Af hverju eiga björgunarsveitirnar að hafa einokun á sölu flugelda?

Eitt heitasta bloggmálið um þessi áramót var um flugeldasölu og hverjir eiga að fá að selja flugelda. Það eru flestir sammála um að björgunarsveitirnar ættu að fá að sitja að flugeldasölunni einir og þegar fólk kaupir flugelda af björgunarsveitunum þá eru þeim peningum vel varið. Það er staðreynd, en á það að gefa björgunarsveitunum rétt á einokunarsölu á flugeldum?

Mitt mat er að það eigi að hafa flugeldasölu frjálsa, eins og hún er í dag. Ég hef nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun. Í fyrsta lagi finnst mér óþarfa boð og bönn röng. Síðan snýst þetta líka um peninga og verðlagningu á flugeldum. Ég veit um dæmi um að manneskja verslaði við einkaaðila vegna þess að það var mun ódýrara. Þó flestum munar ekki um að borga þúsund krónum meira fyrir fjölskyldupakkann, þá munar það fyrir suma og hann getur munað því hvort að fólk geti keypt eitthvað fyrir börnin sín eða að þau þurfi að eyða gamlárskvöldinu í að sjá aðra skjóta upp.

Það er sífellt tönglast á því að þetta sé nánast eina tekjulind björgunarsveitanna og það er rétt, mér finnst að það ætti að breyta því. Á gamlársdag (eða daginn áður) var viðtal við einhvern háttsettann mann hjá VÍS í sjónvarpinu þar sem hann talaði um það tjón sem VÍS þyrfti að bera vegna óveðursins og talaði um það í hundruðum milljóna, af hverju talaði hann ekki um hversu mikið björgunarsveitirnar spöruðu VÍS og af hverju greiða tryggingafélögin ekki björgunarsveitunum fyrir svona verk, þar sem verið er að spara tryggingafélögunum stórfé.

Á milli jóla og Nýárs fór björgunarsveit í mjög erfiðan leiðangur upp á Langjökul til að bjarga fólki sem var í vandræðum þar. Þrátt fyrir brjálaða veðurspá þá fór þetta fólk í þessa ferð, svona aðeins til að skemmta sér! Af hverju er þetta fólk eða tryggingar þeirra ekki látin greiða fyrir kostnað af björguninni, þó ekki sé nema fyrir brot af því svo þetta fólk fái smá nasaþef af þeim kostnaði sem svona björgun er.

Af hverju á maður eins og ég að styrkja björgunarsveitirnar? Ég er ekki jeppakarl eða veiðikarl, fer ekki á sjó og þegar það kemur vont veður þá vil ég vera heima undir sæng. Á þeim rúmlega þrjátíu árum (*hóst hóst*) sem ég lifað þá hef ég aldrei þurft á aðstoð björgunarveitar að halda (7-9-13). Hvers vegna ætti ég að styrkja einhver samtök eða félög sem ég nota ekki ?

Til að koma í veg fyrir misskilning þá ber ég mikla virðingu fyrir bjögunarveitum landsins og þeim störfum sem þau vinna og þrátt fyrir þessi orð mín þá hef engan áhuga á að versla flugelda af einkaaðilum. Það sem ég er að segja að ég skil ekki þennan hugsunarhátt að það megi ekki senda reikning til þeirra sem ana upp á fjöll í brjáluðu veðri og illa búnir og þurfa síðan að láta björgunarsveitirnar bjarga sér. Fólk fær sendan reikning ef það þarf að flytja það á sjúkrahús með sjúkrabíl, er þetta eitthvað öðruvísi?

Varðandi flugeldasöluna, þá væri frekar ráð að koma með nýjar tillögur til að styrkja björgunarsveitirnar á þeim markaði, til dæmis með því að leggja niður innflutningsgjöld og virðisaukaskatt af flugeldum til björgunarsveitanna. Þá stæðu björgunarsveitirnar mun betur í samkeppni við einkaaðilann og gæti haft hærri álagningu til að styrkja reksturinn betur. Jafnframt gæti þá einkaaðilinn verið á markaðinum og veitt björgunarsveitunum smá aðhald.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég hef einu sinni fengið skutl með sjúkrabíl. ég fékk sendan reikning.

Brjánn Guðjónsson, 2.1.2008 kl. 00:16

2 identicon

Þú hefur margt til þíns máls Mummi, en ég er sammála þér með að senda fólki reikning fyrir björgun líkt og þessu fólki þarna á langjökli nú um helgina, algert ábyrgðarleysi af þeim að ana þarna upp eftir degi fyrir óveðursspá. Góð tillaga þetta með tolla og innflutningsgjöld á flugeldum til hjálparsveita.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 09:52

3 Smámynd: Halla Rut

1.  Auðvitað verður sala á flugeldum að vera frjáls. Verðmiðinn hjá þeim væri klárlega annar ef engin samkeppni væri.

2. Góður punktur hjá þér varðandi tryggingafélögin og ættur þeir að taka þetta til sín.

3. Ég fok vond yfir þessu liði sem fór uppá Langjökul þrátt fyrir slæma spá og er það vegna þess að það fór með börn í þessa óþarfa hættuför sem mér finnst hreinlega vera barnaverndunarmál. Það er eitt að hætta sínu eigin lífi og annað að leggja líf annarra í hættu vegna eigin skemmtanaþörf. Þarna var líf barna og svo líf björgunarsveitamanna lagt í óþarfa hættu. Þeir sem þarna báru ábyrgðina eiga að greiða reikninginn enn ekki ég og þú í formi flugeldakaupa. 

Halla Rut , 2.1.2008 kl. 12:05

4 identicon

Gleðilegt ár og takk fyrir kveðjuna

Fríða K (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband