Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Flott hjá þeim.

Ég samgleðst Derby-mönnum að vera kominn í hóp þeirra bestu. Mér finnst samt að mínir menn í Crystal Palace hefðum átt að fara upp. En ég verð bara að bíða í ár til viðbótar eftir því.


mbl.is Derby upp í úrvalsdeildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er kominn tími til!

Ég veit ekki hvort þessi frétt sé grín eða hvað! Svona fréttir sýna okkur hvað sum lönd eru langt á eftir í öllum hugsunarhætti. Mér finnst líka sorglegt að svona afturhaldseggur sé umboðsmaður barna.


mbl.is Pólsk yfirvöld rannsaka hvort Stubbarnir séu samkynhneigðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta rétt?

Mér finnst öll mismunun röng. Þá skiptir ekki máli hvort hún heitir jákvæð mismunun eða eitthvað annað. Mér finnst hið besta mál þegar veitingastaður fyrir samkynhneigða er opnaður, en mér finnst fáránlegt að neita öðrum aðgang að staðnum. Ég trúi því að allir geti búið saman í sátt og samlyndi.

Hvernig er þetta ef fjórir félagar ætla út saman þrír þeirra eru hommar en sá fjórði er gagnkynhneigður, má hann ekki fara með félögum sínum á staðinn. Hvernig taka dyraverðir á þessu, þurfa allir að vera með félagsskírteinið frá Samtökunum78 til að komast inn? En hvað með þá sem eru ekki komnir út úr skápnum, fá þeir ekki aðgang?


mbl.is Áströlsk krá meinar gagnkynhneigðum inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er til illa innréttað fólk.

Ég get ekki orðað bundist núna. Þannig er að flestir sem blogga gera það af einhverri þörf sem fáir skilja (það á til dæmis við þetta blogg) aðrir nota bloggið til að koma leyfa fjölskyldu og vinum að fylgjast með sér. Ég held til dæmis að 90% íslenskra námsmanna sem eru í námi erlendis eru með blogg og er það hið besta mál. Annar hópur sem eru fjölmennir í blogginu eru fólk sem eiga við erfiðleika að etja, til dæmis að berjast við sjúkdóma eða eru með veik börn. Ég er í þeim hópi, ég byrjaði að blogga á Barnalandi þegar Huginn Heiðar fæddist og bloggaði nánast daglega í rúm 2 ár. Núna blogga ég ekki eins oft þar, enda eru ekki miklar breytingar eða fréttir á hverjum degi.

Ég var að lesa blogg hjá konu sem hefur verið að berjast við krabbamein, ég þekki þessa konu ekki neitt nema í gegnum bloggið hennar og ég finnst ég þekkja hana vel í dag. Barátta þessarra konu er erfið, en hún berst samt áfram af mikilli eljusemi. Í gær kom færsla sem fær mig til að standa á gati, þar er vinsamleg tilmæli til þeirra sem hafa verið að koma með ósmekkleg komment að hætta því. Ég hreinlega skil ekki að það skuli vera til svo illa innréttað fólk að koma með leiðinleg komment hjá fólki sem eru með blogg hreinlega til að finna fyrir stuðningi. Þetta er ekki eina dæmi um slíkt sem ég kannast við. Ég hitti konu nýlega sem heldur úti bloggsíðu fyrir veikt barnið sitt og hún þurfti að loka síðunni vegna þess að ósmekklegir aðilar voru með leiðinlegar og virkilegar ljótar athugasemdir á síðunni hans. Athugasemdirnar voru það ljótar að hún kærði málið til lögreglu.

Það er ótrúlegt að það sé til svona ljótt og óþroskað fólk.


Reykjavík, borg óttans....

Mér var bent á umræðu á Barnalandi um ofbeldisverk sem varð í Reykjavík síðustu nótt. Það er dóttir fórnarlambsins sem kemur með upphafsinnleggið og ég leyfði ég mér að skella innlegginu hér inn. Ég tek það fram að ég þekki ekki til konunnar, fórnarlambsins og allra síst til árásarfólksins.

Mig langar að deila þessari sögu helst með öllum og vona að engin/n lendi í svona löguðu.

Klukkan 04:00 í nótt fékk ég upphringingu frá lögreglunni í Reykjavík sem tilkynnir mér það að hún sé stödd upp á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi með föður mínum. Maðurinn sem ræddi við mig bað mig um að koma því að faðir minn hafi lent í fólskulegri líkamsárás og verið rændur.
Þegar ég kem upp á spítala er lögreglumaður á vakt látinn vita af mér og við löbbum saman inn á herbergið þar sem faðir minn hvílist. Þegar ég kem að rúminu sem hann lá í brá mér nú heldur betur. Hann var augljóslega illa laminn, blóðugur í framan og með mikla verki. Eftir að hafa fellt nokkur tár og kysst pabba gamla á ennið var farið með hann í sneiðmyndatöku og röntgenmyndatöku. Á meðan því stóð, fræddi lögreglumaðurinn mig um atburðarás kvöldsins sem faðir minn hafi lent í. Hann hafði farið niður í bæ klukkan rúmlega 23 í gærkvöldi. Hann bað leigubílinn um að stoppa efst á Laugarvegi fyrir neðan Hlemm. Þar fór hann út og gekk inn á stað sem heitir Kaffisetrið. Hann fór inn og spjallaði við fólk á staðnum of fékk sér nokkra bjóra. Því næst ætlaði hann sér að labba niður Laugaveg og niður á Lækjargötu til að finna sér leigubíl og halda heim. En á leið sinni niður Laugarveg gengur að honum ung stúlka og biður hann um að gefa sér eld, sjálfsagt hélt hann nú og fer í vasa sinn eftir kveikjara, biður þá stúlkan hann um að koma inn í húsasund þar sem hún ætlaði að reykja sígarettuna. Faðir minn gengur inn í sundið og gefur henni eld. Því næst er ráðist aftan að honum hann sleginn aftan frá með einhverju barefli. Hann dettur niður í malbikið og rankar svo við sér þegar þung fótspörk dynja á andliti hans og skrokknum. Stúlkan og maðurinn taka veskið hans með 6000 kr. öllum kortum, debet og kredit, síma, hús og bíllykla tóbak, úrið og gleraugun hans. Faðir minn sagðist ekki geta séð nógu vel því að mikið blóð rann úr vitjum hans. Því næst segir maðurinn við hann, "Farðu úr jakkanum helvítið þitt" og endurtók þessa setningu nokkuð oft. Faðir minn lá enn í götunni og höggin dundu enn á honum. Þeim tókst ekki að ná honum úr jakkanum þar sem hann lá á götunni og svo sperrti hann upp tærnar svo þau gætu ekki rifið af honum skóna. Hann var viss um að árásarmennirnir væru nokkrir, en sá þá því miður ekki nógu vel. Stúlkan og mennirnir héldu því á brott og faðir minn skakklappaðist aftur á Laugarveginn og fann þar unga drengi og bað þá um að hringja á lögregluna. Einn drengjanna gerði það og beið með föður mínum þar til lögreglan kom. Hann var keyrður í snatri upp á slysadeild.

Áverkar; 2 skurðir í andliti eftir spörk, annar fyrir ofan auga og annar fyrir neðan augað, 1 skurður á hnakka eftir barefli, brotin rifbein að aftan, nefbrot auk sjónskaða sem á eftir að rannsaka betur. Einnig aumir vöðvar, skrámur á hálsi og marblettir.

Faðir minn er 67 ára gamall eldri borgari og finnst mér þetta hræðileg meðferð á manngreyjinu, nú liggur hann illa særður, líkamlega og andlega. Hann talar stanslaust um að hann hreinlega bara trúi þessu ekki. Þetta er það óheiðarlegasta sem hann hafi lennt í á allri sinni ævi, jafnframt það fólskulegasta. Í gamla daga gátu menn borið hendur fyrir sig og varið sig. Þá þekktist það ekki að nokkrir menn kæmu aftan að mönnum og lemdu þá til óbóta liggjandi í götunni.

Lögreglan sagði mér að þetta væri víst daglegt brauð um helgar að fólk leitaði að auðveldum fórnarlömbum sem þau/þeir gætu hugsanlega grætt 5-15 þúsund krónur á. Þ.e.a.s selt síma þeirra, stolið lausaféi, selt flíkur þeirra og skartgripi. Og margir aldraðir skrifi pin númer sín og geymi í síma eða á miða í veskinu.

Mig langar að gera eitthvað róttækt, en kannski líður þessi tilhneygjing mín hjá þegar pabba batnar, en ég er svo reið og sár. Það vantar augljóslega miklu meiri sýnilega löggæslu í miðbæinn og var mér sagt að það sé einmitt það sem ríkislögreglustjórinn vill gera en ekki fáist fé til þess.
Hversu margir þurfa að slasast? Eða jafnvel deyja?

María.

Hvað finnst ykkur um þetta?


A-Mano Primitivo

Ég ætla að hafa rauðvínsumfjöllun á þessari síðu og gefa rauðvíninu einkunn. Ég ætla að gefa einkunnir frá 0-4. 0=vont, 1=allt í lagi, 2=gott, 3=mjög gott og 4=æææðisleeegt.

Fyrsta vínið sem ég ætla að skrifa um er A-Mano Primitivo, það er ítalskt rauðvín og er bragðmikið og ekki of súrt, það er frekar þurrt en ferskt og með góðu eftirbragði. Það er gott með svínakjöti og léttum réttum eins og pasta og það er gott eitt og sér.

Tegund: A-Mano Primitivo.

Framleiðsluland: Ítalía.

Verð í vínbúðum: 1090 krónur. 

Einkunn: 2 (gott).


Totti engum líkur.

Francesco Totti er búinn að sýna það í vetur að hann er sennilega besti knattspyrnumaður heims í dag. Frábær leikmaður og frábær leiðtogi á vellinum. Benedikt er Páfinn í Róm, en Totti er Guðinn.


Jæja......

Finnst einhverjum þetta vera frétt? og kemur þetta einhverjum á óvart? Mér finnst að það hefði mátt bíða með að skrifa þessa frétt þar til strákarnir verða unglingar.
mbl.is Pamela á villta syni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynslusaga af Shopusa.is

Ég verð að koma með smá reynslusögu af bílaviðskiptum mínum. Þannig er að ég er búinn að eiga Dodge Caravan árgerð 1997 í mörg ár og ég hef notað hann sem sjúkrabíl. Það er hann er fyrst og fremst ætlaður fyrir Hugin Heiðar og tæki sem fylgja honum þegar við erum að fara eitthvað, við þurfum á svona stórum bíl á að halda. En bíllinn er orðinn gamall og það er ekki gott að þurfa að treysta 100% á svoleiðis bíl. Í byrjun árs fengum við styrk frá Tryggingastofnun til að kaupa nýjan bíl. Vegna góðrar reynslu af Dodge ákváðum við að skoða þannig bíl og komumst fljótlega að því að hann er dýrari en ég hafði ráð á.

Eftir smá umhugsun sendi ég tölvupóst til shopusa.is í þeim tilgangur að athuga með að kaupa bíl í Bandaríkjunum og flytja hann inn sjálfur. Eftir að hafa haft samband við þá hófst ferli sem tók ótrúlega stuttan tíma. Það var strax haft samband við mig frá shopusa.is og ég sagði þeim hvernig bíl ég væri að leita að og hvaða kröfur ég gerði. Nokkrum dögum síðar eru myndir sendar til mín af nokkrum bílum og spurt hvort mér lítist vel á þá. Það verður úr að ég vel engan af þeim bílum og nokkrum dögum síðar er aftur haft samband við mig og mér sagt að þeir hafi fundið bíl sem þeim lítist vel á, það verður úr að ég kaupi bílinn. Bíllinn er Dodge Grand Caravan árgerð 2006, ekinn 18.000 mílur og hlaðinn af aukabúnaði.

Ég er auðvitað spenntur að fá nýjan bíl og sendi tölvupóst til shopusa.is 9 dögum eftir að ég kaupi bílinn. Ég vissi að bíllinn hefði verið í Florida og spurði hvort að hann væri kominn til Virginia og hvort það væri búið að bóka hann í skip. Svarið sem ég fékk var að bíllinn væri staddur á miðju Atlantshafinu um borð í Skógafossi. Þá tók við bið eftir skipinu og eftir að það kom til landsins komu margir frídagar og páskar svo frekar illa gekk að fá bílinn afgreiddan úr tolli. Ég fékk hann að lokum afgreiddan og var það 6 vikum eftir að ég keypti hann. Heildarverð á bílnum hingað kominn var rétt rúmlega 2,2 milljónir. Allt sem shoupusa.is sagði stóðst fullkomlega, öll samskipti okkar á milli voru mjög fagmannleg og þeir voru fljótir að svara öllum spurningum mínum, ef ég sendi þeim póst með spurningum var svarið yfirleitt komið innan 30 mínútna.

Ég athugaði hjá bílasala sem ég þekki til hvað hann myndi setja á bílinn ef hann ætlaði að selja hann, hann sagði að hann myndi setja á hann um 3,5 milljónir og hann gæti selt hann auðveldlega fyrir 3,2 milljónir. Með öðrum orðum ég sparaði mér eina milljón á að hafa samband við shopusa.is láta þá sjá um bílainnflutninginn fyrir mig og þessi 6 vikna bið var alveg milljón króna virði. Ég mæli eindregið ef þið séu að pæla í nýlegum amerískum bíl að hafa samband við shopusa.is, það er þess virði.

unti

Bíllinn góði.

PS. Gamli Dodge-inn er til sölu ef þú hefur áhuga hafðu samband við mig í síma 692-6911.


Hver borgar?

Bílaumboðin eru dugleg að auglýsa sig og vörur sínar. Núna finnst mér Hekla vera farin að leggjast frekar lágt við að plata fólk í sambandi við auglýsingaherferð sína um grænan bíl. Núna eru allir Volkswagen bílar sem Hekla selur kolefnisjafnaðir eins og þeir kalla það. Í auglýsingunum þá segja þeir að Hekla muni borga fyrir kolefnisjöfnuðinn fyrsta árið, en hver borgar þetta í raun og veru? Ég er nokkuð viss um að peningarnir séu ekki teknir af launum forstjórans, auðvitað borga þeir sem kaupa bílana, þetta leggst bara ofan á verðið. Það sem meira er, ef tekið er mið að miðlungs Volkswagen þá þarf að borga um 6000 krónur fyrir kolefnisjöfnuðinn ef miðað er við 15.000 km akstur á ári. Þá þarf ekki bara að hækka verðið um 6000 krónur heldur kemur vaskurinn ofan á þetta sem gerir að kaupandinn þarf að borga 7470 krónur fyrir að láta Heklu gefa 6000 krónur til skógræktar.

Ef Hekla ætlar að sína gott fordæmi og góðan hug þá ættu þeir frekar að styrkja Kolvið rausnalega án þess að reyna að plata fólk í leiðinni. Það gerir Baugur til dæmis í sambandi við Barnaspítalann og fær lof fyrir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband