Ég sakna Hugins.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir og skrýtnir. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera. Stundum hef ég samviskubit yfir því hvað ég er sáttur við andlát Hugins. Þá er ég að meina það hvernig Huginn kvaddi okkur og sína nánustu og allar þær tilviljanir í kringum andlátið, að andlátið á þessum tíma getur ekki verið tilviljun. Ég trúi að Huginn hafi ákveðið að kveðja okkur þennan dag og fyrir það er ég sáttur, ég veit líka að hann fór sáttur og það gerir líf mitt bærilegra. Síðan þess á milli verkjar mér í hjartað yfir söknuðu, að hafa ekki Huginn lengur hjá mér. Að finna ekki lyktina hans, fá ekki að hjálpa honum með að gera magaæfingarnar, ég sakna jafnvel bitsáranna þegar hann náði að bíta mann í öxlina.

Við erum ekki búin að ganga frá dótinu hans Hugins og erum ekkert að fara að gera það strax. Samt saknar maður að hafa ekki vélarnir í gangi hérna, maður saknar að heyra ekki í súrefnisvélunum, B-PAP vélinni eða í monitorinum, þetta voru hljóðin sem maður tengdi við Hugin. Aftur á móti erum við með kveikt á kertum allan daginn hjá okkur og það má segja að það sé mótsögn í því þar sem við gátum ekki verið með kerti þegar Huginn var heima. Þar sem hann var tengdur við súrefnisvélar þá gat myndast eldhætta ef eldurinn kæmist í snertingu við súrefnið. Þess vegna var aldrei kveikt á kertum hérna á meðan Huginn var heima.

Síðasta fimmtudag fórum við á Barnaspítalann til að ganga frá nokkrum málum, það var bæði gott og erfitt. Við hittum meðal annars lækna sem spurðu hvernig okkur gengi að sofa hvort þeir ættu að útvega okkur eitthvað til hjálpa okkur með svefninn. Við sögðum eins og er að svefninn gæti verið betri en við afþökkuðum öll lyf þar sem við viljum frekar að koma hlutunum á rétta braut án lyfja ef það sé mögulegt, en við sögðum lækninum að við ætluðum að kaupa rauðvín og drekka það á laugardagskvöldinu í rólegheitunum. Lækninum fannst það frábært ráð, svo í gærkvöldi sátum við og drukkum rauðvín samkvæmt læknisráði!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Það hlýtur að vera erfitt að búa til nýja rútínu, nýtt líf án littla kútsins. Mér líst vel á ykkur að ætla að taka á þessu saman án lyfja. Þau geta svosem átt rétt á sér en eiga það til að koma í veg fyrir að raunverulega sé tekið á málunum. Rauðvín í rólegheitum skv. læknisráði hljómar mjög notalega. Gangi ykkur vel með tilveruna.

Björg Árnadóttir, 6.4.2008 kl. 11:21

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sendi ykkur fjölskyldunni innilegar stuðningskveðjur og risaknús frá Skaganum.

Guðríður Haraldsdóttir, 6.4.2008 kl. 13:25

3 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Falleg færsla Mummi,hún snertir mig beint í hjartað gangi ykkur allt í haginn.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 6.4.2008 kl. 13:55

4 identicon

Knús á ykkur og ekki vera með samviskubit. Huginn líður eflaust mun betur núna og teldu þig bara heppinn mann að hafa þó fengið að kynnast honum þennan tíma. Gangi ykkur vel

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 14:56

5 identicon

Dofi og  eyrðarleysi getur einkennt næstu daga og vikur, en þið eruð ótrúlega sterk og saman munið þið læra að lifa með sorginni.

Rauðvín og kertaljós hljómar vel. 

Sigga (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 19:34

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég fékk tár í augun við að lesa þetta, og við að sjá myndina úr kirkjugarðinum. Ég hreinlega get ekki ímyndað mér hvernig þér hlýtur að líða núna. En ég vona að þið hjónið fáið styrk hvort frá öðru, svo og öllum í kringum ykkur. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.4.2008 kl. 19:54

7 identicon

Kæri Mummi og fjölsk.

.Kveðja.

Vallý

Vallý (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband