Fjölmiðlar mega skammast sín.

Ég hálfpartinn lofaði mér því að draga úr frétta og íþróttabloggum, ég ætla samt að koma með eitt fótboltabloggið enn af gefnu tilefni. En það fjallar um kosningu á knattspyrnukonu ársins á lokahófi KSÍ.

Það vita það allir núna að Hólmfríður Magnúsdóttir var kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins af leikmönnum deildarinnar. Margar ótrúlegar samsæriskenningar eru í gangi um að svindl hafi verið í gangi við valið og leikmenn liða hafi komið sér saman um að kjósa ekki Margréti Láru. Ég trúi ekki að það hafi verið raunin. Ég held að Hólmfríður hafi verið valin vegna þess að hún var besti leikmaður Íslandsmótsins. Ég hef reynt að hlera hvernig Keflavíkurstelpurnar kusu og veit ég að nokkrar þeirra kusu Hólmfríði og ástæðan var sú að þeim þótti hún einfaldlega best í sumar. Ég hef aftur á móti ekki heyrt frá einni eða neinni hvort að einhver plott hafi verið í gangi um sniðganga Margréti Láru og að einhver sms hafi verið í gangi kannast engin við.

Henry Birgir hefur fjallað mikið um þetta mál á heimasíðu sinni. Þar hefur hann meðal annars auglýst eftir sönnunum fyrir því að samantekin ráð hafi ráðið því að Margrét Lára var ekki kosin. Engin sönnun hefur komið fram, en það ætti ekki erfitt þar sem miðað við sögusagnirnar þá gengu sms og tölvupóstar á milli leikmanna um að kjósa hana ekki. Það ætti ekki að vera erfitt að fá afrit af einum pósti eða sms-i. Henry skrifar í dag áhugaverða kjaftasögu, er hún því miður ekki mjög ótrúverðug, hún er svohljóðandi:

Var að heyra athyglisverða sögu. Valskonur komust að því að ekki ætluðu allar stelpurnar í deildinni að kjósa Margréti Láru besta. Vitandi að það yrði hálfneyðarlegt fyrir Margréti að vera ekki valin best ákváðu einhverjir Valsmenn að koma af stað orðrómi um að samantekin ráð væru í gangi.

Ef svo ólíklega færi að Margrét yrði ekki valin best væri nefnilega mjög hentugt að grípa í þessar sögusagnir og segja að það sé einkennilegt að orðrómur sem var í gangi fyrir einhverjum vikum síðan hefði gengið eftir. Það liti betur út fyrir Margréti ef illa færi. Valur væri samt alls ekki að ásaka neinn og hefði engar sannanir.

Nú ef svo færi að Margrét yrði valin best þá myndi enginn velta sér upp úr sögusögnunum, ekkert vesen og málið búið. Hentugt og skothelt dæmi.

Fjölmiðlamenn hafa verið fljótir að taka upp samsæriskenninguna og hafa verið duglegir að blása upp málið í anda Lúkasarmálsins fyrr í sumar. Fljótlega eftir að Hólmfríði var afhent verðlaunin náði Þorsteinn Gunnarsson íþróttamaður að króa hana af og ein af fyrstu spurningunum var, af hverju heldur þú að þú hafir verið valin! Döööh. Sennilega af því hún var best, eða var Þorsteinn að gefa annað í skyn? Síðan hafa hver fjölmiðillinn á fætum öðrum tekið upp þessa samsæriskenningu og talað um skandal í kosningunni.

Forsvarsmenn Vals hafa verið duglegar að gagnrýna valið og vilja taka upp lýðræðislegri kosningar! Hvernig er hægt að hafa lýðræðislegri kosningu en þá að allir fái að kjósa? Það er lagt til að komin verður upp nefnd sem sér um að velja leikmann ársins. Þeir sem halda að það sé lýðræðislegra eru sennilega aldir upp í Sovétríkjunum og eru trúir komúnismanum.

Í dag kom enn eitt dæmið um hvernig fólk er að missa sig í tilfinningunum, líkt og gerðist með Lúkasarmálið. Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum skrifar opið bréf til Margrétar Láru og birtir það opinberlega. Þar tekur hann undir samsæriskenninguna, án þess að hafa nokkur sönnunargögn undir höndum og gerir lítið úr árangri Hólmfríðar. Elliðið má eins og svo margir íþróttarfréttamenn sem hafa misst sig í umfjöllun um samsæriskenninguna skammast sín. Þessir menn eru að gera lítið úr íþróttum kvenna með mjög óábyrgri umfjöllun. Þessir menn ættu að hugsa um hundinn Lúkas núna og muna hvernig hann drapst.

Hólmfríður spilaði frábærlega fyrir KR, var drifkraftur liðsins á miðjunni og skoraði 15 mörk í 13 leikjum sem þykir mjög gott fyrir miðjumann. Auk þess skoraði hún 3 mörk í þremur bikarleikjum, en KR varð bikarmeistari. Hún var kosin í eins lýðræðislegum kosningum og hægt er að framkvæma. Hólmfríður Magnúsdóttir var kosin vegna þess að hún er besti leikmaður Íslandsmótsins. Hólmfríður til hamingju með titillinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er synd hvernig þetta mál hefur þróast, þó sérstaklega fyrir Hólmfríði, get ekki séð að henni líði vel með titilinn, allavega myndi mér ekki líða vel með svona aðdróttanir í kringum mig um samráð og þar fram eftir götunum. Maður er ekki bestur bara af því að maður skoraði svo og svo mörg mörk. Það er margt annað sem spilar inn í myndi ég ætla.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 16:41

2 Smámynd: Mummi Guð

Það er einmitt þetta sem ég er að meina. Hvað ætli það séu margir sem gaspra um samsæri sem hafa séð leiki með Hólmfríði í sumar. Ég held að þeir séu ansi fáir.

Mummi Guð, 23.10.2007 kl. 16:45

3 identicon

Það þarf eitthvað meira en sérstakt magga ö og mummi til þess að slá markametið, það þarf afburðar einstakling eins og Margréti Láru. Hversu marga leiki sástu með val mummi guð? Margrét lára var besti leikmaður besta liðsins á mótinu í ár, sló markametið og fór illla með nánast öll liðin í deildinni og kr-ingar ættu nú að vita manna best hvernig hún fór með þá, Hólmfríður var góð í ár en hún spilaði ekki einu sinni allt mótið og til að setja ennþá beetur árangur Márgrétar Láru að þá skoraði helsta markamaskína KR 19 mörk í 16 leikjum, Margrét Lára er með 38!!!!!!!! ásamt því að leggja upp c.a 14 mörk!!! Það er fáheyrður árangur knattspyrnumanns/konu.

Halldór (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 09:14

4 Smámynd: Mummi Guð

Auðvitað þarf mikið til að slá markametið, en síðan má spyrja á móti. Var markametið slegið þar sem liðum var fjölgað í deildinni og samkvæmt mínum upplýsingum þá var skoraði Margrét Lára hlutfallslega færri mörk en gamla markametið var. En ég vil samt ekki fara niður á það plan að metast á milli leikmanna.

Það er rétt að Hólmfríður missti af 3 leikjum vegna meiðsla, en á það að koma í veg fyrir að hún sé best? Það er ekki verið að velja þann sem spilaði flestar mínúturnar.

Því miður sá ég engan leik hvorki með Hólmfríði né Margréti Láru í sumar, aftur á móti sá ég í sjónvarpi tvo leiki með Hólmfríði og einn með Margréti Láru.

Ég hef aldrei sagt að mér fyndist Hólmfríður betri en Margrét Lára, ég hef sagt og það er það sem skiptir máli, að úr því að Hólmfríður var valin best þá hlýtur það að vera vegna þess að hún er best. Ég hef ekki nokkra trú á því að eitthvert samsæri hafi verið í gangi um að kjósa hana ekki. Þær upplýsingar sem ég hef fengið frá leikmönnum, þá höfðu þær engar upplýsingar um svona samsæri.

Mummi Guð, 24.10.2007 kl. 22:39

5 Smámynd: Signý

Það virðist enginn geta staðfest þessar sögur, valskonur eru einu manneskjunar á þessu landi sem tala um þetta og segja að þetta hafi gerst, fengu þær þessi sms? Væri það ekki annars furðulegt ef það hefði verið? Hver fréttu þær af þessu? 

Ástæða þess að Hólmfríður spilaði ekki allt mótið var afþví að hún viðbeinsbrotnaði í leik í deildarbikarnum innanhús og missti því af nær öllu undirbúningstímabilinu sem og 3 fyrstu umferðunum. Getur ekki verið að stelpurnar sem kusu hana hafi verið að verðlauna hana fyrir þann dugnað og elju að koma svo fljótt til baka eins og raunin var? Svona með tiliti til þess að læknar sögðu að hún myndi ekkert spila fótbolta fyrr en seinna hlutan af tímabilinu? Er það í alvörunni svo fjarstæðukennt?

Ég vil fá að heyra önnur rök fyrir því að Margrét Lára hafi átt þennan titil skilið annað en að hún skoraði 38 mörk. Hún er senter, það er hennar vinna að koma tuðrunni í netið, og það skemmir nú ekki fyrir að hafa 8 landsliðsmenn inná vellinum með sér til að koma boltanum á sig. Án þess þó að gera lítið úr þessu afreki hennar eða hæfileikum.

Hólmfríður er kantmaður sem skoraði 15 mörk í 13 leikjum hæfileikar hennar eru ekkert minni en Margrétar, þeir eru bara aðrir, sem er eðlilegt þar sem þær spila ekki sömu stöðina.

Friður á jörð! 

Signý, 25.10.2007 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband