Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

"Þá getum við einbeitt okkur að deildinni."

Ég ákvað að leggja þjálfara KR þessi orð í munn. Þetta er nefnilega vinsælasta setning sem þjálfari getur sagt eftir að hafa verið sleginn út úr bikarnum. Þetta er líka ein heimskulegasta setning sem hægt er að segja þar sem að auðvitað eiga lið í efstu deild að geta haldið einbeitningu þó þau séu að spila í bæði deild og bikar. Mér finnst alltaf að sá sem segir þetta sé lúser sem er að reyna að réttlæta slæma stöðu liðsins síns.

Ég held að það sé ekki gaman að vera KR-ingur í dag, liðið situr eitt á botni deildarinnar og ekkert annað en fall bíður liðsins úr efstu deild, það þarf að minnsta kosti mikið að breytast til að KR falli ekki í haust. Síðan er liðið dottið út úr bikarnum og það í fyrstu umferðinni.


mbl.is Valur vann KR í vítaspyrnukeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptaklúður ársins.

Ég held að eitt mesta klúður sem fyrirtæki hefur gert á þessu ári og sennilega á þessari öld er þegar Esso ákvað að leggja niður nafnið Bílanaust. Bílanaust var eitt öflugasta fyrirtæki landsins í sölu á bílavarahlutum og hafði mjög gott orð á sér, það var leiðandi bæði í þjónustu og í verði. Esso hafði á aftur á móti ekki eins gott orð á sér frekar en hin stóru olíufélögin og er það aðallega vegna verðsamráðssins sem þau urðu uppvís fyrir nokkrum árum síðan.

Á vormánuðum ákvað Esso að leggja nafnið Esso niður var það hið besta mál og var nafninu breytt í N1. Það voru ekki bara bensínstöðvarnar sem breyttu um nafn, heldur mörg fyrirtæki sem voru í eigu Esso. Ég tek það fram að mér finnst nafnið N1 ágætt nafn og allt í lagi að færa mörg fyrirtæki undir það nafn. En nafninu á Bílanaust áttu þeir aldrei að breyta, ég held að þessi nafnbreyting hafi skaðað Bílanaust búðirnar mikið. Af hverju stjórnendur Essó ákváðu að breyta líka nafninu á Bílanaust er mér hulin ráðgáta, var það kannski til að bæta ímynd Essó. N1 væri aðeins skárra með því að hafa Bílanaust búðirnar innan samsteypunnar, það væri aðeins betra þó það myndi stórskaða Bílanaust.


Stupid Criminal.

Er þetta ekki gott dæmi um afbrotafólk sem Jay Leno myndi kalla "stupid criminal"?


mbl.is Handtekin grunuð um fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur forseti.

Mér er alltaf að lítast betur og betur á þennan forseta Frakklands. Þegar hann varð kosinn forseti þá tilkynnti hann strax að á meðan hann fengi einhverju ráðið þá myndi Tyrkland aldrei fá inngöngu í Evrópusambandið á meðan óbreytt ástand er í landinu. Ég er sammála honum þar og hef aldrei skilið af hverju sum lönd vilja fá Tyrkland Í Evrópusambandið, þar sem í Tyrklandi er mannréttindi fótum troðin, dómskerfið og löggjafinn er gjörspilltur og svo lengi mætti telja.

Núna tilkynnti Sarkozy að hann ætlaði ekki að nota Bastilludaginn til að náða fanga. Enda finnst mér fáránlegt að forsetinn taki fram fyrir hendur dómsvaldsins og náði glæpamenn. Ég væri ekkert voða hress ef ég væri lögreglumaður í Frakkland, búinn að hafa fyrir því rannsaka mál og finna þann seka, búinn að sanna sekt hans og fá hann dæmdan, en þá kemur forsetinn og sleppur honum og af hverju. Jú það er vani að gera slíkt á Bastilludaginn.

Tveir þumlar upp fyrir Sarkozy.


mbl.is Sarkozy neitar að náða fanga á Bastilludaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleikaþættir.

Ég er búinn að vera að hugsa um alla þessa raunveruleikaþætti sem er verið að sýna í sjónvarpinu. Ég get varla kveikt á sjónvarpinu nema að það séu raunveruleikaþættir og þá skiptir ekki máli hvort þeir heita, Survivor, American Idol, America's Next Top Model, Bachelor, Bachelorette, Beauty and the Geek, Rockstar, So You Think You Can Dance, On the Lot, Pirate Master, X-Factor og America's Got Talent og ég gæti haldið svona lengi áfram. Mér finnst þessir þættir ótrúlega slakir, ég verð samt að viðurkenna að ég fylgdist með tveim af þrem fyrstu seríunum af Survivor og ég fylgdist með einni seríu af American Idol, þeirri sem feiti svertinginn vann. En ég gerði mér fljótlega grein fyrir hversu lélegir þessir þættir eru.

Auðvitað tóku Íslendingar sig til og fóru að apa eftir Kananum og fóru að framleiða raunveruleikaþætti með mjög misjöfnum árangri. Skástu þættirnir að mínu mati voru Idol og X-factor, sennilega vegna þess að þar var ungt íslenskt (og nokkrir útlendingar) fólk að reyna sig í að syngja og komast þannig áfram. Munurinn á að horfa á íslensku þættina og þá erlendu er sá að oftast kannaðist ég við nokkra keppendur í íslensku þáttunum, þau voru ýmist nágrannar mínir, ég kannaðsit við systkini þeirra eða foreldra. Verstu íslensku þættirnir eru Leitin að strákunum sem voru afspyrnu illa gerðir og hafði ég á tilfinningunni að  hver þáttur væri gerður án þess að vitað væri hvernig sá næsti yrði gerður. Síðan er þátturinn sem gerðist á bátnum við Grikkland (eða var það Tyrkland) mjög slæmur þáttur en það var örugglega gaman að vera þátttakandi í þættinum, þessi þáttur var eins og heimagert video eftir góða sólarlandadjammferð. En hann átti ekkert erindi til annarra en þeirra sem voru í ferðinni. Síðast en ekki síst verð ég að nefna Íslenska Bachelorinn, það sem gerði þann þátt svona lélegan var það hversu slakur piparsveinn var valinn og fannst mér það ansi sorglegt að hvað eftir annað skyldi hann fá höfnun frá dömunum þegar hann ætlaði að gefa þeim rós.

Ég verð þó að viðurkenna að ég hef gaman af einum raunveruleikaþætti, það er þátturinn hans Donald Trump, The Apprentice. Annar þáttur sem ég hef lúmskt gaman að horfa á er America's Next Top Model, er það ekki vegna þess að það séu góðir þættir heldur aðallega vegna þess hversu keppendurnir eru miklar tíkur. Þær eru að baktala hvor aðra út í eitt, rífast og eru virkilega vondar og ljótar út í hvorar aðra. Þær eru mannvonskan holdi klædd. Í þeim þáttum eru fallegar konur að keppa sín á milli og sanna það svo heldur betur máltækið, að fegurðin kemur að innan.

Ég vona að sjónvarpsstöðvarnar fari að hætta að kaupa þennan raunveruleikaóþverra inn og fari að einbeita sér að betra efni, en ef stöðvarnar vilja endilega halda áfram að sýna þessa þætti í Guðanna bænum hættið að sýna þá á besta tíma.


07.07.07

Eitt af því sem á erfitt með að skilja er þessi dýrkun á að gifta sig á flottri dagsetningu. Mér finnst þetta ekki flott, mér finnst þetta frekar ófrumlegt. Mér dettur í hug eftir nokkur ár þegar spurt verður brúðkaupsdaginn og brúðhjónin sem segja það, þá verði svarið. Ó já eru þið ein af þeim. Af hverju er fólk að reyna að finna flotta dagsetningu, er það til að þau gleymi ekki deginum? ég bara spyr.

Mér finnst það hið besta mál þegar fólk leitar að sérstakri dagsetningu fyrir brúðkaupið, en mér finnst það hallærislegt að það sé verið að leita að "flottri dagsetningu". Þegar ég meina sérstök dagsetning þá er ég meina kannski fæðingardagur barnsins, dagur sem þau kynntust eða einhver annar dagur sem sérstaka þýðingu fyrir parið, eins geta það verið dagar eins og 17. júní. En ekki 07.07.07.

Núna er ég væntanlega búinn að særa nokkur brúðhjón sem eru núna að vakna eftir brúðkaupsnóttina og er að lesa bloggið mitt. En þetta er bara mín skoðun. Núna væri gaman að vita hvaða dagsetning verði næsta tískubrúðkaupsdagur og ég ætla að giska á það verði 7. september 2013, það er ekki amarlegt að giftast á 7-9-13. Ef þessi dagur verður fljótlega upppantaður hjá prestum landsins, þá er bara um að gera að skella sér til Ameríku og gifta sig 9. júlí sama ár og fá sömu dagsetningu 7-9-13.


Ný skoðunarkönnun.

Ég setti inn nýja skoðanakönnun og þar er spurt hver er markahæsti leikmaður Crystal Palace frá upphafi.

Í gömlu könnunni spurði ég hvort þið takið þátt í skoðanakönnunum. 99 svöruðu og sögðu 61,8% að þeir tækju þátt í skoðanakönnunum en 23,2% gerðu það aldrei. 15,2% skiluðu auðu.


Maður vikunnar. -Guðjón Þórðarson.

Maður vikunnar er Guðjón Þórðarson. Hann sýndi það vel í vikunni að hann getur ekki bara stjórnað fótboltaliði og leikmönnum þess, heldur er hann mjög góður í að stjórna fréttamönnum og finnst lítið mál að semja spurningar fyrir þá svo hann geti svarað réttum spurningum. Heiðurinn fær hann líka fyrir skáldahæfileika sína, en hann sýndi það í vikunni hversu öflugt skáld hann er.

gaui

Maður vikunnar: Guðjón Þórðarson.


Salomon-dómur.

Ég heyrði eina tillögu að sátt á milli Keflavíkur og Akranes í sambandi við leikinn fræga síðan á miðvikudag. Það er að leikurinn verði dæmdur ógildur og ekkert stig fæst fyrir leikinn. Mér finnst þetta vera besta tillagan sem hefur komið hingað til, enda finnst mér fáránlegt að Akranes skuli fá að hagnast á óheiðarleikanum. Þessi dómur væri líka góð viðvörun til þeirra sem hugsa um að fá hagstæð úrslit með óheiðarlegum hætti.


Ótrúleg upphæð.

Peningaupphæðirnar sem eru í fótboltanum núorðið eru hærri en nokkur meðalmaður getur skilið. En þessi upphæð er gjörsamlega óskiljanleg. Af hverju er West Ham að borga tveim milljónum pundum meira en Liverpool gerði fyrir ári síðan? Ekki er það vegna þess að hann stóð sig svo vel hjá Liverpool. Hans verður minnst hjá Liverpool fyrir hvernig hann mundaði golfkylfuna í æfingaferðinni í Portúgal og að Liverpool skyldi selja hann með hagnaði.

Hvað West Ham er að pæla með því að kaupa Bellamy skil ég ekki og það fyrir þessa upphæð, mér finnst þetta vera verri kaup en þegar Newcastle keypti Joey Barton og þá er mikið sagt. En ég er enginn framkvæmdastjóri hjá ensku liði og eigum við ekki að vona að þeir sem stjórna þessum liðum vita hvað þeir eru að gera.


mbl.is Bellamy til West Ham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband