Erfiðasti dagur lífsins.
31.3.2008 | 22:50
Í dag upplifði ég erfiðasta dag ævi minnar. Í dag var kistulagningin hjá Hugin Heiðari, athöfnin var stutt og falleg og bara nánustu ættingjar voru með okkur og var ég mjög sáttur við það. Huginn var fallegt barn og núna er hann fallegur engill. Eftir athöfnina komu gestirnir heim til okkar og var fengið sér smá kaffi og kræsingarnar voru ekki af verri endanum. Gestirnir voru svo elskulegir að hver kom með smá meðlæti svo úr varð heljar kaffihlaðborð. Við áttum síðan ágætan dag með fjölskyldunni.
Ég er búinn að upplifa marga erfiða daga að undanförnu, en dagurinn í dag var sá erfiðasti. Bæði það að núna var ég að kveðja Hugin í síðasta sinn og í dag þurfti ég ekki að vera sterki maðurinn. Hingað til hef ég reynt að halda mér öguðum og vera sá sterki fyrir Fjóluna og hin börnin okkar, en í dag voru svo margir góðir hjá okkur að ég þurfti ekki að vera sá sterki og gat aðeins sleppt tilfinningunum mínum. Ég óttast að miðvikudagurinn eigi eftir að verða enn erfiðari, þar sem þá verður útför Hugins og væntanlega mun fleiri gestir heldur en var í dag. Ég held samt að sá dagur verði betri, en auðvitað veit ég það ekki og ætti ekki að vera að tala um það hérna. En ég bæði kvíð fyrir og hlakka til dagsins, þó ótrúlegt megi virðast.
Það hefur gengið ágætlega að skipuleggja útförina, en það er töluvert meira mál en ég bjóst við, reyndar hafði ég ekki hugsað út í það hversu mikil vinna þetta er. Sem betur fer standa margir með okkur í þessu og margir hafa lagt okkur hjálparhönd. Ég er þakklátur þeim öllum sem hafa aðstoðað okkur og öllum þeim sem hafa sent okkur kort, skeyti, blóm eða annað sem okkur hefur borist. Takk fyrir okkur.
Athugasemdir
Mummi minn, mér fannst kistulagningin miklu verri en jarðarförin sjálf. Það eru svo margir við jarðarförina en bara manns nánasta fólk við kistulagninguna, þá hættir manni svo við að brotna saman.
Ég hef hugsað til ykkar Fjólu og barnanna undanfarið og reynt að senda ykkur allan minn hlýhug. Það held ég áfram að gera.
Kær kveðja
Ragnheiður , 31.3.2008 kl. 22:54
Sendi ykkur líka allan minn hlýhug, elsku Mummi.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 31.3.2008 kl. 23:01
Ég er mikið búin að hugsa til ykkar Fjólu, sendi ykkur allan minn hlýhug og styrk
Huld S. Ringsted, 31.3.2008 kl. 23:14
Takk fyrir það stelpur.
Ragga, ég vona að jarðarförin verði skárri, en samt óttast ég mikið að fara í kirkjugarðinn.
Mummi Guð, 31.3.2008 kl. 23:15
Hot Myspace Glitters - Dezrum.com
Kæri Mummi og fjölskylda.
Ég votta ykkur samúð mína.
Guð veri með ykkur á þessum erfiðu tímamótum.
Kær kveðja
Rósa Aðalsteinsdóttir
Vopnafirði
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.3.2008 kl. 23:41
Veistu það Mummi, það er allt í lagi að þú grátir, þú þarft líka að sleppa fram af þér beislinu einhvern tíman, og af hverju ekki í kistulagningu og jarðarför barnsins þíns?
Guð styrki ykkur og blessi, sendi ykkur hlýjar kveðjur frá okkur hér
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 23:41
Brynja skordal, 1.4.2008 kl. 00:39
Sendi enn og aftur hlýjar hugsanir og góða strauma. Tek undir það sem kemur fram hér að ofan að það er eðlilegt og sjálfsagt að gráta. Það var mér mikið áfall þegar pabbi dó snögglega fyrir 8 árum síðan og það sem hjálpaði mér mest í gegnum sorgina var að ég leyfði mér að gráta svo til hvenær sem ég fann þörfina til þess. Ég skil vel að þú viljir vera sterkur fyrir börnin og Fjólu, passaðu samt að gefa sjálfum þér tækifæri til að syrgja líka sjálfur. Þetta verður örugglega erfitt og ég óska ykkur alls hins besta.
Anna Kapitola (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 01:04
Elsku Mummi, gefðu þér líka færi á að gráta, það er heimsins eðlilegasti hlutur. Hugur okkar fer ekki langt frá ykkur þessa dagana, ég er að vinna litla mynd sem flytur til ykkar þegar hún er fullgerð. Í henni hafa lent tár en yfir henni hefur líka verið brosað, einhverstaðar stendur að gleðin og sorgin séu systur, sofi önnur í rúmi manns, sé hin á rúmstokknum. Nú grátið þið yfir því sem var ykkur gleði, því þrátt fyrir erfiðleikana fann maður mikið frekar gleðina sem fygldi ykkar yndislega dreng. Guð gefi ykkur styrk til að halda áfram, styðja hvert annað og halda inn í vorið......
., 1.4.2008 kl. 08:00
Ég á erfitt með huggunnar orð handa ykkur Mummi minn,en þið eigið hug minn oft á dag og ég bið ykkur blessunnar.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 1.4.2008 kl. 19:00
Ég er sammála Möggu - ef einhvern tíma er stund til að vera meir þá er það alveg áreiðanlega núna og enginn sá til sem þykir þú eða þín fjölskylda minni fyrir vikið.
Hugsa hlýtt til ykkar á þessum erfiðu dögum.
Björg Árnadóttir, 1.4.2008 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.