Hann er löggiltur hálfviti.
19.8.2007 | 14:50
Ég hef verið frekar latur að blogga að undanförnu, að minnsta kosti ef ég miða við suma aðra daga. Það hefur reyndar verið nóg að gera. Ég byrjaði að vinna aftur á mánudaginn eftir tveggja vikna sumarfrí. Ég hefði sennilega þurft á lengra fríi á að halda til að safna smá orku, en það verður bara tekið seinna. Pallagerðin gengur ágætlega hjá okkur, en ég er farinn að huga að plani-B. Plan-A var að komast í heita pottinn á Ljósanótt, ég sagði alltaf að ef potturinn væri ekki til þá myndi ég redda fiskikari og fylla það af heitu vatni. Núna er ég kominn með smá áhyggjur af því að við náum ekki að gera heita pottinn kláran í tæka tíð og fiskikarið verði lausnin.
Núna var menningarnótt í Reykjavík um helgina og þrátt fyrir mikla og góða dagskrá þá tók ég ekkert þátt í henni. Ég eyddi helginni heima með Fjólunni og Hugin og átti góða helgi í róleg heitunum. Ég horfði á Kaupþings tónleikana í Ríkissjónvarpinu og fannst þeir ágætir. Það var samt nokkrir hlutir sem vöktu athygli mína. Þar ber hæst Bubbi Morthens. Mér finnst Bubbi vera frábær tónlistarmaður, en stundum finnst mér að hann ætti að syngja meira og tala minna. Ég veit hvar ég á að byrja í gagnrýni minni á honum. Bubbi fór mikinn í gagnrýni sinni á ríkisforstjórum og stjórnmálamönnum og tók dæmi með Grímseyjarferjuna og sagði ef gjaldkeri í banka myndi stela pening þá yrði hann rekinn, af hverju eru stjórnmálamenn sem klúðruðu Grímseyjarferjunni ekki reknir! Ég gæti snúið spurningunni við, ef gjaldkeri myndi stela pening myndi bankastjórinn verða rekinn? ég held ekki.
Mér finnst Bubbi ekki hafa efni á að gagnrýna ríkisforstjórana og auðvaldið. Hann gat það þegar hann söng, "Ég er löggiltur öryrki, hlusta á HLH og Brimkló. Ég er löggiltur hálfviti, læt hafa mig að fífli, styð markaðinn". En núna er hann einn af þeim sem lætur hafa sig af fífli og styður markaðinn. Núna ekur Bubbi um á tugmilljóna lánsbíl frá B&L, en hann leikur í auglýsingum í staðinn, ég væri alveg til í svona díl! Útvarpsauglýsingarnar eru svo lélegar að ég hef grun um að Bubbi semji þær sjálfur og það segir mér það að hann eigi bara að semja tónlist. Bubbi seldi síðan öðrum "arðræningjum" höfundrétt sinn á eigin verkum. Sjóvá keypti réttinn og borgaði að því að heimildir segja um 50 milljónir fyrir. Á sama tíma stóð ég í málshöfðun við Sjóvá og ég get sagt það að þeir pössuðu peningana sína betur gagnvart mér heldur en Bubba. Það sem endilega fór með mig það var þegar Bubbi fór að tala um að þetta væri í fyrsta sinn sem að tónleikar eru haldnir á íþróttaleikvangi á Íslandi. Voðalega er minnið hans Bubba orðið lélegt, ég man að minnsta kosti vel eftir Elton John tónleikunum sem haldnir voru á þessum sama velli fyrir örfáum árum síðan. Ég man líka eftir stórum tónleikum á Kaplakrikavelli fyrir nokkrum árum og þar spilaði Bubbi ásamt GCD. Svona fer minnið illa með suma menn. Ráð til þín Bubbi, tala minna og syngja meira.
Gærdagurinn fór í að reisa girðingastaurana og eru núna allt tilbúið til að steypa. Jósteinn mágur kíkti til okkar hjálpaði okkur við að reisa þá og rétta. Síðan fengum við pottinn til okkar, hann er töluvert stærri en við áttum von á. Þetta er líkara sundlaug en heitum potti, alla vega þar sem ég horfi á hann út í garði núna. Í gærkvöldi eyddum við síðan kvöldinu í að glápa á sjónvarpið. Við horfðum á sennilega eina verstu bíómynd sem ég hef séð, "Dumb and Dumberer: When Harry Met Larry". Ég veit ekki af hverju ég horfði á alla myndina en hún var virkilega léleg, eina jákvæða sem ég sá við myndina var tónlistin en í myndinni voru nokkur gömul og góð lög eins og til dæmis "Whip It" með Devo, lag sem heyrist alltof sjaldan. Það segir ýmislega um myndina að hún var tilnefnd til þriggja hindberjaverðlauna. Eftir þessari hörmungarmynd kom ein besta mynd sem ég hef séð, Das Boot. Þegar ég vissi að hún væri sýnd þá vonaði ég að hún væri sýnd með þýsku tali en ekki því enska eins og hún var á videoleigum. Sem betur fer var þessi útgáfa með þýska talinu og myndi stórgóð.
Athugasemdir
Mummi ég verð að fara kýkja á þig kallinn ég hef svo gaman af framkvæmdum og tala ekki um smíðum síðan forðum í Hurðum og Gluggum,ég er sammála þér um margt um Bubba kallinn.Ég sé hann bara ég sjúkan athyglissjúkling á háustigi sjáðu svo eitt hann dissar fólk um allt veður yfir þá sem honum sýnist og svo er tekin mynd af honum með sígó og hann kærir og vinnur málið,hvað ef allir sem hann hefur hraunað yfir myndu kæra hann hvað þá?kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.8.2007 kl. 19:52
Passaður þig bara á því að koma ekki á morgun, þú gætir lent í steypuvinnu. Annars bý ég á Greniteiginum og þú ert alltaf velkominn.
Það væri gaman að sjá einhvern af þessum mönnum sem Bubbi er alltaf að dissa fara í mál við hann.
Mummi Guð, 19.8.2007 kl. 23:36
Gangi þér vel með allar framkvæmdirnar
Jóna Á. Gísladóttir, 20.8.2007 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.