Allir að gefa líffæri.
1.6.2007 | 22:40
Ég vona að þetta gabb verði til að opna augu fólks við því vandamáli sem er að of fáir eru tilbúnir til að gefa líffæri og vilja frekar að þau rotni heldur en að einhver sem þarf á þeim að halda til að geti lifað áfram fái þau.
Á 13. mínútna fresti er nýr einstaklingur settur á lista yfir líffæraþega. Á hverjum degi deyja 16 einstaklingar vegna þess að þeir fá ekki líffæri í tæka tíð. Þessar tölur eru svo sláandi að það er ekki annað hægt en að hugsa um það. Ísland er í einu af botnsætunum yfir þær þjóðir í Evrópu sem vilja gefa líffæri.
Huginn Heiðar sonur minn gekkst undir lifrarígræðslu í maí 2005 þegar hann var 6 mánaða gamall, hann er yngsti lifrarþegi Íslands. Hann gat ekki beðið eftir nýrri lifur þar sem biðin þá var 4-8 mánuðir og hann þurfti lifur strax. Það varð úr að mamma hans gaf honum hluta af sinni lifur. Mér finnst það ósanngjarnt að heilbrigt fólk þurfi að gangast undir mikla aðgerð á meðan eru fullt af líffærum grafin.
Þetta er mjög erfið ákvörðun að gefa líffæri eftir sinn dag, svo maður tali ekki um ef maður myndi missa barn að þurfa að taka ákvörðun um að gefa líffæri úr því. Fullt af fólki segir nei, það muni ekki gefa líffæri úr sínu barni. Þá spyr ég það ef barnið þeirra væri veikt, myndu þið þiggja líffæri fyrir það og þar kemst fólkið yfirleitt í vandræði. Gerið þið ykkur grein fyrir því að 2 ára barn sem er með alvarlegan hjartagalla og þarf að fá nýtt hjarta getur bara fengið hjarta úr látnum jafnaldra sínum. Ef enginn sem missir barn er til í að gefa líffærin þá munu mörg börn deyja sem eiga annars möguleika á að lifa.
Hugsið um þetta strax takið ákvörðun um að gefa líffæri, hvort sem úr ykkur og aðstandendum ykkar. Þá þurfið þið ekki að taka ákvarðanir á erfiðustu augnablikum í lífi ykkar.
Raunveruleikaþáttur um nýrnagjafa reyndist gabb | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.