Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Enn eitt glataða sjónvarpskvöldið!

Mikið lifandi skelfing er helgardagskrá sjónvarpsstöðvanna alltaf léleg. Núna sit ég og horfi á Flight of the Phoenix, sem er sennilega skásti dagskrárliðurinn í kvöld ef undan er skilin Hrúturinn Hreinn. En ég þarf ekkert að horfa á hann á laugardagskvöldum núna þar sem ég fékk Hrútinn Hrein safnið í jólagjöf. Ég er farinn að halda að Moggabloggið standi fyrir þessari lélegu dagskrá svo fólk haldi sig á netinu og bloggar um lélega dagskrá eða önnur mál sem það hefur oft ekkert vit á!

Talandi um myndina Flight of the Phoenix, þessi mynd sem er núna í sjónvarpinu er mynd frá 2004 og er endurgerð af stórgóðri mynd frá árinu 1965 með James Stewart, Richard Attenborough, Peter Finch, George Kennedy og mörgum öðrum stórleikurum í aðalhlutverki. Ég sá frumgerðina fyrir nokkrum árum, nokkuð mörgum árum og hún lifir svo vel í minningunni að mér finnst þessi endurgerð ekki vera sambærileg, þó hún sé ágæt.

Ég hef ekki skilið almennilega af hverju það er alltaf að vera að endurgera bíómyndir, ég man ekki eftir neinni mynd í svipinn sem er betri í endurgerðinni en upprunalega myndin og hægt er að nefna margar myndir sem hafa verið endurgerðar, eins og Psycho, Taxi, Lolita, Planet Of Apes, Hodet Over Vannet, Invision of Body Snatchers sem hefur verið endurgerð tvisvar og fjölmargar aðrar myndir sem allar eiga það sameiginlegt að vera verri en frumgerðin.


Frá hvaða plánetu kemur Pétur Blöndal?

Pétur BlöndalÉg var að hlusta á Bylgjuna í morgun, á þáttinn Í Bítið. Þar rættu umsjónamennirnir meðal annars við alþingismennina Pétur Blöndal og Guðjón A Kristjánsson. Þegar þeir fóru að ræða skattamálin þá varð ég hneykslaður og hissa á ummælum Péturs. Þegar hann var kosinn fyrst á þing fyrir einhverjum 13 árum þá sagði hann að tekjuskattur væri tímaskekkja og það besta sem gæti gerst fyrir þjóðfélagið væri að losa það undan tekjuskattinum. Á þessum 13 árum sem Pétur hefur setið á þingi þá hefur hann ekki náð að koma sínum breytingum í gegn, enda þarf ekki mikinn stærðfræðing til að sjá að Ísland án tekjuskatt gæti aldrei gengið upp. Til gamans má geta að Pétur er stærðfræðingur.

Í þættinum í morgun þá var talað um hvernig væri best að tryggja þeim lægst launuðu kjarabætur í komandi samningum. Þegar umræðan fór að snúast um að hækka skattleysismörkin þá byrjaði Pétur að blása og taldi það vera arfavitlausa leið þar sem hún væri leið til festa fólk í fátæktargildru. Hann sagði að ef fólk fyndist það vera með of lág laun, þá á það að auka tekjur sínar og leiðarnar eru fjórar sem því stendur til boða. Í fyrsta lagi að vinna meiri aukavinnu, í öðru lagi að fá að bera meiri ábyrgð, í þriðja lagi að mennta sig og í fjórða lagi að skipta um vinnu. Vissulega er mikið til í þessu hjá honum, en hann gerir sér ekki grein fyrir að það er fullt af fólki sem getur ekki aukið tekjur sínar og hefur ekki aðstöðu til að fara í skóla. Mér fannst Pétur gleyma fimmta ráðinu, að flytja erlendis og freista gæfunnar þar.

Þegar Pétur var spurður af því hvað ætti hjúkrunarfræðingur að gera ef hún væri með of lág laun að hennar mati og svarið var einfalt, að skipta um vinnu! Og ef að allir hjúkrunarfræðingar myndu hætta, þá myndu launin hækka þannig virkar kerfið.

Enn einu sinni sýnir Pétur Blöndal hversu ómennskur maður hann er, ef svo má að orði komast. Allar hans hugsanir snúast um peninga og hann virðist vera algjörlega sneyddur öllu mannlegu og tilfinningar eru eitthvað sem fer lítið fyrir í hans málflutningi. Ég kynntist aðeins hans málflutningi í kringum lög sem sett voru til að bæta hag fjölskyldna langveikra barna fyrir nokkrum árum síðan, Pétur átti þá sæti í félagsmálanefnd sem fjallaði um lögin. Það er honum nánast einum að þakka að lögin voru meingölluð og sem betur fer er Jóhanna Sigurðardóttir búin að laga flesta meingallana hans Péturs. Síðan má spyrja sig að því, hverjum dettur í hug að setja Pétur í félagsmálanefnd, það hljóta að vera góðir húmoristar.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Ef það opnast ekki, þá er hægt að fara á heimasíðu Bylgjunnar og velja viðtalið hér.


Kofasöfnun í Reykjavík!

reykjavikAð undanförnu hefur mikið verið talað um friðuðu húsin við Laugarveg og finnst mönnum sitthvað um þau mál. Ég get engan vegin skilið af hverju verið er að friða þessa kofa sem verið er að tala um, þá er ég að tala um Laugarveg 4-6. Mér finnst mörg gömlu húsin flott og finnst frábært þegar hægt er að finna góða nýtingu fyrir þau. En mér finnst Laugarvegurinn á heildina forljótur í dag með alltof mörgum eldgömlum niðurníddum húsum og inn á milli þeirra eru há hús sem passa engan veginn við götumyndina. Staðreyndin er sú að þeir sem vilja varðveita gömlu húsin eru búnir að tapa baráttunni eins og er. Mér finnst að eitt og eitt gamalt hús eiga ekkert erindi á milli stórra og nýrra húsa, þau gera bara götumyndina ljóta og í versta falli hlægilega.

Svipað dæmi kom upp á Akureyri í vetur, það stóð til að rífa eitt ljótasta hús Akureyrar og byggja nýtt í staðinn. Húsið hafði verið í niðurníðslu í mörg og mikið lýti á bænum. Loksins þegar einhver ætlar að fara að framkvæma eitthvað og bæta götumyndina, þá er húsið friðað og af hverju? Það skil ég ekki.

peningarÉg trúi ekki að það sé vilji meirihluta íbúa að eyða hundruðum milljóna í halda þessum kofum á Laugarveginum, en það er kostnaðurinn við það. Í dag var ég spurður hvað mér fyndist um þetta mál og ég sagði eins og er að mér finnst fáránlegt að vera að friða þessa kofa og ef ég væri skattgreiðandi í Reykjavík þá myndi ég miklu frekar vilja sá þessum hundruðum milljóna varið í önnur og þarfari mál.

Þá kom yfirlýsing frá Húsafriðunarnefnd að þeir ætla að leggja það til að kofarnir verði friðaðir og þar með er kostnaðurinn kominn á ríkissjóð og af hverju vill Húsfriðunarnefnd friða kofana? Nikulás Úlfar Másson formaður Húsafriðunarnefndar upplýsti það í Kastljósi í kvöld. Hann vill að kofarnir verði friðaðir vegna þess að honum líst ekki á húsin sem á að byggja í staðinn! Ég skil þetta ekki, er maðurinn hálfviti. Samkvæmt þessu þá hefðu þeir sem eiga kofana átt að byggja lítið hús í staðinn fyrir kofana og þá hefðu þeir ekki verið friðaðir og síðan hefðu þeir átt að rífa nýbyggðu húsin og byggja stærra og málið úr sögunni! Nikulási líkar sem sagt ekki við hvernig nýja húsið verður og vill friða það sem er fyrir, þó honum finnist ekki ástæða að friða það að öðru leyti.

Nikulás ÚlfarNúna spyr ég, hefur Nikulás heimild til að eyða hundruðum milljóna úr ríkissjóði bara vegna þess að honum líkar ekki við hús sem á eftir að byggja? Ég er ekkert sáttur við að peningarnir okkar fari í svona bruðl og vitleysu, á sama tíma sitja nauðsynlegir hlutir á hakanum vegna peningaskorts. Ég vil að ríki og borg hætti að skipti sér af svona óþarfa hlutum, það á að rífa þá kofa sem eru í niðurníðslu og erum engum til prýði. Ég held líka að opinberir aðilar ætti að hætta að hlusta á hinn háværa minnihluta og fara að gera það sem almenningur vill.


Afmælisveislan.

Þá er ég að skríða saman eftir helgina. En ég hélt upp á afmælið mitt á laugardaginn. Það var bara fjör. Huginn var í Rjóðrinu og missti af afmælinu, en það var líka ástæða þess að við gátum haldið upp á afmælið. Það var bara gaman í afmælinu, það var reyndar svo mikið fjör að ég er farinn að hlakka til fimmtugs afmælisins míns!

Fyrir ykkur sem eru ekki orðin 40 ára, þá eigið þið mikið eftir. Þið sem komuð í afmælið, takk fyrir frábært kvöld.


Er Ástþór versti kosturinn sem næsti forseti?

Það er allt að verða vitlaust í þjóðfélaginu vegna þess að Ástþór Magnússon er búinn ákveða að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins. Er það samdóma álit allra að Ástþór eigi ekkert erindi í forsetakosningar, þó ótrúlegt megi telja þá er Ástþór með óflekkað mannorð og er ekki á sakaskrá. Ástæðan er sú að oftast þegar hann hefur verið fyrir rétti þá er hann að lögsækja aðra. Hvernig stendur á því að sami jólasveinninn getur boðið sig fram til embættisins í kosningu eftir kosningu án þess að fá eitthvað fylgi svo hægt er að tala um.

Ég er á því samt að Ástþór Magnússon sé ekki versti kosturinn í forsetaembættið og er ég búinn að gera topp 5 lista yfir verstu hugsanlegu forseta lýðveldisins.

5. Georg Bjarnfreðarson

4. Bobby Fischer.

3. Ástþór Magnússon

2. Árni Johnsen

1. Geir Ólafs


Afmælisbarn dagsins: -Mummi Guð.

nullAfmælisbarn dagsins að þessu sinni er Mummi Guð eða öðru nafni Guðmundur Bjarni Guðbergsson. Hann eða öllu heldur ég fæddist þann 3. janúar 1968 og er því 40 ára í dag. Á næstu dögum, vikum og mánuðum þarf ég að sanna að allt er fertugum fært svo það er vissara fyrir ykkur gott fólk að vera ekki á vegi mínum.

 

 

Aðrir merkilegir menn sem fæddust þennan dag eru:

J.R.R. Tolkien, breskur rithöfundur (1892)

Victor Borge, danskur skemmtikraftur (1909)

Victoria Principal, bandarísk leikkona (1950)

Mel Gibson, ástralskur leikari (1956)

Michael Schumacher, þýskur kappakstursmaður (1969)

Sigmar Vilhjálmsson, Simmi og Jói (1977) 

Lee Bowyer, enskur fótboltamaður (1977)


Af hverju eiga björgunarsveitirnar að hafa einokun á sölu flugelda?

Eitt heitasta bloggmálið um þessi áramót var um flugeldasölu og hverjir eiga að fá að selja flugelda. Það eru flestir sammála um að björgunarsveitirnar ættu að fá að sitja að flugeldasölunni einir og þegar fólk kaupir flugelda af björgunarsveitunum þá eru þeim peningum vel varið. Það er staðreynd, en á það að gefa björgunarsveitunum rétt á einokunarsölu á flugeldum?

Mitt mat er að það eigi að hafa flugeldasölu frjálsa, eins og hún er í dag. Ég hef nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun. Í fyrsta lagi finnst mér óþarfa boð og bönn röng. Síðan snýst þetta líka um peninga og verðlagningu á flugeldum. Ég veit um dæmi um að manneskja verslaði við einkaaðila vegna þess að það var mun ódýrara. Þó flestum munar ekki um að borga þúsund krónum meira fyrir fjölskyldupakkann, þá munar það fyrir suma og hann getur munað því hvort að fólk geti keypt eitthvað fyrir börnin sín eða að þau þurfi að eyða gamlárskvöldinu í að sjá aðra skjóta upp.

Það er sífellt tönglast á því að þetta sé nánast eina tekjulind björgunarsveitanna og það er rétt, mér finnst að það ætti að breyta því. Á gamlársdag (eða daginn áður) var viðtal við einhvern háttsettann mann hjá VÍS í sjónvarpinu þar sem hann talaði um það tjón sem VÍS þyrfti að bera vegna óveðursins og talaði um það í hundruðum milljóna, af hverju talaði hann ekki um hversu mikið björgunarsveitirnar spöruðu VÍS og af hverju greiða tryggingafélögin ekki björgunarsveitunum fyrir svona verk, þar sem verið er að spara tryggingafélögunum stórfé.

Á milli jóla og Nýárs fór björgunarsveit í mjög erfiðan leiðangur upp á Langjökul til að bjarga fólki sem var í vandræðum þar. Þrátt fyrir brjálaða veðurspá þá fór þetta fólk í þessa ferð, svona aðeins til að skemmta sér! Af hverju er þetta fólk eða tryggingar þeirra ekki látin greiða fyrir kostnað af björguninni, þó ekki sé nema fyrir brot af því svo þetta fólk fái smá nasaþef af þeim kostnaði sem svona björgun er.

Af hverju á maður eins og ég að styrkja björgunarsveitirnar? Ég er ekki jeppakarl eða veiðikarl, fer ekki á sjó og þegar það kemur vont veður þá vil ég vera heima undir sæng. Á þeim rúmlega þrjátíu árum (*hóst hóst*) sem ég lifað þá hef ég aldrei þurft á aðstoð björgunarveitar að halda (7-9-13). Hvers vegna ætti ég að styrkja einhver samtök eða félög sem ég nota ekki ?

Til að koma í veg fyrir misskilning þá ber ég mikla virðingu fyrir bjögunarveitum landsins og þeim störfum sem þau vinna og þrátt fyrir þessi orð mín þá hef engan áhuga á að versla flugelda af einkaaðilum. Það sem ég er að segja að ég skil ekki þennan hugsunarhátt að það megi ekki senda reikning til þeirra sem ana upp á fjöll í brjáluðu veðri og illa búnir og þurfa síðan að láta björgunarsveitirnar bjarga sér. Fólk fær sendan reikning ef það þarf að flytja það á sjúkrahús með sjúkrabíl, er þetta eitthvað öðruvísi?

Varðandi flugeldasöluna, þá væri frekar ráð að koma með nýjar tillögur til að styrkja björgunarsveitirnar á þeim markaði, til dæmis með því að leggja niður innflutningsgjöld og virðisaukaskatt af flugeldum til björgunarsveitanna. Þá stæðu björgunarsveitirnar mun betur í samkeppni við einkaaðilann og gæti haft hærri álagningu til að styrkja reksturinn betur. Jafnframt gæti þá einkaaðilinn verið á markaðinum og veitt björgunarsveitunum smá aðhald.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband