Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Ég blogga líka um Ramses.

Það hefur verið í tísku að undanförnu að blogga um hinn Keníska Paul Ramses, en ég hef ekkert verið að blogga um þetta mál þar sem ég veit að ég verð skotinn á kaf þar sem skoðanir mínar fara ekki alveg saman við bloggheiminn. Auk þess er ég hræddur um að skrifa um svona viðkvæmt mál þar sem það er fullt af fólki er tilbúið að misskilja orðin mín og túlka þau á þann hátt sem ég vil ekki.

Þess vegna ætla ég að blogga um Ramses faraó sem fjallað er um í tímaritinu Skakka Turninum. Það er mikið gert úr því að hann hafi átt 400 konur og 150 börn og það er látið hljóma einhvern veginn sem eitthvað afrek eða stórvirki. Mér þætti Ramses merkilegri ef hann hefði átt 150 konur og 400 börn. Þegar ég heyri þessa auglýsingu þá dettur mér maður í hug sem safnar bílum og geymir þá í vöruskemmu. Til hvers að eiga marga bíla ef maður getur ekki keyrt þá og notið þeirra? Miðað við að Ramses hafi einungis náð að eignast 150 börn með konunum 400 sýnir að hann var að safna konum frekar en að njóta þess að eiga líf með þeim og það gerir manninn í raun nauðaómerkilegan.


Handboltabloggið.

Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að koma með handboltablogg, sérstaklega þegar Keflavík trónir á toppnum í fótboltanum og Íslandsmeistaratitillinn innan seilingar eða næstum því! En í tilefni dagsins þá tel ég mig knúinn til að koma með handboltablogg og játa það að ég vaknaði í morgun til að horfa á Ísland spila til úrslita á Ólympíuleikunum. En eins og allir vita þá er ekki mikill handboltaáhugi á Suðurnesjum sem sást best á því að Sambíóin opnaði öll bíóin sín nema í Keflavík til að bjóða upp á beina útsendingu.

Eftir að ég vaknaði og leit út um gluggann sá ég að það voru kveikt ljós í velflestum húsum í nágrenninu sem sýndi að það voru fleiri en ég sem vaknaði til að horfa á handbolta í þessum fótbolta og körfuboltabæ. Mér fannst strákarnir okkar standa sig ágætlega í leiknum og árangur liðsins á Ólympíuleikunum hreint út frábær. En það var eitt sem fór svakalega í taugarnar á mér í leiknum, það voru þessir portúgölsku tilburðir nokkra leikmanna Frakka þar sem þeir hentu sér niður með tilþrifum við smá snertingu eða jafnvel enga snertingu. Leið mér eins og ég væri að horfa á fótboltaleik með portúgalska landsliðinu í fótbolta, en þeir eru þekktir fyrir tilþrifamikinn ofleik og dramatilburði. Mér hefur alltaf fundist handbolti vera svona karlaíþrótt þar sem þeir sterkustu standa lengst og best, en þeir sem eru ekki nógu sterkir þeir komast ekkert áfram í íþróttinni.

Eftir að hafa horft á úrslitaleik Ólympíuleikanna þá hefur álit mitt breyst á íþróttinni, vælu og aumingjaskapur er komið í handboltann líka og ef fram fer sem horfir þá mun handboltinn verða leiðinlegri en hann er í dag ef ekkert verður gert í þessu. Ég vona að þessi hörku íþrótt eigi ekki eftir að smitast frekar af portúgölskum aumingja og leikaraskap. Svo ég segi bara við Frakkanna, þið unnuð vegna þess að þið voru betri, en hættið þessum væluskap og þessu er sérstaklega beint til tveggja markahæstu manna liðsins, þeirra Karabatic og Gille sem ættu að fá hindberjaverðlaunin fyrir leik sinn í morgun.


Mömmuhelgi.

Það er búið að vera mömmuhelgi hjá mér núna, það er að ég geri allt sem mamman á heimilinu biður um! Eftir stuttan vinnudag horfði ég á rómantíska mynd með Fjólunni og síðan skelltum við okkur á höfuðborgarsvæðið, maður má víst ekki tala lengur um Reykjavík heldur þarf að segja höfuðborgarsvæðið til að móðga ekki Garðbæinga og Kópavogsbúana. Ég byrjaði á að bjóða Fjólunni út að borða, enda komið hádegi. Ég var grand á því og bauð henni í matsölu IKEA, ég vildi helst fara niður í pulsurnar, en hún vildi frekar grænmetisbuffið og að sjálfsögðu fékk hún það. Við löbbuðum í gegnum búðina og keyptum okkur nokkra lífsnauðsynlega hluti, sem ég vissi ekki að okkur vantaði fyrr en ég sá þá. Þegar við vorum búin að borga hlutina og setja þá í bílinn, þá fórum við aftur inn í IKEA til að athuga hvort okkur hefði eitthvað yfirsést eitthvað og mikið rétt, skömmu síðar gengum við aftur út úr IKEA með lífsnauðsynlega hluti sem ég vissi ekki að okkur hafði vantað!

Eftir IKEA fórum við í útilegumanninn til að athuga hvort við sæjum eitthvað sem okkur vantaði í sambandi við fellihýsið okkar og að sjálfsögðu sáum við fullt af hlutum sem okkur vantaði, flest það sem til var í búðinni vantaði okkur, við höfðum hugsað okkur að kaupa kannski útilegustóla og smá borðbúnað, en sölumaðurinn vildi helst selja okkur 5 milljón króna hjólhýsi, en okkur tókst einhvern veginn að snúa sölumanninn af okkur og löbbuðum út tómhent og ekki með neitt í eftirdragi. Þá var farið í Office1 að kaupa skrifföng fyrir skólavertíðina hjá börnunum. Ég var á rólegu nótunum þar, labbaði á eftir Fjólunni með innkaupakörfu sem þyngdist stöðugt því innar sem við fórum í búðina, ég var orðinn slappur í öxlunum þegar við komum loksins að búðarkassanum. Eftir Office1 ferðina skelltum við okkur í BYKO að reyna að finna fleiri hluti sem við höfum ekki þörf á, fundum nokkra en samt var ekkert keypt, en einhverjir af hlutunum voru síðan settir á fjárlög og verða eflaust keyptir síðar. Enda má það ekki gerast að við eigum ekki hlut sem okkur langar í.

Við skelltum okkur síðan í heimsókn til Jósteins mágs, en ég gerði mér ekki grein fyrir hversu langt er síðan ég heimsótti hann fyrr en hann bauð mér upp á útrunnið kók. Hann bauð mér ekki bara upp á gamalt kók heldur líka upp á dýrindis kjúklingasalat. Eftir matinn skelltum við okkur á kaffihús og fórum við þrjú á Cafe Cultura sem er í Alþjóðahúsinu á Hverfisgötu. Staðurinn er fínn og heita súkkulaðið sem ég fékk var gott, en ég fékk samt tækifæri þarna til að hneykslast á þremur hlutum, í fyrsta lagi þá var einn gesturinn þarna með lítið barn með sér, barnið var kannski 6-9 mánaðar gamalt og það finnst mér vera of ungt til að vera á kaffihúsi eftir klukkan 10 á laugardagskvöldi. Samferðarfólk mitt reyndi að sannfæra mig um að þetta væri kannski ekki óeðlilegt og nefndi hinar ýmsu ástæður sem hugsanleg rök fyrir veru barnsins þarna inni, en ég gat engann veginn keypt neinar af þeim. Annar liðurinn sem ég fékk á hneykslast á var rafmagnið þarna, en við stoppuðum ekki lengi en á þeim tíma sló rafmagnið út 5 eða 6 sinnum. Mér finnst það ekki traustvekjandi kaffihús sem getur ekki haldið rafmagninu á lengur en 10 mínútur í einu. Ég held að það hafi verið einn starfsmaður í fullu starfi þarna að slá inn rafmagninu. Þriðji hluturinn sem ég fékk að hneykslast á var það þegar dyraverðirnir voru á barnum að drekka, ég meina þeir voru meira að segja í merktum jökkum!! Ég er kannski bara orðinn of gamall fyrir þetta, kannski tíðkast það í dag að dyraverðir séu drekkandi á meðan þeir vinna og foreldrar koma með ungabörnin sín á kaffihús vegna þess að þau fái ekki pössun eða hafa ekki efni á henni.

En mömmudagurinn var fínn, þó ég hafi þurft að fórna fyrstu umferðinni í ensku knattspyrnunni, en hún hófst í gær og að ég hafi líka þurft að fórna landsleik Íslands og Danmerkur í handboltanum.


Mínir menn fengu auðvelda mótherja!

palaceMínir menn duttu heldur betur í lukkupottinn í kvöld þegar dregið var í enska deildarbikarnum. Crystal Palace lentu á móti Leeds United og ættu Leeds ekki að vera mikil mótspyrna fyrir Palace, enda spila þeir í ensku C-deildinni.


mbl.is Dregið í ensku deildabikarkeppninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er búið að blanda skít í KR-salatið?

Guðjón Þórðarson sagði það í viðtali að ekki er hægt að gera kjúklingasalat úr kjúklingaskít þegar hann var spurður af hverju hann hefði ekki náð betri árangri með ÍA liðið. Í ÍA liðinu voru 3 synir Guðjóns og er ótrúlegt að faðir líkir sonum sínum við kjúklingaskít.

Bjarni Guðjónsson sonur Guðjóns er einn af leikmönnunum og eftir að Guðjón var rekinn frá ÍA keypti KR hann, af hverju skilur enginn. Bjarni var góður leikmaður en hefur gjörsamlega ekkert getað í sumar og það að hann sé fyrrverandi góður leikmaður virðist vera næg ástæða fyrir KR til að kaupa hann, þrátt fyrir að hafa engin not fyrir hann. Ég hef heldur ekki skilið það þegar stóru liðin eru alltaf að kaupa bestu leikmennina í lélegustu liðunum, en svona eru bara sumir.

Eftir leik dagsins, þá dettur mér í hug hvort þetta sé rétt samlíking hjá Guðjóni með kjúklingasalatið og kjúklingaskítinn. Er Logi Ólafsson búinn að eyðileggja KR-salatið sem hann hefur verið að útbúa undanfarna mánuði með því að blanda skít í það?


mbl.is Enn einn sigur FH á KR í Vesturbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af kurteisum börnum og öðrum börnum.

Í síðustu viku var ég á leið að Lúllinu hans Hugins, en það er rétt fyrir utan Keflavík á leiðinni út í Garð. Þegar ég keyrði út úr Keflavíkinni voru þar unglingar á puttanum, þar sem ég var hvorki á leið til Sandgerðis eða Garðs ók ég framhjá þeim og sá síðan í speglinum þar sem þeir senda mér ljóta puttann. Ég vissi ekki hvað ég átti að halda, sem betur fer eru þessir krakkar ekki lýsandi dæmi um ungu kynslóðina í dag. En ég held að þessum börnum veitti ekki af smá námskeiði í kurteisi.

Nokkrum dögum áður varð ég fyrir annari reynslu í sambandi við unga fólkið. Þannig var að ég sat í stofunni heima hjá mér og hafði það gott, þetta var í hádegishléinu hjá mér. Þá heyrðist mikill hávaði eins og eitthvað hafði lent í glugganum. Ég fór út og þar lá golfkúla á blettinum við gluggann. Fyrir aftan húsið er bara mói og klettar og þar voru engir kylfingar. Skömmu seinna er bankað á dyrnar hjá mér og þar standa tveir skömmustulegir piltar og biðjast afsökunar á að hafa skotið golfkúlunni í húsið og lýstu þeir fyrir mér hvað hafði gerst sem varð þess valdandi að kúlunni fór í ranga átt og í húsið. Að lokum spurðu þessir ungu menn mig hvort þeir mættu fá kúluna aftur og ég gat ekki neitað þeim um það, þar sem kurteisin og iðrunin var svo einlæg.


Verslunarmannahelgar-blogg.

Þá er maður kominn heim eftir smá verslunarmannahelgarferð. Við skötuhjúin skelltum okkur á Þingvöll og treystum vort heit. Við vorum ekki tvö ein þar, heldur voru ansi margir þar og meðal annars tveir bræður mínir og hluti af fjölskyldum þeirra. Við höfðum það gott þar, skelltum okkur í sund á Borg og rúntuðum um þjóðgarðinn, bæði á bíl og tveim jafnfljótum.

Á laugardagskvöldið var ég sendur til að kveikja upp í grillinu og þegar ég kom ekki til baka fór fólk að undrast um mig og fundu mig síðan í hörku umræðum við ókunnugan mann. Fólk varð heldur betur hissa þegar það kom í ljós að maðurinn sem ég var að tala við harður stuðningsmaður Skagamanna í fótboltanum og fyrrverandi leikmaður liðsins og fór vel á með okkur. Þar sannaðist það að óbeit mín á knattspyrnuliði Akraness snerist um Guðjón Þórðarson og syni hans sem hann kallaði kjúklingaskít. Ég held jafnvel að hörðustu Skagamenn viti um hvað ég hef verið að tala núna, þegar þeir eru loksins lausir við Guðjón og heyra hvernig hann talar um fyrrverandi leikmenn sína og félaga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband