Í dag eru 6 mánuðir síðan Huginn dó.
24.9.2008 | 21:45
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að í dag eru 6 mánuðir síðan Huginn Heiðar dó, það er bæði svo stutt og langt síðan við vorum á Gjörgæsludeildinni að fylgjast með læknunum reyna að bjarga lífi hans, ekki í fyrsta skiptið en því miður í það síðasta.
Á síðustu 6 mánuðum höfum við þurft að byrja að fóta okkur í lífinu aftur og gengur það þokkalega. Ég tel að við höfum tekið rétta ákvörðun í lífinu eftir að Huginn dó. Í stað þess að falla í sorg og ásökun, þá höfum við hugsað um það sem við áttum og hvað við vorum heppinn að eignast svona yndislegan strák sem gaf okkur svo mikið. Hugins vegna og vegna allra þeirra vísbendinga sem við höfum fengið frá honum, þá getum við ekki annað en hugsað til hans með hlýju og þakklæti.
Mynd sem ég tók af regnboganum í sumar.
Síðan Huginn Heiðar dó þá eru nokkur lög sem mér finnst bara vera Hugins-lög. Til dæmis lagið "Má ég pússa regnbogann?" með Brimkló. Í allt sumar hefur regnbogi verið mjög áberandi og ótrúlega oft sem ég hef séð hann og hann hefur líka verið óvenju skýr á allt sumar, tel ég það sé vegna þess að það sé lítill engill þarna uppi sem sér um að pússa regnbogann. Í dag þegar ég var á leið heim úr vinnu sá ég ótrúlega sjón. Ég sá regnbogann sem er ekki í frásögu færandi, heldur sá ég upptök hans og enda, regnboginn náði frá heimilinu okkar og að kirkjugarðinum og hann var svo skýr og flottur og alveg heill. Maður getur ekki annað en sannfærst um að sá sem sér um að pússa regnbogann vandar sig við og leggur metnað sinn í að ég sjái hann.
Hægt er að hlusta á lagið, "Má ég pússa regnbogann?" hér til hliðar í tónlistarspilaranum.
Athugasemdir
Þið hafið staðið ykkur ótrúlega vel í þessum gjörbreyttu aðstæðum elsku Mummi.
Það hafa verið forréttindi að fylgjast með ykkur.
Fjóla setti svo magnaða mynd inn sín megin, svoleiðis er gott að minnast Hugins. Hjartanlega glaður snáði.
Knús á ykkur elskurnar
Ragnheiður , 25.9.2008 kl. 00:03
Ég sit hér að morgni dags, var að horfa á myndina hjá Fjólu og færði mig hingað til að hlusta á lagið hans.
Yndisleg lag og regnbogarnir hafa verið ofsalega fallegir. Litli engillinn er vandvirkur
Ragnheiður , 25.9.2008 kl. 10:11
Sæll elsku vinur, gaman að hitta ykkur skötuhjúin um daginn. Þið eruð búin að standa ykkur eins og hetjur, líkt og sonur ykkar gerði. Enda hefur hann ekki átt langt að sækja það. Knús á ykkur öll.
p.s. gott lag, sá einmitt regnboga síðast í dag, ferlega litsterkann.
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.