Ekki fleiri völundarhús.

Við fórum með Hugin á Borgarspítalann í dag þar sem hann mætti í skoðun hjá bæklunarlækni og gekk allt vel. Það sem ég hafði mestar áhyggjur af var að rata ekki á stofuna hjá lækninum í tæka tíð enda er ekki auðvelt að rata í þessum völundarhúsum sem spítalarnir eru. Ég hef aldrei skilið af hverju er þess þörf á Íslandi að byggja spítalana lárétt, en ekki lóðrétt. Núna stendur til að fara að byggja Hátæknisjúkrahús (ef það sé til hátæknisjúkrahús þá hlýtur að vera til lágtæknisjúkrahús, er það ekki?) og er notað tækifærið til að byggja hagkvæmt sjúkrahús, nei það er lögð áhersla á að byggja flott sjúkrahús og lítið hugsað um notagildið. Ég hefði vilja að það yrði byggt stórt sjúkrahús að gólffleti og síðan væri bara byggt upp í loftið. Ég var með Hugin á sjúkrahúsi í Pittsburgh í 6 mánuði, sjúkrahúsið var ekki flott að sjá en það var mjög einfalt. Það var mjög einfalt að rata og alltaf stutt að fara á næstu deild. Þegar það þurfti að flytja Hugin á milli deilda þá tók það í mesta lagi 5 mínútur og ekkert stress. Þegar Hugin hefur verið fluttur á gjörgæslu hérna þá tekur það alveg 15 mínútur og það getur munað um slíkt á ögurstundu.

Ég skil ekki af hverju var farið í einhverja teiknisamkeppni til að fá sem flottasta sjúkrahúsið, það hefði verið miklu einfaldara og viturlegra að fá einhvern vanan arkitekt að teikna sjúkrahús sem myndi nýtast sem best, bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga. Í stað þess að byggja lágreist hús með mörgum löngum göngum. Til að tryggja að sjúkrahúsið verði sem flottast þá var Alfreð Þorsteinsson ráðinn sem framkvæmdastjóri framkvæmdarnefndar um byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Flottari titill en hafði þegar hann hafði eftirlit með byggingu Orkuveituhússins sem fór bara 3 milljarða fram ú áætlun, eða sem svarar um 6 Grímseyjarferjum. Ég skil ekki af hverju Árni Johnsen hafi ekki verið ráðinn sem hægri hönd Alfreðs, þeir væru að minnsta kosti flottir saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lady Elín

Er svo sammála þér í sambandi við þetta.  Það er sko ekkert heldur verið að athuga hvernig verður með aðgengi fólks að staðnum.  Hafa þessir arkitektar aldrei heyrt um hreyfihamlað fólk sem á erfitt með að komast frá einum stað til annars.  Þetta er þó sjúkrahús og fólk er þarna af mismunandi ástæðum en ég held að fyrir utan þá sem vinna þarna að megnið af þeim sem verða á spítalanum að það sé eitthvað meira en lítið að hjá þeim.  Þannig að svona bygging á ekki eftir að auðvelda líf sjúklinga.

Lady Elín, 22.8.2007 kl. 20:26

2 Smámynd: Mummi Guð

Ég þekki alveg hversu slæmt er að vera á spítala þar sem arkitekt hefur fengið að ráða öllu. Þegar við vorum með Hugin á Vökudeildinni þá voru einu stólarnir sem voru þar mjög óþægilegir stólar með háum örmum sem arkitektarnir völdu. Það var ekkert hugsað um að foreldra sem vildu hugsa um börnin, gefa þeim og leika við þau.

Mummi Guð, 22.8.2007 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband