Handboltabloggið.

Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að koma með handboltablogg, sérstaklega þegar Keflavík trónir á toppnum í fótboltanum og Íslandsmeistaratitillinn innan seilingar eða næstum því! En í tilefni dagsins þá tel ég mig knúinn til að koma með handboltablogg og játa það að ég vaknaði í morgun til að horfa á Ísland spila til úrslita á Ólympíuleikunum. En eins og allir vita þá er ekki mikill handboltaáhugi á Suðurnesjum sem sást best á því að Sambíóin opnaði öll bíóin sín nema í Keflavík til að bjóða upp á beina útsendingu.

Eftir að ég vaknaði og leit út um gluggann sá ég að það voru kveikt ljós í velflestum húsum í nágrenninu sem sýndi að það voru fleiri en ég sem vaknaði til að horfa á handbolta í þessum fótbolta og körfuboltabæ. Mér fannst strákarnir okkar standa sig ágætlega í leiknum og árangur liðsins á Ólympíuleikunum hreint út frábær. En það var eitt sem fór svakalega í taugarnar á mér í leiknum, það voru þessir portúgölsku tilburðir nokkra leikmanna Frakka þar sem þeir hentu sér niður með tilþrifum við smá snertingu eða jafnvel enga snertingu. Leið mér eins og ég væri að horfa á fótboltaleik með portúgalska landsliðinu í fótbolta, en þeir eru þekktir fyrir tilþrifamikinn ofleik og dramatilburði. Mér hefur alltaf fundist handbolti vera svona karlaíþrótt þar sem þeir sterkustu standa lengst og best, en þeir sem eru ekki nógu sterkir þeir komast ekkert áfram í íþróttinni.

Eftir að hafa horft á úrslitaleik Ólympíuleikanna þá hefur álit mitt breyst á íþróttinni, vælu og aumingjaskapur er komið í handboltann líka og ef fram fer sem horfir þá mun handboltinn verða leiðinlegri en hann er í dag ef ekkert verður gert í þessu. Ég vona að þessi hörku íþrótt eigi ekki eftir að smitast frekar af portúgölskum aumingja og leikaraskap. Svo ég segi bara við Frakkanna, þið unnuð vegna þess að þið voru betri, en hættið þessum væluskap og þessu er sérstaklega beint til tveggja markahæstu manna liðsins, þeirra Karabatic og Gille sem ættu að fá hindberjaverðlaunin fyrir leik sinn í morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband