Færsluflokkur: Bloggar

Bobby Fischer -Update.

Það sást til Bobby Fischer í Keflavík í gær. Samkvæmt mínum heimildum fékk hann sér að borða á ónefndum veitingastað og það sem hann pantaði var 6 spæld egg, einn skammtur af frönskum og þessu renndi hann niður með íslensku vatni.


Helgin í hnotskurn.

Huginn er búinn að eiga erfiða daga að undanförnu. Það var skipt um næringu hjá honum á miðvikudaginn og það hefur ekki gengið vel með nýju næringuna, hann hefur kastað mikið upp og hefur fengið hita og verið mjög slappur. Þetta eru allt einkenni sem við þekkjum vel, hann hefur verið að þorna upp. En hann er mjög viðkvæmur og er mjög fljótur að þorna upp. Við byrjuðum strax að einbeita okkur að því að halda nógu miklum vökva í Hugin og hefur það gengið vel og síðan á laugardag hefur leiðin bara legið upp á við hjá Hugin og hann er núna alveg að ná fyrri styrk.

Pallagerðin hefur gengið þokkalega, mætti alveg hafa gengið betur en veikindi Hugins taka mikið á okkur þar sem við þurfum að sitja yfir honum allan daginn og þess vegna hefur pallurinn setið á hakanum. Það þýðir það að potturinn verður ekki klár fyrir Ljósanótt eins og plan-A var. Plan-B var að koma fyrir fiskikari fyrir framan hús og fylla það af heitu vatni. Ég er líka hættur við það og er kominn með plan-C fyrir þá sem heimta að komast í heita pottinn á Ljósanótt. Plan-C er að ég verð með tilbúið kort af öllum húsum í götunni sem eru með heitan pott og þangað verður hægt að fara og slappa af!

Við hjónakornin ákváðum að skella okkur á ball á laugardagskvöldið og ákváðum við að fara á Papana á Players, enda klikkar þeir aldrei og gerðu það ekki heldur núna. Við töluðum um það snemma í vikunni að fá stuðningsforeldrið hans Hugins til að hugsa um Hugin á laugardagskvöldinu og við ætluðum að aðeins að kíkja á Players. Eftir að Hugin veikist þá hættum við að fara, en þegar hann fer að hressast aftur þá ákváðum við að skella okkur enda treystum við stuðningsforeldrinu alveg 100% fyrir Hugin. Þegar Paparnir fóru að spila þá skelltum við okkur á dansgólfið og vorum þar alveg þar til þeir tóku pásu og í stað þess að bíða eftir að þeir kæmu aftur að spila. Þá brunuðum við bara heim eftir góðan dans-swing.

Það var eitt dálítið skondið sem gerðist á ballinu og segir dálítið mikið um það hvernig það er að eiga langveikt barn. Á miðju ballinu segir Fjóla allt í einu við mig að henni hafi dottið í hug frábær lausn um hvað við getum gert til að gefa Hugin salt-sykur-upplausn yfir nóttina á einfaldan hátt. Á miðju dansgólfinu fundum við lausnina og hún hefur svínvirkað síðan!

Það var annað sögulegt atvik sem gerðist á ballinu, við vorum nýkomin á staðinn og sátum og ræddum við mann sem við þekkjum. Þá kemur labbandi inn maður sem hefur gert margt á okkar kostnað og það nýjasta og grófasta er að hann kærði okkur til Barnaverndarnefndar og sagði í kærunni að við vanræktum tvö af fimm börnum okkar. Hann bar okkur ekki vel söguna og fór fram á að börnin yrðu tekin af okkur. Barnaverndarnefnd þarf að taka allar kærur alvarlega og gerði það líka í þessu tilfelli, við þurftum að mæta á fundi og segja frá okkar lífi og gáfum leyfi til að BVN gæti skoðað hvernig börnin væru að standa sig í skólanum og félagslífinu. Við fengum síðan símtal frá BVN þar sem okkur var sagt að málinu yrði lokað og að það að kæran væriu tilefnislaus. Jafnframt var sagt við okkur að við myndum fá formlegt bréf um lok málsins en það væri ekki venja. Vegna eðli kærunnar og hvernig staða okkar er þá vildi BVN ljúka málinu formlega. Það er þessum manni að þakka að ég hef bréf upp á það að vera hæfur faðir. Maðurinn var skömmustulegur á líka að vera það. Það sem hann vissi ekki þegar hann lagði fram kæruna var það að við höfðum haft samband við BVN áður en fórum til Bandaríkjana með Hugin og báðum þau að vera börnunum okkar innan handar ef eitthvað kæmi upp. Eftir að við komum heim þá höfum við mikið og gott samstarf við félagsmálayfirvöld hér í Reykjanesbæ. Þannig að kæran skaðaði okkur ekki eins mikið og hann hafði vonað, aftur á móti skaðaði hún börnin og samt aðallega hann fyrir að leggja þetta á okkur og börnin. Það eru margir sem eru hissa á að við höfum sagt hverjum sem vill heyra söguna af því að við vorum kærð til barnaverndarnefndar, enda var það mikil skömm áður fyrr að fá slíka kæru. Það er ekkert gaman að fá svona kæru, en við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að hafa verið kærð. Í okkar tilfelli þarf kærandinn að skammast sín.

Þegar við komum til Keflavíkur ákváðum við að taka rúnt í gegnum miðbæinn, við hefðum sennilega ekki átt að gera það. Bærinn var eins og vígvöllur. Á um 200 metra kafla sáum við 5 lögreglubíla og einn sjúkrabíl. Við sjúkrabílinn var maður á sjúkrabörum og var greinilegt að hann hefði fengið einhverja áverka inn á skemmtistað sem hann var á. Nokkrum metrum neðar var lögreglan að handtaka mann eða menn og var mikill mannfjöldi sem fylgdist með þessari handtöku og gekk greinilega mikið á þar. Ég var í hálfgerðu sjokki þegar ég kom heim eftir að hafa séð bæinn minn í nýju ljósi.

Í gær sunnudag var síðan fótboltadagur hjá mér. Hann byrjaði á því að ég skellti mér í Ölver og horfði á mína menn í Crystal Palace spila við Ipswich í ensku Coca-Cola deildinni ásamt fleirum góðum stuðningsmönnum Palace. Leikurinn fór ekki vel þó hann hafi verið ágætlega spilaður, en Palace tapaði leiknum 1-0. Ég brenndi heim og horfði á leik Íslands og Slóveníu í EM í fótbolta kvenna. Þar sá ég ein ósanngjörnustu úrslit sögunnar þegar þær slóvensku unnu 2-1. Eftir þetta fór ég á leik Keflavíkur og Vals og enn einu sinni lutu mínir menn í gras. Þetta var með skrautlegri leikjum sem ég hef séð, til dæmis þá þurfti Keflavík að skipta öllum varamönnum sínum inná á fyrstu 26 mínútum leiksins. Ég vil síður ræða um dómgæsluna og ætla þar að taka þjálfara Keflavíkur mér til fyrirmyndar, en hann neitar að tala um dómara og dómgæslur. Það eru fleiri sem ættu að taka hann sér til fyrirmyndar, til dæmis þjálfari ÍA. Herra Hrokafullur var mjög reiður og hálfgrátandi þegar hann vældi í sjónvarpsmenn eftir leikinn og sagði að dómarinn hafi spilað með KR.


Sódóma Reykjavík.

logreglanGreinilegt að nóttin hafi verið mjög erilsöm miðað við þessa frétt. Ætli ólætin á Stuðmannadansleiknum hafi verið vegna þess að þeir spiluðu tölvupopp eins og á Kaupþingstónleikunum? Fréttin af alblóðuga manninum á Bíldshöfða er held ég gömul frétt þar sem nákvæmlega eins frétt var í blöðunum fyrir örfáum vikum, nema þar var maðurinn nakinn.

Ég er alltaf að sannfærast um að það sé til fullt af klikkuðu fólki, að fólk stökkvi út út bíl til að berja gangandi mann með kylfu, ég held að fólk sé ekki heilbrigt og það ætti frekar að halda sig heima á kvöldin og horfa á sjónvarpið.


mbl.is Fjöldi slagsmála á höfuðborgarsvæðinu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birni Inga líkt við Gomer Pyle.

Vincent D'Onofrio sló fyrst í gegn í myndi Stanleys Kubricks  Full Metal Jacket, þar fór hann með hlutverk Gomers Pyle. Ég er að pæla hvort Birni Inga sé líkt við D'Onofrio eða Gomer Pyle. Eins og flestir vita sem hafa séð þá stórgóðu mynd, þá er Gomer Pyle ekki fyrirmyndar hermaðurinn. Hann getur ekki gert neitt rétt. Hann lagður í einelti af þjálfara sínum og síðan félögum sínum þar sem þeim er refsað fyrir aumingjaskapar hans. Það endar með því að Gomer Pyle skýtur þjálfara sinn síðan sjálfan sig.


mbl.is Ruglað saman við D’Onofrio
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fleiri völundarhús.

Við fórum með Hugin á Borgarspítalann í dag þar sem hann mætti í skoðun hjá bæklunarlækni og gekk allt vel. Það sem ég hafði mestar áhyggjur af var að rata ekki á stofuna hjá lækninum í tæka tíð enda er ekki auðvelt að rata í þessum völundarhúsum sem spítalarnir eru. Ég hef aldrei skilið af hverju er þess þörf á Íslandi að byggja spítalana lárétt, en ekki lóðrétt. Núna stendur til að fara að byggja Hátæknisjúkrahús (ef það sé til hátæknisjúkrahús þá hlýtur að vera til lágtæknisjúkrahús, er það ekki?) og er notað tækifærið til að byggja hagkvæmt sjúkrahús, nei það er lögð áhersla á að byggja flott sjúkrahús og lítið hugsað um notagildið. Ég hefði vilja að það yrði byggt stórt sjúkrahús að gólffleti og síðan væri bara byggt upp í loftið. Ég var með Hugin á sjúkrahúsi í Pittsburgh í 6 mánuði, sjúkrahúsið var ekki flott að sjá en það var mjög einfalt. Það var mjög einfalt að rata og alltaf stutt að fara á næstu deild. Þegar það þurfti að flytja Hugin á milli deilda þá tók það í mesta lagi 5 mínútur og ekkert stress. Þegar Hugin hefur verið fluttur á gjörgæslu hérna þá tekur það alveg 15 mínútur og það getur munað um slíkt á ögurstundu.

Ég skil ekki af hverju var farið í einhverja teiknisamkeppni til að fá sem flottasta sjúkrahúsið, það hefði verið miklu einfaldara og viturlegra að fá einhvern vanan arkitekt að teikna sjúkrahús sem myndi nýtast sem best, bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga. Í stað þess að byggja lágreist hús með mörgum löngum göngum. Til að tryggja að sjúkrahúsið verði sem flottast þá var Alfreð Þorsteinsson ráðinn sem framkvæmdastjóri framkvæmdarnefndar um byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Flottari titill en hafði þegar hann hafði eftirlit með byggingu Orkuveituhússins sem fór bara 3 milljarða fram ú áætlun, eða sem svarar um 6 Grímseyjarferjum. Ég skil ekki af hverju Árni Johnsen hafi ekki verið ráðinn sem hægri hönd Alfreðs, þeir væru að minnsta kosti flottir saman.


Búið að steypa.

Fyrir alla þá sem fylgjast vel með pallagerðinni hjá Fjólu (og mér) þá get ég sagt það að steypuvinnan er búin. Við steyptum staurana niður í dag og gekk það mjög vel. Þannig að við getum byrjað á morgun að setja klæðninguna á pallinn og ættum því að geta notið sólarinnar um helgina á pallinum og grillað kjöt og grænmeti "a la Fjóla". Við höfum samt verið dugleg að grilla, höfum bara grillað fyrir framan húsið en ekki í garðinum, kjötið er jafngott hvar sem maður grillar. En það er bara ekki rétta grillstemningin. Það hefur dregist aðeins að klára pallinn, núna eru liðnir 3 mánuðir síðan við byrjuðum að moka upp garðinn og loks sér fyrir að við klárum pallinn, en bara þann hluta þar sem potturinn er ekki.

Huginn1Það verður sennilega lítið gert á morgun í pallinum þar sem við erum að fara með Hugin til bæklunarlæknis á morgun, við erum lengi búin að bíða eftir að komast til hans og loksins verður það á morgun. Huginn er annars búinn að vera í hörkuformi að undanförnu og er alltaf að koma læknunum á óvart. Í janúar var haldinn fundur með okkur og lækni og deildarstjóra á Barnaspítalanum, þetta var svartur fundur og í dag hefur Hugin sýnt að læknarnir höfðu ekki haft rétt fyrir sig að þessu sinni, sem betur fer. Heldur hefur Huginn sýnt stöðugar framfarir undanfarna mánuði, þó við hefðum viljað að framfarirnar væru meiri þá eru framfarir alltaf framfarir.


Hann er löggiltur hálfviti.

Ég hef verið frekar latur að blogga að undanförnu, að minnsta kosti ef ég miða við suma aðra daga. Það hefur reyndar verið nóg að gera. Ég byrjaði að vinna aftur á mánudaginn eftir tveggja vikna sumarfrí. Ég hefði sennilega þurft á lengra fríi á að halda til að safna smá orku, en það verður bara tekið seinna. Pallagerðin gengur ágætlega hjá okkur, en ég er farinn að huga að plani-B. Plan-A var að komast í heita pottinn á Ljósanótt, ég sagði alltaf að ef potturinn væri ekki til þá myndi ég redda fiskikari og fylla það af heitu vatni. Núna er ég kominn með smá áhyggjur af því að við náum ekki að gera heita pottinn kláran í tæka tíð og fiskikarið verði lausnin.

Núna var menningarnótt í Reykjavík um helgina og þrátt fyrir mikla og góða dagskrá þá tók ég ekkert þátt í henni. Ég eyddi helginni heima með Fjólunni og Hugin og átti góða helgi í róleg heitunum. Ég horfði á Kaupþings tónleikana í Ríkissjónvarpinu og fannst þeir ágætir. Það var samt nokkrir hlutir sem vöktu athygli mína. Þar ber hæst Bubbi Morthens. Mér finnst Bubbi vera frábær tónlistarmaður, en stundum finnst mér að hann ætti að syngja meira og tala minna. Ég veit hvar ég á að byrja í gagnrýni minni á honum. Bubbi fór mikinn í gagnrýni sinni á ríkisforstjórum og stjórnmálamönnum og tók dæmi með Grímseyjarferjuna og sagði ef gjaldkeri í banka myndi stela pening þá yrði hann rekinn, af hverju eru stjórnmálamenn sem klúðruðu Grímseyjarferjunni ekki reknir! Ég gæti snúið spurningunni við, ef gjaldkeri myndi stela pening myndi bankastjórinn verða rekinn? ég held ekki.

Mér finnst Bubbi ekki hafa efni á að gagnrýna ríkisforstjórana og auðvaldið. Hann gat það þegar hann söng, "Ég er löggiltur öryrki, hlusta á HLH og Brimkló. Ég er löggiltur hálfviti, læt hafa mig að fífli, styð markaðinn". En núna er hann einn af þeim sem lætur hafa sig af fífli og styður markaðinn. Núna ekur Bubbi um á tugmilljóna lánsbíl frá B&L, en hann leikur í auglýsingum í staðinn, ég væri alveg til í svona díl! Útvarpsauglýsingarnar eru svo lélegar að ég hef grun um að Bubbi semji þær sjálfur og það segir mér það að hann eigi bara að semja tónlist. Bubbi seldi síðan öðrum "arðræningjum" höfundrétt sinn á eigin verkum. Sjóvá keypti réttinn og borgaði að því að heimildir segja um 50 milljónir fyrir. Á sama tíma stóð ég í málshöfðun við Sjóvá og ég get sagt það að þeir pössuðu peningana sína betur gagnvart mér heldur en Bubba. Það sem endilega fór með mig það var þegar Bubbi fór að tala um að þetta væri í fyrsta sinn sem að tónleikar eru haldnir á íþróttaleikvangi á Íslandi. Voðalega er minnið hans Bubba orðið lélegt, ég man að minnsta kosti vel eftir Elton John tónleikunum sem haldnir voru á þessum sama velli fyrir örfáum árum síðan. Ég man líka eftir stórum tónleikum á Kaplakrikavelli fyrir nokkrum árum og þar spilaði Bubbi ásamt GCD. Svona fer minnið illa með suma menn. Ráð til þín Bubbi, tala minna og syngja meira.

Gærdagurinn fór í að reisa girðingastaurana og eru núna allt tilbúið til að steypa. Jósteinn mágur kíkti til okkar hjálpaði okkur við að reisa þá og rétta. Síðan fengum við pottinn til okkar, hann er töluvert stærri en við áttum von á. Þetta er líkara sundlaug en heitum potti, alla vega þar sem ég horfi á hann út í garði núna. Í gærkvöldi eyddum við síðan kvöldinu í að glápa á sjónvarpið. Við horfðum á sennilega eina verstu bíómynd sem ég hef séð, "Dumb and Dumberer: When Harry Met Larry". Ég veit ekki af hverju ég horfði á alla myndina en hún var virkilega léleg, eina jákvæða sem ég sá við myndina var tónlistin en í myndinni voru nokkur gömul og góð lög eins og til dæmis "Whip It" með Devo, lag sem heyrist alltof sjaldan. Það segir ýmislega um myndina að hún var tilnefnd til þriggja hindberjaverðlauna. Eftir þessari hörmungarmynd kom ein besta mynd sem ég hef séð, Das Boot. Þegar ég vissi að hún væri sýnd þá vonaði ég að hún væri sýnd með þýsku tali en ekki því enska eins og hún var á videoleigum. Sem betur fer var þessi útgáfa með þýska talinu og myndi stórgóð.


Af bloggi og barnaklámi.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um bloggið og sérstaklega þessa tengingu sem mbl.is bíður upp á, þar sem hægt er að tengja blogg við fréttir. Mörgum finnst það vera svindl og að fólk sé að tengja bloggið sitt við fréttir, finnst það vera að gera það bara til að fá fleiri inn á síðurnar sínar. Það getur verið meira en rétt að það sé ástæðan hja sumum, en af hverju mega þeir það ekki. Gott dæmi er um Bol Bolsson sem er ímyndaði vinurinn hans  Henrys Birgis, hann bloggaði við hverja fréttina af annarri án þess að segja nokkuð og á nokkrum dögum komst hann í efsta sæti moggabloggsins og Henry Birgir segir síðan á sinni heimasíðu að þetta sýnir hvað moggabloggið sé fáránlegt! Ég skil ekki hvað Henry Birgir er að meina, hvað er fáránlegt við moggabloggið sem honum tókst að sanna? Að það sé hægt að verða vinsælasti bloggarinn án þess að segja mikið. Lífið er bara þannig að það er ekki alltaf sá besti eða klárasti sem vinnur.

Það að segja að þetta sé eitthvað svindl fatta ég ekki. Þetta er kannski ekki hefðbundin aðferð, en mér finnst út í hött að fara í fýlu út í moggabloggið og hætta að blogga eins og einhverjir hafa gert út af þessu. Hvaða einstaklingar eru það sem hætta að blogga út af því að þeim finnst vinsældarlistinn ósanngjarn? Ég held að það séu aðilar sem hafa frá einhverju að segja og þola ekki að einhverjir sem segja lítið og eru ekki þekktir séu vinsælli en þeir.  Það er spurning hvort það eigi að taka upp fyrstu og aðra deild í blogginu. Í fyrstu deild eru þeir sem eru þekktir og blogga mikið um veraldlega hluti. Í annarri deildinni eru almúginn, sem bloggar fréttir og segja bara frá sínu daglega lífi. Ég held að þetta fyrirkomulag myndi kæta marga fyrstu deildar bloggarana sem gætu verið á toppnum á vinsældarlistanum án þess að einhverjir sem eru óþekktir angri þá.

Ég sá tvær eða þrjár færslur hjá Boli Bolssyni og eftir það hafði ég ekki fyrir því að opna fleiri, þannig er það bara. Ég skyldi ekki þetta uppþot í kringum Bol og ef einhverjum finnst hann vera að svindla þá finnst mér það ekki skipta máli. Ég held áfram að blogga og hef áfram gaman af vinsældarlistanum, þó þar sé einum hálfvitanum of mikið. Þessar tölur sem segja til um heimsóknir eru eitt, þær tölur sem ég tek mest eftir og mér finnst segja mikið um hversu vinsælt bloggið er það eru athugasemdirnar. Því fleiri sem skrifar athugasemdir, því vinsælli ertu. Mín skoðun á þessari bloggþrætu er sú að mér finnst þetta engu máli skipta og flestir þeir sem fara stórum orðum um svindl og prettir eru í raun að gera lítið úr sér.

Það hafa verið fréttir af rússneskri barnaklámssíðu þar sem þeir linka inn á nokkrar myndir af barnalandssíðum og allt varð brjálað á Barnalandi. Allir eru núna í kapp við aðra að læsa síðunni sinni svo enginn geti tekið myndir af börnunum og sett þær á klámsíður. Mér var bent á þessa rússnesku síðu og kíkti aðeins á hana, það var reyndar búið að læsa öllum linkum á íslensku síðurnar sem er hið besta mál. En fyrir ykkur sem hafið áhyggjur af því að börn ykkar lendi á erlendum klámsíðum, þá skal ég gefa ykkur ágætt ráð, ekki láta myndir á netið þar sem börnin eru nakin. Þær myndir sem ég sá á þessari síðu eru bara eðlilegar fjölskyldumyndir af börnum í baði eða hlaupandi um í sólinni og allt í lagi með það, en ekki setja svona myndir á netið. Þá fyrst eru þið að bjóða hættunni heim. Síðan er annað mál að það hljóta að vera stórbilaðir menn sem fá eitthvað út úr því að skoða svona myndir af ókunnugum börnum, en það eru margir stórbilaðir menn í heiminum.


Frétt á röngum degi?

Mér finnst þessi frétt svo ótrúverðug eða ótrúleg að mér finnst eins og þessi frétt eigi bara heima á 1. apríl. Síðan er spurning hvort þetta sé fríhafnarverslun eða er búið að borga skatta og skyldur af bókunum?


mbl.is Fljótandi bókamarkaður í Reykjavíkurhöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er erfitt að vera frægur.

Ég vorkenni greyi Lindsay að þurfa að þrífa klósett og deila herbergi með öðrum. Það er farið með greyið konuna eins og hún sé hornkerling.


mbl.is Lindsay Lohan þrífur klósettið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband