Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Jón eða séra Jón.

Það er greinilega ekki sama hvað Jón eða séra Jón segja þegar það á að dæma þjálfara í leikbönn. Þá er ég að vitna til þess þegar Kristján þjálfari Keflavíkur og Leifur þjálfari Fylkis fengu mun þyngri refsingu í fyrra fyrir töluvert vægari ummæli. En kannski er þetta breyting á refsingum hjá KSÍ, ég veit það ekki.

Það er annað sem vekur athygli mína yfir úrskurði aganefndar KSÍ í gær. Þjálfari 3. flokks drengjaliðs Vals er þar dæmdur í eins leiks bann fyrir brottvísun. Ég hefði haldið að knattspyrnufélög legðu metnað sinn í að hafa góða þjálfara sem er jafnframt góð fyrirmynd fyrir unglingana sem þeir eru að þjálfa. Þrátt fyrir að vera að þjálfa 14-16 ára börn þá er þessi þjálfari búinn að fá tvær brottvísanir í sumar og fjórar áminningar. Til útskýringa þá getur þjálfari ekki fengið spjöld fyrir brot eða handleika boltann, heldur býst ég við að allar þessar refsingar hafa komið vegna kjaftbrúks. Þessi maður á langa sögu að baki sem þjálfari og virðist það vera viðtekin venja hjá honum að fá áminningar og brottvísanir fyrir að munnhöggvast við dómarann miðað við gagnagrunn KSÍ.


mbl.is Guðjón og Magnús ávítaðir og sektaðir af KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósanótt liðin.

Það að ég komi með tilkynningu á þriðjudagskvöldi og segi að Ljósanótt sé búin segir eiginlega hvað hún var skemmtileg. Dagskráin var frábær en veðrið hefði mátt vera betra, en það hefði geta verið verra. Svo ég er sáttur við helgina og vona að allir hafi skemmt sér vel. Á laugardeginum var gestkvæmt hjá okkur á Greniteiginum enda liggur heimilið vel við, í um 5 mínútna göngufæri frá aðalsviðinu. Ég þakka öllum sem komu og skemmtu sér með okkur á Ljósanótt, takk fyrir frábært kvöld.


Ég vil líka að sonur minn verði í landsliðinu.

Enn einu sinni reynir Guðjón að troða sonum sínum áfram, en þeir hafa ekki átt fast sæti í landsliðinu síðan hann var landsliðsþjálfari. Hann þarf að gera sér grein fyrir því að Bjarni er mjög óvinsæll leikmaður, sennilega óvinsælasti leikmaður Íslands í dag og það er eflaust stór ákvörðun af hverju hann er ekki valinn og svo líka að hann er bara ekki nógu góður þó að pabba hans finnist annað.

Ég hef séð nokkra leiki með ÍA og ég verð að segja að liðið spilar hundleiðinlegan fótbolta. Guðjón segir að ÍA spilar ekki leiðinlegri fótbolta en það að þeir hafa skorað 28 mörk og séu þriðja markahæsta liðið. Það vita það allir að það er ekki hægt að setja sama sem merki á milli skemmtilegan fótbolta og mörg mörk. Þannig er að ÍA spilar stífan varnarleik og gerir það vel, en beitir síðan skyndisóknum á einum eða tveim sóknarmönnum. Flest mörk ÍA koma eftir föst leikatriði, en þá er fleirum en tveim leikmönnum ÍA er hleypt fram. ÍA spilar árangursríkan fótbolta, en hundleiðinlegan.


mbl.is Guðjón undrast að Bjarni sé ekki í landsliðshópnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég held að kötturinn minn sé hálfviti!

Stundum efast ég um gáfnafar kattanna minna, en oftast er ég sannfærður um að kisurnar mínar séu vitrustu, elskulegustu og bestu kisur í heimi enda vel ættaðir fjósakettir úr Lundareykjardal. Þannig er að við búum í raðhúsi sem er á tveim hæðum en hluti af húsinu er bara á einni hæð. Það er einn gluggi á annari hæðinni sem snýr að þeim hluta sem er bara á einni hæð. En núna nóg með skýringarnar. Í gærkvöldi heyrðum við eymdarlegt mjálm úti og skildum ekkert í því þar sem báðar kisurnar okkar áttu að vera inni. Við kíktum út og þar var Gormur kominn upp á þakið á bílskúrnum og komst ekkert lengra og mjálmaði og vældi. Ég þurfti að ná í stiga og bjarga kettinum af þakinu og gekk það vel. Við vorum varla komin inn með köttinn þegar við heyrðum aftur svona eymdarlegt mjálm og viti menn kötturinn var aftur kominn í sjálfheldu á þakinu og ég þurfti aftur að sækja stigann og bjarga honum. Núna er glugginn lokaður svo kötturinn verði sér ekki að voða.


Ljósanótt

Þá er Ljósanótt hafin og það er bara búið að vera gaman hérna í Keflavíkinni. Ég kíkti aðeins niður í bæ í gærkvöldi og skoðaði mig aðeins um. Eftir vinnu í dag fórum við hjónakornin með Hugin í Rjóðrið og þar stendur til að hann verði fram yfir helgi. Í kvöld skelltum við okkur niðrí bæ og þar var fullt af fólki og mjög gaman. Veðrið var fínt nema það að það kom smá rigning af og til, en ég notaði sniðuga uppfinningu sem heitir regnhlíf sem mér varð ekki meint af rigningunni. Dagskráin er frábær alla helgina og er ég núna strax byrjaður að hlakka til morgundagsins og hátíðarinnar.

Ég sá fullt af Njarðvíkingum niðrí bæ áðan þó að margir hafi ætlað að sniðganga Ljósanótt vegna þess að þeim líkaði ekki ljósalagið í ár. Mér finnst margir Njarðvíkingar hafa gert sig að miklu fífli í þessu máli. Ég skil að þeir hafi orðið ósáttir við lagið, en það að sniðganga hátíðina vegna lagsins er stórfurðulegt svo maður tali ekki um níðvísur og fleira í þeim dúr sem fólk hefur skrifað á netið. Ef fólk er ósátt við eitthvað þá á að láta vita af því og fara fram á að slíkt endurtaki sig ekki, hvað ætlast þessir Njarðvíkingar til sem hafa verið sem háværastir? Það eina sem þeir vilja er að sameining bæjarfélaganna gangi til baka. Hingað til hefur Ljósalagið verið algjör aukahlutur á Ljósanótt og ég man ekki eftir einu einasta Ljósalagi hingað til. Núna í fyrsta sinn kemur lag sem er grípandi og gott og fær töluverða spilun á útvarpsstöðvunum þá gala Njarðvíkingar og skyndilega er Ljósalagið orðið hápunktur Ljósanæturinnar.


Ekki sáttur við mína menn.

Crystal PalaceÉg er ekki sáttur við frammistöðu minna manna á lokasprettir félagskiptanna. Crystal Palace fékk tvo sóknarmenn að láni, þá Paul Dickov frá Manchester City og Besian Idrizaj frá Liverpool. Ég skil ekki alveg hvað við eigum að gera við Dickov þar sem við höfum nóg af gömlum og reyndum sóknarmönnum sem eiga það sameiginlegt að geta varla skorað. Mér líst betur á að fá Idrizaj, ungur og ferskur sóknarmaður. Þó hann hafi ekki fengið mörg tækifæri með Liverpool þá hefur hann ágæta ferilskrá. Ég vil gera hann að Palace manni og kaupa hann í vor ef hann stendur sig ágætlega.

Þá lánaði Palace tvo sóknarmenn, þá Lewis Grabban til Motherwell og Shefki Kuqi til Fulham. Það er illskiljanlegt af hverju Grabban er lánaður, en hann er ungur snöggur og góður leikmaður. Það er dálítið sem okkur hefur vantað. Hann fékk nokkur tækifæri á síðasta tímabili og ég var að vona að hann fengi fleiri tækifæri og meiri ábyrgð í vetur. Ég er líka vonsvikinn vegna þess að Kuqi var lánaður, mér fannst bara eitt koma til greina í sambandi við hann. Annað hvort að nota hann í liðið eða selja hann, Palace er ekki það auðugt félag að þeir geti keypt leikmenn dýrum dómi og lánað þá síðan til annarra félaga.


mbl.is Murphy og Kuqi til Fulham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband