Útförin.

Á morgun er vika síðan útför Hugins Heiðars var gerð. Það er ótrúlegt hvað maður þarf að standa í þegar ættingi deyr. Ég hef verið svo gæfusamur að hafa ekki misst mjög náinn ættingja áður og kunni því ekkert til verka, sem betur fer. Þannig var þegar Huginn dó þá ákváðum við að hafa jarðaförina eins og við vildum hafa hana og ekki fara eftir því hvernig aðrir hafa haft jarðafarir eða töldu hvernig við áttum að hafa hana, þó við hlustuðum á öll ráð. Við byrjuðum á að tala við prestinn okkar hann sr. Vigfús Bjarna sjúkrahúsprest á Barnaspítalanum og báðum hann að sjá um athöfnina og var það ekkert mál. Næsta mál var að ráða úrfaraþjónustu og völdum við Útfararþjónustuna ehf. og sáum við ekki eftir því.

Við ákváðum strax að hafa erfidrykkju og þó að margir hefðu sagt okkur að það væri óþarfi og bruðl. En við vorum ákveðin í því að hafa erfidrykkju og töldum okkur hafa þörf fyrir hana, við vildum hitta fólkið sem gaf sér tíma til að kveðja Hugin og við töldum að við þyrftum á öllum stuðningi á að halda þennan dag og ég þakka fyrir að við skyldum halda því til streitu þar sem erfidrykkjan hjálpaði mér mikið. Við vildum líka eiga myndir frá athöfninni og við vildum ekki biðja neinn um að taka myndir fyrir okkur og höfðum við því samband við atvinnuljósmyndara sem kom og tók myndir í kirkjunni og í kirkjugarðinum á eftir.

Við vildum líka hafa fallegan tónlistarflutning og töluðum við því frændurnar hennar Fjóla, Álftagerðisbræður og komu þeir og sungu fallega fyrir Hugin og okkur. Við völdum lögin gaumgæfulega. Sum lögin höfðum við ákveðið fyrir löngu síðan önnur ákváðum við eftir að Huginn dó. Lögin sem voru sungin í kirkjunni voru, Í bljúgri bæn, Snert hörpu mína, Þú styrkir mig (You raise me up), Dvel ég í draumahöll (úr Dýrunum í Hálsaskógi), Kveðja (Sól að morgni eftir Bubba) og sofðu unga ástin mín. Tókst þeim bræðrum frábærlega upp eins og þeim er von og vísa.

Við óskuðum eftir þvi að bara þeir allra nánustu myndi fylgja okkur í kirkjugarðinn og ástæðan var sú að við vildum hafa stutta athöfn þar og hitta síðan alla í erfidrykkjunni. Í kirkjugarðinn komu bara allra nánustu skyldmenni, starfsfólk af Barnaspítalanum enda voru þau öll mjög náin Hugin og síðan örfáir aðilar sem hafa unnið mikið með Hugin eða haft óvenjumikil samskipti við hann.

Við gerðum annað í erfidrykkjunni sem ég hef ekki heyrt að hafi verið gert áður, við settum myndir af Hugin á langflest borðin. Við gerðum það til að fólk sem hafði aldrei séð Hugin eða langt síðan það hafi séð hann gæti séð hversu konar sjarmör hann var. Þessar myndir vöktu mikla athygli og voru margir sem sögðu okkur hvað þetta hefði verið sniðug hugmynd og gaman að sjá hann svona flottann.

Eftir á hyggju þá held ég að við höfum gert allt rétt, við fengum frábæran prest, prest sem hefur þekkt Hugin frá því í október 2005 þegar við komum heim frá Bandaríkjunum og hefur hjálpað okkur mikið í gegnum tíðina. Ákvörðun okkar um að hafa erfidrykkju, fá ljósmyndara og Álftagerðisbræður, takmarka fjöldann í kirkjugarðinn, lagavalið og bara allt var hárrétt hjá okkur. Við munum minnast útfarinnar sem yndislegs dags og mun örugglega hjálpa okkur að minnast Hugins með sól í hjarta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Útförin hans Hugins Heiðars var yndislega falleg, og lögin sem voru sungin pössuðu einhvern veginn  svo ótrúlega vel og voru sungin svo fallega

Myndirnar voru æðisleg hugmynd og mér fannst gott að fá að hitta ykkur eftir athöfnina

Hafið það gott úti og njótið þess að slaka á og fara út að borða og hafa það huggulegt

Kv.

Sara

Sara Finney Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 08:34

2 identicon

Koss og knús á ykkur öll, þetta hefur greinilega verið yndisleg athöfn eins og ykkar er von og vísa. Er Fjóla uppalin í Skagafirði?

Góða ferð út og skemmtið ykkur vel.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 20:30

3 Smámynd: Mummi Guð

Fjóla er uppalin í Húnavatnssýslu, en er með skagfirskt blóð í sér!

Mummi Guð, 9.4.2008 kl. 23:41

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vissi að Fjóla hlyti að vera með blátt blóð í æðum ... Mikið hefur athöfnin verið yndisleg og allt í kringum hana. Svona á að gera þetta, ekki eins og allir aðrir, bara eins og þið vilduð hafa hlutina. Knús til ykkar.

Guðríður Haraldsdóttir, 9.4.2008 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband