Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Arfaslakir KR-ingar.

Ég horfði á leikinn í kvöld og það kom mér á óvart hversu arfaslakir KR-ingarnir voru. Það var bara eitt lið á vellinum, stundum virtist sem KR-ingarnir ætluðu að fara að spila fótbolta en þá byrjuðu Valsmenn bara aftur og KR-ingarnir urðu eins lömb. Það er oft talað um að heimavellir sumra liða sé ljónagryfja, mér finnst KR völlurinn vera eins og kattakassi, þangað koma allir og gera þarfir sínar og enginn segir eða gerir neitt.

KR liðið sýndi litlar framfarir frá því Teitur var með liðið, enda kannski ekki von þar sem Logi er bara búinn að vera með liðið í 10 daga. Ég held samt að KR hafi gert rétt með því að losa sig við Teit og Logi er tvímælalaust betri kostur en Teitur, en ég hefði haldið að það hefði verið hægt að finna betri þjálfara en Loga, þó hann hafi náð góðum árangri með KF Nörd.


mbl.is Valur sigraði KR 3:0 í Vesturbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær fær almenningur að fara til Surtseyjar?

surtseyHversu lengi á Surtsey að vera lokuð fyrir almúgann. Ég skil vel að eyjan er merkileg rannsóknarstöð en af hverju fá sumir að fara þangað en aðrir ekki. Ég er ekki að tala um að opna eyjuna algjörlega heldur að leyfa fólki að fara í smá skoðunarferð á ákveðnum dögum. Þetta yrði mikill innblástur fyrir Vestmannaeyjar þar sem fleiri ferðamenn myndu koma til þeirra og hægt væri að stýra ferðatímanum að vissu leyti.

Ég gæti til dæmis séð að Surtsey væri opin fyrir ferðamenn kannski 10-12 daga á ári og þeir sem hefðu áhuga á heimsækja eyjuna þyrftu að panta ferðina með fyrirvara og að sjálfsögðu þyrfti að takmarka fjöldann (alla vega til að byrja með). Ferðamennirnir þyrftu að gangast undir sömu reglur og þeir sem fá að heimsækja eyjuna núna.

Ég skil nefnilega ekki af hverju ég og fleiri mega ekki heimsækja Surtsey eins og aðra staði á Íslandi á sama tíma má aðallinn heimsækja eyjuna. Það eru nefnilega ekki bara vísindamenn sem heimsækja Surtsey.


mbl.is Hrunið hefur úr grynningum við Surtsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er ekki 100 mínútur í klukkutímanum?

usafaniFyrir tveim árum bjó í Bandaríkjunum í 6 mánuði, nánar tiltekið í Pittsburgh. Það sem kom mér mjög á óvart var það hvað kaninn er með allt öðruvísi kerfi á öllum hlutum. Þá er ég að meina í öllum tölum. Þeir nota ekki metrakerfið, þeir nota tommur, fet, jarda og mílur. Ég man eitt sinn þegar ég var að keyra á ókunnugum vegi, það voru vegaframkvæmdir og ég þurfti að hafa alla athygli á að fara út af veginum á réttum stað. Síðan kom skilit sem sagði ég átti að beygja eftir 1 mílu, skömmu síðar 0,7 mílur og ég hélt áfram og þá kom skilti og sagði að ég átti að beygja eftir 1.500 fet. Mér krossbrá og þurfti að byrja að reikna hvað langt væri í að beygja. Af hverju gat næsta skilti ekki verið 0,5 mílur, nei það hefði verið of einfalt kaninn verður að gera svona lagað flókið.

Ég fór eitt sinn í verslun og var að kaupa kjöt og eins og hagsýnum heimilsföður er venja þá ákvað ég að bera verðið saman á tveim kjötbitum sem ég hafði áhuga á að kaupa. Nei þá var á öðrum bitanum sagt hvað pundið kostaði og á hinum hvað únsan kostaði. Það var ekki einu sinni hægt að bera saman verð á sambærilegri vöru vegna þess að það eru svo margar einingar sem kaninn notar. Hér á Íslandi hefði maður í mesta lagi lent í að vandræðast að bera saman 1,5 kg eða 1500 grömm.

Kaninn skilur ekki af hverju við þurfum að vera öðruvísi, en hann skilur ekki að hann er öðruvísi en aðrir með því að halda þessu kerfi. Þegar ég  benti honum á af hverju væri allt á Olympíuleikum samkvæmt metrakerfinu átti hann fá svör, af hverju er keppt í 100 metra hlaupi en ekki í 328 feta hlaupi eins og kaninn myndi örugglega vilja. Sama sagan í sundi, stangarstökki, hástökki og öllum öðrum greinum. Af hverju eru þjóðaríþróttirnar hjá kananum hafnarbolti og ruðningur, íþróttir sem engar aðrar þjóðir stunda af einhverju viti. Af hverju á knattspyrnan ekki upp á pallborðið hjá kananum, en knattspyrnan er langvinsælasta íþróttagrein heims.

Aftur að metrakerfinu. Ég skildi aldrei af hverju kaninn væri ekki með 100 mínútur í klukkutímanum svo hann væri með allt öðruvísi en við. Af öllum þessum rugluðu mælieiningum var samt eitt sem sló mig algjörlega út af laginu, það var þegar mæla átti bensíneyðslu á bíl. Við reiknum það þannig að hvað eyðir bíllinn mörgum lítrum á hundrað kílómetrum. Kaninn mælir eyðsluna þannig að hvað kemst bíllinn margar mílur á einu galloni af bensíni. Reynið að reikna út hvað bíll sem kemst 15 mílur á einu galloni eyðir mörgum lítrum á hundrað kílómetrum, ekki langar mig til að reikna það út!


Ný skoðunarkönnun.

Ég var að setja inn nýja skoðunarkönnun og þar er spurt hvort þið eru búin að kolefnisjafna bílinn ykkar.

Í síðustu könnun var spurt hver væri markahæsti leikmaður Crystal Palace frá upphafi. 106 svöruðu könnununni og er ég djúpt snortinn yfir því hversu margir þekkja sögu Crystal Palace. 66%  svöruðu rétt og sögðu að Peter Simpson væri markahæsti leikmaðurinn. Simpson skoraði 154 deildarmörk og 12 bikarmörk fyrir Palace á árunum 1930-1936. Hann skoraði þessi 166 mörk í 195 leikjum. Simpson er líka sá leikmaður sem hefur skorað flest deildarmörk fyrir Palace á einu tímabili en hann skoraði 46 mörk tímabilið 1930-1931. Þá hefur enginn leikmaður gert eins margar þrennur fyrir Crystal Palace en Simpson skoraði 18 þrennur.

Aðrir sem fengu atkvæði í könnunni voru O.J. Simpson með 14,2%, 11,3% héldu að Hómer Simpson væri sá markahæsti og 8,5% nefndu Jessicu Simpson.


Játning.

Ég verð að gera eina játningu hér á blogginu, þar sem enginn klukkaði mig þá kem ég bara með játninguna fyrir mig. Þannig er að ég forfallinn krembrauðsfíkill. Ég veit það eru ekki margir sem borða Krembrauð frá Freyju, en mikið svakalega er það gott. Ég man þegar ég var lítill að fá fékk ég stundum krembrauð, en þá voru aðrir tímar en núna. Innflutningur á sælgæti var bannaður á öllu sælgæti nema Prins Póló og við urðum að gera okkur íslenska framleiðslu að góðu. Þá var ekki byrjað að framleiða Djúpur og Freyjudraum þannig að úrvalið var ekki mikið. Fyrir nokkrum árum kynntist ég krembrauði aftur fyrir tilviljun og hef borðað það reglulega síðan. Það er stór galli við krembrauðið það er hvað það endist stutt og verður fljótt vont. Ég var búinn að fá mig fullsaddann af því að kaupa krembrauð sem stóðst ekki væntingar mínar, þá datt mér snjallræði í hug. Ég kaupi krembrauðið alltaf í sömu búðinni, þá veit ég að það er hreyfing á því og það verður ekki gamalt. Síðan ég byrjaði að gera þetta þá hef ég alltaf fengið nýtt og gott krembrauð. Fyrir ykkur sem viljið kaupa nýtt og gott krembrauð sem stenst mínar væntingar, þá versla ég alltaf mitt krembrauð í Samkaup Strax á Hringbrautinni í Keflavík.


Frábært framtak.

einstokbornMér finnst frábært að svona mót séu haldin þar sem ágóðinn rennur til góðra mála. Ég er félagi Í Einstökum Börnum og veit alveg hversu gott og öflugt þetta félag er og það að peningarnir koma félaginu vel. Ég set báða þumlungana upp fyrir skipuleggjendum mótsins og DHL.


mbl.is Sigurpáll sigraði í Einvíginu á Nesinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri fyrir Ísland.

ksiÉg held að þetta sé gott tækifæri fyrir Ísland til að halda stórmót í knattspyrnu. Við vitum það vel að Ísland mun aldrei fá tækifæri til að halda HM eða EM og ekki heldur neinn stórleik í meistaradeildinni eða UEFA-bikarnum. Þar sem ég hef grun um að fá lönd vilja halda þessa keppni eftir reynslu Dana, þá ættum við raunhæfa möguleika á að fá að halda Heimsbikarkeppni Heimilislausra.


mbl.is 15 heimilislausir fótboltamenn hurfu í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er fólk að blogga?

blog_hausAf hverju er fólk að blogga? Þetta er spurning sem hvílir á ansi mörgum og flestir hafa sitt álit á því. Þeir sem blogga ekki halda því fram að þetta sé viss tegund af athyglissýki og þeir sem blogga halda flestir því fram að þeir séu blogga vegna þess að þeir halda að þeir hafa frá einhverju að segja.

Það er smá ástæða fyrir því af hverju ég er að blogga. Þannig er að í nóvember 2004 eignaðist ég mikið veikt barn og ég og Fjólan héldum úti heimasíðu á Barnalandi um baráttu hans. Við skrifuðum inn á heimasíðuna nánast daglega frá nóvember 2004 til mars 2007. Oft langaði okkur að tala um mál sem okkur fannst ekki eiga heima á síðunni hans, en gerðum það ekki. Ég reyndi nokkrum sinnum að byrja að blogga en það gekk ekki upp af einhverjum ástæðum. Þegar Fjólan fór síðan að tala um að fara að blogga þá hvatti ég hana til þess og skráði hana inn á blog.is. Í kjölfarið fór ég að blogga, en ég hafði skráð mig inn nokkrum mánuðum fyrr án þess að blogga. Þar sem ég er heima flest kvöld og helgar þá hef ég nægan tíma til að setjast niður við tölvuna og pikka inn nokkrar línur. Mér finnst það eiginlega bara gaman.

Það eru margir sem eru duglegir að blogga við fréttir til að fá fleiri heimsóknir á síðuna þeirra og margir eru ansi duglegir að gagnrýna þá. Mér er nokkuð sama hvort fólk hafi eitthvað að segja þegar þeir blogga fréttir, þegar ég hef lesið færslur hjá sumum sem hafa ekkert að segja þá hætti ég að skoða færslurnar frá þeim. Ósköp einfalt.

það er samt ein tegund af bloggi sem fer í taugarnar á mér. Það er þegar fólk er að blogga um viðkvæmar fréttir og er að segja eitthvað sem það má kannski hugsa en aldrei segja, hvað þá að birta á prenti. Ég vil ekki nefna nein dæmi, en það þarf ekki að fara lengra en í síðustu viku til að sjá skelfileg blogg, sem hefði aldrei átt að vera birt. Annað sem fer í taugarnar á mér það er þegar fólk er að nota bloggið til að koma með fréttir eða upplýsingar sem eiga ekkert erindi inn á bloggsvæði, til dæmis að birta nöfn manna sem hafa látist af slysförum eða koma með ótímabærar dánartilkynningar. Ég hef nokkrum sinnu séð það þegar fólk er að nafngreina fólk sem hafa látist fljótlega eftir slys, ég skil ekki hvaða hvatir liggja þar að baki. Af hverju leyfir fólk ekki svona tilkynningum fara sína venjulegu leið?

Ekki alls fyrir löngu kom upp sérstakt mál svokallað Lúkasarmál, þar sem hundur var drepinn og maður nánast tekinn af lífi fyrir að drepa hundinn. Síðan kom hundurinn fram sprelllifandi og hress og hundamorðinginn var saklaus. Þessi aðili er núna búinn að kæra 70 manns fyrir að níða sig opinberlega og sumir voru jafnvel kærðir fyrir að vera með hótanir í garð hans. Það að svona mál hafi komið er skelfilegt, en samt ágætt að málið varð svona borðleggjandi. Ég vona að ákæruvaldið taki þetta mál að festu svo þeir sem hafa sest í dómarasæti á netinu undir nafnleynd geri sér grein fyrir að netið er ekkert leikfang fyrir óvita.

Þrátt fyrir þetta allt þá ætla ég að halda áfram að blogga um það sem mér finnst, ef ég sé einhverja frétt sem mig langar að blogga við þá geri ég það og spyr engan að því. En ég mun ekki blogga við fréttir þar sem mannlegir harmleikir eru og ég mun ekki blogga við fréttir sem eru viðkvæmar fyrir suma.


Veit kaninn ekki að það er hægt að millifæra?

Í fréttinni á vef Víkurfrétta stendur, "Upphæðin var ekki millifærð eins og gengur og gerist í nútíma viðskiptum heldur kom ávísun upp á 10 milljónir dollara í pósti". Þá er spurning hvort að kaninn viti ekki hvort það sé hægt að millifæra? Ætli ávísunin hafi komið í ábyrgðarpósti?


mbl.is Fékk 10 milljóna dala ávísun senda í pósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þeir eigi ekki laxerolíu í Kalkútta?

Ég hefði haldið að það væri ódýrara og einfaldara að láta greyi karlinn laxera.


mbl.is Gleypti hálsmen og var gert að borða 50 banana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband