Flog, fótbolti og hjólreiðar

Það er langt síðan ég bloggaði um lífið og tilveruna og er komið tími á það. Síðasti mánudagur var dagur sem við vinnufélagarnir höfðum beðið þar sem þá áttu allir að vera komnir úr sumarfríi og vinnustaðurinn fullmannaður eftir að sumarstrákarnir fóru aftur í skóla eða atvinnumennsku. En þetta varð ekki eins og við héldum þar sem á mánudeginum voru tveir veikir sem dálítið mikið á átta manna vinnustað, ekki varð þriðjudagurinn skárri þar sem þá voru þrír veikir sem óvenjulegt þar sem við vinnufélagarnir erum frekar heilsuhraustir og það eru ekki margir veikindadagar yfir árið. En loks á föstudag var vinnustaðurinn fullmannaður og var líka mikill munur á að vinna þá.

Huginn var í Rjóðrinu um helgina og gekk það vel, hann er allur að koma til og hafa öll uppköst stórminnkað hjá honum og síðan hef hann ekki fengið flogakast í þrjár vikur sem er frábært. Huginn er lítill og stór kraftaverkakarl og hlakkar ég mikið til að sjá hvernig hann kemur mér næst á óvart.

Í fótboltaheiminum gerðist það að Fjölnir komust í úrslit bikarkeppninnar og spila þar á móti FH. Þar með komust þeir í vandræði þar sem tveir af lykilmönnum Fjölnis er á láni þar frá FH og það stendur í samningum milli liðanna að ef Fjölnir og FH mætast í bikarnum þá megi þeir félagar ekki spila með Fjölni. Þetta er voða erfitt mál þar sem Fjölnismenn vilja auðvitað spila með þessa leikmenn, en samningar eru samningar og við þá verður að standa og það ætla Fjölnismenn að gera. Málið er erfiðara fyrir FH, þeir eru Íslandsmeistarar og hafa haft töluverða yfirburði yfir önnur lið á Íslandi undanfarin ár, en þeir hafa aldrei náð að vinna bikarinn. Ef FH-ingar standa fast á sínu þá fá þeir ansi marga upp á móti sér og ef þeir vinna leikinn þá eru örugglega margir sem myndu segja að þetta væri ekki sætur eða sanngjarn sigur og þessi ákvörðun þeirra myndi liggja á þeim lengi. Ef aftur á móti þeir myndu bjóðast til að leyfa leikmönnunum að spila þá myndi það verða til þess að þeir myndu fá mörg stig frá knattspyrnuáhugamönnum og hvernig sem leikurinn myndi fara þá væru FH-ingar sigurvegarinn. Mín lausn í þessu máli er að FH-ingar myndu bjóðast til að gera nýjan samning við Fjölni, sem myndi leyfa leikmönnunum að spila og færa FH smá tekjur. Ef Fjölnir væru ekki tilbúnir að greiða smá aukagreiðslu til FH þá þýddi það að þeir vildu ekki mikið að fá leikmennina.

Ég og Fjólan skelltum okkur í bíó í vikunni og það er skondið að við þurftum að ákveða það með góðum fyrirvara til að hafa pössun og þegar dagurinn rann upp þá fyrst gátum við séð hvað var í bíó, við þurftum að ákveða að fara í bíó án þess að vita hvað mynd væri sýnd, en það var ágæt mynd sem við fórum á og höfðum ágætt kvöld. Í gær skelltum við okkur til Reykjavíkur og þar fjárfesti ég í nýju hjóli og núna stendur til að vera duglegur að fara út að hjóla. Þannig er að ég illa farin á hásin og get ekki farið í hefðbundna líkamsrækt, en starfsmannafélög og verkalýðsfélög eru dugleg að styrkja fólk til að stunda líkamsrækt. Það virðist ekki vera hægt að fá styrk út á hjólreiðar þó flestir séu sammála mér um að það sé góð líkamsrækt. Af hverju er bara styrkur ef maður kaupir líkamsræktarkort skil ég ekki, er þetta kannski einhver styrktarsamningur á milli verkalýðsfélaga og líkamsræktarstöðvanna til að tryggja rekstur þeirra. Einn kunningi minn nýtti sér þennan frábæra díl og keypti árskort í líkamsrækt og fékk það niðurgreitt frá starfsmannafélaginu og verkalýðsfélaginu og á þessu eina ári þá mætti hann tvisvar. En aftur á móti þá get ég ekki fengið hjólreiðakaupin niðurgreidd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband