Í dag eru þrjú ár síðan Huginn fékk nýja lifur.

17. maí 2005 gekkst Huginn undir lifrarígræðslu á Barnaspítalanum í Pittsburgh, þá tæplega 6 mánaðar gamall. Á sama tíma gekkst Fjóla undir mikla aðgerð á Montefiore-spítalanum. Var hluti af lifur hennar tekinn og græddur í Hugin. Þessum degi mun ég aldrei gleyma, þó að þessi dagur hafi verið í hálfgerðri móðu hjá mér.

Ég vaknaði þennan dag um klukkan 4 eftir tveggja tíma svefn. Ég fór upp á spítala til Fjólu og hitti hana þar sem það var verið að búa hana undir aðgerðina, Sævar bróðir og Lovísa konan hans voru á Barnaspítalanum hjá Hugin, en hann var þarna orðinn mjög veikur vegna lifrarsjúkdómsins og ljóst var að hann ætti aðeins örfáa daga eftir ef hann fengi ekki nýja lifur.

Eftir að Fjóla fór í aðgerðina um klukkan korter í sjö og þá hljóp ég yfir á Barnaspítalann til að hitta Hugin, ég var hjá honum þar til hann fór í aðgerðina um klukkan hálf tíu. Ástæðan fyrir þessum tímamun á aðgerðunum var sá að best væri að lifrarbúturinn úr Fjólu væri kominn á Barnaspítalann um leið og ónýtan lifrin væri tekin úr Hugin. Klukkan var orðinn sex um kvöld þegar ég loksins hitti Fjólu aftur og klukkan var orðin 10 þegar ég fékk hitta Hugin.

Ég held að fáir geta gert sér grein fyrir hvað gekk á þennan dag hjá mér. Ég var nánast ósofinn þegar dagurinn hófst og þegar bæði Huginn og Fjóla voru í aðgerð þá ákvað ég að fara heim að leggja mig aðeins, ég náði að leggjast í svona 15 mínútur (án þess að sofna) og þá gat ég ekki lengur verið heima og fór aftur á spítalann. Það var mikill léttir að hitta Fjólu aftur og eftir að hún fór að sofa aftur skokkaði ég yfir á Barnaspítalann og þar tók við bið og aftur bið. Bið var það sem einkenndi þennan dag hjá mér.

Það var eitt atvik sem gerðist á Barnaspítalanum um kvöldið sem segir ýmislegt um hvernig það er að eiga bæði barn og unnustu í mikilli aðgerð, maður reynir að halda sönsum og andlitinu en það þarf lítið til að missa tökin á sjálfum sér. Þannig var að ég, Sævar og Lovísa vorum að bíða á Barnaspítalanum, við höfðum fengið litlar fréttir af aðgerðinni á Hugin nema það að allt gengi vel. Síðan kemur að því að við erum kölluð á fund með dr. Rakish Sindhi sem stjórnaði aðgerðinni á Hugin og hann sagði okkur hvernig allt hafi gengið fyrir sig og hvað við ættum von á á næstum dögum. þetta var góður fundur þar sem ég fékk að vita af öllum hættunum sem fylgja lifrarígræðslum (af hverju ætli ég hafi ekki fengið að vita af þessu fyrir aðgerðina?). Síðan tók við bið aftur þar til við myndum fá að hitta Hugin og sú bið var ansi löng fannst mér.

Síðan kom loksins að því að við vorum sótt á biðstofuna og okkur tilkynnt að núna fengum við að hitta Hugin. Þegar við komum að Gjörgæsludeildinni þá er mér vísað frá og ekki hleypt inn á deildina. Ástæðan var sú að ég hafði ekki aðgangsheimild. Ég var mjög ósáttur og reifst við móttökukonuna sem hleypir fólki inn á deildina. Ég neitaði að sækja um heimildina og bað hana vinsamlega um að tala við dr. Sindhi  og spyrja hann hvort ég mætti hitta Hugin og hún neitaði því. Ég sagði henni þá að ég ætlaði að hitta Hugin og hún myndi ekki koma í veg fyrir það, þá hótaði hún því að kalla til lögregluna og láta handtaka mig. Þarna var ég saklaus Íslendingur að bíða eftir að hitta barnið mitt eftir langa og mikla aðgerð og viðmótið sem ég fæ er hótun um handtöku og eftir að hafa séð handtökuna á Rodney King þá stóð mér ekki á sama. Ég gaf eftir og fór í móttökuna á fyrstu hæð og fékk aðgangsheimildina. Þess má geta að aðgangsheimildin sem Sævar og Lovísa höfðu voru fyrir 16. maí og hún var löngu útrunnin og það kom þessari blessaðri konu ekkert við. Það særði mig einna mest var það að á meðan ég var að ná í aðgangsheimildina þá fór þessi blessaða móttökukona yfir gjörgæsludeildar-reglurnar með Sævari og Lovísu, en ekki með mér.

Þegar ég kom til baka með heimsóknarheimildina, þá fengum við loksins að hitta Hugin og hann var bara flottur. Eftir þetta þá horfði þessa blessaða kona á mig alltaf með einhverju sérstöku augnráði, eina skiptið sem ég sá hana verulega hissa var þegar ég kom með Fjólu að hitta Hugin í fyrsta sinn. Ég hef grun um að hún hefði haldið að konan mín myndi líta öðruvísi út. Ég svona stór og mikill og síðan Fjólan svona lítil og nett.

Ég ætla að lokum að setja inn myndband af Hugin sem ég tók af Hugin daginn eftir aðgerðina, ég þurfti oft að hlaupa á milli spítala til að taka myndir af Hugin þar sem hann lá á Gjörgæslu til að sýna Fjólu þar sem hún lá á Gjörgæslu á allt öðrum spítala, þetta myndband er eitt af þeim. Spurning er hvernig getur nokkur maður staðist þessi augu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jeminn hve mikið krútt hann er, svo viturleg augu líkt og hann spyrji sjálfan sig, hvaða maður er þetta sem reynir að tala við mig.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 09:13

2 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Hvað heldur þú elsku Pabbi minn auðvitað er ég hissa og reyndar smá hræddur,en nú ert þú hjá mér og þá verður allt ok á ný.

Svo er svarið við spurningunni Mummi,þessi augu stenst ekki nokkur manneskja.Miðað við að vera þarna úti ósofinn illa hafður og með allt undir varðandi son og unnustu,heyrði ég samt að þú hafir staðið þig vel  slíkt getur verið erfitt í svona aðstöðu kæri vin.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 18.5.2008 kl. 11:38

3 Smámynd: Ragnheiður

Vá hvað augun hans eru falleg þarna...yndislegi litli kallinn

Ragnheiður , 19.5.2008 kl. 00:56

4 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 19.5.2008 kl. 15:46

5 Smámynd: Halla Rut

En hvað Huginn var heppin að eiga svona góða fjölskyldu.

Augun hans eru eins og í litlum hvolpi, stór og full af spurningum.

Halla Rut , 19.5.2008 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband