Helgin í hnotskurn.

Huginn er búinn að eiga erfiða daga að undanförnu. Það var skipt um næringu hjá honum á miðvikudaginn og það hefur ekki gengið vel með nýju næringuna, hann hefur kastað mikið upp og hefur fengið hita og verið mjög slappur. Þetta eru allt einkenni sem við þekkjum vel, hann hefur verið að þorna upp. En hann er mjög viðkvæmur og er mjög fljótur að þorna upp. Við byrjuðum strax að einbeita okkur að því að halda nógu miklum vökva í Hugin og hefur það gengið vel og síðan á laugardag hefur leiðin bara legið upp á við hjá Hugin og hann er núna alveg að ná fyrri styrk.

Pallagerðin hefur gengið þokkalega, mætti alveg hafa gengið betur en veikindi Hugins taka mikið á okkur þar sem við þurfum að sitja yfir honum allan daginn og þess vegna hefur pallurinn setið á hakanum. Það þýðir það að potturinn verður ekki klár fyrir Ljósanótt eins og plan-A var. Plan-B var að koma fyrir fiskikari fyrir framan hús og fylla það af heitu vatni. Ég er líka hættur við það og er kominn með plan-C fyrir þá sem heimta að komast í heita pottinn á Ljósanótt. Plan-C er að ég verð með tilbúið kort af öllum húsum í götunni sem eru með heitan pott og þangað verður hægt að fara og slappa af!

Við hjónakornin ákváðum að skella okkur á ball á laugardagskvöldið og ákváðum við að fara á Papana á Players, enda klikkar þeir aldrei og gerðu það ekki heldur núna. Við töluðum um það snemma í vikunni að fá stuðningsforeldrið hans Hugins til að hugsa um Hugin á laugardagskvöldinu og við ætluðum að aðeins að kíkja á Players. Eftir að Hugin veikist þá hættum við að fara, en þegar hann fer að hressast aftur þá ákváðum við að skella okkur enda treystum við stuðningsforeldrinu alveg 100% fyrir Hugin. Þegar Paparnir fóru að spila þá skelltum við okkur á dansgólfið og vorum þar alveg þar til þeir tóku pásu og í stað þess að bíða eftir að þeir kæmu aftur að spila. Þá brunuðum við bara heim eftir góðan dans-swing.

Það var eitt dálítið skondið sem gerðist á ballinu og segir dálítið mikið um það hvernig það er að eiga langveikt barn. Á miðju ballinu segir Fjóla allt í einu við mig að henni hafi dottið í hug frábær lausn um hvað við getum gert til að gefa Hugin salt-sykur-upplausn yfir nóttina á einfaldan hátt. Á miðju dansgólfinu fundum við lausnina og hún hefur svínvirkað síðan!

Það var annað sögulegt atvik sem gerðist á ballinu, við vorum nýkomin á staðinn og sátum og ræddum við mann sem við þekkjum. Þá kemur labbandi inn maður sem hefur gert margt á okkar kostnað og það nýjasta og grófasta er að hann kærði okkur til Barnaverndarnefndar og sagði í kærunni að við vanræktum tvö af fimm börnum okkar. Hann bar okkur ekki vel söguna og fór fram á að börnin yrðu tekin af okkur. Barnaverndarnefnd þarf að taka allar kærur alvarlega og gerði það líka í þessu tilfelli, við þurftum að mæta á fundi og segja frá okkar lífi og gáfum leyfi til að BVN gæti skoðað hvernig börnin væru að standa sig í skólanum og félagslífinu. Við fengum síðan símtal frá BVN þar sem okkur var sagt að málinu yrði lokað og að það að kæran væriu tilefnislaus. Jafnframt var sagt við okkur að við myndum fá formlegt bréf um lok málsins en það væri ekki venja. Vegna eðli kærunnar og hvernig staða okkar er þá vildi BVN ljúka málinu formlega. Það er þessum manni að þakka að ég hef bréf upp á það að vera hæfur faðir. Maðurinn var skömmustulegur á líka að vera það. Það sem hann vissi ekki þegar hann lagði fram kæruna var það að við höfðum haft samband við BVN áður en fórum til Bandaríkjana með Hugin og báðum þau að vera börnunum okkar innan handar ef eitthvað kæmi upp. Eftir að við komum heim þá höfum við mikið og gott samstarf við félagsmálayfirvöld hér í Reykjanesbæ. Þannig að kæran skaðaði okkur ekki eins mikið og hann hafði vonað, aftur á móti skaðaði hún börnin og samt aðallega hann fyrir að leggja þetta á okkur og börnin. Það eru margir sem eru hissa á að við höfum sagt hverjum sem vill heyra söguna af því að við vorum kærð til barnaverndarnefndar, enda var það mikil skömm áður fyrr að fá slíka kæru. Það er ekkert gaman að fá svona kæru, en við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að hafa verið kærð. Í okkar tilfelli þarf kærandinn að skammast sín.

Þegar við komum til Keflavíkur ákváðum við að taka rúnt í gegnum miðbæinn, við hefðum sennilega ekki átt að gera það. Bærinn var eins og vígvöllur. Á um 200 metra kafla sáum við 5 lögreglubíla og einn sjúkrabíl. Við sjúkrabílinn var maður á sjúkrabörum og var greinilegt að hann hefði fengið einhverja áverka inn á skemmtistað sem hann var á. Nokkrum metrum neðar var lögreglan að handtaka mann eða menn og var mikill mannfjöldi sem fylgdist með þessari handtöku og gekk greinilega mikið á þar. Ég var í hálfgerðu sjokki þegar ég kom heim eftir að hafa séð bæinn minn í nýju ljósi.

Í gær sunnudag var síðan fótboltadagur hjá mér. Hann byrjaði á því að ég skellti mér í Ölver og horfði á mína menn í Crystal Palace spila við Ipswich í ensku Coca-Cola deildinni ásamt fleirum góðum stuðningsmönnum Palace. Leikurinn fór ekki vel þó hann hafi verið ágætlega spilaður, en Palace tapaði leiknum 1-0. Ég brenndi heim og horfði á leik Íslands og Slóveníu í EM í fótbolta kvenna. Þar sá ég ein ósanngjörnustu úrslit sögunnar þegar þær slóvensku unnu 2-1. Eftir þetta fór ég á leik Keflavíkur og Vals og enn einu sinni lutu mínir menn í gras. Þetta var með skrautlegri leikjum sem ég hef séð, til dæmis þá þurfti Keflavík að skipta öllum varamönnum sínum inná á fyrstu 26 mínútum leiksins. Ég vil síður ræða um dómgæsluna og ætla þar að taka þjálfara Keflavíkur mér til fyrirmyndar, en hann neitar að tala um dómara og dómgæslur. Það eru fleiri sem ættu að taka hann sér til fyrirmyndar, til dæmis þjálfari ÍA. Herra Hrokafullur var mjög reiður og hálfgrátandi þegar hann vældi í sjónvarpsmenn eftir leikinn og sagði að dómarinn hafi spilað með KR.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Brjáluð helgi bara hjá þér í boltanum,,,, úffff,,, ekki það,, ég hef aldrei skilið það hvernig hægt er að eyða heilum degi í boltann í sjónvarpinu, en ,,,,, þetta er þinn tími , gott að þú hefur áhugamál.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 09:12

2 Smámynd: Mummi Guð

Það er eiginlega þannig að ég horfi ekki mikið á fótbolta. Ég styð Crystal Palace í enska boltanum og það eru ekki oft sýndir leikir með þeim og þegar það er gert þá reyni ég að mæta og hitta aðra stuðningsmenn Palace. Þetta er í þriðja sinn sem ég horfi á Palace spila á þessu ári.

Mér finnst voða gaman að fara á völlinn og sjá leik, en geri það of sjaldan. Ætli þetta sé ekki 5 leikurinn sem ég sé í sumar. sem er ekkert voða mikið.

Ég held samt að ég hafi eytt deginum betur en einn vinnufélagi minn sem eyddi sunnudeginum í rúminu, að drepast úr þynnku.

Mummi Guð, 28.8.2007 kl. 12:26

3 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Ég eyddi helginni edrú og fínn með börnum mínum og hvað getur verið betra allavegana átti ég eðal fína helgi kveðja Úlli.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 28.8.2007 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband