Íslenska landsliðið.

Ég er búinn að vera í hálfgerðu bloggsjokki að undanförnu og haft mikinn vilja til að blogga, en þannig er það bara að sumt fólk á ekki að hafa aðgang að netinu ef það getur ekki notað netið nema til að níða aðra. En ég held að ég sé kominn yfir þetta og hlakka til að blogga á næstu dögum.

ksiÉg ætla að segja álit mitt á landsliðshópnum hjá Ólafi Jóhannessyni nýráðnum landsliðsþjálfara í knattspyrnu. Mestu vonbrigðin mín þegar ég sé hópinn er hversu lítil breyting er á hópnum frá hópnum hans Eyjólfs. Ég vil byrja á því að gagnrýna valið sérstaklega á tveim leikmönnum, þeim Arnari Þór Viðarssyni og Jóhannesi Karli Guðjónssyni. Arnar Þór hefur ekkert sýnt með landsliðinu sem verðskuldar landsliðssæti, hann og Jóhannes voru áberandi lélegustu leikmennirnir í afhroðinu gegn Liechtenstein og segir það mikið um þeirra frammistöðu. Arnar hefur lítið spilað undanfarið ár nema með landsliðinu. Það er svipað með Jóhannes Karl, hann hefur fengið tækifæri með varaliði Burnley en samt er hann með áskrift að landsliðinu. Jóhannes Karl er frábær í að taka aukaspyrnur og langskot og er sennilega bestur Íslendinga í því, en það réttlætir engan veginn landliðssæti, ekki frekar en sá sem getur kastað lengst úr innkasti eigi rétt á landliðssæti. Kári Árnason var lítið skárri en þeir félagar Arnar og Jóhannes í Liechtenstein leiknum, en hann fær ekki tækifæri í hópnum hans Ólafs og fagna ég því.

Ólafur velur þrjá nýliða, Sverrir Garðarson sem ég fagna að skuli vera valinn, Eggert Gunnþór Jónsson sem á framtíðina en hvort hans tími sé kominn veit ég ekki, en það er greinilegt að Ólafur veit það og virði ég það. Þá velur hann Bjarna Þór Viðarsson og get ég sagt það sama um hann og Eggert. Ólafur hefur trú á þeim og er það þá hið besta mál að velja þá.

Ég fagna sérstaklega að sjá tvo leikmenn koma inn í hópinn aftur, þá Stefán Gíslason og Theodór Elmar Bjarnason. Þessir leikmenn eru í landsliðsklassa og eiga heima í landsliðinu.

Ég óttaðist það að Ólafur myndi velja hálft FH liðið í landsliðið þar sem hann þekkir þá leikmenn vel og veit hvað þeir geta, ég er sáttur við að hann skuli ekki falla í þá gryfju en samt kom það mér á óvart að hann skyldi ekki velja Matthías Guðmundsson í hópinn.

Það er ekki hægt annað í dag en að minnast aðeins á Ívar Ingimarsson. Ákvörðun hans um að hætta að spila fyrir Íslands hönd kom mér gjörsamlega á óvart. En ef maður hugsar um þetta aðeins þá kemur þetta ekki á óvart. Þetta er ekki fyrsta sinn sem Ívar hættir að spila með landsliðinu, hann hætti að spila með því þegar Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson voru landsliðsþjálfarar settu hann á varamennbekkinn eftir slaka leiki og það þoldi Ívar ekki. Það virðist sem Ívar hafi ekki þá föðurlandsást, fornfýsi og kjark sem þarf í landsleiki og þess vegna er það sennilega best að hann hætti að spila fyrir Ísland. Það er sennilega samt nöturlegt þegar Ívar segir barnabörnunum frá síðasta landsleiknum sínum 3-0 tap gegn Liechtenstein.

Ég er einn af 150.000 landsliðsþjálfurum á Íslandi, en það er bara einn sem ræður landsliðinu og það er Ólafur Jóhannesson. Ég stend á bak við hann vil gefa honum tíma til að byggja upp landsliðið. Ég hlakka til að sjá uppstillinguna á landsliðinu gegn Dönum, en þangað til bíð ég spenntur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband