Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Mömmuhelgi.

Það er búið að vera mömmuhelgi hjá mér núna, það er að ég geri allt sem mamman á heimilinu biður um! Eftir stuttan vinnudag horfði ég á rómantíska mynd með Fjólunni og síðan skelltum við okkur á höfuðborgarsvæðið, maður má víst ekki tala lengur um Reykjavík heldur þarf að segja höfuðborgarsvæðið til að móðga ekki Garðbæinga og Kópavogsbúana. Ég byrjaði á að bjóða Fjólunni út að borða, enda komið hádegi. Ég var grand á því og bauð henni í matsölu IKEA, ég vildi helst fara niður í pulsurnar, en hún vildi frekar grænmetisbuffið og að sjálfsögðu fékk hún það. Við löbbuðum í gegnum búðina og keyptum okkur nokkra lífsnauðsynlega hluti, sem ég vissi ekki að okkur vantaði fyrr en ég sá þá. Þegar við vorum búin að borga hlutina og setja þá í bílinn, þá fórum við aftur inn í IKEA til að athuga hvort okkur hefði eitthvað yfirsést eitthvað og mikið rétt, skömmu síðar gengum við aftur út úr IKEA með lífsnauðsynlega hluti sem ég vissi ekki að okkur hafði vantað!

Eftir IKEA fórum við í útilegumanninn til að athuga hvort við sæjum eitthvað sem okkur vantaði í sambandi við fellihýsið okkar og að sjálfsögðu sáum við fullt af hlutum sem okkur vantaði, flest það sem til var í búðinni vantaði okkur, við höfðum hugsað okkur að kaupa kannski útilegustóla og smá borðbúnað, en sölumaðurinn vildi helst selja okkur 5 milljón króna hjólhýsi, en okkur tókst einhvern veginn að snúa sölumanninn af okkur og löbbuðum út tómhent og ekki með neitt í eftirdragi. Þá var farið í Office1 að kaupa skrifföng fyrir skólavertíðina hjá börnunum. Ég var á rólegu nótunum þar, labbaði á eftir Fjólunni með innkaupakörfu sem þyngdist stöðugt því innar sem við fórum í búðina, ég var orðinn slappur í öxlunum þegar við komum loksins að búðarkassanum. Eftir Office1 ferðina skelltum við okkur í BYKO að reyna að finna fleiri hluti sem við höfum ekki þörf á, fundum nokkra en samt var ekkert keypt, en einhverjir af hlutunum voru síðan settir á fjárlög og verða eflaust keyptir síðar. Enda má það ekki gerast að við eigum ekki hlut sem okkur langar í.

Við skelltum okkur síðan í heimsókn til Jósteins mágs, en ég gerði mér ekki grein fyrir hversu langt er síðan ég heimsótti hann fyrr en hann bauð mér upp á útrunnið kók. Hann bauð mér ekki bara upp á gamalt kók heldur líka upp á dýrindis kjúklingasalat. Eftir matinn skelltum við okkur á kaffihús og fórum við þrjú á Cafe Cultura sem er í Alþjóðahúsinu á Hverfisgötu. Staðurinn er fínn og heita súkkulaðið sem ég fékk var gott, en ég fékk samt tækifæri þarna til að hneykslast á þremur hlutum, í fyrsta lagi þá var einn gesturinn þarna með lítið barn með sér, barnið var kannski 6-9 mánaðar gamalt og það finnst mér vera of ungt til að vera á kaffihúsi eftir klukkan 10 á laugardagskvöldi. Samferðarfólk mitt reyndi að sannfæra mig um að þetta væri kannski ekki óeðlilegt og nefndi hinar ýmsu ástæður sem hugsanleg rök fyrir veru barnsins þarna inni, en ég gat engann veginn keypt neinar af þeim. Annar liðurinn sem ég fékk á hneykslast á var rafmagnið þarna, en við stoppuðum ekki lengi en á þeim tíma sló rafmagnið út 5 eða 6 sinnum. Mér finnst það ekki traustvekjandi kaffihús sem getur ekki haldið rafmagninu á lengur en 10 mínútur í einu. Ég held að það hafi verið einn starfsmaður í fullu starfi þarna að slá inn rafmagninu. Þriðji hluturinn sem ég fékk að hneykslast á var það þegar dyraverðirnir voru á barnum að drekka, ég meina þeir voru meira að segja í merktum jökkum!! Ég er kannski bara orðinn of gamall fyrir þetta, kannski tíðkast það í dag að dyraverðir séu drekkandi á meðan þeir vinna og foreldrar koma með ungabörnin sín á kaffihús vegna þess að þau fái ekki pössun eða hafa ekki efni á henni.

En mömmudagurinn var fínn, þó ég hafi þurft að fórna fyrstu umferðinni í ensku knattspyrnunni, en hún hófst í gær og að ég hafi líka þurft að fórna landsleik Íslands og Danmerkur í handboltanum.


Í dag eru þrjú ár síðan Huginn fékk nýja lifur.

17. maí 2005 gekkst Huginn undir lifrarígræðslu á Barnaspítalanum í Pittsburgh, þá tæplega 6 mánaðar gamall. Á sama tíma gekkst Fjóla undir mikla aðgerð á Montefiore-spítalanum. Var hluti af lifur hennar tekinn og græddur í Hugin. Þessum degi mun ég aldrei gleyma, þó að þessi dagur hafi verið í hálfgerðri móðu hjá mér.

Ég vaknaði þennan dag um klukkan 4 eftir tveggja tíma svefn. Ég fór upp á spítala til Fjólu og hitti hana þar sem það var verið að búa hana undir aðgerðina, Sævar bróðir og Lovísa konan hans voru á Barnaspítalanum hjá Hugin, en hann var þarna orðinn mjög veikur vegna lifrarsjúkdómsins og ljóst var að hann ætti aðeins örfáa daga eftir ef hann fengi ekki nýja lifur.

Eftir að Fjóla fór í aðgerðina um klukkan korter í sjö og þá hljóp ég yfir á Barnaspítalann til að hitta Hugin, ég var hjá honum þar til hann fór í aðgerðina um klukkan hálf tíu. Ástæðan fyrir þessum tímamun á aðgerðunum var sá að best væri að lifrarbúturinn úr Fjólu væri kominn á Barnaspítalann um leið og ónýtan lifrin væri tekin úr Hugin. Klukkan var orðinn sex um kvöld þegar ég loksins hitti Fjólu aftur og klukkan var orðin 10 þegar ég fékk hitta Hugin.

Ég held að fáir geta gert sér grein fyrir hvað gekk á þennan dag hjá mér. Ég var nánast ósofinn þegar dagurinn hófst og þegar bæði Huginn og Fjóla voru í aðgerð þá ákvað ég að fara heim að leggja mig aðeins, ég náði að leggjast í svona 15 mínútur (án þess að sofna) og þá gat ég ekki lengur verið heima og fór aftur á spítalann. Það var mikill léttir að hitta Fjólu aftur og eftir að hún fór að sofa aftur skokkaði ég yfir á Barnaspítalann og þar tók við bið og aftur bið. Bið var það sem einkenndi þennan dag hjá mér.

Það var eitt atvik sem gerðist á Barnaspítalanum um kvöldið sem segir ýmislegt um hvernig það er að eiga bæði barn og unnustu í mikilli aðgerð, maður reynir að halda sönsum og andlitinu en það þarf lítið til að missa tökin á sjálfum sér. Þannig var að ég, Sævar og Lovísa vorum að bíða á Barnaspítalanum, við höfðum fengið litlar fréttir af aðgerðinni á Hugin nema það að allt gengi vel. Síðan kemur að því að við erum kölluð á fund með dr. Rakish Sindhi sem stjórnaði aðgerðinni á Hugin og hann sagði okkur hvernig allt hafi gengið fyrir sig og hvað við ættum von á á næstum dögum. þetta var góður fundur þar sem ég fékk að vita af öllum hættunum sem fylgja lifrarígræðslum (af hverju ætli ég hafi ekki fengið að vita af þessu fyrir aðgerðina?). Síðan tók við bið aftur þar til við myndum fá að hitta Hugin og sú bið var ansi löng fannst mér.

Síðan kom loksins að því að við vorum sótt á biðstofuna og okkur tilkynnt að núna fengum við að hitta Hugin. Þegar við komum að Gjörgæsludeildinni þá er mér vísað frá og ekki hleypt inn á deildina. Ástæðan var sú að ég hafði ekki aðgangsheimild. Ég var mjög ósáttur og reifst við móttökukonuna sem hleypir fólki inn á deildina. Ég neitaði að sækja um heimildina og bað hana vinsamlega um að tala við dr. Sindhi  og spyrja hann hvort ég mætti hitta Hugin og hún neitaði því. Ég sagði henni þá að ég ætlaði að hitta Hugin og hún myndi ekki koma í veg fyrir það, þá hótaði hún því að kalla til lögregluna og láta handtaka mig. Þarna var ég saklaus Íslendingur að bíða eftir að hitta barnið mitt eftir langa og mikla aðgerð og viðmótið sem ég fæ er hótun um handtöku og eftir að hafa séð handtökuna á Rodney King þá stóð mér ekki á sama. Ég gaf eftir og fór í móttökuna á fyrstu hæð og fékk aðgangsheimildina. Þess má geta að aðgangsheimildin sem Sævar og Lovísa höfðu voru fyrir 16. maí og hún var löngu útrunnin og það kom þessari blessaðri konu ekkert við. Það særði mig einna mest var það að á meðan ég var að ná í aðgangsheimildina þá fór þessi blessaða móttökukona yfir gjörgæsludeildar-reglurnar með Sævari og Lovísu, en ekki með mér.

Þegar ég kom til baka með heimsóknarheimildina, þá fengum við loksins að hitta Hugin og hann var bara flottur. Eftir þetta þá horfði þessa blessaða kona á mig alltaf með einhverju sérstöku augnráði, eina skiptið sem ég sá hana verulega hissa var þegar ég kom með Fjólu að hitta Hugin í fyrsta sinn. Ég hef grun um að hún hefði haldið að konan mín myndi líta öðruvísi út. Ég svona stór og mikill og síðan Fjólan svona lítil og nett.

Ég ætla að lokum að setja inn myndband af Hugin sem ég tók af Hugin daginn eftir aðgerðina, ég þurfti oft að hlaupa á milli spítala til að taka myndir af Hugin þar sem hann lá á Gjörgæslu til að sýna Fjólu þar sem hún lá á Gjörgæslu á allt öðrum spítala, þetta myndband er eitt af þeim. Spurning er hvernig getur nokkur maður staðist þessi augu?


Enn eitt fótboltabloggið,

fótboltakarlÞetta er samt ekki alveg fótboltablogg, heldur frekar blogg um síðustu daga og þar hefur mikið snúist um fótbolta þar sem enska deildin er að ljúka og sú íslenska að byrja.

Um síðustu helgi lögðum við lönd undir fót og fórum á bernskuslóðir Fjólu og nutum gestrisni foreldra hennar. Við gátum ekki lagt af stað fyrr en eftir hádegi á laugardeginum þar sem ég var að vinna um morguninn og síðan þurfti ég að koma við í Ölver og horfa á mína menn í Crystal Palace spila í úrslitakeppni um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn fór ekki eins og ég hafði vonast til og eftir leikinn brunuðum við norður. Helgin var stórfín, var mikið slappað af og rúntað um nágrennið. Ég lenti meira að segja í að aðstoða við sortera fylfullu merarnar frá hinum. Var þetta ný reynsla fyrir mig þar sem að það eina sem ég vissi um hesta þegar ég kynntist Fjólu var að hestabörnin hétu folöld og hægt væri að kaupa hesta í kjötborðum í stórmörkuðum.

Ég eyddi reyndar stórum hluta helgarinnar í símanum, þar sem við ákváðum að fá okkur öryggiskerfi í húsið okkar í síðustu viku og stóra prófraunin var um helgina og það má segja að kerfið hafi kolfallið á prófinu. Þar sem öryggiskerfið fór látlaust í gang og voru það kisurnar sem settu það í gang hvað eftir annað. Þannig að ég þurfti hvað eftir annað að tala við öryggisverðina um lausnir. Í vikunni kom síðan tæknistjóri og lagfærði kerfið þannig að lítil hætta er á kerfið fari í ganga þó kisurnar klóri sér á bak við eyrun.

Ég og HuginnÍ þessari norðurferð fékk ég mynd af okkur Hugin saman, þetta er sennilega síðasta myndin sem er tekin af okkur saman, en hún var tekin í fermingarveislu 4 dögum áður en Huginn Heiðar dó. Ég var ekkert smá ánægður að fá svona flotta mynd af okkur saman, þó myndin sé ekki alveg í fókus þá finnst mér hún frábær og læt hana fylgja þessari færslu.


Dagur í kirkjugarðinum.

Í dag fórum við fjölskyldan saman í kirkjugarðinn að gera leiðið hans Hugins fallegt. Við höfum farið nánast daglega í kirkjugarðinn að skoða leiðið og tala aðeins við Hugin. Þrátt fyrir að mánuður sé síðan Huginn var jarðaður þá hafa blómin og kransarnir haldist ótrúlega vel. Á föstudaginn síðasta ákváðum við að nota daginn í dag til að hreinsa til á leiðinu hans Hugins og fegra það.

Natan, Ásdís, Guðjón og Sóley.

Vinnumennirnir: Natan, Ásdís, Guðjón og Sóley.

Við höfum hugsað mikið um hvernig við viljum hafa leiðið í framtíðinni en höfum ekki komist að neinni niðurstöðu, við höfum víst nægan tíma til að ákveða okkur. Við vorum samt búin að kaupa engla og kerti til að setja á leiðið og gerðum það í dag. Þetta var fínn dagur hjá fjölskyldunni, við áttum góðar stundir í kirkjugarðinum hjá Hugin Heiðari.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband