Færsluflokkur: Sjónvarp

Smá tuð í lok helgar.

Að undanförnu hefur mikið verið auglýst að það sé Íslendingur sem leikstýrir mörgum þáttum í CSI:Miami seríunni. Ég hef oft pælt í því hvort það sé eitthvað merkilegt þar sem mér finnst CSI:Miami einn lélegasti þáttur sem sést í sjónvarpi, þar sem David Caruso fer á litlum kostum í hlutverki Horatio Caine. Ég hafði þó nokkuð álit á Caruso hér áður. Ég tók fyrst eftir honum í þáttunum N.Y.P.D Blue, hann hefur líka leikið í mörgum ágætum bíómyndum. En því miður þá held ég að hann eigi ekki eftir að fá uppreisn æru eftir frammistöðu sína í þessum þáttum.

Í kvöld var annar "merkilegur" þáttur á dagskrá í sjónvarpinu, það er þátturinn Numbers. Þegar ég sá fyrstu þættina í fyrra þá þótti mér þættirnir ágætir, en smá saman rann sú ánægja út í sandinn og fljótlega þótti mér þættirnir ansi fátæklegir og fullir af ótrúverðugleika. Það sem mér þótti verst við þættina var hlutverk Charlie Eppes sem David Krumholtz leikur. Þrátt fyrir að vera aðalkarlinn í þáttunum hefur hlutverk verið snarminnkað og er hann eiginlega kominn í aukahlutverk. En við það hefur þátturinn snarskánað. Það er vonandi að aðalpersónan verði klippt alveg út úr þættinum svo hann muni lagast mun betur.

Núna sit ég fyrir framan kassann og horfi á ameríska fótboltann. Ég er reyndar ekki mikill aðdáandi ameríska fótboltans, aftur á móti er ég mikill aðdáandi Pittsburgh Steelers. Eftir að hafa verið í Pittsburgh í 6 mánuði þá lærði ég meta þetta félag. Núna var leiknum að ljúka með glæsilegum sigri Pittsburgh Steelers 20-13 eftir að hafa verið 6-13 undir þegar tvær mínútur voru eftir.


Kill Point á Stöð 2.

Í kvöld var á dagskrá nýr þáttur á Stöð 2 sem heitir Kill Point. Líkt og svo margir þættir sem eru á dagskrá sjónvarpsstöðvanna, þá er þetta ekkert merkilegur þáttur. Hann fjallar um misheppnaða ránstilraun í banka og í kjölfarið hefst umsetursástand. Uppskrift að sjónvarpsþætti sem maður kannast vel við og hefur oft séð áður.

pittsburghEn það sem veldur því að ég ákvað að blogga um þennan þátt er það að þátturinn gerist í Pittsburgh í Pennsylvaniu, en þar bjó ég í 6 mánuði fyrir 3 árum síðan. Ég átti yndislegan, en erfiðan tíma í borginni og hugsa oft til þeirra sem ég kynntist í Pittsburgh og allra staðanna sem ég skoðaði þar. Þannig er að Pittsburgh hefur ekkert sérstaklega gott orð á sér, það er til dæmis sígildur brandari í Bandaríkjunum að kalla borgina Shit-burgh af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Vegna þessa að mér finnst Pittsburgh vera æðisleg borg. Margir segja að hún evrópskari en flestar borgir Bandaríkjanna, þar sem hún er byggð í skógi og mikið er af opnum svæðum og skóglendi er um alla borgina. Það eru ekki margar stórborgir sem geta státað sig af hlaupandi dádýrum innan borgarmarkanna, en þannig er Pittsburgh. Þá er töluverðar hæðir eða eiginlega fjöll í borginni þannig að sumstaðar minnir Pittsburgh mig á póstkort myndir frá San Francisco.

Flestir þeir þættir og myndir sem ég hef séð frá Pittsburgh fjalla um skuggahverfi borgarinnar, sem er stórfurðulegt þar sem Pittsburgh er ein af þeim borgum í Bandaríkjunum sem hafa lægstu glæpatíðni. Í Kill Point gerist þátturinn í miðborginni sem er mjög falleg og aðlaðandi og hlakka ég til að sjá næstu þætti þó mér finnist söguþráðurinn ekkert voða spennandi.


Núna er ég lost!

lost_lÉg verð að segja að ég er orðinn lost á þessum blessuðum Lost-þáttum sem eru sýndir á RÚV þessar vikurnar. Ég hef verið dyggur aðdáandi þáttanna frá því ég var í Pittsburgh fyrir þrem árum síðan. Á þeim tíma var mikið talað um þessa þætti á spjallsíðum á Íslandi (fékk ég allar fréttir og slúður frá slíkum síðum) og eitt sinn þegar Fjóla var lögst í flensu þá rölti ég yfir götuna og í BestBuy og keypti fyrstu seríuna á DVD. Við eyddum næstu kvöldum í að horfa á þættina og þótti mér þeir mjög spennandi og góður. Ég beið síðan spenntur eftir annari seríunni og verð ég að segja að hún olli mér miklum vonbrigðum. Þriðja serían var mun skárri en sú önnur og var ég farinn að hlakka til fjórðu seríunnar og ég verð að segja að hún er ein stór vonbrigði.

lost.benÉg skil ekki af hverju ég er enn að hanga yfir því þessum þætti, sérstaklega þar sem það er búið að gefa út að seríurnar verða sex talsins, þannig að ég fæ ekki að vita um leyndardóma eyjunnar fyrr en sumarið 2010 og ég veit ekki hvort ég nenni að hanga svo lengi yfir þessum þætti eða vitleysu eins og þættirnir eru farnir að vera.

Þetta var sjónvarps-pirrings-bloggið mitt á mánudagskvöldi, ætli ég noti ekki næsta mánudagskvöld í að horfa á American Idol.


Enn eitt glataða sjónvarpskvöldið!

Mikið lifandi skelfing er helgardagskrá sjónvarpsstöðvanna alltaf léleg. Núna sit ég og horfi á Flight of the Phoenix, sem er sennilega skásti dagskrárliðurinn í kvöld ef undan er skilin Hrúturinn Hreinn. En ég þarf ekkert að horfa á hann á laugardagskvöldum núna þar sem ég fékk Hrútinn Hrein safnið í jólagjöf. Ég er farinn að halda að Moggabloggið standi fyrir þessari lélegu dagskrá svo fólk haldi sig á netinu og bloggar um lélega dagskrá eða önnur mál sem það hefur oft ekkert vit á!

Talandi um myndina Flight of the Phoenix, þessi mynd sem er núna í sjónvarpinu er mynd frá 2004 og er endurgerð af stórgóðri mynd frá árinu 1965 með James Stewart, Richard Attenborough, Peter Finch, George Kennedy og mörgum öðrum stórleikurum í aðalhlutverki. Ég sá frumgerðina fyrir nokkrum árum, nokkuð mörgum árum og hún lifir svo vel í minningunni að mér finnst þessi endurgerð ekki vera sambærileg, þó hún sé ágæt.

Ég hef ekki skilið almennilega af hverju það er alltaf að vera að endurgera bíómyndir, ég man ekki eftir neinni mynd í svipinn sem er betri í endurgerðinni en upprunalega myndin og hægt er að nefna margar myndir sem hafa verið endurgerðar, eins og Psycho, Taxi, Lolita, Planet Of Apes, Hodet Over Vannet, Invision of Body Snatchers sem hefur verið endurgerð tvisvar og fjölmargar aðrar myndir sem allar eiga það sameiginlegt að vera verri en frumgerðin.


Útsvar á RÚV í kvöld.

Í kvöld verður sýndur spurningaþátturinn Útsvar á RÚV eins og flest föstudagskvöld. Keppnin í kvöld verður óvenju spennandi fyrir það að minn bær, Reykjanesbær mun keppa við Ísafjörð. Í liði Ísafjarðar eru Halldór Smárason og moggabloggararnir Ragnhildur Sverrisdóttir og Ólína Þorvarðardóttir. Í liði Reykjanesbæjar eru valinkunnir menn, Guðmann Kristþórsson bókasafnsfræðingur og Liverpool maður, Ragnheiður Eiríksdóttir sem er þekktust sem Heiða í Unun og loks Júlíus Freyr Guðmundsson sem er eins og nafnið gefur til kynna sonur Keflavíkurgoðsagnarinnar Rúnna Júll.

Það er annað sem vekur athygli mína við þetta val á liði Reykjanesbæjar, það er að liðið eingöngu skipað Keflvíkingum, en engum Njarðvíkingum. Eins og allir muna þá urðu Njarðvíkingar bandbrjálaðir þegar Ljósalagið var frumflutt skömmu fyrir Ljósanótt þar sem sungið var um Keflavík. Margir Njarðvíkingar gengu svo langt að sniðganga Ljósanótt. Núna er spurning hvað ætla Njarðvíkingar gera núna? Ætla þeir að segja upp áskriftinni á RÚV?


Ég skil ekki símasölumenn.

Það er ekki það skemmtilegasta sem ég geri að tala við símasölumenn, en stundum eru þeir að bjóða hluti sem ég hafði ætlað mér að fá. Þannig var það í síðustu viku að það hringdi sölumaður frá 365 og vildi bjóða mér áskrift að Sýn2, sjónvarpsstöðinni sem sýnir ensku knattspyrnuna. Ég hafði hugsað mér að gerast áskrifandi að sjónvarpsstöðinni og þegar þessi sölumaður hringdi þá hlustaði ég á hvað hann hafði að bjóða og ég lét hann vita hvað ég væri ósáttur við. Ég er ósáttur við hvað Digital Ísland dettur oft út, ég er kannski að horfa á spennandi mynd og skyndilega er skjárinn svartur og ekkert gerist næstu 20-30 mínúturnar. Ég sagði honum að ég væri ekki tilbúinn að borga áskrift að Sýn2 og fá bara að sjá valda kafla í leikjunum.

Sölumaðurinn benti mér að 365 ætlar að fara að bjóða upp á adsl-myndlykla og fannst mér það frábært að geta loksins notið sjónvarpsins, vitandi það að ég geti horft á alla myndina eða allan leikinn. Þar sem matartími var hjá mér þegar hann hringdi, þá bað ég sölumanninn að hringja aftur eftir 10 mínútur og þá væri ég búinn að taka ákvörðun. Núna er liðin heil vika og hann hefur enn ekki hringt. Ég er núna að pæla hvort það að biðja manninn að hringja eftir 10 mínútur hafi verið svo mikil ókurteisi að hann ætli aldrei að hringja í mig.


Góðar fréttir á RUV.

Í kvöld var gömul frétt í Ríkissjónvarpinu, það var frétt frá 1967 og fjallaði um ferð Gullfoss til sólarlanda með farþega. Ætlar RUV að koma með svona fréttir reglulega, enda er það skrýtið að RUV eigi allt þetta efni án þess að ætla að sýna það. Það var skemmtilegt að sjá þessa frétt og hlakka ég til að sjá næstu gömlu frétt á Ríkissjónvarpinu.


Raunveruleikaþættir.

Ég er búinn að vera að hugsa um alla þessa raunveruleikaþætti sem er verið að sýna í sjónvarpinu. Ég get varla kveikt á sjónvarpinu nema að það séu raunveruleikaþættir og þá skiptir ekki máli hvort þeir heita, Survivor, American Idol, America's Next Top Model, Bachelor, Bachelorette, Beauty and the Geek, Rockstar, So You Think You Can Dance, On the Lot, Pirate Master, X-Factor og America's Got Talent og ég gæti haldið svona lengi áfram. Mér finnst þessir þættir ótrúlega slakir, ég verð samt að viðurkenna að ég fylgdist með tveim af þrem fyrstu seríunum af Survivor og ég fylgdist með einni seríu af American Idol, þeirri sem feiti svertinginn vann. En ég gerði mér fljótlega grein fyrir hversu lélegir þessir þættir eru.

Auðvitað tóku Íslendingar sig til og fóru að apa eftir Kananum og fóru að framleiða raunveruleikaþætti með mjög misjöfnum árangri. Skástu þættirnir að mínu mati voru Idol og X-factor, sennilega vegna þess að þar var ungt íslenskt (og nokkrir útlendingar) fólk að reyna sig í að syngja og komast þannig áfram. Munurinn á að horfa á íslensku þættina og þá erlendu er sá að oftast kannaðist ég við nokkra keppendur í íslensku þáttunum, þau voru ýmist nágrannar mínir, ég kannaðsit við systkini þeirra eða foreldra. Verstu íslensku þættirnir eru Leitin að strákunum sem voru afspyrnu illa gerðir og hafði ég á tilfinningunni að  hver þáttur væri gerður án þess að vitað væri hvernig sá næsti yrði gerður. Síðan er þátturinn sem gerðist á bátnum við Grikkland (eða var það Tyrkland) mjög slæmur þáttur en það var örugglega gaman að vera þátttakandi í þættinum, þessi þáttur var eins og heimagert video eftir góða sólarlandadjammferð. En hann átti ekkert erindi til annarra en þeirra sem voru í ferðinni. Síðast en ekki síst verð ég að nefna Íslenska Bachelorinn, það sem gerði þann þátt svona lélegan var það hversu slakur piparsveinn var valinn og fannst mér það ansi sorglegt að hvað eftir annað skyldi hann fá höfnun frá dömunum þegar hann ætlaði að gefa þeim rós.

Ég verð þó að viðurkenna að ég hef gaman af einum raunveruleikaþætti, það er þátturinn hans Donald Trump, The Apprentice. Annar þáttur sem ég hef lúmskt gaman að horfa á er America's Next Top Model, er það ekki vegna þess að það séu góðir þættir heldur aðallega vegna þess hversu keppendurnir eru miklar tíkur. Þær eru að baktala hvor aðra út í eitt, rífast og eru virkilega vondar og ljótar út í hvorar aðra. Þær eru mannvonskan holdi klædd. Í þeim þáttum eru fallegar konur að keppa sín á milli og sanna það svo heldur betur máltækið, að fegurðin kemur að innan.

Ég vona að sjónvarpsstöðvarnar fari að hætta að kaupa þennan raunveruleikaóþverra inn og fari að einbeita sér að betra efni, en ef stöðvarnar vilja endilega halda áfram að sýna þessa þætti í Guðanna bænum hættið að sýna þá á besta tíma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband