Mömmuhelgi.

Það er búið að vera mömmuhelgi hjá mér núna, það er að ég geri allt sem mamman á heimilinu biður um! Eftir stuttan vinnudag horfði ég á rómantíska mynd með Fjólunni og síðan skelltum við okkur á höfuðborgarsvæðið, maður má víst ekki tala lengur um Reykjavík heldur þarf að segja höfuðborgarsvæðið til að móðga ekki Garðbæinga og Kópavogsbúana. Ég byrjaði á að bjóða Fjólunni út að borða, enda komið hádegi. Ég var grand á því og bauð henni í matsölu IKEA, ég vildi helst fara niður í pulsurnar, en hún vildi frekar grænmetisbuffið og að sjálfsögðu fékk hún það. Við löbbuðum í gegnum búðina og keyptum okkur nokkra lífsnauðsynlega hluti, sem ég vissi ekki að okkur vantaði fyrr en ég sá þá. Þegar við vorum búin að borga hlutina og setja þá í bílinn, þá fórum við aftur inn í IKEA til að athuga hvort okkur hefði eitthvað yfirsést eitthvað og mikið rétt, skömmu síðar gengum við aftur út úr IKEA með lífsnauðsynlega hluti sem ég vissi ekki að okkur hafði vantað!

Eftir IKEA fórum við í útilegumanninn til að athuga hvort við sæjum eitthvað sem okkur vantaði í sambandi við fellihýsið okkar og að sjálfsögðu sáum við fullt af hlutum sem okkur vantaði, flest það sem til var í búðinni vantaði okkur, við höfðum hugsað okkur að kaupa kannski útilegustóla og smá borðbúnað, en sölumaðurinn vildi helst selja okkur 5 milljón króna hjólhýsi, en okkur tókst einhvern veginn að snúa sölumanninn af okkur og löbbuðum út tómhent og ekki með neitt í eftirdragi. Þá var farið í Office1 að kaupa skrifföng fyrir skólavertíðina hjá börnunum. Ég var á rólegu nótunum þar, labbaði á eftir Fjólunni með innkaupakörfu sem þyngdist stöðugt því innar sem við fórum í búðina, ég var orðinn slappur í öxlunum þegar við komum loksins að búðarkassanum. Eftir Office1 ferðina skelltum við okkur í BYKO að reyna að finna fleiri hluti sem við höfum ekki þörf á, fundum nokkra en samt var ekkert keypt, en einhverjir af hlutunum voru síðan settir á fjárlög og verða eflaust keyptir síðar. Enda má það ekki gerast að við eigum ekki hlut sem okkur langar í.

Við skelltum okkur síðan í heimsókn til Jósteins mágs, en ég gerði mér ekki grein fyrir hversu langt er síðan ég heimsótti hann fyrr en hann bauð mér upp á útrunnið kók. Hann bauð mér ekki bara upp á gamalt kók heldur líka upp á dýrindis kjúklingasalat. Eftir matinn skelltum við okkur á kaffihús og fórum við þrjú á Cafe Cultura sem er í Alþjóðahúsinu á Hverfisgötu. Staðurinn er fínn og heita súkkulaðið sem ég fékk var gott, en ég fékk samt tækifæri þarna til að hneykslast á þremur hlutum, í fyrsta lagi þá var einn gesturinn þarna með lítið barn með sér, barnið var kannski 6-9 mánaðar gamalt og það finnst mér vera of ungt til að vera á kaffihúsi eftir klukkan 10 á laugardagskvöldi. Samferðarfólk mitt reyndi að sannfæra mig um að þetta væri kannski ekki óeðlilegt og nefndi hinar ýmsu ástæður sem hugsanleg rök fyrir veru barnsins þarna inni, en ég gat engann veginn keypt neinar af þeim. Annar liðurinn sem ég fékk á hneykslast á var rafmagnið þarna, en við stoppuðum ekki lengi en á þeim tíma sló rafmagnið út 5 eða 6 sinnum. Mér finnst það ekki traustvekjandi kaffihús sem getur ekki haldið rafmagninu á lengur en 10 mínútur í einu. Ég held að það hafi verið einn starfsmaður í fullu starfi þarna að slá inn rafmagninu. Þriðji hluturinn sem ég fékk að hneykslast á var það þegar dyraverðirnir voru á barnum að drekka, ég meina þeir voru meira að segja í merktum jökkum!! Ég er kannski bara orðinn of gamall fyrir þetta, kannski tíðkast það í dag að dyraverðir séu drekkandi á meðan þeir vinna og foreldrar koma með ungabörnin sín á kaffihús vegna þess að þau fái ekki pössun eða hafa ekki efni á henni.

En mömmudagurinn var fínn, þó ég hafi þurft að fórna fyrstu umferðinni í ensku knattspyrnunni, en hún hófst í gær og að ég hafi líka þurft að fórna landsleik Íslands og Danmerkur í handboltanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Sniðug hugmynd þessi mömmudagur! Ég er að spá í að reyna að koma honum í gang á mínu heimili!

Björg Árnadóttir, 17.8.2008 kl. 21:32

2 identicon

Takk fyrir mig og mína í gær. Þetta var alveg frábært hjá ykkur.  Ekki var endirinn á deginum verri  5-0 og efsta sætið okkar.

Varstu svolítð sár yfir því að þurfa sleppa handboltanum

Njáll (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 18:27

3 Smámynd: Mummi Guð

Hehe. Ekki get ég sagt það að ég hafi verið sár yfir að hafa misst af handboltanum eða að hafa misst af úrvalsdeildinni. Þrátt fyrir kannski neikvæðan tón í færslunni þá þurfti ekkert að snúa upp á hendina á mér til fá mig í þennan höfuðborgarrúnt!

Hvernig var þetta annars, spáði Árni Freyr ekki leiknum 6-0 og við hlógum eiginlega að því!

Mummi Guð, 18.8.2008 kl. 23:25

4 identicon

Jú, og hann var ekki langt frá því. 

Njáll (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 17:09

5 identicon

hahahhaha , skemmtilegur pistill hjá þér Mummi, þetta með lífsnauðsynlegu hlutina hlóum við sambýlingurinn mikið af

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 21:27

6 Smámynd: Björg Árnadóttir

Sama hér. Ég las þetta með lífsnauðsynlegu hlutina fyrir karlinn minn sem hló við lesturinn. Síðan hefur verið vísað í pistilinn þó nokkrum sinnum! Aðallega þegar nefnt hefur verið að það þurfi nú að kaupa eitt eða annað........ 

Björg Árnadóttir, 19.8.2008 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband