Ferðin á Emirates.
7.11.2007 | 20:39
Ég skellti mér á leik um síðustu helgi og sá leik Arsenal og Manchester United. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég fer á íþróttakappleik erlendis. Ég fór á mína fyrstu leiki erlendis á Evrópumótinu í knattspyrnu í Hollandi árið 2000. Góð vinkona mín vann ferð á mótið en gat ekki farið og bauð mér að nýta vinninginn sinn sem ég að sjálfsögðu þáði. Ferðin var í boði Carlsberg og svo gaman var í ferðinni að ég hef drukkið Carlsberg síðan og er líklega búinn að borga ferðina til baka. Ég sá tvo leiki í þeirri ferð, leiki Hollands og Danmerkur og Spán og Slóveníu. Ég fór síðan á leik Roma og Inter vorið 2004 og sá þá stórkostlegan leik á Olimpico-leikvanginum í Róm. Sumarið 2005 fór ég síðan á leik í bandaríska hafnarboltanum og sá leik Pittsburgh Pirates og Cincinnati Reds. Ég hafði aldrei fundist spennandi að sjá hafnarbolta í sjónvarpinu og komst að því þennan dag að íþróttin er jafnóspennandi í raunveruleikanum.
Aftur að ferðinni á Emirates. Ég og Guðjón skelltum okkur á föstudeginu í skoðanaferð um völlinn og fengum að skoða búningsklefana og setjast í stjórnarmannasætin á vellinum og sætið hans Wenger og komst að því að sætið hans var ekki heitt. Skoðanaferðin var flott og rosalega gaman að fá skoða mannvirkið frá þessu sjónarhorni. Skoðanaferðin var fullbókuð og vorum við einu Íslendingarnir í hópnum. Margar skemmtilegar spurningar komu í ferðinni og sú besta var þegar ein konan spurði hversu oft er spilað á vellinum og síðan fylgdi gullmolinn á eftir, "hvenær er næsti leikur?" Sá sem var fararstjórinn í skoðanaferðinni horfði á konuna með sérstökum svip og svaraði, "á morgun gegn Mancester United!"
Við kíktum á gamla Highbury, en þar standa yfir miklar byggingaframkvæmdir. Þó fær framhliðin að standa áfram, fannst mér það frekar sorglegt að sjá hvernig veggurinn stendur í dag. Þetta á eflaust eftir verða mjög flott, en það er það ekki í dag. Núna stendur veggurinn einn, ef horft er í gegnum glugga þá blasir við byggingaframkvæmdirnar. Það er bara stálstillans sem styður vegginn svo hann hrynur ekki.
Við kíktum líka í Arsenal-búðina við Emirates og fengum þar ótrúlega þjónustu. Þannig var að Guðjón keypti sér Arsenal búning fyrir rúmu ári síðan og var hann orðinn ansi lúinn og var auglýsingin framan á búningnum nánast farin af. Þegar einn starfsmaður í búðinni sá búninginn sagði hann okkur að við gætum skipt og fengið nýja treyju fyrir þá gömlu. Við fórum og völdum nýjan búning og löbbuðum með hann út. Frábær þjónusta hjá þeim.
Við tókum laugardaginn snemma og vorum mættir á Emirates um þrem tímum fyrir leik. Það var töluverð stemning og gaman að vera þarna og fylgjast með mannfjöldanum. Allt fór friðsamlega fram og þeir stuðningsmenn United sem voru á svæðinu blönduðust alveg við aðra og voru engin læti. Inn á leikvanginum var ótrúleg stemning og stemningin jókst mikið þegar gamla Clash-lagið London Calling var spilað og á eftir kom lagið One Step Beyound með Madness og ekki minnkaði lætin. Ég hélt að þetta væri læti þar til að liðin komu inn á völlinn. Vá.
Leikurinn var frábær skemmtun og ekki skemmdi fyrir dramatík á síðustu mínútu leiksins, þegar Arsenal menn jöfnuðu leikinn. Eftir leikinn var síðan fylgst með stemningunni og síðan haldið heim eftir frábæra skemmtun.
Athugasemdir
Takk fyrir þessa færslu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.11.2007 kl. 02:01
Gott að þið skemmtuð ykkur, þetta er heavy upplifelsi veit ég, ég prófaði Old Trafford s.l. vetur og skemmti mér stórkostlega.
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 09:04
Kristín, Það var ekkert!
Það að fara á völlinn á svona leik er ekki bara til sjá einhver lið spila. Þegar ég var á Ítalíu fyrir ansi mörgum árum síðan, þá var sagt við mig að allir ferðamenn ættu að fara á fótboltaleik á Ítalíu, ef þeim líkaði ekki fótbolti þá geta þeir snúið baki í völlinn.
Það er mikið til í því.
Mummi Guð, 8.11.2007 kl. 23:00
Einhverntíman skal ég fara á leik í Englandi,örugglega mikil stemming þar,en ætli Quenn Park Rangers séu ennþá til,?hélt með þeim í gamla daga.
Jensen (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 23:51
Haha. Gaman að þú skyldir minnast á QPR. Þar sem QPR og mínir menn í Crystal Palace mætast á morgun. Ég hefði alveg verið til í að vera á Selhurst Park á morgun með þér!
Mummi Guð, 8.11.2007 kl. 23:58
Þettað var skemmtileg tilviljun,koma tímar koma ráð,hafðu það fínt,en annars ertu nokkuð,Frammari ? þá á ég við Boltafélagið Fram,en ekki Framsóknarflokkinn,, Áfram Fram, þeir eru til ennþá..
Jensen (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 20:04
Nei ég er alls enginn frammari, hvorki í íþróttum né pólitík. Ég styð Keflavík í íþróttum, ég gef ekki upp hvar ég stend í pólitík aðallega vegna þess að ég veit það ekki sjálfur. Ég breyti um skoðun nokkrum sinnum í viku.
Mummi Guð, 9.11.2007 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.