Bobby Fischer og fötluðu stæðin.
12.8.2007 | 23:44
Þá komið að smá bloggi hjá mér. Í stuttu máli þá skellti ég, Fjólan og Huginn okkur í sveitinar á fimmtudaginn. Þar sem sumarbústaðadvöl okkar gekk svo vel þá var fannst okkur snjallræði að prófa það að fara í sveitina með Hugin. Ferðin gekk vel nema þegar við komum í Staðarskála. Þannig var að við stoppuðum í Borgarnesi og þegar við komum að Hyrnunni var bíll í fatlaða stæðinu, en það stæði notum við þegar við erum með Hugin, enda töluvert umstang í kringum hann. Við lögðum við bensíndælu og settum bensín á bílinn. Við horfðum síðan á það þegar fullfrískur aðili skokkaði í bílinn í fatlaða stæðinu og keyrði í burtu. Eftir smá stopp í Borgarnesi héldum við af stað og stoppuðum síðan aftur í Staðarskála og þar var bíll í fatlaða stæðinu sem mátti ekki vera þar frekar en bíllinn í Borgarnesi.
Ég gerðist svo grófur að leggja bílnum mínum fyrir aftan hinn bílinn á meðan við tókum Hugin út úr bílnum. Þegar við erum nýbúin að taka hann út úr bílnum og ég held á súrefniskútinum og Fjóla er með Hugin í fanginu þá kemur ungur maður varla mikið eldri en tuttugu ára út út Staðarskála og segir mér að færa bílinn þar sem hann er að fara, ég gapi að undrun yfir samviskuleysi hans. Ég hélt nú að menn kynnu að skammast sín þegar þeir leggja ólöglega í fötluðu stæðin en núna veit ég betur. Ég spurði hann hvort hann mætti leggja í þetta stæði og hann sagði að hann mætti það ekki en hann hefði ætlað að stoppa stutt svo honum fannst það í lagi. Ég varð aftur kjaftstopp og loks þegar ég fékk málið þá sagði ég nei, ég ætlaði ekki að færa bílinn og gekk inn í Staðarskála. Hann varð mjög reiður og öskraði eitthvað á eftir mér sem ég náði ekki hvað var. Síðan fylgdist ég með honum þegar hann náði að keyra framhjá bílnum mínum enda er var það lítið mál þar sem við hliðina á fatlaða stæðinu er rútustæði þar sem engin rúta var. Af hverju þessi ungi maður lagði ekki þar veit ég ekki, sennilega vegna þess að hann ræður ekki við fílelfdan rútubílstjóra, en á auðvelt með að ráða við þá fötluðu.
Það má kannski segja að viðbrögð mín hafi ekki verið rétt og ég hefði átt að færa bílinn og málið væri dautt, en þegar ungur og ófatlaður einstaklingur leggur í svona stæði vegna þess að hann þarf bara að kaupa eina pulsu og kók og ekkert meira og er síðan með dónaskap og síðan kann hann ekki að skammast sín fyrir að leggja þar sem hann lagði. Þá hef ég ekki mikinn áhuga á einhverri greiðasemi á móti.
Annars gekk ferðin vel og við áttum góðar stundir í sveitinni. Huginn sýndi allar sínar bestu hliðar fyrir ömmu sína og afa sem voru að sjálfsögðu mjög sátt við kappann. Við fórum síðan heim í gær laugardag og ástæðan fyrir því að við fórum heim á laugardeginum var sú að við ætluðum að losna við alla helgartraffíkina og gerðum það. Við fórum líka norður á fimmtudeginum til að losna við helgartraffíkina en þar misreiknuðum við okkur þar sem við lentum í allri helgartraffíkinni og vorum einn af örfáum bílum sem voru á norðurleið sem voru ekki með hjólhýsi eða fellihýsi í eftirdragi. Hinir bílarnir sem drógu ekkert voru húsbílar.
Við komum heim í gær og erum búin að eiga rólega daga heima. Fjólan var reyndar að djöflast í dag að byggja sólpall en ég sat inni og horfði á Hugin og hugsaði um sjónvarpið. Ég þurfti reyndar að skreppa aðeins út í dag og versla smá og hver haldið þið að hafi verið fyrsti maðurinn sem ég hitti, enginn annar en Bobby Fischer. Ég var að pæla í að bjóða honum heim og hjálpa mér með skákirnar sem ég er að tefla á itsyourturn.com en kunni ekki við það. Ég veit ekki heldur hvað Fjólunni myndi finnast um það ef ég kæmi með Bobby heim.
Athugasemdir
Mummi næst þegar þú hittir Bobby skilaðu honum kveðju frá mér og þú mátt alveg koma með hann til mín hér yrði hann velkominn any time við gætum skellt upp smá móti hér og milli leikja rætt boltann.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 13.8.2007 kl. 07:26
Mummi, DJÖFULL var þetta gott hjá þér með fatlaða stæðið, það er hreint út sagt óþolandi þegar fullfrískt fólk leggur í þau. Ég sjálf þarf að leggja í svona stæði þegar ég er með Kristjönu mína meðferðis þar sem ég þarf að halda á henni hvert sem ég fer og hún ekki enn byrjuð að labba. Ég hef verið stoppuð af fólki sem lítur á mig furðulostið og spyr hvort ég eigi rétt á að leggja í stæðið þegar ég held á henni, en það finnst mér í góðu lagi þar sem þar er eftirlit í gangi hjá almenningi. Kristjana mín er líka töluvert minni en jafnaldrar sínir og lítur ekki út fyrir að vera nærri 2ja ára gömul. Þá bendi ég á hana og segi, "Já hún á rétt á því" enda nota ég aldrei þessi stæði nema hún sé í för.
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 10:14
Já, ég lenti í því í gær þar sem ég var staddur fyrir utan 10-11 í Hafnarfirði og er að keyra í burtu að þá kemur einn bíll sem inniheldur fjóra stráka rétt skriðna yfir tvítugt. Þeir koma þarna askvaðandi og leggja í fatlaða stæðið. Ég sé smá eftir því að hafa ekki bankað á rúðuna hjá þeim og spjallað aðeins við þá.
Natan (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 10:47
Hæ hæ
Datt af tilviljun niður á bloggið þitt um daginn, gaman að kíkja á það öðruhvoru. Ástæðan fyrir því að ég kommenta núna er sú að ég hélt svo hreinlega að Bobby Fischer hefði lagt í fatlaða stæðið eða legði það í vana sinn ;-) Stundum auðvelt að misskilja fyrirsagnir.
Anna Kap. (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.