Af umferðarmálum.

Að undanförnu hafa verið miklar umræður í þjóðfélaginu um umferðarmál og umferðaröryggi og ekki af ástæðulausu. Við erum alltaf að sjá betur og betur hvað afleiðingar af umferðarslysum geta verið skelfilegar, við erum líka alltaf að verða vitni af níðingsakstri ökumanna sem leggja aðra vegfarendur í stórhættu bara af því að þeim finnst það spennandi. Ég hef ákveðnar skoðanir á þessum málum og ætla aðeins að pústa þeim út hér.

Mikið hefur verið rætt um tvöföldun á Suðurlands og Vesturlandsvegi, en ljóst er að það er mjög dýrt og verður ekki gert og klárað á næstu árum. Margir hafa algt til að gerður verður svo kallaður 2+1 vegur vegna þess að það er mun ódýrari lausn. Þannig er það bara að ódýrustu lausnirnar eru oft dýrastar og ég get ekki séð þá gríðarlegu lausn og sparnað af því að gera 2+1 veg. Fyrir þá sem vilja fara ódýrustu leiðina þá veit ég um bestu lausnina og finnst mér ótrúlegt að enginn skuli vera búinn að reyna að koma henni á framfæri. Lausnin er að breyta þjóðvegi 1 í einstefnugötu. Þar með verða árekstrar bíla sem koma úr gagnstæðum áttum úr sögunni. Nei ég er ekki að leggja þetta til af alvöru heldur frekar til að sýna að ódýrasta lausnin er ekki sú ódýrasta. Með því að gera 2+1 veg þá finnst mér ekki verið að reyna að koma í veg fyrir mestu slysahættuna, nema að mjög litlu leyti.

g hef reynslu af Reykjanesbrautinni og mér finnst að fólk og yfirmenn umferðarmála eiga að skoða Reykjanesbrautina sem frábæra reynslu. Frá því að Reykjanesbrautin var gerð árið 1968 og þar til tvöföldunin var tekin í notkun fyrir 4 árum síðan lést einhver í umferðarslysi á brautinni á um 90 daga fresti. Síðan tvöföldunin var tekin í notkun hefur enginn látist í umferðarslysum á brautinni, er það tilviljun. Nei, það er ekki tilviljun. Þó að það sé frekar stuttur kafli sem er tvöfaldur þá stórdregur hann úr framúrakstri á allri brautinni. Það er bara þannig að þegar ég er að keyra brautina og lendi á eftir hægfara ökutæki á einfalda kaflanum þá bíð ég bara rólegur þar til ég kemst á tvöföldunina til að taka framúr ökutækinu. Þannig er það með flesta sem ég þekki, þeir eru þolinmóðir vegna þess að það er stutt í að hægt sé að taka framúr.

Þess vegna tel ég að lausnin á Suðurlands og Vesturlandsvegi sé að tvöfalda vegina þar sem aðstæður eru góðar. Til dæmis með því að leggja áherslu á að tvöfalda Suðurlandsveginn frá Rauðavatni að Hellisheiðinni og Vesturlandsveginn frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngunum. Síðar þegar fjármagn fæst til að tvöfalda vegina á milli Hveragerðis og Selfoss og frá göngunum að Borgarnesi. Þar með er búið að draga úr hættu á ótímabærum framúrakstri og búið að leysa umferðarmálin til frambúðar á umræddum köflum. Þetta finnst mér miklu viturlegra heldur að fara í einhverja bráðabirgðarlausn sem skilar litlum árangri miðað við kostnað.

Ég vil líka tala aðeins um þær hækkanir á umferðarsektum sem hafa verið gerðar að undanförnu. Ég er sammála um að hækka þurfti sektir fyrir níðingsakstur og stórfelld umferðarlagabrot. En ég er mjög ósáttur við að lægstu sektirnar séu stórhækkaðar líka og ekki bara það heldur er núna hægt að sekta ökumenn fyrir að keyra 6 kílómetrum yfir hámarkshraða í stað 11 kílómetra áður. Það vita það allir að fólk getur gleymt sér við aksturinn og að ökumenn þurfi að punga út tugum þúsunda króna fyrir smá yfirsjón finnst mér ekki sanngjarnt, mér finnst eins og þessi löggjöf sé til að fjölga afbrotamönnum á Íslandi og til að lækka hámarkshraðann niður fyrir hámarkshraða. Þá er ég að meina að þar sem hámarkshraði er 90 þá er betra fyrir ökumenn að keyra á 80 vegna þess að ef þeir gleyma sér þá er voðinn vís og tugir þúsunda farnir út um gluggann. Ég legg til að ekki verði hægt að sekta ökumenn fyrr en þeir eru komnir 11 kílómetra yfir löglegan hraða og háar peningasektir verða ekki fyrr en ökumenn eru komnir 20-30 kílómetra yfir hámarkshraða. Mér finnst nefnilega að það eigi að leggja áherslu á að útrýma níðingsakstri úr umferðinni, en ekki að ráðast á þá ökumenn sem eiga það til að gleyma sér aðeins á bensíngjöfinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband