Er ekki verið að handtaka vitlausan mann?
22.4.2008 | 16:25
Voða finnst mér vera skrýtið að flutningabílstjórar mega mótmæla nánast eins og þeim sýnist, loka heilum götum á þeim tíma að skapist sem mest vandamál. Eina sem gerist hjá þeim er það að lögreglumenn tala við þá og þeir fá sér í nefið og allir eru vinir. Síðan þegar einhver mótmælir bílstjórunum, þá er hann handtekinn. Reyndar vil ég ekki verja manninn ef hann hefur skemmt bíla og verið stjórnlaus eins og fram kemur í fréttinni, en mikið skil ég manninn vel.
Ég hef grun um að flutningabílstjórar haldi að allir sem eru í umferðinni séu að rúnta nema þeir og þess vegna skipti það engu máli þó þeir loki stofnæðum. Alltaf þegar ég heyri fréttir af þessum mótmælum hjá flutningabílstjórum þá hugsa ég til þeirra daga sem ég hef þurft að fara með Hugin með hraði á Barnaspítalann, ég veit ekki hvað ég myndi gera ef ég hefði lent í einhverjum mótmælum og þurft að bíða jafnvel í klukkutíma vegna þess að flutningabílstjórar voru að mótmæla háu heimsverði á bensíni.
Eitt sinn var ég að fara með Hugin á Barnaspítalann í læknisskoðun og þegar ég nálgast Grindavíkurafleggjarann þá er lögreglan búin að loka Reykjanesbrautinni. Eftir að hafa beðið í um 10 mínútur hringi ég í neyðarlínuna til að fá upplýsingar um lokunina og hversu lengi brautin verður lokið og ég fæ fá svör. Skömmu síðar kemur rúta keyrandi í lögreglufylgd frá Grindavík og beygir í átt til Keflavíkur og þegar þessi rúta er búin að beygja er brautin aftur opnuð og ég get keyrt áfram til Reykjavíkur (rútan fór til Keflavíkur þannig að við vorum ekki einu sinni á sömu leið). Seinna heyri ég að ástæðan fyrir því að Reykjanesbrautin var lokuð í um það bil 20 mínútur var vegna þess að forseti Djíbútí þurfti að keyra um þessi gatnamót!
Ég skil heldur ekki alveg hvað flutningabílstjórar eru að mótmæla háu eldsneytisverði, þegar eldsneyti er einna lægst í Evrópu á Íslandi. Þeir hafa verið duglegir að blása það út að eldsneyti sé hærra á Íslandi en í Noregi miðað við laun. Eflaust er það rétt, en það er hægt að miða bensínverð við marga hluti og er ég nokkuð viss að í meirihluta tilfelli þá kæmi Ísland vel út úr þeim verðsamburði. Ástæðan fyrir háu bensínverði er hátt heimsmarkaðsverð og það að OPEC ríkin vilja ekki auka framleiðslu sína á olíu og þar með heldur verðið áfram að hækka. Ríkisstjórnin getur lítið gert í því. Síðan eru flutningabílstjórar með verulegan afslátt af eldsneytisverði og fá þar að auki virðisaukaskattinn endurgreiddann. Ég held að flutningabílstjórar séu fyrst og fremst að mótmæla vökulögunum og kílómetragjaldinu og láta það hljóma eins og þeir séu að mótmæla háu eldsneytisverði til að fá almenning með sér. Ég vil líka minna á að Sturla yfirmótmælandi flutningabílstjóranna, Sagði að honum fyndist eðlilegt að bensínverð væri í kringum 100 krónum eins og ástandið er í dag. Heldur einhver að það geti gengið þegar bensínverðið er til dæmis yfir 170 krónur í Frakklandi.
Missti stjórn á skapi sínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bíddu við.. lastu fréttina ? Þeir lokuðu ekki Ártúnsbrekkunni, þeir óku á gamlingjahraða.
B Ewing, 22.4.2008 kl. 16:52
Ég las fréttina og veit að þeir lokuðu ekki Ártúnsbrekkunni, heldur óku þeir á um 50 kílómetra og komu í veg fyrir að aðrir gætu keyrt á löglegum hraða. Þar með brutu þeir landslög eins og þeir hafa gert ítrekað í þessari baráttu sinni.
Þeir hafa lokað götum, meira að segja stofnæðum og færsla mín var líka um þær syndir bílstjóranna.
Mummi Guð, 22.4.2008 kl. 16:56
jú þessi maður er reyndar svolítið vitlaus !!
Nógu vitlaus til að láta þetta fara í skapið á sér.
En þessi setning hjá þér er líka vitlaus " komu í veg fyrir að aðrir gætu keyrt á löglegum hraða."
Síðan hvenær er 50 Km/klst í ártúnsbrekku ólöglegur hraði ?
Þeir komu reyndar í veg fyrir að menn gætu ekið á HÆSTA LÖGLEGA HRAÐA en það getur varla talist alvarlegt lögbrot.
Egill (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 17:20
Það var ekkert vitlaust við þessa setningu hjá mér, það er nefnilega lögbrot að keyra of hægt og hafa margir verið kærðir fyrir slíkan akstur.
Þegar keyrt er þar sem margar akgreinar eru í sömu átt. Þá eiga þeir sem keyra hægast að keyra á hægri akgrein. Sá sem keyrði á akgreininni lengst til hægri, hann var ekki að brjóta lög, en hinir gerðu það, með því að koma í veg fyrir að þeir sem vildu aka hraðar gætu það.
Mummi Guð, 22.4.2008 kl. 19:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.