Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

One Hit Wonder. -1. sætið.

Það er langt síðan ég hóf niðurtalið að stærstu One Hit Wonder lögum allra tíma og núna loksins er komið að laginu í fyrsta sæti. Það er lagið 500 Miles með tvíburabræðrunum í The Proclaimers, þeim Charlie og Craig Reid.

Charlie og Craig fæddust í Skotlandi 5. mars 1962 og störfuðu þeir í nokkrum hljómsveitum áður en þeir stofnuðu The Proclaimers árið 1983. Höfðu þeir aðallega spilað pönk rokk og var þeirra þekktasta hljómsveit Eight-Eyes. The Proclaimers vakti fljótlega mikla athygli í Skotlandi og nutu töluverðra vinsælda þar. En fyrsta lag þeirra og það eina sem hefur náð heimsathygli er lagið 500 Miles sem kom út árið 1988.

Lagið er eitt helsta stuðningsmannalag skoska knattspyrnuliðsins Hibernian, en þeir bræður eru miklir stuðningsmenn liðsins. Þá er 500 Miles líka stuðningsmannalag skoska landsliðsins og er alltaf spilað þegar skoska landsliðið skorar á sínum heimavelli og er lagið sungið stöðugt af stuðningsmönnum þess á meðan leik stendur. Það er líka oft talað um að 500 Miles eigi eftir að verða þjóðsöngur Skotlands, en Skotar eiga engan þjóðsöng. Craig og Charlie eru ekki bara þekktir sem knattspyrnuáhugamenn, heldur líka fyrir pólitískan áhuga sinn. En þeir eru báðir virkir innan Skoska Þjóðarflokksins, en þeirra helsta baráttumál er fullt sjálfstæði frá Bretlandi.

500 Miles með The Proclaimers.


Dagur í kirkjugarðinum.

Í dag fórum við fjölskyldan saman í kirkjugarðinn að gera leiðið hans Hugins fallegt. Við höfum farið nánast daglega í kirkjugarðinn að skoða leiðið og tala aðeins við Hugin. Þrátt fyrir að mánuður sé síðan Huginn var jarðaður þá hafa blómin og kransarnir haldist ótrúlega vel. Á föstudaginn síðasta ákváðum við að nota daginn í dag til að hreinsa til á leiðinu hans Hugins og fegra það.

Natan, Ásdís, Guðjón og Sóley.

Vinnumennirnir: Natan, Ásdís, Guðjón og Sóley.

Við höfum hugsað mikið um hvernig við viljum hafa leiðið í framtíðinni en höfum ekki komist að neinni niðurstöðu, við höfum víst nægan tíma til að ákveða okkur. Við vorum samt búin að kaupa engla og kerti til að setja á leiðið og gerðum það í dag. Þetta var fínn dagur hjá fjölskyldunni, við áttum góðar stundir í kirkjugarðinum hjá Hugin Heiðari.


Ótrúlega leiðinlegt lag.

Bubbi og BjörnÉg verð að segja að ég hef sjaldan heyrt eins leiðinlega útgáfu af nokkru lagi, eins og útgáfu Bubba Morthens og Björns Jörundar á laginu Ég er kominn heim. Lagið kom fyrst út á plötu með íslenskum texta Jóns Sigurðssonar árið 1960 í flutningi Ómars Valdimarssonar og hafa margir tónlistarmenn tekið lagið að sér og oft með ágætum árangri.

Þegar ég heyrði lagið fyrst hjá Bubba og Birni, þá rifjaðist það upp fyrir mér þegar ég fór í réttir á Vatnsleysuströnd á áttunda áratug síðustu aldar. Nema það að mér fannst gaman í réttunum. En lagið minnti mig á réttirnar vegna þess að ég hef aldrei heyrt nokkrn mann jarma eins mikið í einu lagi og Bubbi og Björn gera í útgáfunni sinni.

Ég hef oft sagt það á blogginu að ég hef mikið álit á Bubba sem tónlistarmanni og ég hef það líka á Birni Jörundi, ég hef meira að segja töluvert álit á Birni sem persónu og finnst bráðskemmtilegt að hlusta á hann. En ég skil ekki hvað þessir tveir ágætu menn eru að pæla með því að gefa út þetta lag í þessari útgáfu, þeir eru hreinlega að nauðga gamalli perlu með þessu jarmi sínu.

Einn ólyginn maður sagði mér að Bubbi hafi kvartað yfir því við forsvarsmenn Rásar2 hvað lagið fengi litla spilun þar. Miðað við hvernig lagið er, þá finnst mér lagið alltof mikið spilað.


Keflavík verðskuldaðir Íslandsmeistarar.

ÍslandsbikarinnMínir menn urðu í kvöld Íslandsmeistarar í körfubolta í hörku leik og eftir hörku úrslitakeppni. Ég er kannski smá hlutdrægur, en mér finnst sigurinn og titillinn vera sanngjarnan. Ekki amalegt að hafa tvöfalda Íslands og deildarmeistara. En bæði karla og kvennaliðið hjá Keflavík unnu deildakeppnina og Íslandsmeistaratitillinn.


mbl.is Keflvíkingar Íslandsmeistarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt sumar.

sól

 

Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars, ég vona að sumarið verði ykkur öllum sólríkt og gott.


Er ekki verið að handtaka vitlausan mann?

Voða finnst mér vera skrýtið að flutningabílstjórar mega mótmæla nánast eins og þeim sýnist, loka heilum götum á þeim tíma að skapist sem mest vandamál. Eina sem gerist hjá þeim er það að lögreglumenn tala við þá og þeir fá sér í nefið og allir eru vinir. Síðan þegar einhver mótmælir bílstjórunum, þá er hann handtekinn. Reyndar vil ég ekki verja manninn ef hann hefur skemmt bíla og verið stjórnlaus eins og fram kemur í fréttinni, en mikið skil ég manninn vel.

Ég hef grun um að flutningabílstjórar haldi að allir sem eru í umferðinni séu að rúnta nema þeir og þess vegna skipti það engu máli þó þeir loki stofnæðum. Alltaf þegar ég heyri fréttir af þessum mótmælum hjá flutningabílstjórum þá hugsa ég til þeirra daga sem ég hef þurft að fara með Hugin með hraði á Barnaspítalann, ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég hefði lent í einhverjum mótmælum og þurft að bíða jafnvel í klukkutíma vegna þess að flutningabílstjórar voru að mótmæla háu heimsverði á bensíni.

Eitt sinn var ég að fara með Hugin á Barnaspítalann í læknisskoðun og þegar ég nálgast Grindavíkurafleggjarann þá er lögreglan búin að loka Reykjanesbrautinni. Eftir að hafa beðið í um 10 mínútur hringi ég í neyðarlínuna til að fá upplýsingar um lokunina og hversu lengi brautin verður lokið og ég fæ fá svör. Skömmu síðar kemur rúta keyrandi í lögreglufylgd frá Grindavík og beygir í átt til Keflavíkur og þegar þessi rúta er búin að beygja er brautin aftur opnuð og ég get keyrt áfram til Reykjavíkur (rútan fór til Keflavíkur þannig að við vorum ekki einu sinni á sömu leið). Seinna heyri ég að ástæðan fyrir því að Reykjanesbrautin var lokuð í um það bil 20 mínútur var vegna þess að forseti Djíbútí þurfti að keyra um þessi gatnamót!

Ég skil heldur ekki alveg hvað flutningabílstjórar eru að mótmæla háu eldsneytisverði, þegar eldsneyti er einna lægst í Evrópu á Íslandi. Þeir hafa verið duglegir að blása það út að eldsneyti sé hærra á Íslandi en í Noregi miðað við laun. Eflaust er það rétt, en það er hægt að miða bensínverð við marga hluti og er ég nokkuð viss að í meirihluta tilfelli þá kæmi Ísland vel út úr þeim verðsamburði. Ástæðan fyrir háu bensínverði er hátt heimsmarkaðsverð og það að OPEC ríkin vilja ekki auka framleiðslu sína á olíu og þar með heldur verðið áfram að hækka. Ríkisstjórnin getur lítið gert í því. Síðan eru flutningabílstjórar með verulegan afslátt af eldsneytisverði og fá þar að auki virðisaukaskattinn endurgreiddann. Ég held að flutningabílstjórar séu fyrst og fremst að mótmæla vökulögunum og kílómetragjaldinu og láta það hljóma eins og þeir séu að mótmæla háu eldsneytisverði til að fá almenning með sér. Ég vil líka minna á að Sturla yfirmótmælandi flutningabílstjóranna, Sagði að honum fyndist eðlilegt að bensínverð væri í kringum 100 krónum eins og ástandið er í dag. Heldur einhver að það geti gengið þegar bensínverðið er til dæmis yfir 170 krónur í Frakklandi.


mbl.is Missti stjórn á skapi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég á kisuhetju.

Ég á tvær kisur, það eru systkinin Snati og Gormur og eins og diggir lesendur þessa blogg vita, þá er Snati læða og Gormur er fress. Það var á mánudaginn í síðustu viku að við uppgötvuðum að eitthvað væri í gangi fyrir utan hjá okkur. Við hleyptum kisunum út í garð. Snati fór strax undir sólpallinn sem er enn í smíðum og stuttu síðar heyrist mikil óhljóð undan honum og kötturinn kom hlaupandi á hraðaspretti undan pallinum og hljóp inn í þar næsta garð, vegna þess að þar er stærsta tréið í hverfinu. Hún rauk upp í tréið og prílaði alveg upp í topp eða í um 4 metra hæð. Gormur skildi hvorki upp né niður í þessu, því yfirleitt nennir Snati ekki neinu nema að láta klappa sér, borða og sofa. Eftir að Gormur hafði horft á eftir Snata upp í tréið skellti hann sér undir pallinn og þá uppgvötvuðum við að undir pallinum væri villikisa (skilgreining á villikisu = allar kisur nema Snati og Gormur).

Hófust mikil læti undir pallinum, það var hvæst og urrað og bönkin gáfu til kynna að slagsmál væri í gangi, eftir örfáar mínútur kom villikisan stökkvandi undan pallinum og tók garðinn í tveim stökkum og var kominn yfir götuna og í móann hinum megin, allt í tveim stökkum. Á meðan fylgdist Snati með öllu, skjálfandi í 4 metra hæð. Stuttu síðar kom Gormur undan pallinum töluvert skítugur og með smá áverka á trýninu. Síðan þetta gerðist hefur villikisan ekki látið sjá sig og sárið á Gormi er ógróið. Þrátt fyrir óskir okkar þá heldur Gormur alltaf áfram að sleikja á sér trýnið og rífur upp sárið.

Í kvöld gerðist það síðan að önnur óboðin villikisa kom í garðinn okkar og Gormur stækkaði ógurlega og fór að reyna að reka villikisuna í burtu. Það gekk frekar illa Kisurnar vældu og öskruðu eins og lítil börn og báðar reyndu að gera sig stærri og öskra hærra. Ég fór út í garð til að veita Gormi stuðning minn, ekki þýddi fyrir hann að treysta á Snata sem var skjálfandi út í glugga og fylgdist með öllu. Þegar ég kom út í garð stökk villikisan í burtu og Gormur á eftir henni og ég á eftir honum. Þegar villikisunni leist ekki lengur á blikuna rauk hún í burtu og hvarf augum okkar og Gormur kom labbandi sigurreifur til baka. Var þvílíkt stoltur af sér, talandi ekki um vegna þess að pabbi hans fylgdist með þessum hetjuburðum hans.

Ég var að gera mér grein fyrir því að ég á tvær kisur, eina hetjukisu og síðan Snata.


Ég vil bjarga Íslandi og ganga í Evrópusambandið.

Ég vil að Ísland hefji undirbúning að aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem fyrst. Ég hef verið þeirra skoðunar lengi að Ísland eigi að fara í viðræður um fulla aðild. Það sakar nefnilega ekki að reyna að semja um inngöngu í Evrópusambandið, ef við fáum ekki fullnægandi samning þá göngum við ekki í sambandið, einfalt mál.

Á undanförnum vikum þá hef ég styrkst enn frekar í mínum skoðunum um að það sé það eina rétta að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það aðallega vegna lélegs efnahagsástands á Íslandi. Það er mín skoðun að ástæða fyrir gengislækkun íslensku krónunnar sé sú að það eru óhæfir menn sem stjórna í Seðlabankanum. Þeir virðast halda að eina leiðin þegar krónan fellur sé að hækka stýrivexti, en það eru ansi margir sammála mér í því að ástæðan fyrir því að krónan falli sé einmitt háir stýrivextir. Þannig að hinu háu herrar í Seðlabankanum halda áfram að pissa í skóinn og framlengja vandanum og gera hann enn meiri. Því lengur sem stýrivextirnir eru svona háir því hærra verður fallið á dómsdegi.

Ég vil að Ísland gangi í Evrópusambandið ef við náum þokkalegum samningi um það. Þá fyrst getum við farið að búa við eðlilegar efnahagsaðstæður sem eru ekki stjórnaðar af uppgjafarstjórnmálamönnum, sem hafa lítið annað sér til ágætis. Ég vil að Ísland komist undir almennilega peningastjórn áður en landinu verður sigld í þrot.


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hagsmunaaðilar vonum að óvissunni í Zimbabwe ljúki fljótlega.

ZimbabveÉg vona að talningin tefjist ekki meira en orðið hefur, ég hef nefnilega hugsmuna að gæta. Þeir sem þekkja mig vel vita að ég hef smá söfnunaráráttu og hún fellst í því að ég safna peningum. Ég er ekki samt eins og Jón Ásgeir eða Björgólfur Thor. Ég er eiginlega frekar eins og gömlu karlarnir sem safna pennum eða kveikjurum. Ekki alls fyrir löngu efnaðist ég verulega þegar ég eignaðist mína fyrstu 10 milljón dollara. Það eru reyndar Zimbabwe dollarar sem eru víst ekki jafn traustir og Bandaríkja dollarinn og gengið á Zimbabwe dollaranum er eitthvað skráð lægra. En það skiptir ekki máli fyrir mig, ég á 10 milljón dollara og vill fá niðurstöðu í þessar kosningar.

Zimbabwe dollarVissuð þið að þegar peningar eru prentaðir í Zimbabwe þá eru þeir með 6 mánaðar líftíma. Það er prentað á peningana sem eru núna í gildi, "tekur gildi 1. janúar 2008, rennur úr gildi 30. júní 2008". Það þýðir lítið að geyma peningana undir kodda í Zimbabwe, enda fengi maður hálsríg af því ef maður ætti einhverja upphæð.


mbl.is Hugsanlegt að talning tefjist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðamannaparadísin St. Martin. En hver vill fljúga þangað?

StMartinSt. Martin er eyja í Karabískahafinu sem byggir nánast alla sína afkomu á ferðamönnum. Eyjan hefur verið tvískipt síðan 1648 þegar Hollendingar og Frakkar sömdu um að skipta eyjunni á milli sín. Eyjan er 87,2 ferkílómetrar og búa á henni 85.000 manns. Eyjan þykir ægifögur og frábær ferðamannaparadís, enda koma yfir ein milljón ferðamanna á hverju ári. Meðalhiti á St. Martin er 27 gráður. Hitinn getur farið niður í 17 gráður og fer sjaldan yfir 35 gráðurnar. Ekki þykir verra að fara að versla á eyjunni þar sem enginn skattur er lagður á vörur og eru merkjavörur á eyjunni allt að 40% ódýrari en í Bandaríkjunum.

Núna kemur að slæmu fréttunum. Í nóvember 2006 var opnaður nýr flugvöllur á St. Martin, Princess Juliana flugvöllurinn og er hann þekktur fyrir það hversu stutt flugbrautin er, en hún er einungis 2.130 metrar sem er eiginlega of stutt fyrir stórar flugvélar. Þess vegna er eyjan einna þekktust í dag fyrir glæfrarlegt aðflug og á hverjum degi fara fjöldinn allur af ferðamönnum á ströndina við flugbrautina til að fylgjast með flugvélum lenda. Ég setti inn myndband sem sýnir flugvél lenda á flugvellinum og spyr, hver vill fara til St. Martin.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband