Kominn heim úr fríi.

Þá er ég kominn heim eftir vikufrí, ég eyddi fríinu í sumarbústað með frúnni og fjórum af fimm börnum. Það var bara Natan sem komst ekki með okkur, enda nóg að gera í vinnunni hjá honum. Þó hans hafi verið saknað þá skemmtum við okkur hin konunglega. Toppurinn í ferðinni var að Huginn skyldi geta komið með okkur og verið allan tímann, en það var dálítið sem við áttum ekki endilega von á. Við breyttum sumarbústaðinum bara í sjúkrahús. Það að hafa farið í bústaðinn var dálítið djarft af okkur, en það gekk upp. Þrátt fyrir að vera á nokkuð stórum bíl, Dodge Grand Caravan þá þurftum við að fara tvær ferðir með allt dótið heim úr bústaðnum og það segir ýmislegt um þau tæki og tól sem fylgja Hugin.

Það gekk mikið á í þjóðfélaginu á meðan ég var í fríi, ég vil þó ekki tala um harmleiki eða sorglegar fréttir enda finnst mér það ekki eiga heima hér á blogginu. Ég vil frekar tala um þá leiðu frétt að KR hafi skipt um þjálfara, Teitur var rekinn í hans stað var ráðinn Logi nokkur sem hefur gert garðinn frægan sem þjálfari KF nörd. Mér finnst það mjög leiðinlegt að KR hafi rekið Teit enda er ég ekki stuðningsmaður KR og hef haft lúmskt gaman af óförum þeirra í sumar. Ég hef reyndar ekki heldur mikið álit á Loga, en fyrir KR-inga geta ég ekki annað sagt að þetta getur ekki versnað.

Af öðrum fréttum ber fréttin af Árna Johnsen og Þjóðhátíðarnefndinni í Vestmannaeyjum hæst. Þar sakar Árni Þjóðhátíðarnefndina um að hafa rekið sig sem kynni á Þjóðhátíð vegna pólítskra hagsmuna. Þjóðhátíðarnefnd svaraði vel fyrir sig með fréttatilkynningu,

Í yfirlýsingunni segir Þjóðhátíðarnefnd ummæli Árna leirburð, og vera bæði ósönn og ærumeiðandi. Páll hafi ekki svarað með þeim hætti sem Árni lýsir, hann hafi þess í stað sagt spurninguna ósanngjarna, þar sem Þjóðhátíðarnefnd blandi ekki pólitík við sín störf. Í yfirlýsingunni ítrekar Þjóðhátíðarnefnd ástæðu þess að Árna var gert að hætta sem kynnir. Það hafi verið í kjölfar þess að Árni hafi slegið söngvarann Hreim Heimisson á Brekkusviðinu árið 2005. Nefndin segir að öll vitni að atburðinum hafi verið sammála um að Árni hafi slegið Hreim. Í framhaldi segir í yfirlýsingu Þjóðhátíðarnefndar: „Þessi atburðarás varð til þess að Þjóðhátíðarnefnd tók þá ákvörðun einróma að skipta um kynni. Það skal tekið fram að þetta er ekki í fyrsta og eina skiptið sem Árni missir stjórn á sér á Brekkusviðinu og sýnir af sér dómgreindarskort." Þjóðhátíðarnefnd segir að ummæli Árna í Þjóðhátíðarblaðinu séu aumkunarvert yfirklór, sem nefndin kjósi að skoða sem tæknileg mistök. Í niðurlagi yfirlýsingarinnar segir: „Nefndin treysti sér einfaldlega ekki lengur til að bera ábyrgð á Árna Johnsen sem kynni á Brekkusviðinu. Það er lykilatriði í málinu. Lái okkur hver sem er."  Ég verð að segja að staðan sé Árni - Þjóðhátíðarnefnd 0-3 og öll mörkin voru sjálfsmörk Árna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband