Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Ungur maður seldur í ánauð.

Í morgun þegar ég mætti í vinnu, þá mætti einn vinnufélagi minn ekki og við vissum ekki hvers vegna hann kom ekki. Í hádegisfréttum var sagt frá því að hann væri kominn til Noregs, þar sem norskt fótboltalið hefði keypt hann. Ég vona að Baldur nái fljótlega að losna frá norsku þrælahöldurunum og komi aftur heim til Íslands.


Bobby Fischer -Update.

Það sást til Bobby Fischer í Keflavík í gær. Samkvæmt mínum heimildum fékk hann sér að borða á ónefndum veitingastað og það sem hann pantaði var 6 spæld egg, einn skammtur af frönskum og þessu renndi hann niður með íslensku vatni.


Ég skora á Eið Smára!

Ég skora á Eið Smára að kæra Davíð Smára líka. Ef Eiður kærir hann líka, þá eru mun meiri líkur á að Davíð Smári fái "sanngjarnan" dóm. 

Ég tek ofan fyrir Val að kæra, hann er að sýna gott fordæmi og er að gera knattspyrnunni greiða með kærunni. Það er nefnilega þannig að oft finnst manni að það megi beita annan mann ofbeldi svo lengi sem það gerist á fótboltavellinum. Slíkt á ekki að líðast, ofbeldi er ofbeldi hvort sem er niðrí bæ, í heimahúsi eða á knattspyrnuvellinum.

Update! Fréttastofa Stöðvar 2 dró til baka fréttina um að Davíð Smári hafði ráðist á Eið Smára, þó hann hefði verið á svæðinu.


mbl.is Knattspyrnudómari kærir líkamsárás til lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott hjá strákunum og flott hjá KKÍ.

kki.isEkki nóg með það að þetta var magnaður sigur hjá strákunum, heldur er ég mjög sáttur við KKÍ eftir leikinn. Leikmennirnir spiluðu með nöfn sín aftan á treyjunum og ólíkt handboltalandsliðinu þá voru körfuboltastrákarnir með fornöfn sín á bakinu. Mér finnst miklu eðlilegra að til dæmis Jakob Sigurðarson sé með "JAKOB" á bakinu heldur en "SIGURDARSON". Þó það tíðkast erlendis að vera með eftirnöfn á bakinu þá heita Íslendingar ekki föðurnöfnum sínum, heldur eru þeir Sigurðarson svo dæmi sé tekið.

Íslendingar væri ekki eina þjóðin sem ekki notuðu eftirnöfn sín á treyjurnar, til dæmis eru fæstir leikmenn brasilíska landsliðsins í knattspyrnu með eftirnöfn sín á bakinu. Ronaldo heitir Ronaldo Luis Nazário de Lima og Ronaldinho heitir Ronaldo de Assís Moreira.

Flott framistaða hjá strákunum og KKÍ.


mbl.is Ævintýraleg sigurkarfa Jakobs tryggði Íslendingum sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur blettur á íþróttinni.

Svona ofbeldisverk eiga ekki heima í íþróttaheiminum. Knattspyrna er leikur og list og þeir sem stunda hana eiga að spila hana af ástríðu og gleði. Þetta ofbeldisverk er allt það sem knattspyrna á ekki að snúast um, þetta er svartur blettur á íþróttinni. 

Ég legg til að umræddur leikmaður, Davíð Smári Helenarson (þekktur sem Davíð Fazmo) verði sendur í lyfjapróf. Ég er nokkuð viss um að hann muni ekki standa prófið, enda þekktur ofbeldismaður. Hann komst í fréttirnar þegar hann réðist á Eið Smári í miðbæ Reykjavíkur. Hann réðst á hann bara til að geta sagt frá því að hann hafði lamið frægan fótboltamann. Það að hann spilar með liði Dinamo Gym 80 segir líklega mikið um á hvaða lyfjum hann er á. Þá komst hann líka í fréttir í janúar í fyrra þegar hann gekk í skrokk á Sveppa af tilefnislausu, ástæðan fyrir þeirri árás sagði hann að Sveppi hafi verið með stjörnustæla við sig!

Það sem mér finnst skelfilegt er að þó að Davíð Smári hafi ritað afsökunarbeiðni til mótherja, samherja og dómarans þá reynir hann að réttlæta gjörðir sínar. Ég legg til að Davíð Smári verði sendur í lyfjapróf og síðan dæmdur í ævilangt bann frá keppni í íþróttum. Síðan að mál hans fari eðlilega leið í dómskerfinu.


mbl.is Réðst að dómara í fótboltaleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgin í hnotskurn.

Huginn er búinn að eiga erfiða daga að undanförnu. Það var skipt um næringu hjá honum á miðvikudaginn og það hefur ekki gengið vel með nýju næringuna, hann hefur kastað mikið upp og hefur fengið hita og verið mjög slappur. Þetta eru allt einkenni sem við þekkjum vel, hann hefur verið að þorna upp. En hann er mjög viðkvæmur og er mjög fljótur að þorna upp. Við byrjuðum strax að einbeita okkur að því að halda nógu miklum vökva í Hugin og hefur það gengið vel og síðan á laugardag hefur leiðin bara legið upp á við hjá Hugin og hann er núna alveg að ná fyrri styrk.

Pallagerðin hefur gengið þokkalega, mætti alveg hafa gengið betur en veikindi Hugins taka mikið á okkur þar sem við þurfum að sitja yfir honum allan daginn og þess vegna hefur pallurinn setið á hakanum. Það þýðir það að potturinn verður ekki klár fyrir Ljósanótt eins og plan-A var. Plan-B var að koma fyrir fiskikari fyrir framan hús og fylla það af heitu vatni. Ég er líka hættur við það og er kominn með plan-C fyrir þá sem heimta að komast í heita pottinn á Ljósanótt. Plan-C er að ég verð með tilbúið kort af öllum húsum í götunni sem eru með heitan pott og þangað verður hægt að fara og slappa af!

Við hjónakornin ákváðum að skella okkur á ball á laugardagskvöldið og ákváðum við að fara á Papana á Players, enda klikkar þeir aldrei og gerðu það ekki heldur núna. Við töluðum um það snemma í vikunni að fá stuðningsforeldrið hans Hugins til að hugsa um Hugin á laugardagskvöldinu og við ætluðum að aðeins að kíkja á Players. Eftir að Hugin veikist þá hættum við að fara, en þegar hann fer að hressast aftur þá ákváðum við að skella okkur enda treystum við stuðningsforeldrinu alveg 100% fyrir Hugin. Þegar Paparnir fóru að spila þá skelltum við okkur á dansgólfið og vorum þar alveg þar til þeir tóku pásu og í stað þess að bíða eftir að þeir kæmu aftur að spila. Þá brunuðum við bara heim eftir góðan dans-swing.

Það var eitt dálítið skondið sem gerðist á ballinu og segir dálítið mikið um það hvernig það er að eiga langveikt barn. Á miðju ballinu segir Fjóla allt í einu við mig að henni hafi dottið í hug frábær lausn um hvað við getum gert til að gefa Hugin salt-sykur-upplausn yfir nóttina á einfaldan hátt. Á miðju dansgólfinu fundum við lausnina og hún hefur svínvirkað síðan!

Það var annað sögulegt atvik sem gerðist á ballinu, við vorum nýkomin á staðinn og sátum og ræddum við mann sem við þekkjum. Þá kemur labbandi inn maður sem hefur gert margt á okkar kostnað og það nýjasta og grófasta er að hann kærði okkur til Barnaverndarnefndar og sagði í kærunni að við vanræktum tvö af fimm börnum okkar. Hann bar okkur ekki vel söguna og fór fram á að börnin yrðu tekin af okkur. Barnaverndarnefnd þarf að taka allar kærur alvarlega og gerði það líka í þessu tilfelli, við þurftum að mæta á fundi og segja frá okkar lífi og gáfum leyfi til að BVN gæti skoðað hvernig börnin væru að standa sig í skólanum og félagslífinu. Við fengum síðan símtal frá BVN þar sem okkur var sagt að málinu yrði lokað og að það að kæran væriu tilefnislaus. Jafnframt var sagt við okkur að við myndum fá formlegt bréf um lok málsins en það væri ekki venja. Vegna eðli kærunnar og hvernig staða okkar er þá vildi BVN ljúka málinu formlega. Það er þessum manni að þakka að ég hef bréf upp á það að vera hæfur faðir. Maðurinn var skömmustulegur á líka að vera það. Það sem hann vissi ekki þegar hann lagði fram kæruna var það að við höfðum haft samband við BVN áður en fórum til Bandaríkjana með Hugin og báðum þau að vera börnunum okkar innan handar ef eitthvað kæmi upp. Eftir að við komum heim þá höfum við mikið og gott samstarf við félagsmálayfirvöld hér í Reykjanesbæ. Þannig að kæran skaðaði okkur ekki eins mikið og hann hafði vonað, aftur á móti skaðaði hún börnin og samt aðallega hann fyrir að leggja þetta á okkur og börnin. Það eru margir sem eru hissa á að við höfum sagt hverjum sem vill heyra söguna af því að við vorum kærð til barnaverndarnefndar, enda var það mikil skömm áður fyrr að fá slíka kæru. Það er ekkert gaman að fá svona kæru, en við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að hafa verið kærð. Í okkar tilfelli þarf kærandinn að skammast sín.

Þegar við komum til Keflavíkur ákváðum við að taka rúnt í gegnum miðbæinn, við hefðum sennilega ekki átt að gera það. Bærinn var eins og vígvöllur. Á um 200 metra kafla sáum við 5 lögreglubíla og einn sjúkrabíl. Við sjúkrabílinn var maður á sjúkrabörum og var greinilegt að hann hefði fengið einhverja áverka inn á skemmtistað sem hann var á. Nokkrum metrum neðar var lögreglan að handtaka mann eða menn og var mikill mannfjöldi sem fylgdist með þessari handtöku og gekk greinilega mikið á þar. Ég var í hálfgerðu sjokki þegar ég kom heim eftir að hafa séð bæinn minn í nýju ljósi.

Í gær sunnudag var síðan fótboltadagur hjá mér. Hann byrjaði á því að ég skellti mér í Ölver og horfði á mína menn í Crystal Palace spila við Ipswich í ensku Coca-Cola deildinni ásamt fleirum góðum stuðningsmönnum Palace. Leikurinn fór ekki vel þó hann hafi verið ágætlega spilaður, en Palace tapaði leiknum 1-0. Ég brenndi heim og horfði á leik Íslands og Slóveníu í EM í fótbolta kvenna. Þar sá ég ein ósanngjörnustu úrslit sögunnar þegar þær slóvensku unnu 2-1. Eftir þetta fór ég á leik Keflavíkur og Vals og enn einu sinni lutu mínir menn í gras. Þetta var með skrautlegri leikjum sem ég hef séð, til dæmis þá þurfti Keflavík að skipta öllum varamönnum sínum inná á fyrstu 26 mínútum leiksins. Ég vil síður ræða um dómgæsluna og ætla þar að taka þjálfara Keflavíkur mér til fyrirmyndar, en hann neitar að tala um dómara og dómgæslur. Það eru fleiri sem ættu að taka hann sér til fyrirmyndar, til dæmis þjálfari ÍA. Herra Hrokafullur var mjög reiður og hálfgrátandi þegar hann vældi í sjónvarpsmenn eftir leikinn og sagði að dómarinn hafi spilað með KR.


Maður vikunnar. -Lögregluvarðstjórinn.

Maður vikunnar að þessu sinni er lögregluvarðstjórinn sem lét skutla sér upp í Leifsstöð í lögreglubíl með forgangljósum og á ofsahraða. Á sama tíma og almenningur eru búnir að fá sér fullsaddann af ofsaakstri ökuníðunga og búið er að stórþyngja refsingu við níðingsakstri, þá misnotar lögregluvarðstjórinn vald sitt og traust og gerir undirmenn sína samseka sér með því að skutla sér á ofsahraða í gegnum Reykjavík og eftir Reykjanesbrautinni. Allt vegna þess að hann var of lengi að strauja skyrtuna sína.

Í síðustu viku þá tók lögreglustjórinn dómsátt um að greiða 200.000 krónur í sekt. Ég er nokkuð hlutlaus um þessa sekt, ég veit ekki hvort hún sé há eða lág, mér finnst það kannski ekki skipta höfuðmáli í þessu. Aftur á móti er ég með ákveðnar skoðanir á því hvort þessi lögregluvarðstjóri eigi að halda vinnunni eða ekki. Lögreglustjórinn braut vinnureglur lögreglunnar gróflega, hann gerði þetta af yfirlögðu ráði og á sér engar málsbætur, ég tel það að missa af flugi séu ekki málsbætur. Ef ég myndi brjóta vinnureglur á mínum vinnustað eins og hann gerði þá yrði ég rekinn. Ég tel að lögreglustjórinn eigi að vera rekinn úr starfi, þar sem hann hefur skaðað lögregluna með  því sýna þennan dómgreindarbrest, hann hefur sýnt það að hann virðir ekki landslög og geti þess vegna ekki sinnt sínu starfi.

lögreglan að störfum.

Lögreglan að störfum.


Sódóma Reykjavík.

logreglanGreinilegt að nóttin hafi verið mjög erilsöm miðað við þessa frétt. Ætli ólætin á Stuðmannadansleiknum hafi verið vegna þess að þeir spiluðu tölvupopp eins og á Kaupþingstónleikunum? Fréttin af alblóðuga manninum á Bíldshöfða er held ég gömul frétt þar sem nákvæmlega eins frétt var í blöðunum fyrir örfáum vikum, nema þar var maðurinn nakinn.

Ég er alltaf að sannfærast um að það sé til fullt af klikkuðu fólki, að fólk stökkvi út út bíl til að berja gangandi mann með kylfu, ég held að fólk sé ekki heilbrigt og það ætti frekar að halda sig heima á kvöldin og horfa á sjónvarpið.


mbl.is Fjöldi slagsmála á höfuðborgarsvæðinu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David Beckham er kúl.

Ég set myndband af atvikinu í gær þegar allt leysist upp í slagsmál í leik L.A. Galaxy og Chivas. Beckham sýnir hversu agaður leikmaður hann er. Það er brotið illa á honum og hann rýkur upp að þeim brotlega en gerir ekkert neitt. En slagsmál hefjast á milli flestra leikmanna en Beckham er löngu farinn. Beckham flottur á því.


Sagan endalausa.

Ég skil ekki alveg þessar fréttir alltaf hreint af Birgi Leif. Stöðugar fréttir af því að hann komst næstum því í gegnum niðurskurðinn. Síðan loksins þegar hann kemst í gegnum þennan niðurskurð þá dettur hann strax úr keppni. Síðan þegar Birgir Leifur kemur til Íslands að keppa þá kemur í ljós að hann á ekkert erindi í íslenska kylfinga.  Hann varð í fjórða sæti yfir íþróttamaður ársins í fyrra án þess að ná einhverjum sérstökum árangri. Sennilega lýsir það betur afrekum Íslendinga á íþróttaviðinu almennt á síðasta ári.

Ekki misskilja mig samt þannig að ég sé að gera lítið úr árangri Birgis, þetta lýsir miklu frekar hvað fjölmiðlar eru að reyna (og tekst) að gera mikið úr árangri hans.


mbl.is Skrautlegt skorkort og Birgir er úr leik í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband