Ég er útskúfaður!

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um markið sem Bjarni Guðjóns skoraði gegn Keflavík á miðvikudaginn og hef ég farið mikið í því. Ég veit líka að ég er ekki hlutlaus, ég er Keflvíkingur og ég var á leiknum og sá hvað gerðist. Ég tel mig líka hafa töluvert vit á fótbolta, ég hef fylgst með fótbolta frá því ég man eftir mér, ég hef starfað í mörg ár í kringum knattspyrnuna og auk þess hef ég verið að dæma í mörg ár. Þá er ég bara einlægur aðdáandi fótbolta sem ég lít á sem listgrein frekar en afþreyingu.

Eins og áður sagði þá hef ég látið mína skoðun í ljós og það að mér finnst stórlega brotið á Keflvíkingum í kringum þennan leik og þetta atvik. Ég skil ekki af hverju allir eru svona brjálaðir út í Keflvíkinga fyrir að verða reiðir þegar Skagamenn svindluðu í leiknum. Þetta svindl kostaði Keflvíkinga stig og það virðist engu skipta hjá sumum. Bjarni baðst afsökunar og þá á allt að vera í lagi! Þetta er eins og ég megi fara niður í bæ, berja mann til óbóta og brjóta gleraugun hans og ef hann fer eitthvað að kvarta þá biðst ég bara afsökunar og málið er búið.

Þó ég hafi látið mína skoðun í ljós, þá hef ég reynt að halda mér á mottunni og ekki verið að segja frá því sem ég veit en hefur ekki komið fram í fjölmiðlum. Samt tók blog.is sig til og lokaði á mig þannig að ekki var hægt að komast inn á síðuna mína frá fréttunum sem ég bloggaði við. Mér finnst þetta furðulegt sérstaklega þegar aðrar bloggfærslur fá að standa sem eru miklu grófari.

Ég nenni ekki að skrifa meira um þetta mál, er það ekki vegna þess að ég var lokaður út af blog.is, heldur frekar vegna þess að ég er búinn að koma mínum skoðunum á framfæri. Ég mun samt taka upp þráðinn ef eitthvað gerist meira í þessu máli. Vonandi hafa Keflvíkingar betur þar sem þeir eru að berjast fyrir heiðarlegri knattspyrnu.

Að lokum vil ég skella inn þræði og spyr ykkur, minnir þetta mark ykkur á eitthvað atvik sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu? Linkurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Mummi vertu bara easy á því.Ég lenti líka í svona dæmi þegar ég var virkilega heitur og þá var hringt í mig frá mogganum vegna skrifa minna,þetta snýst um að við verðum að passa að vera ekki að hella okkur yfir vissar persónur.

Ég sagði auðvitað á móti ég er bara skrifa það sem er satt og rétt,en málið er auðvitað það Mummi minn að við megum auðvitað ekki hrauna yfir menn og málefni einhliða.Við höfum auðvitað öll skoðun á öllu og fynnst við mega tala hlutina út.

En munum eitt það eru fjölskyldur sem eiga þessa einstaklinga að og hafa skal aðgát í nærveru sálar bara muna það,breytir að vísu engu um þetta ömurlega atvik og þar við situr kveðja Úlli.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 7.7.2007 kl. 01:10

2 identicon

Mummi ... þú varst orðhvassari en flestir hér á blogginu. Ég var alls ekki og er alls ekki sammála þér, en allir eiga rétt á sínum skoðunum. Þetta er bara spurning um að orða hlutina betur. Ég hef sagt það áður, að markið var ömurlega leiðinlegt hjá Bjarna ... en ef þú bara prófar - þrátt fyrir að vera hliðhollur Keflavík - ... ef þú bara prófar að gefa þeim möguleika tækifæri, að Bjarni hafi ekki verið að reyna þetta - hvað er það versta sem getur gerst?

Skotin sem Keflvíkingar eru að fá á sig eru viðbrögðin hjá leikmönnum í leiknum, sem og eftir á. Vonandi verður gerð heiðarleg og nákvæm rannsókn. Ef í ljós kemur að Skagamenn ætluðu alltaf að gera þetta, þá er það þeirra álitshnykkir og þeir munu hrynja í áliti. En það er ekkert sem afsakar þessi ofsafengnu viðbrögð Keflvíkinga. Það er eitt að vera reiður og sjokkeraður, það er annað að ráðast að manninum og ætla í hann. Þú getur ekki neitað því að það var hlaupið hart að Bjarna. Hver trúir því að leikmenn í svona ham (bræði!) séu bara að spyrja hver meining hans sé með þessu og eru að biðja um að leyfa Keflavík að skora? Fyrir mér kemur Guðjón Þ. verst út úr þessu, og Kristján er ekki að koma vel fram finnst mér.

Tökum bara dæmi, sem ég bið þig innilega um að skoða hlutlaust:

a) Bjarni segist ekki ætla hafa skorað - enginn Keflvíkingur trúir honum.
b) Kristján segist ekki hafa sent Einar inn fyrir Guðmund til að dúndra niður Bjarna - enginn Skagamaður trúir honum.

Af hverju ætti maður að trúa einu af þessu fram yfir annað? Hvernig veistu 100% að Bjarni var að reyna þetta? Hvernig veistu 100% að Einar var sendur inn á völlin í hefndarhug? Ég skil alveg þann punkt að "sorry" bara dugar ekki. Fyrir mitt leyti væri útópíulausnin sú að leikurinn yrði kannski endurtekinn, eftir þó að fyrirliðar og þjálfarar hafa komið opinberlega fram og sæst. En sennilega gerist það ekki. Besta hefnd Keflvíkinga væri að rústa Skagamönnum (í fótboltalegum skilningi!! ) og mögulega senda þá niður í 1. deild eða eyðileggja möguleika þeirra á Evrópusæti ... í versta falli: niðurlægja þá eins og t.d. Valsmenn niðurlægðu FH-inga.

Munurinn á þessu marki hans Jóa Kalla og Bjarna er sá að Jói var að reyna þetta, og aðstæður allar aðrar. Mig sem Framara svíður ennþá dálítið þegar ég hugsa til marksins sem Einar Þór KR-ingur skoraði á móti Fram 1995 ... en viðbrögðin þar (sem og viðbrögðin í hollenska linknum sem hefur gengið á milli hér á netinu) voru mun rólegri heldur en hjá Keflavík.

Ég endurtek: Markið hans Bjarna var dapurlegt. En það voru viðbrögð Keflvíkinga líka. Bæði leikmenn og þjálfarar beggja liða hafa verið að munnhöggvast og blandað fjölskyldum í málið ... þetta karp er ekki góð auglýsing fyrir íþróttina.

Svo er ein spurning í lokin: Af hverju hefur ekkert heyrst frá KSÍ eða dómara leiksins? Væri ekki vert að heyra þeirra mat á þessu öllu?

Góðar kveðjur að norðan,
          Doddi

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 01:40

3 Smámynd: Mummi Guð

Eflaust var ég orðhvass. En ég passaði mig á að segja ekkert sem ekki var komið fram í fjölmiðlum. Ég var á leiknum og hef talað við nokkra leikmenn Keflavíkurliðsins og veit ýmislegt sem gerðist og hefur ekki verið sagt frá í fjölmiðlum, ég hef fyrst og fremst talað um þá feðga og hvernig þeir hafa komið fram. Gott dæmi um framkomu þeirra það er þegar Gísli Einarsson fréttamaður er að spyrja Guðjón spurninga eftir leikinn og þá segir Guðjón eitthvað á þessa leið; Spurningin er röng, ég skal semja spurninguna og svara henni. Hver annar en Guðjón Þórðarson kæmist upp með að semja spurningarnar á staðnum fyrir fréttamennina og svara þeim síðan af stakri ró?

Ég man þá tíð þegar Guðjón yfirgaf Keflavík og bjó til lélega lygasögu til að réttlæta brotthvarf sitt. Þegar fréttamaður var að taka viðtal við Guðjón um það mál þá svaraði hann þannig að ef hann ætlaði að vera með svona leiðinlegar spurningar þá væri viðtalið búið. Guðjón sgði með öðrum orðum, komdu með spurningar sem eru ekki óþægilegar fyrir mig og ég skal svara þeim. Mér finnst mjög sorglegt hvernig fjölmiðlamenn eru á Íslandi, að það skuli enginn þora að standa upp í hárinu á honum og spyrja spurninga sem allir vilja heyra. Eins og til dæmis af hverju ertu að segja að Baldur hafi pressað Bjarna, að hann hafi gert árás á hann þegar allir sjá að Baldur var víðsfjarri.

Viðbrögðin í leik KR og Fram um árið voru ekki rólegri en núna. Það sem er að á þessum leik þá voru margar myndavélar sem tóku þetta upp og hægt að skoða þetta frá mörgum sjónarhornum. Ég man eftir því að það varð allt snarbrjálað í KR-Fram leiknum.

Dæmin sem þú kemur með Doddi og ég á að skoða hlutlaust.

a) Bjarni er auka og vítaspyrnusérfræðingur ÍA og af hverju, hann er besti skotmaðurinn þeirra. Hann spilar boltanum áfram lítur upp og sér væntanlega hvar Ómar er staðsettur og lætur vaða á markið með föstu ristarskoti. Hann er ekki pressaður og boltinn er hnitmiðaður. Þetta er skot eins og bestu aukaspyrnusérfræðingar framkvæma, er það tilviljun. Þetta er of mikil tilviljun til að geta verið sönn.

b) Ef Kristján ætlaði að senda einhvern inn á til að slasa Bjarna þá myndi hann örugglega senda einhvern reynslumikinn og harðan leikmann á hann. Ekki 17 ára barn sem er að stíga sín fyrstu spor með meistaraflokki.

Það hafa margir talað um af hverju sætta Keflvíkinga sig ekki við þetta, Skagamenn hafa beðist afsökunar og þar með á málinu að vera lokið. Ef Keflavík hefðu unnið leikinn þá hefðu Keflvíkingar örugglega verið búnir að fyrirgefa Skagamönnum, að minnsta kosti í orði. En Akranes fékk 3 stig með svindli, Keflavík svindlaði ekki og fékk ekkert stig. Um það snýst þetta mál.

Varðandi dómarann og KSÍ, þá verðum við að bíða til þriðjudags að heyra hvað kSÍ finnst um þetta mál. Dómarinn er aftur á móti í öðruvísi aðstöðu þar sem hann gerði í raun ekkert rangt og eins og þið hafið tekið eftir þá hefur málið ekkert snúist um dómarann eða dómgæsluna. Hann fór bara eftir lögunum.

Ég er ósammála þér Úlli að einu leyti, ég hef einhliða skoðun á málinu eins og flestir og á þessari síðu minni finnst mér ég eiga rétt á að segja frá minni skoðun og þurfi ekki að segja hina hliðina. Þeir sem vilja koma með athugasemdir eða segja frá hinni hliðinni geta gert það eins og þið eruð að gera.

Auðvitað verðum við að sitja aðeins á okkur og passa okkur á að fara ekki yfir strikið og ég held að ég hafi ekki gert að minnsta kosti ef við miðum við aðrar bloggfærslur.

En ég hef greinilega ekki farið mikið yfir strikið úr því að blog.is hringdi ekki í mig .

Að lokum strákar takk fyrir athugasemdirnar og málefnalega umræðu.

Mummi Guð, 7.7.2007 kl. 16:16

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég kom svona sirka degi síðar inn í þetta mál enda stórmálin alltaf hálfnuð þegar ég fer á fætur hérna megin á hnettinum. Hef ekkert tjáð mig um málið því ég þurfti að horfa á Kastljós og 14-2 og fréttir og svoleiðis áður en ég gæti sagt nokkuð. Ég er Þórsari og hallast hvorki að Keflavík né Akranesi en það sem mér sýnist er að báðir aðiljar eigi að skammast sín. Þetta mál er allt orðið hið ljótasta að ástæðulausu.

a) Veit ekki hvað var í hausnum á Bjarna þannig að við munum aldrei vita hvort hann var að reyna þetta eða ekki. Fólk verður bara að trúa því sem það vill.

b) Keflvíkingar hefðu átt að halda ró sinni. Ég skil að þeir verði reiðir en þeir brugðust augljóslega of harkalega við.

c) Skagamenn áttu að gefa mark á móti, alveg sama hvernig Keflvíkingar  tóku á málinu eftir á. Skýring Guðjóns er út í hött. Hann segir að ef Keflvíkingar hefðu slappað af þá hefðu Skagamenn rætt málið. Takið eftir, hann sagði aldrei að þeir hefðu gefið mark á móti. Bara að þá hefði verið grundvöllur fyrir að sjá til. Það getur ekki verið skemmtilegt fyrir Skagann að vinna á svona marki, sama hvernig á það er litið.

d) Ég horfði á viðtalið við Guðjón og Bjarna. Mér fannst Bjarni koma þokkalega fyrir en ég trúi ekki orð af því sem Guðjón segir. Hann bullar svo mikið að jafnvel þar sem hann segir sannleikann hefur maður tilhneigingu til að trúa honum ekki. Hann á að skammast sín.

e) Mér fannst Kristján trúverðugri en hann ætti samt líka að passa sig. Hann var nálægt strikinu.

Lausn. Nú eiga menn að setjast niður og ræða málin í alvöru og af heiðarleik. Það er kannski fullmikið að ætlast til þess að Skaginn gefi leikinn í haust en einhvern veginn þurfa þeir að gera meira en að segja bara sorrí.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.7.2007 kl. 18:31

5 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég er Keflvíkingur, brottfluttur að vísu en Keflvíkingur engu að síður. Ég held að Bjarni greyið hafi kannski ekki endilega ætlað að skora þarna þegar hann tók þetta líka flotta skot. Ég var staddur á leiknum eins og þú og mitt álit er það að ef Skagamenn hefðu verið heiðursmenn og sagt bara strax: ,,viðleiðréttum þetta og þið labbið í gegn og skorið" hefði málið bara settlast og allir ánægðir. En eins og Guðjón og co setja þetta upp fyrirgerðu okkar menn öllum rétti til leiðréttingar með sínu framferði eftir markið. Menn hafa verið að banda á hvað menn voru spakir í leiknum þarna í Hollandi, en þar var staða liðsins sem fékk á sig þetta skítamark í allt annarri stöðu þar sem tap eða sigur skipti engu máli. En mergur málsins finnst mér vera aðferðin við að skila boltanum, að dúndra boltanum svona í átt að marki, þó Bjarni segist hafa ætlað að skjóta til hliðar við markið, þá er alltaf þessi hætta fyrir hendi ef eitthvað klikkar í skotinu/sendingunni. En ég vona bara að menn fari að ljúka þessu máli þannig að menn geti farið að einbeita sér að næstu verkefnum. Það liggur fyrir að þessu verður ekki breytt og þessir menn verða að vinna saman áfram, eins mikið og keppinautar í íþróttum vinna saman.

Gísli Sigurðsson, 7.7.2007 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband