Sjónvarpsdagskráin.
23.6.2007 | 20:52
Hér sit ég heima á laugardagskvöldi og glápi á sjónvarpið eins og önnur laugardagskvöld undanfarna mánuði. Ég á nefnilega ekki hægt um vik að komast frá heimilinu vegna Hugins Heiðars sonar míns, en hann er langveikur og við hjónakornin þurfum að sitja yfir honum 24 tíma á dag 7 daga vikunnar og höfum ekki fengið neina aðstoð frá kerfinu til að létta okkur aðeins lífið, eins og til dæmis að við gætum komist í bíó eða göngutúr. En það stendur allt til bóta og er núna komin töluverð hreyfing á okkar mál, enda ekki seinna vænna eftir 6 mánaðar baráttu.
Aftur að sjónvarpsdagskránni. Ég er farinn að hallast að því að sjónvarpsstöðvarnar séu komnar í kapp í að vera með lélegustu sjónvarpsdagskránna um helgar og það má ekki á milli sjá hver er sigurvegarinn. Stöð 2 er til dæmis með einn leiðinlegasta raunveruleikaþátt sem gerður hefur verið á dagskrá hjá sér á besta tíma bæði á föstudags og laugardagskvöldum. Síðan eru endurteknir þættir eins og Stelpurnar, ágætis þættir en þeir eru endursýndir og myndu kannski hæfa betur eftir miðnætti á miðvikudögum. Ríkissjónvarpið eru með miðlungsframhaldsþætti og síðan einhverjar gamlar og þreyttar bíómyndir. Sama saga er með Sirkus og Skjá Einn, reyndar tel ég mig ekkert geta kvartað yfir dagskrá Skjás Eins þar sem ég borga ekkert fyrir dagskránni, nema kannski með hærra vöruverði hjá kostendum þáttanna.
En mikið vildi ég að það væri til sjónvarpsstöð sem ég gæti stillt á snemma á kvöldi og horft á þar til kominn er tími til að fara að sofa. En þangað til að svoleiðis sjónvarpsstöð kemur þá stunda ég bara fjarstýringamaraþon á milli þess sem ég blogga um leiðinlega sjónvarpsstöðvar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.