Ég á kisuhetju.
21.4.2008 | 23:20
Ég á tvær kisur, það eru systkinin Snati og Gormur og eins og diggir lesendur þessa blogg vita, þá er Snati læða og Gormur er fress. Það var á mánudaginn í síðustu viku að við uppgötvuðum að eitthvað væri í gangi fyrir utan hjá okkur. Við hleyptum kisunum út í garð. Snati fór strax undir sólpallinn sem er enn í smíðum og stuttu síðar heyrist mikil óhljóð undan honum og kötturinn kom hlaupandi á hraðaspretti undan pallinum og hljóp inn í þar næsta garð, vegna þess að þar er stærsta tréið í hverfinu. Hún rauk upp í tréið og prílaði alveg upp í topp eða í um 4 metra hæð. Gormur skildi hvorki upp né niður í þessu, því yfirleitt nennir Snati ekki neinu nema að láta klappa sér, borða og sofa. Eftir að Gormur hafði horft á eftir Snata upp í tréið skellti hann sér undir pallinn og þá uppgvötvuðum við að undir pallinum væri villikisa (skilgreining á villikisu = allar kisur nema Snati og Gormur).
Hófust mikil læti undir pallinum, það var hvæst og urrað og bönkin gáfu til kynna að slagsmál væri í gangi, eftir örfáar mínútur kom villikisan stökkvandi undan pallinum og tók garðinn í tveim stökkum og var kominn yfir götuna og í móann hinum megin, allt í tveim stökkum. Á meðan fylgdist Snati með öllu, skjálfandi í 4 metra hæð. Stuttu síðar kom Gormur undan pallinum töluvert skítugur og með smá áverka á trýninu. Síðan þetta gerðist hefur villikisan ekki látið sjá sig og sárið á Gormi er ógróið. Þrátt fyrir óskir okkar þá heldur Gormur alltaf áfram að sleikja á sér trýnið og rífur upp sárið.
Í kvöld gerðist það síðan að önnur óboðin villikisa kom í garðinn okkar og Gormur stækkaði ógurlega og fór að reyna að reka villikisuna í burtu. Það gekk frekar illa Kisurnar vældu og öskruðu eins og lítil börn og báðar reyndu að gera sig stærri og öskra hærra. Ég fór út í garð til að veita Gormi stuðning minn, ekki þýddi fyrir hann að treysta á Snata sem var skjálfandi út í glugga og fylgdist með öllu. Þegar ég kom út í garð stökk villikisan í burtu og Gormur á eftir henni og ég á eftir honum. Þegar villikisunni leist ekki lengur á blikuna rauk hún í burtu og hvarf augum okkar og Gormur kom labbandi sigurreifur til baka. Var þvílíkt stoltur af sér, talandi ekki um vegna þess að pabbi hans fylgdist með þessum hetjuburðum hans.
Ég var að gera mér grein fyrir því að ég á tvær kisur, eina hetjukisu og síðan Snata.
Athugasemdir
Haha, mér finnst Snati æðislegt nafn á kvenkött. Þar nærðu að brjóta tvær hefðir. Flott hjá þér.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.4.2008 kl. 06:45
Hhehehe.Það er ekki ósvipað sistemið hjá Kisum og okkur mönnum.Sem sagt mitt svæði er mitt svæði fyrir mig og mína,og svo ver auðvitað Gormur bú sitt og sinna með ágætum.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 22.4.2008 kl. 06:54
Það voru margir hneykslaðir á nafninu, en ég sagði strax að ég myndi breyta nafninu ef kisa væri ósátt við nafnið. Ég held að hún elski þetta nafn.
Mummi Guð, 22.4.2008 kl. 12:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.