitillinn innan seilingar eða næstum því! En í tilefni dagsins þá tel ég mig knúinn til að koma með handboltablogg og játa það að ég vaknaði í morgun til að horfa á Ísland spila til úrslita á Ólympíuleikunum. En eins og allir vita þá er ekki mikill handboltaáhugi á Suðurnesjum sem sást best á því að Sambíóin opnaði öll bíóin sín nema í Keflavík til að bjóða upp á beina útsendingu.
Eftir að ég vaknaði og leit út um gluggann sá ég að það voru kveikt ljós í velflestum húsum í nágrenninu sem sýndi að það voru fleiri en ég sem vaknaði til að horfa á handbolta í þessum fótbolta og körfuboltabæ. Mér fannst strákarnir okkar standa sig ágætlega í leiknum og árangur liðsins á Ólympíuleikunum hreint út frábær. En það var eitt sem fór svakalega í taugarnar á mér í leiknum, það voru þessir portúgölsku tilburðir nokkra leikmanna Frakka þar sem þeir hentu sér niður með tilþrifum við smá snertingu eða jafnvel enga snertingu. Leið mér eins og ég væri að horfa á fótboltaleik með portúgalska landsliðinu í fótbolta, en þeir eru þekktir fyrir tilþrifamikinn ofleik og dramatilburði. Mér hefur alltaf fundist handbolti vera svona karlaíþrótt þar sem þeir sterkustu standa lengst og best, en þeir sem eru ekki nógu sterkir þeir komast ekkert áfram í íþróttinni.
Eftir að hafa horft á úrslitaleik Ólympíuleikanna þá hefur álit mitt breyst á íþróttinni, vælu og aumingjaskapur er komið í handboltann líka og ef fram fer sem horfir þá mun handboltinn verða leiðinlegri en hann er í dag ef ekkert verður gert í þessu. Ég vona að þessi hörku íþrótt eigi ekki eftir að smitast frekar af portúgölskum aumingja og leikaraskap. Svo ég segi bara við Frakkanna, þið unnuð vegna þess að þið voru betri, en hættið þessum væluskap og þessu er sérstaklega beint til tveggja markahæstu manna liðsins, þeirra Karabatic og Gille sem ættu að fá hindberjaverðlaunin fyrir leik sinn í morgun.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mömmuhelgi.
17.8.2008 | 10:28
Það er búið að vera mömmuhelgi hjá mér núna, það er að ég geri allt sem mamman á heimilinu biður um! Eftir stuttan vinnudag horfði ég á rómantíska mynd með Fjólunni og síðan skelltum við okkur á höfuðborgarsvæðið, maður má víst ekki tala lengur um Reykjavík heldur þarf að segja höfuðborgarsvæðið til að móðga ekki Garðbæinga og Kópavogsbúana. Ég byrjaði á að bjóða Fjólunni út að borða, enda komið hádegi. Ég var grand á því og bauð henni í matsölu IKEA, ég vildi helst fara niður í pulsurnar, en hún vildi frekar grænmetisbuffið og að sjálfsögðu fékk hún það. Við löbbuðum í gegnum búðina og keyptum okkur nokkra lífsnauðsynlega hluti, sem ég vissi ekki að okkur vantaði fyrr en ég sá þá. Þegar við vorum búin að borga hlutina og setja þá í bílinn, þá fórum við aftur inn í IKEA til að athuga hvort okkur hefði eitthvað yfirsést eitthvað og mikið rétt, skömmu síðar gengum við aftur út úr IKEA með lífsnauðsynlega hluti sem ég vissi ekki að okkur hafði vantað!
Eftir IKEA fórum við í útilegumanninn til að athuga hvort við sæjum eitthvað sem okkur vantaði í sambandi við fellihýsið okkar og að sjálfsögðu sáum við fullt af hlutum sem okkur vantaði, flest það sem til var í búðinni vantaði okkur, við höfðum hugsað okkur að kaupa kannski útilegustóla og smá borðbúnað, en sölumaðurinn vildi helst selja okkur 5 milljón króna hjólhýsi, en okkur tókst einhvern veginn að snúa sölumanninn af okkur og löbbuðum út tómhent og ekki með neitt í eftirdragi. Þá var farið í Office1 að kaupa skrifföng fyrir skólavertíðina hjá börnunum. Ég var á rólegu nótunum þar, labbaði á eftir Fjólunni með innkaupakörfu sem þyngdist stöðugt því innar sem við fórum í búðina, ég var orðinn slappur í öxlunum þegar við komum loksins að búðarkassanum. Eftir Office1 ferðina skelltum við okkur í BYKO að reyna að finna fleiri hluti sem við höfum ekki þörf á, fundum nokkra en samt var ekkert keypt, en einhverjir af hlutunum voru síðan settir á fjárlög og verða eflaust keyptir síðar. Enda má það ekki gerast að við eigum ekki hlut sem okkur langar í.
Við skelltum okkur síðan í heimsókn til Jósteins mágs, en ég gerði mér ekki grein fyrir hversu langt er síðan ég heimsótti hann fyrr en hann bauð mér upp á útrunnið kók. Hann bauð mér ekki bara upp á gamalt kók heldur líka upp á dýrindis kjúklingasalat. Eftir matinn skelltum við okkur á kaffihús og fórum við þrjú á Cafe Cultura sem er í Alþjóðahúsinu á Hverfisgötu. Staðurinn er fínn og heita súkkulaðið sem ég fékk var gott, en ég fékk samt tækifæri þarna til að hneykslast á þremur hlutum, í fyrsta lagi þá var einn gesturinn þarna með lítið barn með sér, barnið var kannski 6-9 mánaðar gamalt og það finnst mér vera of ungt til að vera á kaffihúsi eftir klukkan 10 á laugardagskvöldi. Samferðarfólk mitt reyndi að sannfæra mig um að þetta væri kannski ekki óeðlilegt og nefndi hinar ýmsu ástæður sem hugsanleg rök fyrir veru barnsins þarna inni, en ég gat engann veginn keypt neinar af þeim. Annar liðurinn sem ég fékk á hneykslast á var rafmagnið þarna, en við stoppuðum ekki lengi en á þeim tíma sló rafmagnið út 5 eða 6 sinnum. Mér finnst það ekki traustvekjandi kaffihús sem getur ekki haldið rafmagninu á lengur en 10 mínútur í einu. Ég held að það hafi verið einn starfsmaður í fullu starfi þarna að slá inn rafmagninu. Þriðji hluturinn sem ég fékk að hneykslast á var það þegar dyraverðirnir voru á barnum að drekka, ég meina þeir voru meira að segja í merktum jökkum!! Ég er kannski bara orðinn of gamall fyrir þetta, kannski tíðkast það í dag að dyraverðir séu drekkandi á meðan þeir vinna og foreldrar koma með ungabörnin sín á kaffihús vegna þess að þau fái ekki pössun eða hafa ekki efni á henni.
En mömmudagurinn var fínn, þó ég hafi þurft að fórna fyrstu umferðinni í ensku knattspyrnunni, en hún hófst í gær og að ég hafi líka þurft að fórna landsleik Íslands og Danmerkur í handboltanum.
Mínir menn fengu auðvelda mótherja!
13.8.2008 | 23:27
Mínir menn duttu heldur betur í lukkupottinn í kvöld þegar dregið var í enska deildarbikarnum. Crystal Palace lentu á móti Leeds United og ættu Leeds ekki að vera mikil mótspyrna fyrir Palace, enda spila þeir í ensku C-deildinni.
Dregið í ensku deildabikarkeppninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)