Kominn heim.

Jæja, þá er ég kominn heim eftir helgarferð til Londons. Ferðin gekk ljómandi vel fyrir sig (ef undan er skilið flugið út og heim) og lærði ég og Guðjón ýmislegt um London og Englendinga. Til dæmis að sagan um að Englendingar kunna ekki að búa til góðan mat er sönn. Hingað til þegar ég hef farið erlendis í frí þá hef ég alltaf notið matarins, en ekki núna. Þó að við höfðum farið á þekkta skyndibitastaði sem eru vinsælir á Íslandi hjá okkur, þá stóðust þeir engan veginn undir væntingum. Við fórum á flotta veitingastaði og þeir stóðust ekki heldur væntingar okkar. Síðasta kvöldið lagði ég til að við færum á McDonalds og þá hváði Guðjón, þar sem ég þekktur sem anti-McDonalds-aðdáandi. En ég svaraði á þann hátt að ég væri viss um að McDonalds myndi ekki bregðast mér frekar en fyrri daginn og það reyndist rétt.

Talandi um flugið. Þá byrjaði ferðin ekkert alltof vel og við þurftum að sitja í vélinni í klukkustund út á flugbraut áður en hún komst í loftið, þar sem einhver bilun varð í vélinni. Það er ekkert voðalega traustvekjandi að fara í loftið í vél sem er búin að vera biluð, en flugið gekk ágætlega fyrir sig það sem eftir var. Ég vonaðist til að flugið heim gengi betur og allt leit ljómandi vel út, við komumst í loftið á réttum tíma en síðan kom upp eitthvað sem ég vissi ekki að gæti gerst. Vélin fékk ekki að fljúga inn í íslenska flugumsjónasvæðið og þurftum við að sitja í vélinni í rúman hálftíma á meðan vélin flaug í hringi yfir Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Hatton Rockall svæðinu eða einhversstaðar úti í ballarhafi. Mér var farið að líða eins og persónu í Die Hard 2 myndinni og var farinn að halda að við þyrftum síðan að lenda vélinni á síðustu bensíndropunum og þar myndi Bruce Willis standa með kyndla og vísa okkur á brautina. En það gerðist ekki og við lentum heilu og höldnu rúmri klukkustund eftir áætlun.

En ég verð að koma með spakmæli ferðarinnar, en þau áttu Guðjón. Þegar við stóðum undir Big Ben og þá spurði Guðjón mig af því að hvað klukkan væri!

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mcdonalds klikkar ekki í London, hann er jafnvondur allsstaðar.

Gísli Ólafsson (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 09:45

2 identicon

VElkominn heim gamli , þá hlýtur að vera gott að komast heim til Fjólu og í góða matinn hennar hehehe .

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 10:16

3 Smámynd: Mummi Guð

Takk takk. Það var gott að komast til Fjólunnar og ekki bara í matinn hennar. Henni fannst ég frekar rýr eftir London ferðina, þannig að ég von á steik í kvöld!

Mummi Guð, 6.11.2007 kl. 12:09

4 identicon

Hvernig fannst þér Emirates-leikvangurinn? Skemmtirðu þér ekki vel á leiknum? 

Brynjar (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 16:11

5 identicon

Velkomnir heim drengir

Berglind (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 16:51

6 Smámynd: Mummi Guð

Emirates völlurinn var flottur og stemningin frábær. Það að upplifa svona fótboltaleik er nokkuð sem maður gleymir ekki. Það skemmdi ekki fyrir að fá sjá svona frábæran leik þar sem tvö bestu lið Englands spiluðu og ekki var verra að fá svona dramatískan endi.

Mummi Guð, 6.11.2007 kl. 18:12

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Mummi Mummi Mummi. Ég vil fá almennilega færslu um leikinn. Um allt! Hvernig var upplifunin o.s.frv.

Fyrir mörgum árum sá ég leik á HIghbury þar sem 'reserve' liðið lék (það var ókeypis á þá leiki) og það voru þónokkrir á leiknum þótt þetta væri um miðjan virkan dag. Fyrir framan mig sátu karlar sem sögðu mér hver hver og einn í liðinu var og voru margir þarna úr aðalliðinu sem flestir voru að ná sér að meiðslum og spiluðu með 'reserve' liðinu sem nokkurs konar upphitun. Þá var m.a. Íslendingur í liðinu, Ólafur held ég. Síðar horfði ég á myndina Fever Pitch og þegar Paul fer á sinn fyrsta leik gekk hann inn sama inngang og ég, labbaði alveg upp alla stigana eins og ég og settist á nokkurn veginn sama stað. Mér fannst það frábært og nú get ég alltaf horft á þá mynd og kallað til baka hluta af upplifuninni - þótt auðvitað hafi hún ekki verið eins sterk eins og að sjá aðalliðið spila í alvöru keppni.  

Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.11.2007 kl. 19:01

8 Smámynd: Mummi Guð

Ég sé það núna að ég verð að koma með sér Emirates-færslu. Fever Pitch er góð mynd og ég efast ekki um að hún sé sérstaklega góð fyrir þá sem halda með Arsenal.

Ég kíkti á gamla Highbury og standa þar byggingaframkvæmdir yfir það er verið að reisa blokkir og aftur blokkir þar sem völlurinn var. Framhlið Highbury fær þó að standa og fannst mér framhliðin ansi sorgleg á að sjá. Þar stóð bara veggurinn aleinn, ekkert fyrir innan. Það var einhvers konar járnstillans sem hélt veggnum uppi. Þetta á örugglega eftir að verða flott, en það er langt frá því flott að sjá þetta svona.

Mummi Guð, 6.11.2007 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband