Ég skil ekki símasölumenn.
23.7.2007 | 21:24
Það er ekki það skemmtilegasta sem ég geri að tala við símasölumenn, en stundum eru þeir að bjóða hluti sem ég hafði ætlað mér að fá. Þannig var það í síðustu viku að það hringdi sölumaður frá 365 og vildi bjóða mér áskrift að Sýn2, sjónvarpsstöðinni sem sýnir ensku knattspyrnuna. Ég hafði hugsað mér að gerast áskrifandi að sjónvarpsstöðinni og þegar þessi sölumaður hringdi þá hlustaði ég á hvað hann hafði að bjóða og ég lét hann vita hvað ég væri ósáttur við. Ég er ósáttur við hvað Digital Ísland dettur oft út, ég er kannski að horfa á spennandi mynd og skyndilega er skjárinn svartur og ekkert gerist næstu 20-30 mínúturnar. Ég sagði honum að ég væri ekki tilbúinn að borga áskrift að Sýn2 og fá bara að sjá valda kafla í leikjunum.
Sölumaðurinn benti mér að 365 ætlar að fara að bjóða upp á adsl-myndlykla og fannst mér það frábært að geta loksins notið sjónvarpsins, vitandi það að ég geti horft á alla myndina eða allan leikinn. Þar sem matartími var hjá mér þegar hann hringdi, þá bað ég sölumanninn að hringja aftur eftir 10 mínútur og þá væri ég búinn að taka ákvörðun. Núna er liðin heil vika og hann hefur enn ekki hringt. Ég er núna að pæla hvort það að biðja manninn að hringja eftir 10 mínútur hafi verið svo mikil ókurteisi að hann ætli aldrei að hringja í mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.