Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Glad All Over.

Gamall draumur rættist um helgina þegar ég fór á leik með Crystal Palace á Selhurst Park. Leikurinn endaði með sigri minna manna 2-0 og erum við í ágætri stöðu í að komast í umspil um laust sæti í úrvalsdeildinni. Ég býst ekki við að allir lesendur þessa bloggs viti hvað umspilið er, en það skiptir ekki máli.

Stuðnigsmannalag Crystal Palace er lagið Glad All Over með Dave Clarks Five. Lagið er spilað fyrir alla heimaleiki og í hvert sinn sem Palace skorar og eftir sigurleiki. Ég fékk því tækifæri til að syngja lagið 4 sinnum á laugardaginn, en söng þess á milli með hinum stuðningsmönnum liðsins hin ýmsu lög sem ég kunni ekki og hafði aldrei heyrt áður.

Ég fór á föstudeginum að Selhurst Park til að kaupa miða og einhver föt til að vera í á leiknum. Eftir að hafa rætt aðeins við starfsmenn verslunarinnar og fengið treyjur og miða þá fór ég aftur til miðborgarinnar. Ég mætti aftur á laugardeginum kom við á stuðningsmanna pöbbinum, Clifton Arms og fékk mér einn kaldann áður en ég fór á völlinn. Þegar þangað var komið var útimarkaðsstemning, þar sem það var verið að selja gamlar treyjur og húfur og ýmislegt annað smádót. Var hægt að gera stórgóð kaup þar en treyjurnar voru seldar á 3 pund, sem þykir ekki mikið.

Stemningin á vellinum var stórgóð og ekki var verra að úrslitin voru svona góð. Það sem vakti sérstaka athygli mína er það að þó að Palace sé eitt af þessum jójó-liðum sem flakkar á milli úrvalsdeildarinnar og fyrstu deildarinnar, þá er Palace smálið þegar kemur að leikvellinum. Ekki smálið sem á lítinn eða ræfilslegan völl, heldur smálið þar sem allt er svo persónulegt og vinalegt. Ég gekk um sama inngang og stjórnarmennirnir og hafði aðgang að sömu aðstöðu og þeir. Starfsmaðurinn sem seldi mér treyjurnar á föstudeginum, heilsaði okkur á laugardeginum þegar hann sá okkur.

Ég fór á leik með Arsenal í haust á Emirates, eftir að hafa upplifað þessa tvo leikvanga og séð umgjörðina hjá þessum tveim liðum, þá er ég enn stoltari af því að styðja Crystal Palace en ég var áður.

Ég tók smá myndband af því leikmenn Palace voru að koma inn á völlinn og hægt er að sjá það hér.


Afmlisbarn dagsins: -Anthony Michael Hall.

Þar sem ég er núna kominn til landsins og nenni ekki alveg að blogga um Lundúnarferðina mína sem tókst æðislega. Þá ætla ég að koma með smá blogg um afmælisbarn dagsins, Anthony Michael Hall.

anthony-michael-hallHann var reyndar skírður því langa nafni Anthony Michael Thomas Charles Hall og fæddist í West Roxbury í Massachusetts þann 14. apríl 1968 og er því 40 ára gamall í dag. Anthony vakti fyrst athygli þegar hann lék í myndinni National Lampoon's Vacations árið 1983 ásamt Chevy Chase, Beverly D'Angelo, Randy Quaid, Christie Brinkley, John Candy og fleiri þekktum leikurum. Ári seinna sló hann í gegn í unglingamyndinni Sixteen Candles og ári síðar komu tvær þekktustu myndi Anthonys, Breakfast Club og Weird Science. Í kjölfarið fór að halla undir fæti hjá honum, aðallega vegna þess að hann átti erfitt með að velja réttu hlutverkin, til dæmis þá hafnaði hann bæði aðalhlutverkinu í Ferris Bullere's Days Off og Pretty in Pink, en valdi þess í stað að leika í myndum sem vöktu litla athygli.

Af mörgum  lélegum ákvörðunum, þá ber sú ákvörðun hæst í ferli Anthonys þegar hann hafnaði hlutverki Gomer Pyles í mynd Stanleys Kubricks, The Full Metal Jacket. Síðan þá hefur ferill Anthonys verið frekar viðburðarlítill. Hann sneri sér meðal annars í leik í framhaldsþáttum og koma fram í þáttum eins og "Tales From Crypt", "NYPD Blues" og fleirum þáttum. Ferill hans fór sennilega lægst þegar hann lék gestahlutverk í þáttunum, "Murder, She Wrote" með Angelu Lansbury í aðalhlutverki.

Anthony michael hallNúna er lífið aftur farið að ganga á betri veg fyrir Anthony Michael Hall, þar sem hann fékk aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttunum "Dead Zone". Hafa þættirnir gengið mjög vel og hefur frægðarsól Anthonys risið töluvert aftur. Vonandi nær Anthonys að halda frægðarsólinni sinni áfram á lofti.


London Calling.

Núna er ég að á leið til Lon og Dons ásamt Fjólunni. Við skipulögðum þessa ferð í janúar og keyptum flugmiðana og pöntuðum hótelið þá. Það má segja að þetta sé fyrsta fríið okkar Fjólu síðan Huginn fæddist. Við skelltum okkur öll fjölskyldan í sumarbústað í viku síðasta sumar og gekk það ótrúlega vel, er það eiginlega eina fríið sem fjölskyldan hefur átt saman í 3 ár. Ég og Fjóla höfum gert nokkrar tilraunir til að eyða smá tíma í okkur á undanförnum árum og það hefur alltaf eitthvað komið upp á sem hefur orðið til að breyta þeim áætlunum. Við ætluðum að eyða helgi í sumarbústað í byrjun desember, en það breyttist þegar Huginn veiktist og endaði á Hágæsludeildinni á Barnaspítalanum. Við gerðum líka tilraun í fyrravetur að eyða helgi í sumarbústað og það endaði þannig að ég hjúkraði Fjólu í bústaðinum, þar sem hún varð veik.

Við ákváðum að fara til Englands þessa helgi, Huginn átti að vera í Rjóðrinu og við áttum að slappa af í London og nota tækifæri meðal annars til að sjá stórliðið Crystal Palace spila við Scounthorpe. Eftir að Huginn dó þá hafa margir bannað okkur að hætta við ferðina og hafa mamma og tengdamamma verið harðastar við okkur, þær hafa skammað okkur eins og 5 ára börn og sagt að okkur ætti ekki detta í hug að hætta við þessa ferð. Við neyðumst sem sagt að fara í þessa ferð. Nei, án gríns þá kom eiginlega aldrei til greina hjá okkur að hætta við ferðina. Ég held að ef við hefðum hætt við ferðina hefði það orðið til að draga okkur frekar niður. Ég hefði aldrei keypt utanlandsferð á þessum tímapunkti, en þó ég hefði ekki gert það þá held ég að það sé rétt af okkur að fara í þessa ferð.

Núna erum við að fara yfir tékklistann sem ég fékk lánaðann hjá Gerðu bloggvinkonu, ég hef aðeins útfært hann fyrir mig. Farseðill....tjékk. Mynd af Hugin....tjékk. Kreditkort og pin-númer....tjékk. Vegabréf...tjékk. Fjóla...tjékk. Asnaleg kló...tjékk. Myndavél....tjékk. Föt...smá af fötum og restin versluð í London. Góða skapið og spenna...tjékk.

Ég held að ég sé tilbúinn fyrir London.


Útförin.

Á morgun er vika síðan útför Hugins Heiðars var gerð. Það er ótrúlegt hvað maður þarf að standa í þegar ættingi deyr. Ég hef verið svo gæfusamur að hafa ekki misst mjög náinn ættingja áður og kunni því ekkert til verka, sem betur fer. Þannig var þegar Huginn dó þá ákváðum við að hafa jarðaförina eins og við vildum hafa hana og ekki fara eftir því hvernig aðrir hafa haft jarðafarir eða töldu hvernig við áttum að hafa hana, þó við hlustuðum á öll ráð. Við byrjuðum á að tala við prestinn okkar hann sr. Vigfús Bjarna sjúkrahúsprest á Barnaspítalanum og báðum hann að sjá um athöfnina og var það ekkert mál. Næsta mál var að ráða úrfaraþjónustu og völdum við Útfararþjónustuna ehf. og sáum við ekki eftir því.

Við ákváðum strax að hafa erfidrykkju og þó að margir hefðu sagt okkur að það væri óþarfi og bruðl. En við vorum ákveðin í því að hafa erfidrykkju og töldum okkur hafa þörf fyrir hana, við vildum hitta fólkið sem gaf sér tíma til að kveðja Hugin og við töldum að við þyrftum á öllum stuðningi á að halda þennan dag og ég þakka fyrir að við skyldum halda því til streitu þar sem erfidrykkjan hjálpaði mér mikið. Við vildum líka eiga myndir frá athöfninni og við vildum ekki biðja neinn um að taka myndir fyrir okkur og höfðum við því samband við atvinnuljósmyndara sem kom og tók myndir í kirkjunni og í kirkjugarðinum á eftir.

Við vildum líka hafa fallegan tónlistarflutning og töluðum við því frændurnar hennar Fjóla, Álftagerðisbræður og komu þeir og sungu fallega fyrir Hugin og okkur. Við völdum lögin gaumgæfulega. Sum lögin höfðum við ákveðið fyrir löngu síðan önnur ákváðum við eftir að Huginn dó. Lögin sem voru sungin í kirkjunni voru, Í bljúgri bæn, Snert hörpu mína, Þú styrkir mig (You raise me up), Dvel ég í draumahöll (úr Dýrunum í Hálsaskógi), Kveðja (Sól að morgni eftir Bubba) og sofðu unga ástin mín. Tókst þeim bræðrum frábærlega upp eins og þeim er von og vísa.

Við óskuðum eftir þvi að bara þeir allra nánustu myndi fylgja okkur í kirkjugarðinn og ástæðan var sú að við vildum hafa stutta athöfn þar og hitta síðan alla í erfidrykkjunni. Í kirkjugarðinn komu bara allra nánustu skyldmenni, starfsfólk af Barnaspítalanum enda voru þau öll mjög náin Hugin og síðan örfáir aðilar sem hafa unnið mikið með Hugin eða haft óvenjumikil samskipti við hann.

Við gerðum annað í erfidrykkjunni sem ég hef ekki heyrt að hafi verið gert áður, við settum myndir af Hugin á langflest borðin. Við gerðum það til að fólk sem hafði aldrei séð Hugin eða langt síðan það hafi séð hann gæti séð hversu konar sjarmör hann var. Þessar myndir vöktu mikla athygli og voru margir sem sögðu okkur hvað þetta hefði verið sniðug hugmynd og gaman að sjá hann svona flottann.

Eftir á hyggju þá held ég að við höfum gert allt rétt, við fengum frábæran prest, prest sem hefur þekkt Hugin frá því í október 2005 þegar við komum heim frá Bandaríkjunum og hefur hjálpað okkur mikið í gegnum tíðina. Ákvörðun okkar um að hafa erfidrykkju, fá ljósmyndara og Álftagerðisbræður, takmarka fjöldann í kirkjugarðinn, lagavalið og bara allt var hárrétt hjá okkur. Við munum minnast útfarinnar sem yndislegs dags og mun örugglega hjálpa okkur að minnast Hugins með sól í hjarta.


Ég sakna Hugins.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir og skrýtnir. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að vera. Stundum hef ég samviskubit yfir því hvað ég er sáttur við andlát Hugins. Þá er ég að meina það hvernig Huginn kvaddi okkur og sína nánustu og allar þær tilviljanir í kringum andlátið, að andlátið á þessum tíma getur ekki verið tilviljun. Ég trúi að Huginn hafi ákveðið að kveðja okkur þennan dag og fyrir það er ég sáttur, ég veit líka að hann fór sáttur og það gerir líf mitt bærilegra. Síðan þess á milli verkjar mér í hjartað yfir söknuðu, að hafa ekki Huginn lengur hjá mér. Að finna ekki lyktina hans, fá ekki að hjálpa honum með að gera magaæfingarnar, ég sakna jafnvel bitsáranna þegar hann náði að bíta mann í öxlina.

Við erum ekki búin að ganga frá dótinu hans Hugins og erum ekkert að fara að gera það strax. Samt saknar maður að hafa ekki vélarnir í gangi hérna, maður saknar að heyra ekki í súrefnisvélunum, B-PAP vélinni eða í monitorinum, þetta voru hljóðin sem maður tengdi við Hugin. Aftur á móti erum við með kveikt á kertum allan daginn hjá okkur og það má segja að það sé mótsögn í því þar sem við gátum ekki verið með kerti þegar Huginn var heima. Þar sem hann var tengdur við súrefnisvélar þá gat myndast eldhætta ef eldurinn kæmist í snertingu við súrefnið. Þess vegna var aldrei kveikt á kertum hérna á meðan Huginn var heima.

Síðasta fimmtudag fórum við á Barnaspítalann til að ganga frá nokkrum málum, það var bæði gott og erfitt. Við hittum meðal annars lækna sem spurðu hvernig okkur gengi að sofa hvort þeir ættu að útvega okkur eitthvað til hjálpa okkur með svefninn. Við sögðum eins og er að svefninn gæti verið betri en við afþökkuðum öll lyf þar sem við viljum frekar að koma hlutunum á rétta braut án lyfja ef það sé mögulegt, en við sögðum lækninum að við ætluðum að kaupa rauðvín og drekka það á laugardagskvöldinu í rólegheitunum. Lækninum fannst það frábært ráð, svo í gærkvöldi sátum við og drukkum rauðvín samkvæmt læknisráði!


Dagurinn í dag.

Við í kirkjugarðinumÍ dag var útför Hugins Heiðars gerð frá Keflavíkurkirkju. Athöfnin var mjög falleg og erum við mjög sátt við hana. Að athöfninni lokinni fórum við og ásamt nánustu vinum og vandamönnum í kirkjugarðinn þar sem við kvöddum Hugin í hinsta sinn. Að því loknu fórum við í erfisdrykkju og var mjög gaman að hitta svona marga þar og finna fyrir stuðningnum.

Í kvöld fór ég og Fjóla aftur í kirkjugarðinn og áttum við smástund þar í ró og friði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband