Af hverju er fólk að blogga?
5.8.2007 | 22:53
Af hverju er fólk að blogga? Þetta er spurning sem hvílir á ansi mörgum og flestir hafa sitt álit á því. Þeir sem blogga ekki halda því fram að þetta sé viss tegund af athyglissýki og þeir sem blogga halda flestir því fram að þeir séu blogga vegna þess að þeir halda að þeir hafa frá einhverju að segja.
Það er smá ástæða fyrir því af hverju ég er að blogga. Þannig er að í nóvember 2004 eignaðist ég mikið veikt barn og ég og Fjólan héldum úti heimasíðu á Barnalandi um baráttu hans. Við skrifuðum inn á heimasíðuna nánast daglega frá nóvember 2004 til mars 2007. Oft langaði okkur að tala um mál sem okkur fannst ekki eiga heima á síðunni hans, en gerðum það ekki. Ég reyndi nokkrum sinnum að byrja að blogga en það gekk ekki upp af einhverjum ástæðum. Þegar Fjólan fór síðan að tala um að fara að blogga þá hvatti ég hana til þess og skráði hana inn á blog.is. Í kjölfarið fór ég að blogga, en ég hafði skráð mig inn nokkrum mánuðum fyrr án þess að blogga. Þar sem ég er heima flest kvöld og helgar þá hef ég nægan tíma til að setjast niður við tölvuna og pikka inn nokkrar línur. Mér finnst það eiginlega bara gaman.
Það eru margir sem eru duglegir að blogga við fréttir til að fá fleiri heimsóknir á síðuna þeirra og margir eru ansi duglegir að gagnrýna þá. Mér er nokkuð sama hvort fólk hafi eitthvað að segja þegar þeir blogga fréttir, þegar ég hef lesið færslur hjá sumum sem hafa ekkert að segja þá hætti ég að skoða færslurnar frá þeim. Ósköp einfalt.
það er samt ein tegund af bloggi sem fer í taugarnar á mér. Það er þegar fólk er að blogga um viðkvæmar fréttir og er að segja eitthvað sem það má kannski hugsa en aldrei segja, hvað þá að birta á prenti. Ég vil ekki nefna nein dæmi, en það þarf ekki að fara lengra en í síðustu viku til að sjá skelfileg blogg, sem hefði aldrei átt að vera birt. Annað sem fer í taugarnar á mér það er þegar fólk er að nota bloggið til að koma með fréttir eða upplýsingar sem eiga ekkert erindi inn á bloggsvæði, til dæmis að birta nöfn manna sem hafa látist af slysförum eða koma með ótímabærar dánartilkynningar. Ég hef nokkrum sinnu séð það þegar fólk er að nafngreina fólk sem hafa látist fljótlega eftir slys, ég skil ekki hvaða hvatir liggja þar að baki. Af hverju leyfir fólk ekki svona tilkynningum fara sína venjulegu leið?
Ekki alls fyrir löngu kom upp sérstakt mál svokallað Lúkasarmál, þar sem hundur var drepinn og maður nánast tekinn af lífi fyrir að drepa hundinn. Síðan kom hundurinn fram sprelllifandi og hress og hundamorðinginn var saklaus. Þessi aðili er núna búinn að kæra 70 manns fyrir að níða sig opinberlega og sumir voru jafnvel kærðir fyrir að vera með hótanir í garð hans. Það að svona mál hafi komið er skelfilegt, en samt ágætt að málið varð svona borðleggjandi. Ég vona að ákæruvaldið taki þetta mál að festu svo þeir sem hafa sest í dómarasæti á netinu undir nafnleynd geri sér grein fyrir að netið er ekkert leikfang fyrir óvita.
Þrátt fyrir þetta allt þá ætla ég að halda áfram að blogga um það sem mér finnst, ef ég sé einhverja frétt sem mig langar að blogga við þá geri ég það og spyr engan að því. En ég mun ekki blogga við fréttir þar sem mannlegir harmleikir eru og ég mun ekki blogga við fréttir sem eru viðkvæmar fyrir suma.
Athugasemdir
Spurningin í fyrsögninni er áleitin. Forsendur svars eru áreiðanlega álíka margar og þeir tugþúsindir sem blogga.
Í mínu tilfelli var það þannig að árum saman skiptist ég á daglegum e-mailum við tvo bræður mína, systursyni og fleiri. Þetta var svona "reply to all" dæmi. Við skiptumst á ábendingum um aðallega músíkpælingar. Ég var jafnframt að rífast um pólitík, músík og fleira á www.malefni.com. Ég tók eftir því að margir á malefni.com færðu sig yfir á bloggið.
Í febrúar ákvað ég að færa dæmið yfir í blogg. Og sé ekki eftir því.
Jens Guð, 6.8.2007 kl. 00:18
Já, það væri gaman að vita meira um að af hverju fólk bloggar. Ég er viss um að það eru jafnmargar ástæður fyrir því og fólki er margt. Ja, kannski ekki alveg svo margar. Ég byrjaði að blogga vegna þess að mér fannst ég vera farin að ryðga of mikið í íslenskunni. Ég les og skrifa allt á ensku og flesta daga tala ég líka bara ensku. Þannig að bloggið er mín leið til þess að halda við móðurmálinu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.8.2007 kl. 02:30
góður pistill hjá þér.
Ég ákvað að byrja að blogga til að athuga hvort það kæmi mér mögulega af stað í að koma frá mér textum. Sögum. Sem það hefur svo sannarlega gert. Hef skrifað hátt í 20 smásögur eftir að ég byrjaði að blogga í mars (minnir mig) á móti 0 síðustu 20 ár. og þá kemur að því; sennilega mætti setja mig undir athyglissýkisflokkinn því ég þurfti greinilega lesendur til að koma mér af stað. Skúffan nægði mér ekki.
Jóna Á. Gísladóttir, 6.8.2007 kl. 11:37
Ég hafði oft kíkt á bloggin á mbl.is og á vísis-bloggin þegar ég byrjaði sjálf að blogga. Fyrst reyndi ég að byrja á vísis-blogginu en tókst ekki að innskrá mig. Þá reyndi ég við mogga-bloggið. Ég hafði skoðanir á öllu mögulegi og langaði að tjá mig um það en svo loksins þegar ég var búin að komast á mogga bloggið og áttaði mig á því að ég var að blogga undir fullu nafni beittist ýmislegt. Ég fór að hugsa betur um það sem ég skrifaði og sagði. Og velti málunum betur fyrir mér en ég hefði annars gert. Svo setti ég inn mynd fyrir nokkrum dögum síðan. Nettur fiðringur var í maga mínum. ALLIR VITA NÚ HVERNIG ÉG LÍT ÚT OG NAFN MITT. Þetta hefur haft góð áhrif á mig og eflt sjálfstraustið. Ég get verið nokkuð góður penni og hef skrifað margar smásögur(og eitthvað byrst eftir mig) og er aðallega að sækjast eftir þjálfun í að skrifa og samskiptum við skemmtilegt fólk. Það er að virka.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 6.8.2007 kl. 11:58
Ég segi fyrir mitt leyti ég var mikið á Ircinu hér áður fyrr og eiginlega næstum frá byrjun,síðan hætti ég þessu bulli auðvitað og verð að viðurkenna að ég var þar mest að hösla konur :) . Síðan nú í byrjun árs ákvað ég að reyna þetta fyrirkomulag að blogga til að koma frá mér hugsunum mínum og vissulega pælingum,pólítík lög og þessháttar og auðvitað mínu mesta áhugamáli trúarbrögðum mér finnst þetta ágætis leið til þess og hér veit ég yfir höfuð hver er að svara til baka og allt það.Ég kann þessu ágætlega Mummi og hví að vera hugsa um hvað öðrum finnst ef þér líkar sjálfur ég sé þetta svo að ef ég fæ ljótar athugasemdir svara ég fullum hálsi eða hreinlega bara sleppi því sumt er jú ekki svaravert.Kveðja Úlli.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 6.8.2007 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.